06.03.1973
Sameinað þing: 54. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2343 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður skaut að mér persónulegu skoti hér áðan. Það var ekki fast skot, það var laust skot, eins og þeir segja í landhelgisgæzlunni, það var púðurskot. Hann minntist á, að það hefði verið samið leikrit fyrir nokkrum árum. Þetta leikrit var byggt á sögunni um Jörund hundadagakonung. Það var samið undir viðreisn. Það var samið, þegar viðreisnarstjórnin hafði setið í ein tíu ár án þess að hafast nokkurn tíma nokkuð að í landhelgismálinu, án þess að manna sig nokkurn tíma upp í það að gera eitt né neitt í landhelgismálinu. Og í lokasöng þessa leikrits er þetta erindi:

Þjóð sú með andlitin armæðufull,

sem ofan á bringuna hanga,

mun e. t. v. seinna meir eignast menn,

sem uppréttir þora að ganga.

Annars var erindi mitt hingað í stólinn fyrst og fremst að koma á framfæri upplýsingum, sem ég tel vert, að menn gefi nokkurn gaum. Hv. þm. Geir Hallgrímsson fullyrti það hér í þessum ræðustól fyrir nokkrum dögum, að Bretar hefðu fiskað meira á miðum okkar, eftir að við færðum landhelgina út í 50 mílur. Það var á honum að skilja, að útfærslan hefði orðið til þess að auðvelda Bretum veiðarnar. Hann byggði þetta á aflaskýrslum frá landbúnaðarráðuneytinu brezka, en fiskveiðar heyra, sem kunnugt er, einnig undir það rn. Það voru aflaskýrslur frá októbermánuði s. l., hygg ég, og nóvember. Þessar aflaskýrslur segja að sjálfsögðu ekki mikið. Það fylgdu ekki neinar upplýsingar um það, hversu mörg skip hefðu verið þarna að veiðum og hversu marga togtíma hefði þurft til þess að ná aflanum. En Morgunblaðið gerði mikið úr þessu daginn eftir, og það þurfti raunar engum að koma á óvart.

Það þarf ekki lengi að fletta Morgunblaðinu til þess að sannfæra sig um það, að fregnir þær frá Bretlandi, sem hingað berast og túlkaðar eru af andstæðingum okkar sem sönnun þess, að við Íslendingar séum að tapa í landhelgismálinu, — þessar fréttir fá alltaf sérstaklega mikið pláss á síðum Morgunblaðsins. Þegar t. d. Austin Laing, talsmaður brezka togaraeigendasambandsins, segir eitthvað, — þegar sá maður lætur frá sér fara einhverja fullyrðingu um þetta, þá fá þær fullyrðingar í Morgunblaðinu — og það athugasemdalaust — miklu meira pláss en þær fá í blöðum úti í Grimsby t. d. og Hull-blöðum, sem eru þó aðalmálgögn andstæðinga okkar þar ytra. Og meðan þessar fullyrðingar og fréttir eru flenntar yfir síðurnar í Morgunblaðinu, þá er kannske örlítil klausa í Times í London og Guardian, svona álíka klausur og þar eru birtar, þegar eitthvað kemur fram, sem er okkur til styrktar í landhelgismálinu. En allt slíkt, sem er okkur til framdráttar, ef á það er minnzt á annað borð í Morgunblaðinu, þá er það í örstuttum athugasemdum og á þeim stöðum í blaðinu, þar sem minnst ber á því. Og þegar menn rísa upp þar ytra okkur til stuðnings, eins og t. d. nú fyrir einum mánuði, þegar sá mæti maður, Willis lávarður, kom fram í sjónvarpsþætti, sem um 6 millj. manns sáu þar ytra, og sagði, að málstaður okkar í landhelgismálinu væri réttur, og hvatti landa sína til að styðja okkur, þá var ekki á það minnzt einu orði í Morgunblaðinu. Spámaður Morgunblaðsins í landhelgismálinu, er nefnilega Austin Laing, en ekki menn eins og Willis lávarður.

Það var líka athyglisvert, þegar fregn barst um það, að Sir Alee Douglas Home, utanrrh. Breta, hefði sagt Nd. Brezka þingsins, að Einar Ágústsson, utanrrh. Íslendinga, hefði heitið sér einhverju vestur í New York á einkafundi, þá var þessu slegið upp í Morgunblaðinu. Og jafnvel eftir að utanrrh. okkar Íslendinga, Einar Ágústsson, lýsir því yfir, að annað tveggja hafi gerzt, að Sir Alec Douglas Home hafi þarna vísvitandi ekki farið með rétt mál eða eitthvað hafi skolast til í kollinum á honum, — jafnvel eftir að þessi yfirlýsing kemur frá utanrrh. okkar Íslendinga, er haldið áfram að staglast á því í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, og gott ef ekki ritstjórnargreinum líka, að utanrrh. Íslendinga hafi sýnt þá ósvífni að standa ekki við eitthvað, sem hann á að hafa sagt við Sir Alec Douglas Home á einkafundi vestur í New York. Ég segi fyrir mig, að ég trúi Sir Alec Douglas Home miklu frekar til þess að fara með rangt mál heldur en utanrrh. okkar Íslendinga, Einari Ágústssyni, og liggur til þess siðferðilegt mat, sem ég hirði ekki, að rekja hér frekar. En mat Morgunblaðsins er allt annað: Sir Alec Douglas Home hlýtur að hafa á réttu að standa. Það er eins og þar stendur:

„Annar eins maður og Oliver Lodge fer ekki með neina lygi:

„Tilgangurinn með þessum fréttaflutningi og málflutningi Morgunblaðsins yfirleitt er ekki eingöngu sá að vekja með þjóðinni vantraust á núv. ríkisstj., vantraust á stefnu hennar í landhelgismálinu, veikja þar með samstöðu þjóðarinnar í þessu mikilvæga máli. Áhrifin eru líka þau, eða gætu orðið þau að lama siðferðisþrek þjóðarinnar, draga úr henni kjark og búa hana undir nýja smánarsamninga í þessu máli.

Og nú er ég kominn að þeim upplýsingum, sem ég vildi koma á framfæri.

Eins og menn muna, var landhelgisgæzlan íslenzka athafnasamari í janúarmánuði s. l. en hún hafið nokkru sinni verið. Snemma í mánuðinum hófust aðgerðir og stóðu alveg þangað til 23. jan., þegar gosið hófst í Vestmannaeyjum. Væri ekki fróðlegt að athuga, ef hægt væri, hvaða áhrif þessar aðgerðir höfðu? Það liggja ekki fyrir neinar skýrslur frá landbrn. brezka mér vitanlega, en í vikuritinu Fishing News er alltaf birtur listi yfir þá togara, sem landað hafa mestum afla næstu viku á undan. Ég hef komizt yfir eintök af þessu blaði frá því í janúar s. l. og einnig frá janúar í fyrra, og þar hef ég getað borið saman aflann hjá aflahæstu skipunum, eins og hann var 3 fyrstu vikurnar í janúar í fyrra og núna. Landanirnar eftir fyrstu vikuna í fyrra og eftir fyrstu vikuna núna eru að magni til nokkurn veginn þær sömu, enda er þá ekki farið að gæta áhrifa af aðgerðum Landhelgisgæzlunnar. Þeir togarar, sem lönduðu þá, voru annað hvort komnir í heimahöfn eða á leiðinni heim, þegar þessar aðgerðir hófust. En skýrslurnar um 2. og 3. viku sýna annað. Það eru tekin 6 aflahæstu skipin. Í Hull er landað aðra vikuna í jan. 1972 af 6 aflahæstu togurunum 11635 kittum, en núna er aflinn á 6 aflahæstu togurunum 9 008 kitt. Minnkunin er um 22-23%. Í Grímsby Landa 6 aflahæstu togararnir í fyrra aðra vikuna í janúar 12 795 kittum, en núna 8 278, u. þ. b. 27% minnkun. Og um 3. vikuna er svipað að segja. Í fyrra landa 6 aflahæstu togararnir í Hull 10 830 kittum, en núna 8 466, 26% minnkun. Og í Grimsby í fyrra er talan 10 259 kitt, en núna 8 229, hátt í 26% minnkun.

Hvað segja þessar tölur okkur? Þær segja, að það bendi allt til þess, að aðgerðir Landhelgisgæzlunnar í janúarmánuði hafi orðið til þess að minnka verulega afla brezkra togara frá því, sem hefði ella verið. Ég er alveg sannfærður um, að afli hinna togaranna, þeirra, sem eru undir stjórn manna, sem ekki eru eins harðskeyttir og duglegir og skipstjórar aflahæstu togaranna, — að afli þeirra hefur minnkað hlutfallslega enn þá meira. Ég gæti vel trúað því, að minnkunin hafi verið hátt í 30%. Og þó er það svo, að í jan. voru aðgerðir Landhelgisgæzlunnar ekki nándar nærri eins miklar og þær hefðu getað verið. Það sannar t. d. síðasti sólarhringur. Fram til þess, að hléið varð 23. jan. vegna eldgossins í Eyjum, hafði verið klippt aftan af 20 togurum, en núna s. l. sólarhring hefur verið klippt aftan af 7.

Það er athyglisvert, að hv. þm. Geir Hallgrímsson sá enga ástæðu til að fagna sérstaklega þessum fréttum, sem borizt hafa um aðgerðir Landhelgisgæzlunnar s. l. sólarhring. Ég verð að segja, að ég sé sannarlega ástæðu til þess að fagna þeim. Ég tel, að þarna hafi varðskipsmenn okkar sýnt, hvað þeir geta. Þeir hafa sannað okkur leikni sína, og þeir hafa sannað okkur kjark sinn, og hann er svo sannarlega ærinn. Það er ástæða til þess að óska hæstv. dómsmrh. og okkur öllum til hamingju með það, að við skulum eiga á að skipa slíku liði. En hv. þm. Geir Hallgrímsson sá enga ástæðu til að fagna þessu. Hann sagði, að nú, þegar farið er verulega að verja íslenzku landhelgina, hefði skapazt hættuástand. Hættuástand vegna hvers? Vegna þess, að við höfum móðgað Breta — eða hvað?

Ég vek athygli á því líka, að þau skip, togskipin Statesman og Englishman, sem að brezka stjórnin sendi hingað norður samkv. kröfu, brezkra togaraeigenda með þeirri fullyrðingu gagnvart kröfum brezkra togaramanna um, að þeir fengju vernd brezka flotans, að þessi skip mundu vernda þá fyrir íslenzku landhelgisgæzlunni, — þau hafa ekkert dugað. Og það má mikið vera, ef ekki heyrist núna hljóð úr horni, að við heyrum aftur kröfurnar, sem við heyrðum rétt áður en að gosið hófst í Vestmannaeyjum, þegar brezku togaraskipstjórarnir kröfðust þess að fá vernd flotans, ella mundu þeir sigla heim. Þeir voru að gefast upp þá, það vantaði aðeins herzlumuninn.

Ég vænti þess, að þetta verði upphaf þeirra aðgerða, sem muni duga til þess að beygja þessa andstæðinga okkar, svo að þeir skrifi undir þá samninga, sem við teljum viðunandi.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri, aðeins þetta að lokum: Með tilliti til málflutnings Morgunblaðsins, stærsta blaðs þjóðarinnar, málgagns stærsta flokksins, aðalmálgagns stjórnarandstöðunnar, — með tilliti til málflutnings þessa blaðs í sambandi við landhelgismálið og þegar maður hefur í huga fullyrðingar talsmanna stjórnarandstöðunnar um það, að samningurinn frá 1961 hafi verið einhver fyrirmyndarsamningur, — „Stórmerkur samningur,“ sagði hv. form. Sjálfstfl. hér í gærkvöld, — þeir tala um hann eins og einhvern „samning samninganna“, — með tilliti til alls þessa og vegna þess að mig grunar, að þeir, sem svona tala, hafi fullan hug á því, ef þeir fá tækifæri til þess, að gera aftur slíkan „fyrirmyndarsamning“, slíkan „samning samninganna“, — þetta er ein ástæðan, ein helzta ástæðan til þess, að ég mun við þessari till., sem hér liggur fyrir, segja nei.