06.03.1973
Sameinað þing: 54. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2331 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ýmislegt kom fram hér í útvarpsumr. í gærkvöld um till. okkar sjálfstæðismanna um vantraust á núv. ríkisstj., sem vert væri að taka til athugunar og meðferðar. Það er aðeins hægt að taka fátt eitt til meðferðar af því, sem ástæða væri til, í þeim orðum, sem ég mun hér segja. Það var t. d. athyglisvert og skemmtilegt að heyra dóm manna um stjórnarandstöðuna. Hæstv. félmrh. sagði, að þetta væri ofsafengin, ofstækisfull og hávaðasöm stjórnarandstaða. Hæstv. sjútvrh. sagði, að stjórnarandstaðan hefði aldrei verið jafnófyrirleitin og ábyrgðarlaus, og hann bætti við: Stjórnarandstaðan 1956–1958 var hreinn barnaleikur. Ef þessi orð eru skoðuð í ljósi þess, að eitthvað líkt var sagt um stjórnarandstöðuna 1956–1958 á sínum tíma, og ef þessi ummæli eru skoðuð í ljósi þess, hvernig þessir hæstv. ráðh. komu fram, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu, og loks ef höfð eru í huga orð hæstv. menntmrh., að vantrauststill. okkar sjálfstæðismanna væri til þess flutt að reka af sér slyðruorðið í stjórnarandstöðu, þá fæst sennilega ekki heil brú í þessa dóma. En allt um það, held ég, að stjórnarandstaðan megi vef við una.

Það var líka athyglisvert að hlýða á dóma manna um gengisfellingu núv. ríkisstj. í des. s. l. og raunar um hinar tvær gengisfellingarnar líka, sem voru meiri en ástæða var til, til þess að hagsmunum útflutningsatvinnuveganna væri borgið. Það var einkum og sér í lagi fróðlegt að hlýða á þá dóma, þegar haft var í huga það ákvæði í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj., sem hljóðar svo: „Ríkisstj. mun ekki beita gengislækkun gegn þeim vanda, sem við er að glíma í efnahagsmálum.“ Hæstv. forsrh. sagði: Gengislækkun var skásti kosturinn. Hæstv. félmrh. sagði: Við vildum heldur ódulbúna gengislækkun en dulbúna, eins og uppbótakerfi. Hæstv. menntmrh. sagði: Ég er á móti uppbótakerfi, gengislækkun er hreinlegri. — Allt er þetta gott og blessað. En hæstv. ráðh. Alþb. nefndu ekki gengisfellingu. Þeir skildu, að menn eiga ekki að nefna snöru í hengds manns húsi.

Það skal tekið skýrt fram, að við sjálfstæðismenn erum ekki að áfellast núv. hæstv. ríkisstj. fyrir að skrá gengi íslenzku krónunnar rétt. Við erum ekki að áfellast ríkisstj. fyrir að horfast í augu við staðreyndir, heldur erum við að gagnrýna ríkisstj. fyrir þá atburðarás, sem átti sér stað sem undanfari gengislækkunarinnar, að meðan helztu útflutningsafurðir okkar hækka í verði um 20–25%, hafi þurft að lækka gengi íslenzku krónunnar. Þannig hefur verið haldið á efnahagsmálunum.

Þá var líka athyglisvert að heyra dóma hæstv. ráðh. um vísitölukerfið og það fyrirkomulag að mæla kaupgjald í samræmi við framfærslu- eða kaupgjaldsvísitölu. Hæstv. forsrh. talaði um gallað, sjálfvirkt vísitölukerfi, hæstv. félmrh. talaði um skaðsemi sjálfvirks vísitölukerfis, og hæstv. iðnrh. talaði um tilgangslausar víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags. Öðruvísi mér áður brá. Fyrsta stjórnarráðstöfun þessara hæstv. ráðh. var sú að setja inn í kaupgjaldsvísitölu 2 vísitölustig, sem frestað hafði verið og hefðu komið sjálfkrafa inn í vísitöluna einum mánuði seinna, ef brbl. hefðu ekki verið gefin út. Þá um leið voru það þessir ráðh., sem settu inn í kaupgjaldsvísitöluna hækkun, sem út úr henni hafði verið tekin vegna helmingi minni hækkunar áfengis og tóbaks en núv. hæstv. ríkisstj. stóð að fyrir nokkru og vildi þá fá út úr vísitölunni. Það var aðeins ein eftirlegukind í hinu fyrrv. stjórnarliði, sem talaði hina gömlu mállýzku. Það var hv. 3. landsk. þm., Bjarni Guðnason, sem sagði, að aðeins væri eftir vísitöluskerðing til þess að fullkomna viðreisnarráðstafanirnar hjá núv. ríkisstj.

En forvitnilegasta ræðan í umr. í gær er e. t. v. sá óskammfeilni rangsnúningur hjá hæstv. iðnrh., þegar hann ræddi um efnahagsmálin og eldgosið í Vestmannaeyjum. Hann talaði um, að stjórnarandstaðan eða ákveðnir þm. vildu nota eldgosið í Vestmannaeyjum til að koma pólitísku höggi á stjórnina. Ég held, að hann hafi ekki verið að beina þessum orðum fyrst og fremst til stjórnarandstöðunnar. Ég held, að hann hafi verið að beina þessum orðum til stuðningsmanna stjórnarinnar sjálfrar. Hann talaði um lágkúrulegan pólitískan tilgang, lítilsigld pólitísk átök, lákúrulegt pólitískt pex o. s. frv.

Það er fróðlegt í þessu sambandi að kanna, hverjir það voru, sem ætluðu sér að nota hörmungar Vestmanneyinga og náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum í pólitískum tilgangi. Við skulum vitna til þess, sem haft er eftir einum af þm. stjórnarinnar, en í Alþýðublaðinu í dag er haft eftir hv. þm. Birni Jónssyni, forseta A. S. Í., eitthvað á þessa leið, með leyfi forseta:

„Björn ræddi nokkuð frv. það, sem ríkisstj. hefði ætlað að bera snarlega fram á Alþ. fyrstu dagana eftir að eldgosið á Heimaey varð. Kvað hann ekkert hafa verið við sig eða verkalýðssamtökin talað um það frv. og hann hefði ekki fregnað af efni þess fyrr en 24 klukkustundum eftir að það hefði verið sýnt foringjum stjórnarandstöðunnar. Hann kvaðst hafa það eftir áreiðanlegum heimildum, að forsrh. hefði ætlað að hraða því frv. sem allra mest gegnum þingið, „meðan stemmningin væri svo góð,“ eins og hann hefði orðað það:

Það er sem sagt upplýst af hálfu stjórnarliða sjálfra, að það var ríkisstj., sem ætlaði að notfæra sér hörmungarnar í Vestmannaeyjum, meðan, „stemmningin væri góð“, til að hylja mistök sín á stjórn efnahagsmálanna í reykskýi frá eldgosinu þar.

Hæstv. iðnrh. sagði um þá sáttagerð, sem gerð var meðal þm. um frv. til l. um viðlagasjóð Vestmanneyinga orðrétt, með leyfi forseta: „Ég var þeirrar skoðunar þá og er það enn, að sú ákvörðun hafi ekki verið rétt.“ Ef hæstv. iðnrh er alvara með þessum orðum, þá afhjúpar hann sína eigin lágkúru, því að það var skylda hans auðvitað, — hafi hann ekki álitið þessa ákvörðun rétta, hafi hann álitið samningana um frv. um viðlagasjóð í Vestmannaeyjum lágkúrulegt pólitískt pex, — að segja fremur af sér ráðherradómi heldur en að halda sér fast í ráðherrastólinn og gangast undir þau lýsingarorð, sem hann valdi þessu frv. og þessum ráðstöfunum.

Það er annars merkilegt, hvernig ráðh. Alþb. reyna að koma því, sem telja vera ávirðingar, yfir á samráðh. sína. Við munum það, að ráðh Alþb. greiddu sératkv. í ríkisstj., þegar ríkisstj. samþykkti lengingu flugbrautanna á Keflavíkur flugvelli, og vildu þannig þvo hendur sínar að því verki. En þeir bera stjórnskipulega ábyrgð á þeirri samþykkt.

Við höfum heyrt hér hæstv. sjútvrh. segja, að hann hafi verið á móti gengisfellingunni, sem núv. hæstv. ríkisstj. stóð að í des. s. l., hann hafi viljað aðrar ráðstafanir. En auðvitað ber hann og Alþb.-ráðh. stjórnarfarslega ábyrgð á þeirri aðgerð. Þeir geta ekki með því að skjóta sér á bak við meðrh. sína firrt sig þeirri stjórnskipulegu ábyrgð. Og ef þessir ráðh. Alþb. vildu vera sjálfum sér samkvæmir og vildu ekki eiga skilið lágkúruna, eins og hæstv. iðnrh, nefndi það, þá eiga þeir auðvitað að segja af sér.

Í umr. í gær auglýsti hæstv. forsrh. eftir úrræðum stjórnarandstöðunnar og hvatti til breiðara stjórnarsamstarfs. Um þetta er út af fyrir sig ekkert nema gott að segja. Í því felst að vissu leyti karlmannleg viðurkenning hæstv forsrh. á úrræðaleysi hans eigin stjórnar, samstöðuleysi innan stjórnarflokkanna til þess að takast á við vandann.

Það er ekki úr vegi að fara yfir þau helztu skilyrði, sem uppfylla verður, til þess að heilbrigt efnahagsástand ríki í þjóðfélaginu, sérstaklega þar sem við slíka yfirferð verður augljóst, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur brotið á móti flestum þessara skilyrða og látið þau lönd og leið.

Fyrst og fremst verður svo að vera um hnútana búið, að atvinnuvegir landsmanna hafi rekstrargrundvöll. Vegna þess verða frjálsir samningar atvinnurekenda og launþega að byggjast annars vegar á greiðslugetu atvinnuveganna og hins vegar réttmætri hlutdeild launþeganna í þjóðartekjunum. Víst er, að þessu skilyrði var ekki fullnægt, þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók að hluta til frjálsan samningsrétt úr höndum aðila vinnumarkaðarins með málefnasamningi sínum og loforðalista og sagði aðilum vinnumarkaðarins fyrir um, hvernig þeir ættu að semja. Víst er einnig, að þessu skilyrði var ekki fullnægt, þegar hæstv. forsrh. sagði við aðila vinnumarkaðarins við samningana 1971, að þeir skyldu bara fleygja sér til sunds, þótt þeir sæju ekki til lands, þótt þeir vissu það fyrir fram, að atvinnuvegirnir gætu ekki borið þau samningskjör, sem um var að lokum samið. Og víst er um, að þessu skilyrði er ekki fullnægt, ef fylgt er skoðun hæstv. sjútvrh., sem hann gerði grein fyrir hér fyrir nokkrum dögum, að auðvitað ætti að semja um kjörin á togurunum, án þess að vitað væri, hvernig rekstrargrundvöllur þeirra yrði tryggður. Það er ljóst mál, ef ekki er virt þetta skilyrði, að frjálsir samningar aðila vinnumarkaðarins byggist á greiðslugetu atvinnuveganna og réttmætri hlutdeild launþega í þjóðartekjunum, að þá leiðir það til uppbótakerfis og gengisfellingar, eins og raun ber vitni um í valdaferli núv. ríkisstj. Það er einn liðurinn í frjálsum samningum þessara aðila, hvernig mæla skuli kaupið við verðlagsbreytingar. Og það verður að leggja áherzlu á, að endurskoðaður verði grundvöllur að útreikningi kaupgjaldsvísitölunnar með frjálsu samráði aðila vinnumarkaðarins. Það er skoðun mín í þeim efnum, að leitast beri við að taka t. d. verð áfengis og tóbaks út úr kaupgjaldsvísitölunni í tengslum við slíka endurskoðun. En það ber líka að íhuga, hvort önnur viðmiðun getur ekki verið báðum aðilum vinnumarkaðarins hagkvæmari, eins og einhvers konar vísitala þjóðarframleiðslu, miða kaupgjaldið við vísitölu þjóðarframleiðslu eða þjóðartekna. Spurningin er í raun og veru, hvort aðilar vinnumarkaðarins eru ekki jafnvel settir með frjálsan samningsrétt um grunnkaup fremur en að binda sig svo fast við kaupgjaldsvísitölu sem stundum hefur orðið raunin á. Ég nefni þetta ekki að tilefnislausu, vegna þess að núv. hæstv. ríkisstj. hefur gert á margan hátt allt, sem í valdi hennar hefur staðið, til þess að skekkja og rengja kaupgjaldsvísitöluna. Hún gerði það fyrst t. d. með því að fella niður persónuskattana, sem voru í kaupgjaldsvísitölunni, og leggja á í stað þeirra beina skatta, sem ekki eru í kaupgjaldsvísitölunni. Hún hefur gert það með margs konar niðurgreiðsluaðferðum. Hún hefur gert það með því að hleypa verðhækkunum út í verðlagið við upphaf vísitölutímabils og þannig reynt að komast hjá því, að launþegar fengju uppbætur í samræmi við þær verðhækkanir fyrr en seint og síðar meir. Út af fyrir sig er þarna verið að reyna að hægja á vísitölu- og verðbólguskrúfunni, og að því leyti til er þetta ekki lasts vert. En á hinn bóginn er þetta í fullri andstöðu við þá skoðun, sem þeir flokkar, sem að núv. stjórn standa, höfðu áður en þeir komu að stjórn.

Það er og vitað mál, að verðsveiflur og aflabrestur í sjávarútvegi geta leitt til versnandi afkomu atvinnuveganna, án þess að tilkostnaður þeirra innanlands taki breytingum til hækkunar. Til þess að koma í veg fyrir slíkar verðsveiflur og sveiflur í tekjum útflutningsatvinnuveganna, var verðjöfnunarsjóður stofnaður á tímabili fyrrv. ríkisstj. Núv. ríkisstj. hefur gert hann óvirkan um skeið og reyndar notað hann að hluta til annars en upphaflega var ætlað, til þess að halda uppi áframhaldandi eyðslustefnu sinni.

Þá er og nauðsynlegt til þess að mæta slíkum sveiflum að efna til fjölbreyttari framleiðslu hér á landi, stuðla að útflutningi iðnaðarvara, eins og gert var með aðild okkar að EFTA, sem fjórfaldaði útflutning iðnaðarvara annarra en áls og áttfaldaði útflutning iðnaðarvara, ef álið er tekið með. Í framhaldi af þessu er því gleðilegt, að núv. hæstv. ríkisstj. eða hluti af flokkum þeim, sem að henni standa, hefur skipt um skoðun og fullgilt viðskiptasamning okkar við Efnahagsbandalagið. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að halda áfram virkjun fallvatna og því að koma upp stóriðju hér á landi samhliða sterkum iðnaði almennt.

Það er fróðlegt að rifja það upp, sem hæstv. iðnrh. sagði um stóriðjuframkvæmdir fyrrv. ríkisstj., að þær hefðu miðazt við það að selja útlendingum ódýrt vinnuafl. Þar á hann væntanlega við álverið í Straumsvík. Í fyrsta lagi er ekki vitað annað en launakjör þar séu jafngóð eða e. t. v. betri en annars staðar hér á landi. Og í öðru lagi er ekki vitað annað en launakjör þar séu jafngóð eða betri en í samsvarandi iðjuverum í Vestur-Evrópu. En hæstv. iðnrh. er farinn að gera sér grein fyrir því, að stórvirkjun fallvatnanna og hin öra þróun, sem verður að vera í þeim efnum hér á landi, ef við eigum og viljum tryggja lífskjör okkar, verður ekki að veruleika, nema við komum upp stóriðju í samvinnu við útlendinga. Sendinefndir á hans vegum hafa farið austur og vestur um mörg lönd til þess að leita slíkra samninga. Þótt þær samningaumleitanir hafi verið hafnar, áður en þessi ríkisstj. komst til valda, hefur þeim sem betur fer verið haldið áfram, þvert á móti því, sem ætla mátti af fyrri ummælum hæstv. iðnrh. Hæstv. iðnrh. segir, að sá meginmunur sé á, að nú sé um íslenzkan eignarrétt eða aðild að ræða, en áður hafi útlendingar átt hér einir hlut að máli. Auðvitað er það á valdi okkar í hverju tilviki, hvort við viljum sjálfir eiga iðjufyrirtækin eða selja orkuna til þeirra. En það verður fróðlegt að kanna, með hvaða hætti hæstv. iðnrh. ætlar sér þetta fyrirkomulag, hvers konar láns- eða leigukjör verði þá öðruvísi en samningarnir við ÍSAL og hvort raunverulegur íhlutunar- og stjórnunarréttur Íslendinga verði meiri eða minni. En víst er um það, að þótt fast hafi verið eftir slíkum samningum við útlendinga sótt, þá eru engir slíkir samningar fyrir hendi, og sú staðreynd ásamt með öðru hefur orðið til þess, að virkjunin við Sigöldu hefur frestazt um eitt ár til tjóns og skaða fyrir iðnað landsmanna, sem nú er, og til tjóns og skaða fyrir alla rafmagnsnotendur á orkuveitusvæði Landsvirkjunar.

Auk þess, að rekstrargrundvöllur atvinnuveganna er frumskilyrði heilbrigðs atvinnu- og efnahagslífs er annað frumskilyrði, að viðskiptajöfnuður haldist við útlönd í vörum og þjónustu, að jafnvægi sé á milli framboðs og eftirspurnar, sem er og forsenda réttrar og stöðugrar gengisskráningar. Ef um slíkt jafnvægi er að ræða, þá getur frjáls verzlun og samkeppni komið í stað verðlagshafta, boða og banna. Skipulag verðlagsákvarðana hefur reynzt algerlega gagnslaust, orðið til þess m. a., að nauðsynjavörur eins og neyzlufiskur hafa horfið af markaðinum. Það var eitt sinn sagt, að ekki væri að marka nytsemi og gagnsemi verðlagshafta, boða og hanna í þeim efnum í höndum viðreisnarstjórnar, því að hún meinti ekkert með þeim, kynni ekki að framfylgja þeim. En ég fullyrði og staðhæfi, að verðlagshöft, boð og bönn í höndum núv. hæstv. ríkisstj. eru pappírsgögn ein og gera engum gagn, en öllum tjón, og eru fremur til þess fallin að hækka verð nauðsynjavara eða skapa vöruskort. Verðlagseftirlit og eftirlit með hringamyndunum á að leysa það kerfi af hólmi, sem nú er, til þess að tryggja samkeppni um meiri gæði og lægra verð, til þess að tryggja það, að kaupendur ráði markaðinum, að um neytendamarkað sé að ræða, en ekki seljenda.

Auðvitað getur ekki verið um að ræða jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar, þegar þjóðarbúskapurinn er rekinn svo, að halli í viðskiptunum við útlönd skiptir þús. millj. kr. ár eftir ár og er borinn uppi með erlendri skuldasöfnun á þann veg, að á síðustu tveim árum hafa fastar erlendar skuldir aukizt um meira en 50% eða 6500 millj. kr.

Hæstv. forsrh. nefndi það í sinni ræðu, að kaupmáttaraukning hefði verið meiri á tímabili núv. ríkisstj. en áður og einkaneyzla í hámarki. En hvaða vandi er að sýna fram á kaupmáttaraukningu eða aukningu einkaneyzlu um stuttan, afmarkaðan tíma, ef þessi kaupmáttaraukning og neyzluaukning er borin uppi af lántökum? Það er sjálfsblekking, ef einstaklingur telur sig hafa meiri efni, ef hann eyðir í daglegar lífsnauðsynjar láni, sem hann fær til fjárfestingar. Það er ósköp auðvelt að fjármagna kaupmátt um stuttan tíma, ef menn vilja taka til þess lán. En það er einmitt það, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur gert til þess að reyna að blekkja fólkið, og jafnvel hefur hún sjálf verið svo blind, að þetta hefur sumpart einnig orðið að sjálfsblekkingu. Kaupmáttaraukningin er fölsk þegar af þeirri ástæðu, að hún byggist ekki á verðmætasköpun í þjóðfélaginu, ekki á framleiðsluaukningu, heldur á aukningu erlendra skulda, sem munu verða okkur fjötur um fót í framtíðinni.

Þriðja grundvallarskilyrði þess, að um heilbrigt efnahagslíf sé að ræða með þjóðinni, er, að ríkisbúskapurinn sé rekinn með forsjálni. Útblástur hins opinbera og samsvarandi rýrnun ráðstöfunartekna einstaklinga eru til þess fallin í eðli sínu að vera verðbólgumyndandi, þegar ríkissjóður er rekinn með greiðsluhalla, eins og var 1971, og ég hygg raunar, að hafi verið endurtekið á síðasta ári. Hæstv. fjmrh. vildi láta menn halda annað. En þegar það mál er skoðað ofan í kjölinn og tekið með í reikninginn, hvaða tekjur eru færðar ríkissjóði til tekna á síðasta ári, sem áður var ekki venja að færa til tekna fyrr en síðar, þá er um greiðsluhalla að ræða þegar tekið er tillit til þess, að fjárlög hafa tvöfaldazt á tveimur árum, og þegar tekið er tillit til þess, að fjárlög yfirstandandi árs eru þeim annmörkum háð, að stórar upphæðir eru þar ekki meðtaldar, þá er ljóst mál, að ríkisbúskapurinn er í raun rekinn með greiðsluhalla og sízt af öllu með þeirri forsjálni, sem nauðsynlegt er til að hamla á móti dýrtíð og verðbólgu.

Þannig vantar í fjárl. 500 millj. kr. til niðurgreiðslna samkv. viðurkenningu hæstv. fjmrh. sjálfs. Þannig vantar í fjárl. jafnvel 160 millj. kr., sem bátaútvegurinn fékk í kjölfar ákvörðunar nýs fiskverðs. Og þannig er ekki afstaða tekin til af hálfu hæstv. ríkisstj., hvort greiða eigi iðnaðinum í landinu samsvarandi upphæð og nemur niðurfellingu launaskatts og jafnháu mótframlagi til bátaútvegsins. Á þetta minntist hæstv. iðnrh. ekki. Þá er óleyst mál fyrir ríkissjóð, hvernig koma á togurunum á flot.

Það má og nefna í þessu sambandi, að hæstv. fjmrh. mun hafa kallað fulltrúa lífeyrissjóðanna í landinu á fund sinn nú fyrir helgi, og tilefnið var, að það skorti 2000 millj. kr. í fjárfestingarlánasjóði landsmanna, og það var farið fram á 400 millj. kr. lán úr lífeyrissjóðum landsmanna með 5% vöxtum og verðtryggingu. Slík lán voru tekin til húsnæðislánakerfisins á síðasta ári, og reynslan hefur sýnt, að raunvextir af þessu láni, sem húsnæðislánakerfið tók á síðasta ári til að geta staðið þá í skilum við húsbyggjendur, eru í raun réttri 16–18% á ári þetta fyrsta ár, sem það lán er við lýði. Og auðvitað verða þessir vextir ekki greiddir af öðrum en húsnæðislánakerfinu sjálfu. Það verður annaðhvort að ske, að húsbyggjendur greiða þessa háu vexti eða landsmenn allir í formi hærri skatta. Og nú á að fara lengra út á þessa braut. Það á að endurlána þessi lán, sem beðið er um hjá lífeyrissjóðunum, til atvinnuveganna. Sagt er jafnvel, að fiskveiðasjóður sé byrjaður á slíkum lánveitingum, og er þó vandséð, hvernig atvinnutækin eigi undir slíkum lánum að standa. Þetta eru líklega efndirnar á því atriði málefnasamningsins, sem gat um það, að lengja ætti lánstíma stofnlána atvinnuveganna og lækka vexti slíkra lána.

Það er og ljóst, að ef ríkisbúskapurinn á að vera rekinn með því aðhaldi, sem nauðsynlegt er, verður að stilla skattaálögum í hóf og hyggja betur að því en gert hefur verið með fyrstu sporum núv. hæstv. ríkisstj., að ekki sé gengið óhæfilega langt í beinni skattheimtu. Hæstv. fjmrh. hrósaði sér af því í ræðu sinni í útvarpsumr. í gær, að skattvísitalan væri ákveðin 128 í stað þess að ákveða hana 110, sem breyting á framfærsluvísitölu milli áranna 1971 og 1972 ella benti til. Skattvísitalan 128 miðaðist við þá hækkun á almennum launatekjum, sem búast mætti við. Þetta hljómaði ákaflega fagurlega. En við skulum kanna nánar, hvernig þetta kemur niður, sérstaklega á hinum lægst launuðu. Það er talið, að tekjur hinna lægst launuðu, eins og þeirra, sem taka laun samkv. lægsta taxta Dagsbrúnar eða taxta hafnarverkamanna, hafi hækkað á milli þessara ára um 33–38%. Skattvísitala 128 gerir það að verkum, að hlutfallslega þyngist skattbyrðin á hinum lægst launuðu. Og svo var hæstv. félmrh. að hrósa sér og núv. ríkisstj. af því að hugsa aðallega um hag hinna lægst launuðu. Það er ljóst, að leiðrétta verður það óréttlæti, sem þessu fólki er sýnt.

Í umr. um frv. til fjárl. á þingi nú fyrir áramótin lét ég í ljós þá skoðun, að hvað sem liði heildarendurskoðun skattalöggjafarinnar, væri algerlega óviðunandi að gera ekki nokkrar breytingar á gildandi skattalöggjöf nú þegar á þessu þingi, og þá á ég við annað og meira en þau brbl., sem ríkisstj. neyddist til að gefa út að áskorun Sjálfstfl., því að það eru fleiri en eldra fólkið, sem hafa orðið fyrir barðinu á hinni nýju skattalöggjöf. Sannleikurinn er sá, að hún kemur almennt mjög óréttlátlega niður, og þess vegna er brýn nauðsyn, að hún verði leiðrétt.

Sjálfstæðismenn hafa þegar á þessu þingi flutt till. um, að bætur elli- og örorkulífeyrisþega verða ekki skattlagðar, til að koma í veg fyrir, að mistökin frá s. l. sumri séu endurtekin, og telja brbl. ríkisstj. ekki fullnægjandi í þeim efnum.

Mörg fleiri meginatriði í skattalögunum þarfnast lagfæringar. Meðal þeirra má nefna:

1) Að almennar tekjur verkamanna verði ekki skattlagðar og persónufrádráttur miðaður við það.

2) Að bil skattþrepa sé aukið, svo að fólk með meðaltekjur komist ekki strax í hæsta skattstiga.

3) Að fólk greiði ekki undir neinum kringumstæðum meira en helming tekna til hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga.

4) Að svo miklu leyti sem eigi er unnt að draga úr eyðslu hins opinbera, sem birtist í því, að í tíð núv. ríkisstj. hafa útgjöld fjárl. tvöfaldazt, verði tekna aflað með óbeinum sköttum og í því sambandi kannað, hvort unnt er að gera þá kerfisbreytingu að breyta söluskatti í virðisaukaskatt til þess að tryggja öruggari skattheimtu og örva framleiðsluafköst.

5) Að fella greiðslu fjölskyldubóta inn í skattakerfið og fella þá niður samsvarandi útgjöld ríkissjóðs og nú felast í fjölskyldubótum með fyrsta barni, enda fái þeir, sem svo eru tekjulágir, að þeir geti ekki nýtt persónufrádrátt, þá upphæð greidda.

Stefna okkar sjálfstæðismanna hefur verið sú, að skattleggja beri fremur eyðsluna með óbeinum sköttum en tekjuöflunina með beinum sköttum. Sú stefna á vaxandi fylgi að fagna. Menn gera sér grein fyrir því, að í kjölfar tekjuöflunar einstaklinga á sér stað verðmætasköpun í þjóðfélaginu, sem við getum ekki verið án, ef við viljum bæta lífskjör almennings í landinu.

En núv. annmarka á skattakerfinu sjá allir, þegar barnlaus hjón eru komin upp í hæsta skattstiga, 56–57% af hverri krónu, eftir að hafa aðeins 377 þús. kr. í tekjur. Og fyrir hvert barn er aðeins um persónufrádrátt að ræða að upphæð 38 400 kr.

Ég hef farið nokkrum orðum um ýmis höfuðatriði, sem ég tel að virða beri, til þess að heilbrigt efnahagslíf geti átt sér stað í landinu, og hefði gjarnan viljað enn fremur leggja áherzlu á stjórn peningamála almennt. Þetta hef ég gert bæði vegna áskorunar hæstv. forsrh. hér í umr. í gær og líka til þess að sýna, að þessi skilyrði hafa verið þverbrotin af hálfu núv. ríkisstj.

Ræða hæstv. sjútvrh. um landhelgismálið í gærkvöld var kapítuli út af fyrir sig. Hæstv. ráðh. nefndi ekki togaraverkfallið, sem búið er að standa í 6 vikur, og eins og stendur, er því miður ekki útlit fyrir að leysist. Blað þessa hæstv. ráðh. taldi það refsivert athæfi hjá fyrrv. ríkisstj., þegar slíkt verkfall hafði staðið í 3–4 vikur. Það átti að loka ráðh. fyrrv. ríkisstj. inni í hegningarhúsi fyrir að hafa ekki leyst það verkfall. Hvað á að gera við núv. hæstv. ráðh? Ég spyr þá, sem gerðust dómarar fyrr á árum.

Hann talaði mjög um siðareglur annarra niðrandi rómi, en leyfði sér að gera að uppistöðu máls síns árásir á mann, sem ekki á nú sæti á þingi, og vandaði þar aðallega um, að upplýst hefði verið, að um skoðanamun hefði verið að ræða á milli hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. í sambandi við samningaumleitanir til að leysa fiskveiðideiluna við Breta og Vestur Þjóðverja. Til þessa þarf ekki Morgunblaðið. Ýmsar aðrar blaðagreinar, ræður, blaðaviðtöl við þessa hæstv. ráðh., bæði hérlendis og erlendis, hafa orðið til þess, að slíkur skoðanamunur hefur verið almannarómur. Og skemmst er nú að minnast frásagnar eins fyrrv. sendiherra Íslands í útvarpi fyrir skömmu af því háttalagi íslenzkra ráðh. að mæta þrír til samninga við einn erlendan ráðh. og þær ályktanir, sem aðrir mundu af því draga.

Það er alveg öruggt, að ef einhver hefur aðra skoðun í einhverju efni á meðferð landhelgismálsins en Lúðvík Jósepssyni, hæstv. sjútvrh., hentar, þá er hann vinur óvina okkar, bandamaður Breta. „Ég einn, hæstráðandi til sjós og lands, veit,“ getur þessi hæstv. sjútvrh. sagt. Og mér kæmi ekki á óvart, að hér á eftir mér stigi upp í pontuna hirðskáld Hundadagakonungs til þess að syngja Lúðvík konungi sínum lof og dýrð í landhelgismálinu. Það kom fram í umr. um togaraverkfallið á dögunum, þegar ég benti á, að samkv. upplýsingum, er lægju fyrir hjá Fiskifélagi Íslands, hefðu Englendingar landað auknum afla af Íslandsmiðum eftir útfærslu fiskveiðilögsögunnar 1. sept. til 1. des. s. l., að þá gerði hæstv. ráðh. þessa sömu aths. og ég gat um áðan, að væri venja hans, ef eitthvað óþægilegt kæmi upp á bátinn. En nokkrum dögum síðar gerði hv. 6. landsk. þm., Helgi Seljan, fsp. til dómsmrh. vegna kvörtunar um veiði brezkra togara í landhelgi fyrir Austurlandi, bæði eldri fiskveiðilögsögunni og yngri. Þá reis hv. 5. þm. Vesturl., Jónas Árnason, upp og upplýsti þm. um leyniáætlun Breta, en þeir ætluðu hvorki meira né minna en að veiða 170 þús. tonn á 10 mánuðum, sem Alþjóðadómstóllinn hafði með ábendingu sinni ætlað þeim á heilu ári. Var á hv. þm. að skilja, að þetta væri alls ekki útilokað. Þrátt fyrir þverrandi afla hér á miðum og þrátt fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar var það ekki fjarri huga þessa hv. þm., að Bretar gætu með þessum hætti náð jafnmiklum afla á ársgrundvelli og þeir höfðu jafnvel hæst náð áður þrátt fyrir útfærslu landhelginnar. Nú skal ég ekki leggja dóm á þessa skoðun hv. þm., hvort það er í raun og veru rétt, að útfærslan sé svona vitagangslaus. Ég hafði þó vonað, að þetta væri ekki svo og það gæti e. t. v. verið eitthvað til í því, sem hæstv. sjútvrh. sagði, að Bretar vildu bera sig mannalega og gefa upplýsingar um mikinn afla á Íslandsmiðum þrátt fyrir útfærsluna. En ef þetta er svo, að Bretar taka jafnmikinn afla og áður, meðan okkar eigin skip fá minni afla og meðan okkar eigin togarar eru bundnir við bryggju í verkfalli í 6 eða fleiri vikur, þá finnst mér, að við verðum að hugsa okkar gang.

Þótt landhelgismálið sé tilfinningamál hjá okkur öllum Íslendingum, þá er það þess eðlis, að við verðum að kanna með kaldri, raunsærri skynsemi, á hvern hátt við tryggjum bezt friðun fiskistofna og yfirráð okkar yfir veiðunum. Við höfum átt í samningaviðræðum við Breta og Vestur-Þjóðverja. Þar hefur verið talað um magntakmarkanir, og af þessum fréttum og upplýsingum um leyniáætlun Breta sést, að þær eru ekki einhlítar, enda er haft fyrir satt, að sá fiskur, sem Bretar fái fyrir Austurlandi, sé fremur þyrsklingur en þorskur, svo smár sé hann. Þess vegna duga ekki magntakmarkanir einar, það verða til að koma sóknartakmarkanir, svæðistakmarkanir, tímatakmarkanir og friðunarráðstafanir, bæði almennar, er gilda fyrir alla, bæði Íslendinga og útlendinga, svo og sérstakar friðunarráðstafanir, er virða rétt íslenzkra línu- og netabáta.

Almennar friðunarráðstafanir, sem við hefðum getað sett einhliða, hafa verið vanræktar og undirbúningur að þeim látinn undir höfuð leggjast af hæstv. sjútvrh. allt fram til þess, að landhelgin var færð út. Síðan hefur n. alþm. að vísu að þessu starfað, en haft takmarkaðan tíma til svo umfangsmikils verkefnis.

Það er rétt, að við gerum okkur grein fyrir því, — og ég vona, að ég verði leiðréttur, ef það er misskilningur, — að í sumum þessum atriðum, sem ég gat um, að samningaviðræður hefðu snúizt um, þá er ekki eingöngu verið að tala um fiskveiðar útlendinga í hinni nýju 50 mílna landhelgi, heldur á Íslandsmiðum almennt, sem eru af Norðaustur-Atlantshafsnefndinni skilgreind sem svæði 5A, en það er 161 þús. ferkílómetrum stærra svæði en 50 mílna lögsagan, sem er 216 þús., ferkílómetra, ef ég fer rétt með.

Það er nokkurs virði, að við höfum yfirráð yfir þessu stóra hafsvæði og þar með í raun og veru landgrunninu öllu. Ég er ekki að segja, að við eigum að gera samninga, það fer eftir því, hvaða samningar eru í boði. En matið á því, hvort við eigum að gera samninga eða ekki, hygg ég eiga að byggjast á því, sem hæstv. félmrh. Hannibal Valdimarsson sagði eitt sinn hér á Alþ., að hann teldi það velta á því, hvort við með samningum takmörkuðum meira veiðar útlendinga hér við land en án slíkra samninga og hvort við með þeim hætti gætum komið í veg fyrir viðvarandi hernaðarástand og hættuástand, sem við vitum öll af fréttum, nú síðast í dag, að eru fyrir hendi á fiskimiðum hér. Þetta verður auðvitað að meta af rósemi og raunsæi. Það verður að skiptast á skoðunum, og það verður að vera óhætt að skiptast á skoðunum í þessu efni, án þess að landráðabrigzlun sé beitt.

Hæstv. sjútvrh. hefur sjálfur sagt, að hann vildi taka upp samninga. Hann gat um samþykkt Alþ, frá 15. febr. 1972, réttilega að því er snertir útfærslu í 50 mílur 1. sept., en gleymdi að geta þess, að samþykkt Alþ. lagði svo fyrir, að áfram yrði leitað samninga til lausnar á þessari fiskveiðilögsögudeilu. Sú skylda hvílir á núv. hæstv. ríkisstj.

Það er ástæða til að benda á, að sá tími getur komið, að það þurfi að birta greinargóða skýrslu um gang samningaviðræðna frá fyrstu tíð. Það getur verið, að andstæðingar okkar í þessu máli verði fyrri til ella, og það væri réttara, að við hefðum þá þegar lagt plöggin á borðið.

Hæstv. sjútvrh. gat um það í ræðu sinni í gær, að Alþ. hefði samþykkt með ályktun sinni 15. febr. 1972 að segja upp landhelgissamningunum við Breta og Vestur-Þjóðverja frá 1961. Þetta er rangt. Alþingi samþykkti aldrei að segja þessum samningum upp. En í ályktun Alþ. fólst heimild fyrir ríkisstj. að segja þeim samningum upp, og það var skýrt tekið fram af hálfu formanni Sjálfstfl., að slík ákvörðun væri á ábyrgð ríkisstj. einnar. Nú stöndum við í þessum efnum gagnvart því, að Alþjóðadómstóllinn hefur talið sig eiga lögsögu um lögmæti útfærslunnar, og þá verðum við og hljótum að taka til meðferðar, með hvaða hætti við eigum að reka mál okkar fyrir Alþjóðadómstólnum. Við skulum ekki leyfa okkur að fara út í harðvítugar deilur um það, en skulum hugleiða þá kosti, sem fyrir hendi eru.

Það er margt og ég hygg flest, sem bendir til þess, að við eigum að reka mál okkar til sóknar og varnar fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Það er í fyrsta lagi alveg ljóst, að það er skaði fyrir málstað okkar, ef við gerum það ekki, ef málsástæður okkar eru ekki skýrðar og rök okkar ekki tilgreind. Það er í öðru lagi ljóst, að það er ávinningur fyrir okkur að mæta. Við fáum með málflutningi fyrir Alþjóðadómstólnum vettvang til þess að kynna þörf okkar fyrir stærri fiskveiðilögsögu. Við fáum vettvang til þess að skýra þeim, sem mestan áhugann hafa á fiskveiðiréttindum, í hverju ráðstafanir okkar eru fólgnar og hvaða lífshagsmunir liggja þar að haki. Það væri ófyrirgefanlegt að glopra úr höndum okkar þessum möguleika, þessu tækifæri til þess að vinna málstað okkar lið. Í þriðja lagi mundi það vera þá á valdi okkar, hver gangur málsins yrði, hver hraði væri á málsmeðferð dómstólsins. Hér á ég ekki við, að við eigum með réttarfarslegum brögðum að tefja málsmeðferðina, en eðlilegar óskir okkar mundu felast í því að leggja fram margvísleg gögn um fiskistofnana hér við land og önnur atriði málsins, sem geta skipt máli við dómsúrskurð. Það er og alveg ljóst, að úrskurður dómstólsins gengur þá ekki, fyrr en hafréttarráðstefnunni er lokið. Í fjórða lagi tel ég, að við séum í raun og veru jafnháð úrskurði dómstólsins, hvort sem við mætum eða mætum ekki. Við getum með sama hætti framfylgt lögsögu okkar. En í fimmta og síðasta lagi er trú okkar á málstað okkar svo sterk, að við höfum lög að mæla, að úrskurður dómstólsins hljóti að ganga okkur í vil. Verður hann þá lokasigur okkar í þessu máli.

Það er algerlega útilokað, miðað við þær fréttir, sem við höfum af undirbúningsfundum hafréttarráðstefnunnar, annað en að meiri hluti þjóða á þeirri ráðstefnu muni aðhyllast réttarreglur, sem fela í sér heimildir okkur til handa til þess að gera a. m. k. þær ráðstafanir, sem við erum þegar búnir að gera varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar, og jafnvel er allt útlit fyrir, að meiri hluti slíkrar ráðstefnu mundi fallast á mun rýmri heimildir fyrir strandríki til útfærslu fiskveiðilögsögu sinnar. Sé gengið út frá þessu sem staðreynd, og þótt ekki náist tilskilinn aukinn meiri hluti, eins og þurfti á fyrri hafréttarráðstefnunum, 1958 og 1960, eða 2/3 atkvæða, þá er samt útilokað, að dómur Alþjóðadómstólsins gangi okkur á móti, á móti meiri hluta þjóða á hafréttarráðstefnu.

Að öllu þessu athuguðu ber okkur að kanna ítarlega í landhelgisnefnd og utanrmn., með hvaða hætti við eigum nú að haga meðferð málsins. Við höfum því miður látið margt miður fara við meðferð landhelgismálsins, og verst af öllu er, ef raunin er nú eftir missiris reynslu af útfærslunni á hagstæðasta tíma fyrir okkur og óhagstæðasta tíma fyrir andstæðinga okkar, að útfærslan er ekki virt.

Ýmsir ráðherrar létu í veðri vaka í umr. í gær, að goðgá væri að skipta um stjórn eða láta fara fram kosningar vegna landhelgismálsins, og ýmsir aðrir bættu við eldgosum, mannamissi og skiptöpum. Ég hygg, að það sé aldrei eins mikil nauðsyn á styrkri stjórn, ákveðinni stjórnarstefnu, eins og þegar slíkir atburðir steðja að og þegar svo mikilvæg mál eru til úrlausnar eins og landhelgismálið. Þess vegna tel ég, að einmitt slík viðfangsefni renni stoðum undir till. okkar sjálfstæðismanna um vantraust á núv. ríkisstj., miðað við frammistöðu hennar í þeim málum og öðrum.

Herra forseti. Ég skal fara að ljúka máli mínu. Ég vil aðeins drepa á nokkur ummæli frá umr. í gær um sjálfa till. um þingrof og nýjar kosningar. Hæstv. forsrh. taldi að vísu um sýndarmennsku að ræða. Það hefði verið unnið svo vel að málefnasamningi núv. ríkisstj., að umbjóðendur stjórnarflokkanna mættu vel við una, og stjórnarflokkarnir hefðu ekki brugðizt trausti kjósenda sinna. Hæstv. forsrh. var þannig borubrattur. Nú vildi ég skjóta því að honum, að það er háttur margra forsrh. erlendis að efna til þingrofs og nýrra kosninga, þegar þeir telja sig standa vel í áliti kjósenda. Vill hann nú ekki taka það til athugunar, úr því að hann stendur svo vel hjá kjósendum sínum að eigin mati, hvort það bor í sig ekki fyrir hann að fá traustsyfirlýsingu. Ég þykist vita, að ýmsir stjórnarliðar muni taka þessa ábendingu mína sem gamanmál, og lái ég þeim það ekki.

Hæstv. menntmrh., Magnús Torfi Ólafsson, sagði, að vantrauststill. væru annaðhvort fluttar vegna þess, að stjórn hafi ekki lengur stuðning innan þingsins, og ættu þá rétt á sér eða sýndarmennsku, og taldi hann augljóst, að sýndarmennska væri á ferðinni hjá sjálfstæðismönnum við flutning þessarar till. Nú er það svo, að einn flokksbróðir hans, hv. 3. landsk. þm., Bjarni Guðnason, hefur sagt upp hollustu við núv. stjórn og lýst yfir, að það sé sama, hvort hér sitji hægri eða vinstri stjórn. Vitað er, að tveir aðrir flokksbræður hæstv, menntmrh. og ýmsir aðrir stjórnarliðar úr öðrum stjórnarflokkum hafa lýst yfir andstöðu við stjórnarfrv., ýmist stjórnarfrv., sem ekki hefur verið sýnt hér innan þingsalanna, eða stjórnarfrv., sem ekki hefur komið frá n. Og hv. 6. þm. Norðurl. e., Björn Jónsson, hefur sagt, eftir því sem Alþýðublaðið hefur eftir honum, að hefði það frv., sem ríkisstj. hafði í smíðum og hæstv. iðnrh. talaði sem mest um, verið lagt fram, þá mundi hann hafa brugðizt við á þennan hátt, með leyfi forseta: „Bætti hann“, þ. e. Björn Jónsson, „því við, að hefði þetta frv. komið fram í þinginu, hefði hann á sömu stundu snúizt gegn stjórninni.“ Ég held þess vegna, að það sé ástæða til að kanna fylgi stjórnarinnar innan þings, með tilvísun til þess, sem ég hef rakið.

Ég vil svo að lokum minnast á og vitna til ummæla hæstv. iðnrh., en hann sagði í ræðu sinni orðrétt: „Engum manni dylst, að mikið djúp er nú staðfest milli Alþ. og þjóðarinnar“. Og enn fremur: „Andrúmsloftið hér í þingsölunum er allt annað en meðal landsmanna“. Ef þetta er rétt hjá hæstv. iðnrh., að mikið djúp sé nú staðfest milli Alþ. og þjóðarinnar og allt annað andrúmsloft sé hér í þingsölunum en meðal landsmanna, hver eru þá sterkari rök fyrir því að efna til nýrra kosninga? Fyrsti fylgismaður till. um þingrof og nýjar kosningar ætti því að vera hæstv. iðnrh., ef hann vill vera sjálfum sér samkvæmur, því að auðvitað er það skilyrði fyrir þingræðislegum og lýðræðislegum stjórnarháttum, að það sé sams konar andrúmsloft innan veggja þingsala og meðal landsmanna, og það á ekki að vera djúp staðfest á milli Alþ. og þjóðarinnar.

Það er m. a. til að fá úrskurð um það, hvort landsmenn beri traust til þess Alþ., sem nú situr, til þeirrar stjórnarstefnu, sem fylgt hefur verið, að till. okkar sjálfstæðismanna er borin fram. Það er trú okkar, að landsmenn hafi misst allt traust á núv. stjórn og stjórnarstefnu. Það er þjóðarnauðsyn, að frá þeirri stefnu verði horfið og ný, traust stjórnarstefna upptekin.