05.03.1973
Sameinað þing: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2318 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Góðir hlustendur. Till. stjórnarandstöðu um vantraust á starfandi ríkisstj. getur átt sér tvenns konar forsendur. Í öðru tilvikinu geta þær aðstæður komið upp á Alþ., að ástæða sé til þess að ætla, að meiri hl. ríkisstj. sé brostinn, og mun enginn draga í efa, að vantraust flutt við þær aðstæður er í alla staði eðlilegt og reyndar rétt þingleg aðferð til að leiða hið sanna í ljós um þingstyrk ríkisstj. En hitt er líka til, að þótt engin gild ástæða sé til þess að ætla, að hlutföll hafi raskazt á þingi milli stjórnarfylgis og stjórnarandstöðu, sé engu að síður borið fram vantraust á ríkisstj. Þá er tilgangurinn ekki að sannprófa, hvort ríkisstj. styðjist við meiri hl. þingheims, heldur að efna til aukaeldhúsdags á þingi, almennra umr., sem skylt sé að útvarpa, svo að allur landslýður geti fylgzt með.

Vantraustill. Sjálfstfl., sem hér liggur fyrir til umr., er af síðari gerðinni. Þegar hún var lögð fram skömmu fyrir jól, höfðu flm. alls enga ástæðu til að ætla að þingmeirihl. ríkisstj. væri brostinn. Eini votturinn um breytta afstöðu þm., sem á undan vantrauststill. fór, var tilkynning 3. landsk. þm., Bjarna Guðnasonar, um brottför úr þingflokki SF, en þeirri yfirlýsingu fylgdi, að hann styddi jafnt eftir sem áður núv. ríkisstj. Það er mál út af fyrir sig, hvort þm. getur haldið því fram, að hann firri sig ábyrgð á tiltekinni stefnu í efnahagsmálum með því að koma í ræðustól hér á Alþ. og tilkynna sérstöðu sína, en lýsa jafnframt yfir, að hann veiti stuðning, fyrst í stað fullan, en nú einungis hálfan, ríkisstj., sem er að framkvæma stefnumál, sem þm. er svo á móti skapi, að hann telur sér fyrir þá sök eina ekki lengur vært í flokki sínum. Frammistöðu þm. í meðförum þingflokks SF á efnahagsmálum í des. s. l. er lýst í bréfi framkvæmdastjórnar SF til félagsmanna í Samtökunum, sem sent var út og dags. hinn 10. jan. s. l. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Bjarni Guðnason hefur vanrækt þingflokksfundi og hætti alveg að sækja þá, þegar efnahagsmálin og úrræði gegn aðsteðjandi vanda í þeim efnum komu á dagskrá. Frá 29. nóv. til 9. des. voru haldnir 5 þingflokksfundir, þar sem efnahagsmál voru aðalfundarefni á hverjum fundi. Bjarni Guðnason sótti engan þessara funda. Á þingflokksfundi 10. des. var lögð fram till. um lausn efnahagsvandans. Sú till. var samþ. með 4 atkv, en Bjarni Guðnason taldi sig ekki reiðubúinn til að taka afstöðu, en kvaðst ekki andvígur því, að till. yrði lögð fram á ríkisstjórnarfundi. Næstu daga voru daglegir fundir þingflokksins og á þriðja fundi kvað Bjarni loks upp úr um þá afstöðu sína, að hann væri andvígur till. þingflokksins, án þess að hann gerði sjálfur neinar aðrar till., þó að eftir því væri gengið. Helzt kvaðst hann þó hlynntur „einhvers konar millifærsluleið“.“

Þetta var allt, sem þm. hafði til mála að leggja í þingflokknum, áður en hann kom fram hér á Alþ. og sagði sig úr þingflokknum án þess að hafa skýrt nokkrum þingflokksmanna frá þeirri ætlan sinni. Reiðilestur þessa þm. vegna þess að meiri hl. á löglegum fundi í SF í Reykjavík reyndist ekki kunna að meta frumleg vinnubrögð hans í flokknum, læt ég annars liggja á milli hluta. Þm. bregður mjög fyrir sig málsháttum í ræðum sínum hér. Kann hann ekki þennan málshátt: Ómerk eru ómagaorðin?

Engum blöðum er um að fletta, að þetta vantraust er borið fram í því skyni að setja á svið aukaeldhúsdag hér á Alþ., og læt ég hlustendum eftir að dæma um, hve knýjandi hafi verið að bera á borð fyrir þá eldhúsdagskrá í útvarpinu.

Nú er liðinn hálfur þriðji mánuður síðan vantrauststill. var lögð fram, og þótt þessi tími hafi verið viðburðarríkur, bæði utan þings og innan verður fyrst og fremst að fjalla um þessa till. á þeim forsendum, sem fyrir lágu, þegar hún var fram borin. Forsendurnar voru afgreiðsla fjárl. ársins 1973 og efnahagsráðstafanir, sem þeim fylgdu, einkum lækkun á gengi krónunnar. Sjálfstfl. ber ríkisstj. jöfnum höndum á brýn, að hún sé óhóflega gírug að innheimta fé í ríkissjóð, en nýr henni svo jafnframt um nasir, að hagur ríkissjóðs sé allt annað en beysinn. Núv. ríkisstj. hefur aldrei reynt að draga fjöður yfir það, að hún þyngdi skatta í efri hluta skattstigans, en það var gert um leið og nefskattar, sem bitnuðu jafnt á öllum, einnig þeim tekjulausu og tekjulágu, voru afnumdir og tryggingabætur hækkaðar, m. a. látnar koma til framkvæmda bótahækkanir, sem viðreisnarstjórnin hafði lagt drög að, en láðst að afla fjár til að standa straum af.

Sjálfstæðismenn segjast vera fylgjandi ívilnunum handa hinum tekjulausu og tekjulágu, en mótmæla jafnframt fjáröflun til að standa straum af þessum ráðstöfunum til að jafna lífskjör í landinu, sem jafngildir því að segjast hvorki vilja velja né hafna, þegar tveir kostir eru fyrirhöndum. Tekjuskipting viðreisnaráranna óbreytt er þá að þeirra dómi hið æskilega ástand.

Þó kastar fyrst tólfunum, þegar málsvarar sjálfstæðismanna þykjast geta leyft sér að tala digurbarkalega um, að afkoma ríkissjóðs sé lakari en æskilegt kynni að vera. Núv. ríkisstj. hefur aflað tekna fyrir öllu því, sem hún hefur átt frumkvæðið að, en ekki nóg með það, hún hefur orðið og verður enn að afla stórfjár til þess að standa straum af aragrúa Óreiðuskulda, sem viðreisnarstjórnin lét eftir sig. Sjálfstæðismenn guma af, að sú stjórn hafi safnað í sjóði, sem núv. ríkisstj. hafi síðan sóað. Heyr á endemi! Hvaða ríkisstj. var það, sem skildi við skuldahala, sem nam hundruðum millj., hjá sjóðum sjávarútvegsins og landbúnaðar? Auðvitað viðreisnarstjórnin. Hvaða ríkisstj. var það, sem lét togaraflotann drabbast svo niður, að hann er þungur baggi á ríkissjóði? Það skyldi þó ekki hafa verið viðreisnarstjórnin líka. Og hvaða ríkisstj. stóð þannig að endurnýjun togaraflotans, loksins þegar hafizt var handa, að ekki er annað sýnt en ríkissjóður Íslands hljóti skell af ófullnægjandi samningi við skipasmiðastöð á Spáni? Þar var svo sannarlega viðreisnarstjórnin að verki. Og hvaða ríkisstj. bjó þannig að innlenda skipasmíðaiðnaðinum, að Slippstöðin rambaði á gjaldþrotsbarmi? Viðreisnarstjórnin enn. Og hvaða ríkisstj. skildi við rafvirkjunarmál Norðurlands í slíkum hnút, að ekki er annað sýnna en kosta muni eitthvað á annað hundrað millj. kr. úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar að leysa flækjuna? Vitanlega viðreisnarstjórnin. Sannleikurinn er sá, að núv. ríkisstj. hefur þegar greitt óreiðuskuldir, sem viðreisnarstjórnin lét eftir sig, svo að mörgum hundruðum millj. kr. nemur. Og enn sér hvergi nærri fyrir endann á þessum greiðslum. Þá fyrst, þegar þær eru úr sögunni, er unnt að gera upp bú viðreisnarstjórnarinnar.

Enginn hefur mér vitanlega dregið í efa, að í lok síðasta árs var aðkallandi að gera ráðstafanir, sem skertu nokkuð kaupmátt, eftir örustu kaupmáttaraukningu, sem hér hefur þekkzt og einkum hafði átt sér stað á tveim síðustu árum, en ykju arðsemi útflutningsatvinnuveganna að sama skapi. Eins og endranær var um að velja tvær leiðir, annaðhvort almennar aðgerðir eins og gengislækkun, sem hefur sjálíkrafa áhrif á allt hagkerfið, eða það afbrigði skömmtunarkerfis, sem kallast útflutningsuppbætur. Áratuga reynsla af mismunandi uppbótakerfum hefur sannað nógsamlega, að við íslenzkar aðstæður skapa þær ævinlega með tímanum enn erfiðari vanda en þeim var ætlað að leysa. Ástæðan er, að uppbætur bjóða heim hvers konar frávikum frá eðlilegum framleiðsluháttum og viðskiptavenjum. Allir vita, að með þeim er haldið uppi fölsku gengi, þær stuðla að óhagkvæmni í framleiðslu og torvelda nýjungum að ryðja sér til rúms. Allt rýrir þetta hag þjóðarbúsins og hamlar því, að framleiðsluatvinnuvegir skili fullum afköstum.

Gengislækkun er ekki til þess fallin að auka neinum, sem að henni stendur, vinsældir. En þegar um það er að ræða að afstýra háskalegu jafnvægisleysi í þjóðarbúskapnum, verður að gera fleira en gott þykir í svip. Eins og ástandið var í vetur, varð það að sitja í fyrirrúmi að ýta undir útflutningsframleiðslu og draga úr eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri. Á því veltur framtíðarhagur þjóðarinnar. Gjaldeyrisforði er þjóðinni nauðsynlegri nú en nokkru sinni fyrr, þegar svo stendur á, að hún verður fyrir hvern mun að hafa bolmagn til að halda af fullri festu á sínum málstað í landhelgismálinu og reyndar öllum málum, þar sem við önnur ríki er að skipta. Uppbótakerfi, sem samkv. fenginni reynslu hefði verið talið vita á gengislækkun síðar meir, hefði orðið til að draga úr hagkvæmni í rekstri og þar með gjaldeyrisöflun, en hins vegar ýtt undir spákaupmennsku og eftirspurn eftir gjaldeyri. Á báða þessa vegu hefði það veikt stöðu Íslands út á við.

Engum er ljósara en þeim, sem að ríkisstj. standa, að ekki hefur auðnazt að ná settu marki í viðureigninni við verðbólguna. Lítil huggun er, að núv. stjórn er þar ekki ein á báti, aðrir hafa áður mátt reyna hið sama. En fjarstæða er, að fyrir þessa sök beri ríkisstj. skylda til að segja af sér og efna til nýrra kosninga á miðju kjörtímabili. Ef svo væri, hvað skyldi þá fyrrv. stjórn hafa átt að láta oft af völdum á sínum langa ferli?

Vantrauststill., sem fyrir liggur, var ekki flutt af því, að flm. byggjust við, að hún bæri árangur, heldur til að sýnast, enda stendur ekki að henni nema annar flokkurinn af þeim, sem eru í stjórnarandstöðu. Ástæðan til, að vantraustið var flutt í des., var ekki þingleg, heldur flokksleg. Ástandið innan Sjálfstfl. er undirrót þessa tillöguflutnings. Flokksforustunni er vel ljóst, að afdrifaríkur landsfundur sjálfstæðismanna er skammt undan. Hún liggur undir ámæli fylgismanna sinna fyrir að halda óhöndulega á málum í stjórnarandstöðunni. Ýmis verk núv. ríkisstj. eins og annarra ríkisstj. geta orkað tvímælis. En í stað þess að benda með rökum á önnur úrræði í málum, sem ríkisstj. hefur um fjallað, hefur mest borið á hrópyrðum í Morgunblaðinu í garð einstakra manna í stjórnarflokkunum. Ríkjandi ástand í forustu Sjálfstfl. hefur orðið þess valdandi, að einstakir menn í áhrifastöðum við aðalmálgagn flokksins hafa komizt í þá aðstöðu að geta mótað stefnu hans og gert það á þann hátt, að verulegum hluta fylgismanna þykir vægast sagt lítið til koma. Nú hyggst flokksforustan reka af sér slyðruorðið fyrir landsfundinn með vantrauststill. þeirri arna.

Meðan ríkisstj. nýtur trausts meiri hl. Alþ., ber henni að sitja og vinna sitt verk. Hitt liggur svo í hlutarins eðli, að því fleiri sem flokkarnir eru, sem að ríkisstj. standa, þeim mun torveldara getur verið fyrir hana að taka skjótar og markvissar ákvarðanir. Full ástæða er fyrir fylgismenn jafnt og forustu vinstri flokkanna í landinu að hyggja að þessu lögmáli stjórnmálanna. Vinstri menn þurfa að þjappa sér betur saman, ná traustari samstöðu og skapa sér skilyrði til að undirbúa málin saman, en ekki hver í sínu lagi. Eina fullnægjandi ráðið til að koma slíkri breytingu til leiðar er að bera fram til sigurs málstað sameiningar vinstrisinnaðra kjósenda, sem SF hafa frá öndverðu sett á oddinn í stefnumótun sinni og málflutningi.

Foringjum Sjálfstfl. er ekki við annað verr en ef sameining íslenzkra kjósenda, sem aðhyllast jafnaðar- og samvinnustefnu, skyldi verða að veruleika. Í því skyni að torvelda sameiningarstarfið er kappkostað að splundra núverandi stjórnarsamvinnu. Neytt er allra bragða til að etja mönnum saman og leitað að veikum hlekkjum, ef takast mætti að rjúfa samstarfskeðjuna. Allir, sem vilja sameiningu vinstri afla í landinu á breiðum grundvelli, þurfa að vera á verði og kappkosta að ónýta herbrögð þeirra foringja Sjálfstfl., sem einskis láta ófreistað til að koma núv. ríkisstj. fyrir kattarnef. Með því hyggjast þeir slá tvær flugur í einu höggi, auðvelda sjálfum sér að ráða við vanda, sem uppi er innan Sjálfstfl., og ala jafnframt á sundrungu vinstra megin á stjórnmálasviðinu. — Þökk þeim, sem hlýddu.