05.03.1973
Sameinað þing: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2281 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Þegar núverandi ríkisstj. hafði setið á valdastóli um þrjú missiri, eða 1½ ár, var almannarómur allótvíræður um það, hvernig þessari vinstri stjórn hefði farnazt, og staðreyndirnar töluðu sama máli :

Ríkisstj. er sjálfri sér sundurþykk og ráðlaus. Hún hefur látið reka á reiðanum. Eftir eins árs valdaferil hlaut stjórnarstefnan þann dóm ráðamanna eins stærsta kaupfélags landsins, að „Hrunadans kostnaðarverðbólgunnar“ stefndi atvinnulífinu í voða. Á haustmánuðum í fyrra hófst nýtt uppbótakerfi, svo að sjávarútveginn ræki ekki í strand, þrátt fyrir meira aflamagn og hærra útflutningsverð en nokkru sinni fyrr. Iðnaðurinn horfði fram á taprekstur eftir mestu uppgangstíma í sögu þessarar atvinnugreinar á árunum 1969–1971. Fyrir jólin hespaði ríkisstj. af afgreiðslu annarra fjárlaga sinna með þeim afrekum, að útgjöld ríkisins höfðu þá tvöfaldazt frá þeim, sem var á fjárlögum ársins 1970. Viðskiptahallinn við útlönd fór stöðugt vaxandi og stefndi að nærri 15 þús. millj. kr. halla á 3 árum, 1971–1973. Erlendar skuldir höfðu vaxið óðfluga úr 11.5 milljörðum um áramótin 1970–1971 í u. þ. b. 17 milljarða kr. í árslok 1972. Fjárfestingarlánasjóðir voru fjárvana. Sérfræðingar höfðu verið til kallaðir að veita ráðvilltri ríkisstj. vísbendingar. Þegar þær lágu fyrir, voru uppi þrjár stefnur í ríkisstj. um það, til hvaða úrræða skyldi grípa. Reyndar hafði forsrh. áður „persónulega“ boðað fjórðu stefnuna. Voru því fjórar kvíslar fallvatna stjórnarherrana að feigðarósi. Sætzt var að lokum innan ríkisstj. á gengislækkun krónunnar fremur en að klofna. Þó var gengið á snið við samhliða ráðstafanir, sem sérfræðingarnir höfðu ráðlagt, svo að Seðlabankinn taldi óvissuna enn helzta einkenni efnahagslífsins, þegar hann tilkynnti gengislækkun hinn 17. des. s. l. „með samþykki ríkisstj.

Þegar svo var komið sem nú hefur stuttlega verið á drepið í einum 12 liðum, þótti þingflokki sjálfstæðismanna tími til kominn að bera fram till. til þál. um vantraust á hæstv. ríkisstj. og kröfu um þingrof og kosningar. Í afgreiðsluönnum fjárlaga fyrir jól varð samkomulag um það að fresta umræðum um vantraustið fram yfir þinghlé, og önnur atvik leiddu til frekari dráttar.

En hafi verið ástæða til vantrausts fyrir jólin þá er sú ástæða enn þá auðsærri nú. Nú er það altalað í herbúðum sjálfra stuðningsmanna ríkisstj. að engu sé líkara en að stjórnin hafi hreinlega lagt upp laupana — um hreina uppgjöf sé að ræða.

„Stefna stjórnarinnar er óbreytt.“ Með þessum orðum hóf hæstv. forsrh. svokallaða stefnuræðu sína, sem hann flutti í útvarpið í upphafi þessa þings. Hvers kyns ávarpsorð til þjóðarinnar skyldu forsrh. nú hugkvæmast? Ég er hræddur um, að það þyrfti að vera margt með öðru sniði nú hjá forsrh. Þá hélt hann, að fólkið í landinu sæi einhvern dýrðarljóma kringum ríkisstj. „Það gildir nær einu, hvert litið er,“ sagði oddviti ríkisstj. í október. „Alls staðar blasa við framfarir, endurbætur í löggjöf og breytingar af ýmsu tagi, sem fólkið í landinu er vitni að.“ Svo mörg voru þau orð. Það má vera, að ráðh. hafi geð í sér til þess að draga upp einhverjar glansmyndir af afrekum ríkisstj. í þessum umr., en ég held, að þeir ættu að fara að með gát.

Til hverra úrræða hefur hún gripið, vinstri stjórnin góða, sem lofaði í Ólafskveri að leiða hrjáða þjóð úr eyðimörkinni og inn í fyrirheitna landið. Þrjár gengisfellingar hefur hún framkvæmt á liðlega 13 mánaða tímabili, tvær að vísu í tengslum við gengisfall dollars, en í bæði skiptin meiri en efni stóðu til af þeim sökum, þar sem aðeins liðlega 60% af gjaldeyrisöflun eru í dollurum og 74% innfluttrar vöru og þjónustu greiðast í öðrum gjaldeyri en dollurum. En gengisfellingin í desember um 10.7% er skilgetið afkvæmi vinstri stjórnarinnar sjálfrar, og engum öðrum verður kenndur króginn. Stjórnin sjálf var frumkvöðull þess að skapa efnahagsvandann, sem úr þurfti að bæta. Hvaða gengisfelling er verri en sú, sem þannig er að staðið, að hún megnar með engu móti að eyða óvissu og skapa jafnvægi á peningamarkaði, en stefnir beint út í bullandi verðbólgu og er því vísast forboði frekari gengisfellingar? Slíkt var einkenni gengisfellingarinnar fyrir jólin, enda þurfti strax að gripa til nýrra aðgerða fyrir áramót til aðstoðar útgerðinni, sem átti þó að hafa einna helzt hag af gengislækkuninni. Var þá lofað að létta launaskatti af útgerð og greiða jafnframt úr ríkissjóði í sjóði útvegsins. Þetta var smágreiði sjútvrh., sem lofað var, að því er sagt var, meðan fjmrh. var uppi í Borgarfirði — 160 millj. kr. pinkill á fjárvana ríkissjóð, en fjárlögin 1973 höfðu nýverið hlotið afgreiðslu með raunverulega 500 millj. kr. greiðsluhalla.

Fleira hafði verið afrekað. Verðstöðvun hafði verið fordæmd í tíð fyrrv. ríkisstj., samt var hún framlengd 1971 og síðan sett brbl. í ofboði á miðju sumri 1972 um tímabundna verðstöðvun til áramóta. Frestað var jafnframt greiðslu til launþega sem svaraði 2.5 stigum í kaupgreiðsluvísitölu, en áður þótti slíkt ódæði. Fjárlögum var breytt með brbl. og ákvæðum laga um framkvæmdaáætlun einnig. Vinstri stjórnin sneri greiðsluafgangi ríkissjóðs frá árinu 1970 í greiðsluhalla 3 góðærinu 1971. Mismunurinn reyndist aðeins litlar 800 millj. kr. Ríkisstj. leggur nýverið fyrir Alþingi frv. til l. til breyt. á vísitölu kaupgjalds. Ekkert samráð er haft við launþegasamtökin, heldur farið huldu höfði við undirbúning frv. Frv. fer í n., en er síðan ekki sinnt meir, þar sem stuðning við það skortir hjá stjórnarliðinu sjálfu. Menn spyrja undrandi: Hvers konar stjórnarhættir eru þetta?

Allt virðist fálm og kák eða hálfkarað verk, enda er árangurinn ekki glæsilegur. Nokkur dæmi sýna vinstristjórnarmyndina, þótt tekið sé af handahófi. Húsmóðirin kaupir mjólkurpottinn allt að helmingi dýrari í dag en hún gerði í gær. Helztu neyzluvörur heimilisins hafa hækkað meira en nokkru sinni fyrr. Vísitala byggingarkostnaðar hefur ekki alveg tvöfaldazt frá 1970, en hækkað úr 439 stigum í 760 stig. Tekjuskattur hefur meira en tvöfaldazt miðað við heildartekjur á fjárlögum, úr 10% 1971 í 22% árið 1973. Helztu erlendu gjaldmiðlar eru nú allt að 34% dýrari en fyrir stjórnarskipti. Það samsvarar um 2% gengisfellingu krónunnar á mánuði til jafnaðar á tíma vinstri stjórnarinnar. Sennilega hækkar kaupgreiðsluvísitalan á þessu ári úr 117 stigum í 134 stig eða um 15%, og aðeins þriðjungur af því mun ákvarðast af gengisfalli dollarans og hækkun á erlendum vörum, hitt ber að skrifa á kostnaðarreikning óstjórnar eða stjórnleysis. Staða atvinnuvega er ótryggari en nokkru sinni áður, þrátt fyrir mokafla og hæsta verðlag sem þekkzt hefur á erlendum markaði. Þegar kaupfélagsstjórinn á Akureyri skýrir frá sölu- og framleiðsluaukningu um 18% á s. l. ári, telur hann, að kaupgreiðslukostnaðurinn hafi hækkað um 90%. Viðskiptajöfnuðurinn við útlönd var hagstæður um 1000 millj. kr. á árunum 1969 og 1970, en hallinn er nú 4–5 þús. millj. kr. á hverju ári hjá núverandi ríkisstj. Í mesta góðæri og á tíma hækkandi rauntekna fer vöxtur sparifjármyndunar stöðugt minnkandi. Hann var 24% árið 1970, 19% árið 1971 og aðeins 16.5% árið 1972. Það, sem vex, er verðbólgan og óttinn við meiri verðbólgu. Atvinnuvegir berjast í bökkum síversnandi afkomu, og alls kyns þjónustustarfsemi er undir sömu sök seld, vegna þess að þörf verðhækkana hrannast upp, en ákvörðunum er frestað og frestað. Vinnufriðurinn hefur rofnað oftar en skyldi, stundum með langvarandi verkföllum, t. d. farmannaverkfall frá 4. des. 1971 til 13. jan. 1972, verkfall rafvirkja um mánaðartíma árið 1972 og verkfall vélgæzlumanna á þessu ári, svo og 40 daga togaraverkfall, sem ekki sér enn fyrir endann á.

En hæstv. ríkisstj. virðist þó ekki alls varnað. Á elleftu stund leggur hún fram till. til þál, um heimild til þess að fullgilda viðskiptasamning við Efnahagsbandalag Evrópu, sem undirritaður hafði verið 22. júlí á s. l. sumri. Greinilegur ágreiningur er eins og fyrri daginn innan ríkisstj., og verður allur hinn furðulegi dráttur og málsmeðferð ekki með öðru móti skilin. En stjórnarandstaðan þjappar sér um málið og kommúnistar í ríkisstj. láta undan, eftir að viðskrh. er digurbarklega búinn að fullyrða í þinginu, að hann muni alls ekki staðfesta samninginn, fyrr en henta þyki, er gerð bókun um það í utanrmn.ríkisstj. feli utanrrh. að staðfesta samninginn. Málið hefur síðan réttan framgang góðu heilli, en viðskrh. er fjarstaddur við seinni umr. og atkvgr. í þinginu. Um framvindu mála og samstöðu innan ríkisstj. gæti hún gjarnan raulað: „Lánið elti Jón, en lét í friði mig.“

Þá er komið að tveim málum, sem ekki eru minnst í sniðum, en hæstv. ríkisstj. verður engan veginn hrósað fyrir frammistöðuna í. Það eru landhelgismálið og öryggismál ríkisins.

Vegna þess almenna skilnings og samhuga Íslendinga, sem ætíð hefur ríkt um lífshagsmunamál okkar, landhelgismálið, skapast sjaldnast andstaða í slíku máli. Ég vil þó minna á, að samstaða allra þm. í þessu máli náðist ekki, meðan núverandi stjórnarflokkar voru í stjórnarandstöðu. Samstaða allra þm. um tillögu utanrmn. 15. febr. 1972 náðist aðeins vegna þess, að núverandi stjórnarandstöðuflokkar teygðu sig til hins ítrasta og lögðu sig alla fram um það að ná einhuga niðurstöðu. Þetta var allt annað en gerðist á Alþingi 1971, þegar núverandi stjórnarflokkar lögðu mest upp úr því, að samstaða næðist ekki, fóru síðan um landið fyrir kosningar með blekkingar og mjög ósæmilegan áróður bæði um þá menn og stjórnmálaflokka, sem mest höfðu lagt af mörkum fyrr og síðar til þess að hefja sigurstranglega sókn í landhelgismálinu eftir síðari heimsstyrjöldina. Við uppskerum nú og eigum eftir að uppskera ávextina af landgrunnstefnunni, sem þá var mótuð og framvinda málsins hefur grundvallazt á.

Lítið hefur verið talað um aðstöðuna í landhelgismálinu nú. Menn hafa leitt hjá sér að stofna til deilna þar um. Við höfum hins vegar mátt þola það að heyra sífelld brigzlyrði úr stjórnarherbúðunum um það, að við berum ábyrgð á gerð „landráðasamninga“ í þessu máli. Hér er átt við þá stórmerku samninga, sem gerðir voru 1961 við Breta og Þjóðverja og leystu þá hina alvarlegu dellu, sem risin var. Þeir fólu í sér viðurkenningu þessara ríkja á 12 mílna landhelginni, sem stækkaði fiskveiðilögsöguna um 70 000 ferkm. Þeir færðu okkur til viðbótar stækkaða landhelgi, með breyttum grunnlínupunktum, um 5000 km2 að stærð. Staðfest var í samningunum, að við mundum halda áfram útfærslu landhelginnar á landgrunnssvæðinu.

Við stóðum með stjórnarflokkunum að útfærslu landhelginnar í 50 mílur 1. sept. s. l., enda þótt Alþingi hefði áður, hinn 7. apríl 1971, í tíð fyrrv. stjórnar samþykkt ályktun, sem lengra gekk og miðaði við landgrunnið. En hvað hefur áunnizt? Því miður berast fregnir af því, að Bretar veiði fullt eins mikið og áður — fyrir útfærsluna — við Ísland. Og ekki mun þá ungfiskinum hlíft.

Þá er sagt að samningarnir frá 1961 séu okkar akkillesarhæll, þeir torvelda okkur útfærsluna, m. a. vegna þess, að þeir hafi falið í sér, að vísa mætti ágreiningi, sem rísa kynni um útfærslu fiskveiðilögsögunnar, til Alþjóðadómstólsins í Haag. Engir samningar voru fyrir hendi, þegar þorskastríðið hófst hér 1958 og Bretar létu togara sína veiða hér undir herskipavernd. Ekki hlutum við blíðari meðferð þá af þeirra hálfu. Af þessu er ljóst, að fyrirbára um dómstólinn í þessu sambandi nú er algerlega út í hött. Þessum ósóma um landráðabrigzl úr stjórnarherbúðunum ætti því að linna.

Nú liggur fyrir, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur fellt þann dómsúrskurð, að hann hafi lögsögu í málinu. Mun dómstóllinn taka deilumálið til efnislegrar meðferðar og fella efnisdóm í málinu. Ríkisstj. hefur kosið að hafa enga málsvara af Íslands hálfu við dóminn á tveim stigum, þegar hann felldi úrskurð, sem fól í sér tilmæli til aðila um bráðabirgðaskipan mála, og þegar hann felldi dóm um lögsöguna. Það var mjög óskynsamlegt og hefði á engan hátt bundið hendur okkar um efnislega meðferð málsins. En látum deilur um réttmæti þess, að svo var að farið, liggja á milli hluta. Nú, þegar nýr þáttur málsins hefst, nýtt mál um efnishlið deilunnar hefst, er óverjandi að halda lengur að sér höndum.

Í „Hugleiðingum um áramót“, sem ég ritaði í Morgunblaðið 31. des. s. l., sagði ég m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það var kjarni hinnar samhljóða ályktunar Alþingis 15. febr. 1972, að Alþingi ítrekaði grundvallarstefnu Íslendinga að landgrunn Íslands og hafið yfir því sé hluti af íslenzku yfirráðasvæði. Á þessum grundvelli höfum við unnið sigur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Á þessum grundvelli eigum við nú að sækja og verja mál okkar fyrir Alþjóðadómstólnum. Hin minnsta þjóð, sem þorir að standa á rétti sínum, verður ekki sigruð af stærstu þjóðum. Af þessum sökum voru landhelgissamningarnir, sem Íslendingar gerður við Breta og Þjóðverja árið 1961, okkar „stærsti stjórnmálasigur“, eins og Bjarni Benediktsson orðaði það af alkunnri lögspeki og vitsmunum.“

Engri íslenzkri ríkisstj. verður fyrirgefið það að láta málstað Íslands e. t. v. vera fyrir borð borinn fyrir alþjóðadómstóli vegna þess, að rödd Íslands fær ekki að heyrast þar vegna þvermóðsku einnar saman, þegar málstaður okkar er stöðugt að vinna á, og auðvitað væri sigur í máli okkar fyrir alþjóðadómi endanlegur sigur okkar og því óverjandi að skoða ekki til hlítar, hver málsmeðferð þjónar bezt hagsmunum okkar Íslendinga. Hér hníga mörg rök að einu marki, sem of langt yrði að rekja nú. Öll þau gögn, sem fram til þessa hafa verið send af Íslands hálfu okkur til málsvarnar, eru 2–3 vélritaðar síður um það, að við teljum, að dómstóllinn hafi ekki lögsögu í málinu. Hæstv. ríkisstj. verður sannarlega að athuga betur sinn gang í þessu efni.

Um frammistöðu hæstv. ríkisstj. í varnar- og öryggismálum landsins er sem betur fer lítið að segja. Traust eða vantraust okkar sjálfstæðismanna á ríkisstj. í þeim efnum er álíka mikið eða lítið eins og þegar hún settist á valdastól. Aðgerðaleysið í þessum málum fer henni eflaust bezt, og fetar hún þar dyggilega í fótspor fyrri vinstri stjórnar. Ég hef margoft látið að því liggja, að einsdæmi mundi vera í hinum vestræna heimi, að ríkisstj. fleiri flokka settist á laggirnar með yfirlýsingu um það, að hún væri ósammála í öryggis- og varnarmálum landsins. Þessa skelfingu máttum við þó þola, er núv. ríkisstj. hleypti heimdraganum. Sem betur fer hefur enn orðið minni skaði en ætla hefði mátt. Utanrrh. gaf um það yfirlýsingu, að hann mundi láta kanna efnahagsleg áhrif af dvöl varnarliðsins hér á landi. Hann hefur verið inntur eftir þessari könnun í utanrmn. Fram hafa komið skýrslur um kostnaðaratriði varnarliðsins hér á landi, sem yfirmaður þess hefur góðfúslega látið formanni varnarmálanefndar í té, en áður gáfu yfirmenn varnarliðsins slíkar upplýsingar á opinberum blaðamannafundum. Hinn hressilegasti innan ríkisstj. fór beint í ljónagryfjuna til Norfolk og heimsótti aðmírálana og var hinn vaskasti að þeirri för lokinni. Hinn hæverski utanrrh. efndi loks til könnunarferðar til Washington upp úr áramótum. Fara litlar fregnir af þeirri Bjarmalandsför. Við sjálfstæðismenn höfum haldið uppi miklum viðræðum við hæstv. ríkisstj, á s. l. þingi um þessi veigamiklu mál ríkisins. Við höfum gefið út sérstakt rit, sem utanrmn. flokksins sá um, um öryggismál landsins. Þar er lýst viðhorfum okkar til þessara mála. E. t. v. fer bezt á því, að ríkisstj. fái óáreitt að glíma við sjálfa sig áfram í þessum viðkvæmu og veigamiklu málum landsmanna.

Fólkið spyr: Hvert stefnir? Það er óráðin gáta. Getur forsrh. veitt einhver svör? Er samstaðan innan ríkisstj. um einhver svör? Vill einn halda í austur og annar í vestur, eða hefur ríkisstj. tapað áttunum? Við getum ekki veitt leiðsögu í jafntakmörkuðum umr. og hér eru aðra en þá að vísa til þeirrar öruggu forustu, sem Sjálfstfl. hefur jafnan veitt í stjórn þessa lands, þegar til hans var leitað.

Ríkisstj., sem hefur brugðizt, víkur, hvort sem henni líkar betur eða verr. Lífdagarnir tæmast einn af öðrum, skapadægur er fram undan. Það skiptir ekki öllu máli hvenær þjóðinni verður forðað frá þeim voða, sem í ríkjandi óstjórn felst. Vissa þjóðarinnar um að hafa það sjálf í hendi sér, hvenær endir verði bundinn á ráðleysið, skiptir öllu máli. Í því felst gæfa okkar að búa við stjórnarfar frjálsrar skoðanamyndunar fólksins sjálfs. Við sjálfstæðismenn teljum okkur fara nærri um það, að fólkið mundi ekki kjósa þessa ríkisstj. í dag. Ég held, að hæstv. forsrh. hljóti einnig að gera sér grein fyrir þessari staðreynd. Það er hins vegar mannlegt að reyna að þrauka og halda skútunni uppi í vindinn. En er það gert? Eða er látið reka í stjórnleysi?

E. t. v. felst ekki aldurtili hæstv. ríkisstj. í afgreiðslu þessarar vantrauststill., þótt lið hennar sé margklofið. En hæstv. ríkisstj, hefur engu að síður ekki farnazt betur en svo, að fæstir munu nú ætla henni langa lífdaga, ekki heldur fjölmargir þeirra, sem áður tengdu þó vonir og traust við tilveru hennar.