05.03.1973
Sameinað þing: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2296 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á meðan þetta tilgangslausa málskraf fer fram á hinu háa Alþingi, halda gjall og glóandi hraun áfram að leggja undir sig mikilvægustu framleiðslustöð Íslendinga. Yfir 5000 manna hafa orðið að flýja heimili sín, koma sér fyrir til bráðabirgða og bíða í fullkominni óvissu um framtíðina. Á Heimaey sjálfri er háð hetjubarátta til þess að reyna að breyta hraunrennslinu og bjarga sjálfri höfninni og sá árangur, sem þegar hefur náðst, á sér engar hliðstæður í veröldinni, þó að enginn viti enn um málalok.

Í Vestmannaeyjum var framleiddur um sjöundi hluti af öllum fiskútflutningi Íslendinga. En sú framleiðsla mun ekki nýtast okkur á þessari vertíð — og hver veit hvenær. Afleiðingin er sú, að hætta er á að útflutningsframleiðsla okkar dragist saman um upphæðir, sem geta numið einum til tveimur milljörðum kr. á þessu ári. Afleiðingin gæti einnig orðið sú, að þjóðartekjur minnki hreinlega á þessu ári, að þær vonir, sem við gerðum okkur um kjarabætur og félagslegar framfarir, reynist óraunsæjar með öllu um sinn. Áfall af þessu tagi á varla hliðstæður í allri sögu íslenzku þjóðarinnar, og svipaðir atburðir hafa raunar óvíða gerzt í mannkynsögunni. Þetta er hliðstætt því, ef t. d. Bandaríkjamenn yrðu í einu vetfangi að rýma meira en 5 milli. manna borg, sem hefði gengt aðalhlutverki í framleiðslu þjóðarinnar. Þetta eru þeir atburðir, sem Jóhann Hafstein sá ekki ástæðu til að minnast einu orði á í ræðu sinni hér áðan.

Þegar fréttirnar um þessa ógnaratburði spurðust, þokaði öll þjóðin sér saman. Það er rétt, sem sagt hefur verið, að á þeirri stundu litu allir Íslendingar á sig sem Vestmanneyinga. Allir voru boðnir og búnir að leggja lið þeim þúsundum manna, sem urðu að flýja heimili sín. Það var mál manna, að þjóðin yrði að takast á við þessa einstæðu örðugleika af festu og samhug og leggja á meðan til hliðar hvers konar minni ágreiningsefni, enginn mætti skerast úr leik, jarðeldarnir á Heimaey yrðu að vera sameiginlegur vandi hvers einasta heimilis, hvers einasta manns. Þessi viðbrögð manna voru til marks um eðlilega samheldni þjóðar, sem lendir í miklum og óvæntum háska og vill bregðast við honum af þjóðlegri reisn og myndarskap.

Ríkisstj. hófst þegar handa um að gera ráðstafanir til þess að leysa vanda Vestmanneyinga með eins skjótum hætti og hægt væri og takast á við þá stórfelldu erfiðleika, sem bitnuðu á þjóðarbúinu, því að Vestmannaeyjar og aðra hluta Íslands er sannarlega ekki unnt að skilja að. Það var samdóma álit okkar ráðh., að með jarðeldunum i Heimaey hefur því miður brostið allar efnahagslegar forsendur fyrir raunverulegum kauphækkunum 1. marz, þær yrðu aðeins gervikauphækkanir, sem brynnu tafarlaust upp í báli verðbólgunnar. Við sömdum því frv. þess efnis, að kauphækkanirnar 1. marz yrðu látnar renna í viðlagasjóð í 7 mánuði, að allar verðhækkanir á landbúnaðarvörum biðu sama tíma, að sérstakt gjald yrði lagt á atvinnurekendur, kaupsýslumenn, þjónustuaðila, stóreignamenn og milliliði til ágóða fyrir viðlagasjóð, að ráðstafanir yrðu gerðar til þess að draga sem mest úr tilgangslausum víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags. Áformað var, að tekjur viðlagasjóðs yrðu 2500 millj. kr. og þeim yrði jafnað niður á þjóðina alla á sem réttastan hátt. Ríkisstj. flýtti þessum störfum sínum sem mest, og hún hafði frá upphafi samband við stjórnarandstöðuna til þess að reyna að tryggja á þingi jafnalgera samstöðu og mótaði viðbrögð landsmanna sjálfra. Í fyrstu leit út fyrir, að samstaða gæti tekizt, þannig lýsti Gylfi Þ. Gíslason yfir því á ríkisstjórnarfundi, að Alþfl. væri sammála meginhugmyndum ríkisstj. og sérstaklega teldi hann allar forsendur brostnar fyrir raunverulegum kauphækkunum 1. marz.

En síðan fóru að gerast annarlegir atburðir. Ég talaði áðan um samstöðu allrar þjóðarinnar. En það er til hópur manna, sem hugsar á aðra lund en óbreyttir þegnar hins íslenzka þjóðfélags. Þetta eru hinir æfðu stjórnmálamenn, sá litli lokaði hringur, sem daglega hittist hér í sölum Alþ. Það kom fljótlega í ljós, að hinir æfðu stjórnmálamenn Sjálfstfl. og Alþfl. tóku að velta fyrir sér annarri hlið jarðeldanna á Heimaey en þeirri, sem öll þjóðin hugsaði um. Þeir lögðu ekki á ráðin um það, hvernig unnt væri að leysa þann stórfellda vanda, sem upp væri kominn, hvort ekki væri rétt að slíðra sverðin í hinu pólitíska pexi um stundarsakir, hvort stjórn og stjórnarandstaða gætu ekki unnið saman af heilindum. Það viðhorf varð hins vegar æ ríkara í hugum þeirra, hvernig hægt væri að nota náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum, þau hrikalegu áföll, sem Vestmanneyingar og þjóðin öll höfðu orðið fyrir, til þess að valda ríkisstj. sem mestum örðugleikum og helzt að steypa henni. Í blöðum stjórnarandstöðunnar tóku að birtast greinar þess efnis, að óþarfi væri, að þjóðin legði á sig nokkrar byrðar, okkur nægði að taka við þeim gjöfum, sem að okkur yrðu réttar. Gunnar Thoroddsen boðaði þá kenningu í Morgunblaðinu, að ríkissjóður gæti borið mestan hluta vandans með því að skera niður opinberar framkvæmdir um land allt í vegamálum, heilbrigðismálum, skólamálum, rafvæðingu og á öllum öðrum sviðum, þótt augljóst væri, að ríkissjóður hefði orðið fyrir engu minni áföllum en þjóðarbúið í heild og mundi þurfa að stórauka framkvæmdir á mörgum sviðum vegna jarðeldanna í Eyjum. Þessi lítilsigldu viðhorf stjórnarandstöðuflokkanna mögnuðust dag frá degi, löngunin til að nota náttúruhamfarirnar í þeim tilgangi einum að koma pólitísku höggi á ríkisstj. Og þegar á reyndi og ríkisstj. hafði frv. sitt tilbúið, kom í ljós, að Gylfi Þ. Gíslason var fallinn frá fyrri yfirlýsingum sínum og að stjórnarandstaðan í heild neitaði allri samvinnu um lausn skv. þeirri raunsæju stefnu, sem ríkisstj. lafði markað.

Einni viku eftir að gosið hófst, á sama tíma og fólkið í landinu var gagntekið brennandi vilja til þess að takast sameiginlega á við vandann, voru þannig allar líkur á því, að Alþingi Íslendinga riðlaðist í tvær stríðandi fylkingar og að reynt yrði að nota náttúruhamfarirnar í lágkúrulegum pólitískum tilgangi. Ég efast um, að Alþ. Íslendinga hafi nokkurn tíma sett jafnmikið ofan í mínum huga.

Ríkisstj. var nú sá vandi á höndum, hvort hún ætti að láta hefjast á Alþ. lítilsigld pólitísk átök, þar sem ógnaratburðirnir í Vestmannaeyjum væru hafðir að leiksoppi hinna æfðu stjórnmálamanna, eða hvort reynt skyldi að ná yfirborðssamkomulagi. Síðari leiðin var valin. Ég var þeirrar skoðunar þá og er það enn, að sú ákvörðun hafi ekki verið rétt. Ég held, að íslenzka þjóðin hefði haft gott af því að sjá hina þingkjörnu fulltrúa sína eins og þeir eru í raun og veru, bera saman viðhorf þessa litla lokaða hrings hér í alþingishúsinu og viðhorf fólksins í landinu, sjá, hvernig hið flokkspólitíska ofstæki er tekið fram yfir þjóðarhag. En um það er tómt mál að tala, úr því sem komið er. En til marks um heiftina má geta þess, að þegar hið endanlega frv. um viðlagasjóð kom til atkv., sátu Gunnar Thoroddsen og tveir aðrir þm. Sjálfstfl. hjá við atkvgr. um tekjuöflun, þeir vildu ekki taka neinn þátt í því, að leysa vanda Vestmanneyinga og þjóðarbúsins.

Eins og ég rakti áðan, voru hugmyndir ríkisstj. þær að leysa þau efnahagslegu vandamál, sem upp komu með jarðeldunum í Eyjum, með aukinni festu í efnahagsmálum, með verðhjöðnunaraðgerðum jafnt á sviði kaupgjalds og verðlags, með niðurfærslu og ráðstöfunum, sem kæmu í veg fyrir tilgangslausar víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags. Það samkomulag, sem gert var, felur hins vegar í sér, að vandinn er leystur eftir leiðum verðbólgunnar, að svo miklu leyti sem unnt er að kalla slíkt nokkra lausn.Menn fengu nú fyrir nokkrum dögum, smjörþefinn af þessari leið. Kaupgjald hækkaði að nafninu til um 12%, og jafnframt kom til framkvæmda hrikaleg hækkun á landbúnaðarafurðum og 2% hækkun á almennum söluskatti. Það mætti segja mér, að 12% kauphækkun, sem einnig nær til launahæstu manna, þætti saga til næsta bæjar, til að mynda hjá þeim frændum okkar á Norðurlöndum, sem lagt hafa hart að sér til að geta sent okkur sem mesta fjármuni. Þeir vita ekki það, sem við vitum, að þetta er einvörðungu gervikauphækkun, sem hverfur hjá láglaunafólkinu á stuttum tíma í verðbólgu. Ef stefna ríkisstj. hefði náð fram að ganga, hefðu landbúnaðarafurðir ekki hækkað 1. marz, og þá hefði kaupgeta láglaunafólks án efa haldizt mun hærri en með þeirri sýndarkauphækkun, sem nú er borguð út. Stjórnarandstaðan telur sig hafa unnið mikinn sigur með þessari ráðsmennsku. Hún telur sig hafa stuðlað að óðaverðbólgu, sem ríkisstj. verði um megn að ráða við. Og hverju máli skipta þá náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum, vandkvæði meira en 5 þús. Vestmanneyingar og stórfelldir erfiðleikar þjóðarbúsins?

En eldgosið í Vestmannaeyjum hefur einnig sýnt mönnum inn í fleiri meinsemdir í þjóðfélagi okkar. Menn mega ekki gleyma þeim hrópum, sem birtust í málgögnum Sjálfstfl. og Alþfl. fáeinum dögum eftir að jarðeldarnir í Vestmannaeyjum hófu hina miklu eyðingu sína. Þar var því haldið fram með vanstilltasta orðalagi, að ríkisstj. kæmi í veg fyrir að bandarísku dátarnir á Miðnesheiðinni fengju að bjarga verðmætum frá Heimaey, auk þess sem ríkisstj. átti að hafa hafnað tilboðum Bandaríkjastjórnar um að láta milljörðum á milljarða ofan rigna yfir íslenzku þjóðina. Þessar staðhæfingar voru vissulega ósannar með öllu, en þær sýndu vel inn í hugskot hernámssinna. Þeir óttuðust einhug landsmanna og þjóðlegan metnað andspænis einstæðum náttúruhamförum. Þeir vildu í staðinn nota jarðeldana til að brjóta sjálfstæðisvitund Íslendinga á bak aftur. Þeir reyndu að halda þeim skoðunum að fólki, að Íslendingar gætu ekki lengur tekizt á við þau náttúruöfl, sem mótað hafa þjóðarsöguna frá öndverðu, án þess að láta erlenda dáta hjálpa sér, auk þess sem þeir vonuðu, að yfir oss rigndi betlidölum líkt og manna yfir gyðingana í eyðimörkinni. Hvað ætlið þið að gefa okkur mikið? spurði blaðamaður frá Morgunblaðinu í bandaríska sendiráðinu og fleiri erlendum sendiráðum. Þessum hópi manna var hernámið dýrmætara en þjóðarhagur. Svo ófrýnileg er spilling sumra þeirra, sem ánetjazt hafa hinu erlenda liði.

Ég vék að því áðan, að ákveðið hefði verið að gera samkomulag um fyrirkomulag viðlagasjóðs, m. a. í því skyni að bjarga sóma Alþingis á yfirborðinu, koma í veg fyrir, að eldsumbrotin í Vestmannaeyjum yrðu dregin niður í lágkúrulegt pólitískt pex. En Sjálfstfl. virðist ekki hafa áhuga á slíku. Hann bar fram vantrauststillögu á ríkisstj. í bráðræði fáum dögum fyrir jól, í vonbrigðum sínum yfir því, að ríkisstj. skyldi ekki falla, eins og til var ætlazt. Að jólaleyfi loknu bað Jóhann Hafstein sjálfur um, að vantrauststillagan yrði lögð til hliðar. En nú finnst honum tímabært að láta hana koma fram. Hann telur það vera mála brýnast hálfum öðrum mánuði eftir að gosið hófst, meðan enn streyma eldar og eimyrja úr gossprungunni, að setja á svið hér á Alþingi pólitískan skollaleik með öllu því þrasi, sem slíkum umræðum fylgir. Er það skoðun Íslendinga, er það skoðun Sjálfstfl.- kjósenda, að þeir velji fulltrúa á þing til að stunda hégómlegan og tilgangslausan leikaraskap af því líku tagi? Finnst mönnum ekki, að til þess beri að ætlast, að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar sýni einhvern snefil af ábyrgðartilfinningu og heilindum, þegar stórfelldur vandi steðjar að landsmönnum öllum? Er þá réttur tími fyrir loddarabrögð hinna æðstu stjórnmálamanna, — ættu þjóðkjörnir fulltrúar ekki að hafa eitthvað þarfara að gera?

Það, sem gerzt hefur síðustu vikurnar í hinum lokaða hring hér í alþingishúsinu, ýmist að tjaldabaki eða fyrir opnum tjöldum, er hluti af þeim grundvallarágreiningi, sem tekizt hefur verið á um í íslenzku þjóðfélagi á undanförnum árum. Þeir, sem reynt hafa að nota jarðeldana í Vestmannaeyjum í pólitískum tilgangi, án þess að hugsa um þjóðarhag, eru sömu mennirnir og gerðu nauðungarsamninginn í landhelgismálinu 1961 og vilja enn gera undansláttarsamninga eða lúta erlendum dómstóli. Þetta eru sömu mennirnir sem virðast ætla að fyrirhuga þjóð sinni þau örlög að verða að búa við erlenda hersetu um aldur og ævi. Þetta eru mennirnir, sem vildu eftirláta útlendingum að nýta auðlindir okkar og orkulindir og buðu upp á Íslendinga sem ódýrt vinnuafl. Þessir menn eru fyrir löngu orðnir afhuga því, sem þjóðskáldið kvað um Ísland:

„Fjör kenni oss eldurinn,

frostið oss herði,

fjöll sýni torsóttum gæðum að ná,

bægi sem kerúb með sveipanda sverði

silfurblár ægir oss kveifarskap frá:

Þetta þykir e. t. v. margþvæld og úrelt hetjurómantík um þessar mundir. En ég er sannfærður um það, að ef menn eiga ekki í hugskoti sínu þessi viðhorf, þennan óbilgjarna þjóðlega metnað, þá er íslenzku samfélagi hætt. Ég er einnig sannfærður um það, að allur þorri landsmanna hefur þessi viðhorf til landsins og sjálfra sín. Ég er þess einnig fullviss, að æðimargir þm. stjórnarandstöðuflokkanna taka ófúsir þátt í þeim pólitíska skollaleik, sem nú er settur á svið hér í alþingishúsinu, meðan Heimaey brennur.

En sé svo, þurfa menn að draga réttar ályktanir af þeim atburðum, sem hafa verið að gerast í hópi stjórnmálamanna síðustu vikurnar. Stjórnmálaleiðtogar, sem geta ekki á örlagatímum lyft sér yfir hina pólitísku flatneskju, eru ekki starfi sínu vaxir og þurfa að velja sér önnur verkefni. Engum manni dylst, að mikið djúp er nú staðfest milli Alþingis og þjóðarinnar. Andrúmsloftið hér í þingsölunum er allt annað en meðal landsmanna. Alþ. hefur ekki reynzt þess megnugt að taka rismiklar og réttar ákvarðanir á örlagastund. Haldi þetta bil áfram að aukast, er lýðræðinu hætt. Því tel ég, að náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum þurfi að verða okkur öllum, alþm. og þjóðinni, áminning um að taka úrelt viðhorf til endurmats og minnast þess, að á stundum mikilla örlaga eru sameiginlegir hagsmunir okkar miklu yfirsterkari öllum ágreiningi. — Góða nótt.