05.03.1973
Sameinað þing: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2312 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Þótt nokkuð hafi dregizt að taka til umr, og afgreiðslu þá till., sem hér liggur fyrir um vantraust á ríkisstj., þingrof og nýjar kosningar, er síður en svo, að tilefnið sé minna en áður. Aldrei hefur blasað við jafnskýrt og nú hin geigvænlega framvinda í verðlagsmálum og efnahagsmálum. Aldrei hefur verið jafnaugljóst og nú, hve ríkisstj. hefur brugðizt mörgum af þeim fyrirheitum, sem hún gaf þjóðinni í upphafi. Og aldrei hefur ráðaleysi hennar verið jafnumkomulaust og nú gagnvart efnahagsvandanum.

Ríkisstj. sparaði ekki í upphafi hin fögru orð Í hinum dæmalausa málefnasamningi voru loforðin borin á borð fyrir þjóðina, ýmist í beinum orðum eða hálfkveðnum vísum. Þar var launafólki lofað 20% hækkun á rauntekjum fyrir minni vinnu, bændur og sjómenn áttu að fá svipaðar kjarabætur, og samtímis átti að bæta stöðu atvinnuveganna. Heita mátti, að allt ætti að gera fyrir alla. Ráðstafanir yrðu gerðar til að lækka óhóflegan húsnæðiskostnað almennings. Athuga skyldi þáverandi verðlagningu í því skyni að lækka verðlag og hindra verðhækkanir. Skattbyrðinni skyldi dreift réttlátar en verið hafði. Lögð áherzla á að koma í veg fyrir hina háskalegu verðlagsþróun, sem leitt hefði til síendurtekinna gengisfellinga og óðaverðbólgu, eins og það var kallað. Gengislækkun ekki beitt gegn vanda í efnahagsmálum. Svo mætti lengi halda áfram að telja. Allt þetta og miklu fleira var talið hægt að gera. Ríkissjóður og breiðu bökin, sem loks fundust helzt hjá gamla fólkinu, áttu að borga brúsann.

Um efndir þarf ekki að ræða. Þjóðin finnur sjálf vaxandi þunga af því ástandi, sem að flestu leyti er þveröfugt við það, sem lofað var. Var það að furða, að Bjarna Guðnasyni þætti sitthvað hafa farið úr böndunum hjá núv. hæstv. ríkisstj.? Bragð er að, þá barnið finnur. En ráðh. kunnu lítið hóf á gleði sinni nýseztir að fyrningunum úr búi viðreisnarstjórnarinnar. Fyrstu verkin voru og í samræmi við þetta. Greitt var fé á báðar hendur, 650 millj. kr. úr ríkissjóði umfram fjárlög á síðustu mánuðum ársins 1971 auk 300 millj. úr öðrum opinberum sjóðum. Lögfestur var styttri vinnutími á Íslandi en í nokkru nágrannalandi okkar og ríkisútgjöldin tvöfölduð á tveim fyrstu fjárlagaárum þessarar ríkisstj.

Með þessum dæmalausa austri loforða og ríkisfjármuna hratt ríkisstj. af stað þeirri verðbólguskriðu, sem síðan hefur runnið með vaxandi hraða. Þessi verðbólguskriða ásamt útþenslu ríkisbáknsins hefur nú raskað öllu efnahagskerfi þjóðarinnar, þrengt að rekstri fyrirtækja og heimila og fætt af sér þau vandræði, sem við hefur þurft að etja síðustu mánuði og nú blasa við í dekkri mynd en nokkru sinni fyrr. Verðhækkanir síðustu daga og vikna eru eins konar undanrásir þess, sem á eftir mun fara, verði ekki spyrnt við fótum. Allt eru þetta heimatilbúin vandræði, bein afleiðing og þungur áfellisdómur um hrapaleg mistök og fjársukk þeirrar ríkisstj., sem nú situr. Ekki verður ytri aðstæðum um kennt. Einstakt góðæri hefur ríkt, bæði til sjávar og sveita, á valdatíma núv. ríkisstj. Sjávarafli varð 54.7 þús. tonnum meiri á síðasta ári en árið á undan þvert ofan í tal stjórnarliða um aflabrest, og útflutningsverðmæti aflans varð um 1260 millj. kr. meira, enda sífelldar hækkanir á verði afurða okkar erlendis. Útflutningur iðnvarnings hefur farið vaxandi í kjölfar aðildar okkar að EFTA. Hamfarirnar í Vestmannaeyjum og hin hryggilega alda slysa og hrakfalla síðustu vikna við sjávarsíðuna hafa enn ekki náð að verka á efnahagskerfið. Hvað mun, þegar að því kemur?

Það sannast nú sem hjá hinni fyrri vinstri stjórn, að góðæri og hagstæð viðskiptakjör duga ekki til velfarnaðar, ef stjórnarstefna er röng. Nú eins og þá stefnir efnahagskerfi þjóðarinnar fyrir björg þrátt fyrir hinar hagstæðu ytri aðstæður. En forsrh. sagði hér áðan, að mikið öryggi ríkti á sviði efnahagslífsins. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir ástandinu. Þar skilur á milli hans og Hermanns Jónassonar 1958.

Ríkisstj. hefur nú fellt gengi krónunnar þrisvar sinnum á þrem missirum þvert ofan í fyrirheit sín um hið gagnstæða. Það er einsdæmi á Íslandi að fella gengi krónunnar á sama tíma og verðlag útflutningsafurða okkar er jafnhraðstígandi og raun var á í des. s. l. Það er og einsdæmi, sem gerðist við þá gengislækkun, að ráðh. telji sjálfsagt mál og jafnvel hæli sér af því, að verðhækkanir af völdum gengisbreytingarinnar komi jafnóðum Fram í verðlagi og vísitölu, sem þýðir það, að hin jákvæðu áhrif hennar étast upp á örskömmum tíma og eftir stendur aðeins, að olíu hefur verið kastað á verðbólgubálið. Er þetta kannske „hin leiðin“, sem Framsókn hafði boðað? Sé svo, er víst, að hún liggur út í ófæru.

Allir ættu að sjá, að grípa verður til markvissra aðgerða til að hefta verðbólguflóðið, sem verður því óviðráðanlegra sem lengra líður. Meðal þess, sem mér sýnist nú brýnast að vinna að, er í fyrsta lagi að endurskoða og minnka áhrifamátt vísitölukerfisins. Það hefur hvort sem er ekki reynzt tryggja hagsmuni láglaunafólksins. Þvert á móti eykur það á misréttið milli launaflokka. Í annan stað verður að draga saman seglin í ríkiskerfinu. Rétt er þó að gera sér grein fyrir því, að hækkun ríkisútgjaldanna hefur komið mjög misjafnlega niður. Á meðan útgjöld fjárl. hafa hækkað um nálega 100%, hafa t. d. útgjöld til landbúnaðarmála ekki náð því að hækka um 40% og hlutdeild landbúnaðarins í heildarútgjöldum ríkisins í tíð núv. valdhafa lækkað um 4 frá síðustu fjárl. viðreisnarstjórnarinnar. Með þeim 22 milljörðum, sem þjóðin greiðir nú til ríkisins, er samtímis skattheimtunni verið að safna valdinu saman hjá ríkinu, þessu valdi til sjálfræðis, sem að sama skapi er skert hjá einstaklingum og sveitarfélögum um land allt.

Að skaðlausu mætti nú t. d. teyma burtu ýmsa af þeim gæðingum, sem ríkisstj. hefur verið ötul við að raða á jötuna að undanförnu. En nýrra ráða er ekki að vænta hjá þessari ríkisstj. Hún virðist láta framvindu efnahags- og verðlagsmála lönd og leið án nokkurra tilburða og flýtur sofandi að feigðarósi. Ríkisstj. er fangi sinna eigin verka í verðbólgufeninu. Hún hefur brugðizt fjölmörgum þeim fyrirheitum, sem hún gaf í öndverðu, og í flestum greinum hefur verið breytt þveröfugt við orð forustumanna hennar fyrir síðustu kosningar. Forsendurnar, sem leiddu til valdatöku ríkisstj. eru brostnar. Hún ætti því þegar að fara frá. Rúmlega þriggja missira reynsla er þjóðinni nægilega dýrkeypt.