05.03.1973
Neðri deild: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2276 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

152. mál, ferðamál

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Á undangengnum þingum hafa ferðamál verið talsvert til umr. hér á hv. Alþ., og síðast á s. l. vetri fluttum við nokkrir þm. till. til þál. um að hraða athugun á heildaruppbyggingu ferðamála, sem reyndar stóð þá yfir með aðstoð Sameinuðu þjóðanna og hafði gert um nokkurt skeið. Það kom fram í framsöguræðu hæstv. ráðh. fyrir frv., sem hér liggur fyrir til umr., að þessari athugun væri nú að ljúka, og ég vil fagna því og þessu frv., sem er hér komið fram. Ég saknaði þess hins vegar að fá ekki skýrslu um þessa athugun sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna og annarra innlendra sérfræðinga, sem starfað hafa að könnun á ferðamálum undanfarið. Hæstv. ráðh. gat þess, að skýrslan mundi liggja fyrir innan skamms, en það hefði auðvitað verið hægara fyrir okkur hv. þm. að ræða þetta frv. hér með þá skýrslu við hliðina, þannig að nokkur hagi er að þessu. Hitt er þó meira atriði, að hér er komið fram þetta frv. og við getum um það fjallað.

Ég vil segja, að frá mínum bæjardyrum séð er ýmsum merkum málum hreyft í þessu frv. Hitt er svo annað, að ég tel, að hér þurfi sumt nokkurrar skoðunar við. Ég er alveg sammála hv. þm. Svövu Jakobsdóttur, að í þeirri gr., sem fjallar um skipun stjórnar Ferðamálastofnunarinnar, sé óþarflega mikið vald sett í hendur ráðh. Honum er gert að skipa þrjá menn í þessa stjórn, en ferðamálaráð mun eiga að tilnefna tvo. Hér er augljóslega lagt verulegt vald í hendur ráðh., og ég held, að þetta ætti að endurskoða og skipa stjórnina með öðrum hætti. Ég er ekki reiðubúinn til að leggja fram beinar till. um þetta efni eins og hv. þm. Svava Jakobsdóttir. Till. hennar, held ég, að hafi verið góðra gjalda verð. Það má segja, að ferðamálin og náttúruverndarmálin séu mjög nátengd. En ég held, að þá till. þurfi að athuga. Aðalatriðið er, að ég tel, að þarna sé um mjög hæpna ráðstöfun að ræða, ef þessi gr. frv. verður óbreytt að lögum.

Í 6. gr. frv. er kveðið á um verkefni Ferðamálastofnunar Íslands. Þar er, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á, um langa upptalningu að ræða, og sum þessara verkefna eru svo stór í sniðum, að hér hafa verið fluttar um það till. á Alþ. að setja á stofn heilar stofnanir til að sinna einum lið þessara verkefna, t. d. verkefninu um fjölþjóðaráðstefnur. Ég man ekki betur en einn hv. þm. flytti hér frv. um ráðstefnustofnun ríkisins. Á þessu sést, hve hér er um gífurlega mikinn verkefnabálk að ræða og ákaflega fjölþætt verkefni, þannig að mér er til efs, að hæstv. ráðh. hafi farið algerlega með rétt mál, þegar hann taldi, að þessi verkefni mundu ekki gera verulega meiri kröfur til starfsliðs heldur en nú starfar í þessum málum. Mér er það mjög til efs, og mætti að vísu benda þarna á miklu fleira en þetta verkefni um fjölþjóðaráðstefnurnar. Hér er um ákaflega viðamikil verkefni að ræða.

Ég vil líka benda á í sambandi við þessi verkefni, að mjög er óeðlilegt, að það er gert ráð fyrir því, að sú Ferðamálastofnun, sem gert er ráð fyrir að koma á fót, reki almenna ferðaskrifstofustarfsemi, en jafnframt er þess krafizt af henni, að hún fylgist með þeim aðilum, sem reka ferðaskrifstofur. Sem sagt, stofnunin á að passa sjálfa sig. Hún á, eftir því sem hér segir, að kanna, eftir því sem ástæða er til, réttmæti kvartana, sem berast um það, sem ábótavant kann að þykja í starfi þeirra aðila, sem veita ferðafólki þjónustu. Sjálf á hún að veita ferðafólki mjög verulega þjónustu, þannig að hún á raunverulega að sinna fólki um það, ef það kvartar um hennar eigin þjónustu, þá á hún að sjá um, að það nái rétti sínum. Þarna er auðvitað um að ræða ákaflega furðulega tilhögun. Það má líka benda á, að þessi tilhögun gerir það að verkum, að sú starfsemi, sem Ferðaskrifstofa ríkisins hefur nú, flyzt til þessarar stofnunar. Það hlýtur að vera afar erfitt um samkeppni fyrir einkaaðila, ef þessi stofnun á að taka við kvörtunum frá þeim, sem hafa viðskipti við einkaaðila í ferðaskrifstofurekstri, en þessi stofnun er um leið að reka ferðaskrifstofu. Það gefur auga leið, að hér er um að ræða ákaflega óeðlilega tilhögun, sem mundi hafa í för með sér mjög óeðlilega samkeppnishætti, svo að ekki sé dýpra tekið í árinni. Þetta atriði, held ég, að þurfi að athuga miklu betur.

Það má hafa langt mál um það, hvort sú starfsemi, sem Ferðaskrifstofa ríkisins hefur haft með höndum, eigi að vera í höndum ríkisins. Það hefur verið á það bent, að Ferðaskrifstofa ríkisins hafi unnið mjög þarft verk, m. a. í sambandi við það að taka á leigu heimavistarskóla og reka þar sumarhótel fyrir ferðamenn. Þetta má til sanns vegar færa. Hins vegar eru á þessu afar miklir annmarkar, sérstaklega á þeim stöðum, þar sem hótelrekstur er fyrir. Þar hefur þetta komið þannig út, að Ferðaskrifstofa ríkisins hefur fleytt rjómann af vertíð þessara hótela yfir sumarið, og þau síðan þurft að halda uppi starfsemi yfir þann tíma ársins, sem minnst er von gesta og erfiðast er að reka slík fyrirtæki. Það hefur oft verið á það bent einmitt, þegar ríkið hefur þurft að gera þess háttar, og þá hafa menn sagt: Þarna er einkarekstrinum rétt lýst. Hann fleytir rjómann af viðskiptum. — En hér er um þveröfugt að ræða. Hér kemur ríkisvaldið og fleytir rjómann af viðskiptum við ferðamenn á þeim tíma árs, sem mest er umleikis í þeim efnum, en lætur síðan einkaaðilum eftir að veita þá þjónustu á öðrum tímum. Þetta er atriði, sem ég held, að þyrfti að athuga nánar.

Þá vil ég segja nokkur orð í sambandi við 8. gr. Þar er rætt um ferðamálaþing. Ég er sammála því, að það er, eins og fram hefur komið hér, óljóst í l. sjálfum, hvaða aðilar muni sitja ferðamálaþing. En það er eitt atriði, sem er alveg ljóst, og það er, að samkv. þessari gr. mundu hinir almennu áhugamenn, sem hafa sótt ferðamálaráðstefnur áður, verða útilokaðir. Þeir eiga ekki samkv. þessari gr., eins og hún er, einu sinni rétt til þess að koma til ferðamálaþings sem áheyrnarfulltrúar né heldur með tillögurétti og málfrelsi. Það er ekki gert ráð fyrir því, að þeir séu þar viðstaddir. Auðvitað munu veljast ýmsir áhugamenn af þeim aðilum, sem síðar kunna að verða ákveðnir, sem eiga að skipa menn á þetta ferðamálaþing. Það verða auðvitað ýmsir áhugamenn, sem veljast þannig á þingið. En hitt er ljóst, að þetta ákvæði útilokar marga áhugamenn um það að koma til þings og ræða þessi mál. Þetta held ég, að sé einnig atriði, sem þurfi að athuga nánar, áður en frv. verður að lögum.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að ferðamálaráð hafi sáralítil völd eða nánast engin. Hér segir, að það skuli fylgja eftir ályktunum ferðamálaþings, ræða viðhorf í Ferðamálum og bera fram till. um aðgerðir, sem það telur nauðsynlegar, vera ríkisstj. og Ferðamálastofnun Íslands ráðgelandi í ferðamálum o. s. frv. Í þessu er sáralítið vald fólgið annað en það að skipa tvo menn í stjórn Ferðamálastofnunarinnar og skipa tvo menn í stjórn Ferðamálasjóðs. Það eru einu áþreifanlegu hlutverk ferðamálaráðs samkv. frv. Það er því spurning, hvort þessi yfirbygging, sem þarna er orðin: ferðamálastjórn, ferðamálaráð, ferðamálaþing, þegar á það er litið, að ferðamálaráð á að hafa svona lítið vald, hvort hér er ekki verið að setja hverja silkihúfuna upp yfir aðra og hvort mætti ekki finna á þessu annað form. Þó vil ég ekki fortaka að það væri eðlilegt að halda ferðamálaráði, en fela því áþreifanlegri verkefni.

Þá vil ég að lokum fara nokkrum orðum um fjáröflun til Ferðamálasjóðs, sem gert er ráð fyrir, að verði að verulegu leyti hækkun á svonefndu rúllugjaldi upp í 100 kr. Það hefur verið svo, að mér skilst, að svolítill misbrestur hafi verið á framkvæmd þessa skatts, upphaflega hafi hann verið ætlaður dansstöðum eingöngu, en hann hefur verið innheimtur af fólki, sem hefur komið á matsölustaði einnig, og hafi ekki verið innheimtur á þeim tímum, sem upphaflega var ætlað. Ef þetta rúllugjald verður hækkað, held ég, að þurfi að endurskoða reglurnar um, hvenær það verði innheimt og hvar. Ég held, að það ætti fyrst og fremst að miða það við dansstaði, en ekki veitingastaði, sem fyrst og fremst selja mat, þó að þar megi hafa vín um hönd. Frá mínum bæjardyrum séð sýnist mér þetta vera dálítið hæpinn skattur, svo að ekki sé meira sagt, ef hann verður hækkaður upp í 100 kr. Í sambandi við það hef ég velt því fyrir mér, hvort við gætum ekki með einhverjum hætti skattlagt ferðafólk, sem fer um Keflavíkurflugvöll, með öðrum hætti en við höfum gert. Það kom fram í ræðu í dag, að við höfum gert það að nokkru leyti. Ég held, að það séu um 20 kr., sem eru lagðar á hvern ferðamann, sem fer um Keflavíkurflugvöll. Nú er það svo, að við höfum mikla sérstöðu með uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Við höfum ekki þurft að leggja mikið á okkur fjárhagslega til þess að byggja þar aðstöðu þannig að við höfum nokkuð góð skilyrði til þess að innheimta þarna skatt, sem gæti runnið almennt til ferðamála í landinu að mínum dómi. Þetta er yfirleitt þannig framkvæmt erlendis, að skattar eru innheimtir í miðum farþega. Farþegar borga þessa skatta, þegar þeir borga farseðla sína. Þetta er ekki innheimt sem nefskattur nema á örfáum stöðum. Ég má segja, að það sé enn þá gert í Glasgow að innheimta svona gjald beint af fólki, en yfirleitt er þetta innheimt í gegnum ferðaskrifstofur, innifalið í miðum, sem fólk kaupir.

Að þessu sinni held ég, að ég geri ekki fleiri aths. við þetta frv. Það á eftir að skoða það í n. og koma hér til 2. umr. o. s. frv., þannig að það gefst tóm til að athuga það nánar. Ég vil að lokum aðeins leggja á það áherzlu, að ég held, að í þessu frv. sé ýmislegt, sem sé mjög athyglisvert og horfi fram á við. En jafnframt er í því ákaflega margt, sem þarf nánari skoðunar við að mínum dómi. Ég vænti þess, að hv. þd. gefi sér tóm til að athuga frv. mjög vel og að það verði til að efla íslenzk ferðamál.