06.03.1973
Sameinað þing: 54. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2346 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl., Jónas Árnason, sagði hér áðan, að samningurinn frá 1961 væri með þeim hætti, að hann vildi þess vegna fyrirbyggja, að til valda gætu komizt menn, sem stæðu að einhverju slíku. Mig langar til að vekja athygli þessa hv. þm. á því, að samningurinn frá 1961 er fyrsti samningurinn, sem gerður er um 12 mílna landhelgi. Landhelgin var færð út árið 1958, en það er fyrst 1961, sem tekst að fá viðurkenningu á 12 mílna landhelgi. Þetta er fyrsta viðurkenningin, sem til er um 12 mílna landhelgi. Á eftir komu svo fjölmargar þjóðir. Ég segi hiklaust, að hefði þessi samningur ekki verið gerður, hefði þróunin í landhelgismálinu ekki orðið sú, sem hún hefur orðið. Við Íslendingar stæðum þá ekki frammi fyrir því í dag að verja 50 mílur. Það hefði dregizt á langinn að koma áfram okkar málum um landhelgi, ef þessi samningur hefði ekki verið gerður.

Í gærkvöld vörðu ræðumenn ríkisstj. eðlilega störf hennar og stefnu og lýstu því sem sinni skoðun, að till. sú, sem hér er til umr., væri flutt vegna óróleika sjálfstæðismanna yfir því, hvernig það drægist, að þeir kæmust aftur í ráðherrastólana. Það er alveg rétt. Þjóðarinnar vegna má það ekki dragast miklu lengur, að skipt verði um forustu í þjóðmálunum og þar með menn í ráðherrastólunum. Það, sem farið er fram á, er, að ríkisstj., sem telur málstað sinn svo frábæran, að aldrei hefur þekkzt annað eins í stjórnmálum á Íslandi, rjúfi þing og láti fara fram kosningar, svo fljótt sem auðið er, og gefi þannig þjóðinni tækifæri til að kveða upp dóm yfir verkum hennar. Því var og haldið fram, að till. þessi væri tilefnislaus og fyrir fram dæmd til að falla. Sú verður að öllum líkindum raunin. En ég spyr: Verður þessi till. felld með atkv. allra þeirra þm., sem í upphafi studdu hæstv. ríkisstj? Nei, í útvarpsumr. í gærkvöld gaf einn af þeim þm., sem í upphafi studdu ríkisstj., yfirlýsingu þar að lútandi.

Það var ekki langt liðið frá valdatöku núv. ríkisstj., þegar ljóst var, að hún mundi ekki hafa að neinu þau kosningarloforð, sem núv. stjórnarflokkar höfðu sett fram fyrir síðustu alþingiskosningar. Eftir því sem lengra leið, kom þetta æ betur í ljós, og þannig var málum komið í desembermánuði, að stjórnarherrarnir lögðu til, að gengisfellingarleiðin skyldi farin, sú leið, sem fordæmd hafði verið og lofað í kosningunum, að aldrei skyldi farin, ef þeir kæmust til valda. Samkvæmt ábendingum sérfræðinga var gengisfelling þá skynsamlegasta leiðin til úrbóta í efnahagsmálum, enda yrðu gerðar hliðarráðstafanir, til þess að gengisfellingin kæmi að gagni. Þær hliðarráðstafanir væru ekki gerðar, enda varð sjútvrh. örfáum vikum síðar að grípa til sérstakra ráðstafana fyrir sjávarútveginn. Gengisfelling sú, sem gerð var, var út af fyrir sig algjörlega tilbúið fyrirbrigði af núv. ríkisstj. Hún var afleiðing þeirrar þenslu í efnahagslífinu, sem ríkisstj. stóð fyrir 1971 og 1972, og var grundvölluð á því af hálfu Seðlabankans, að þær spár, sem gerðar hefðu verið fyrir framleiðsluaukningu 1972, væru ekki eins og skyldi. Útflutningsverðmætið hafði ekki aukizt eins og stjórnvöldunum hafði þóknazt að áætla. Hingað til höfðum við neyðzt til þess að fara í gengisfellingar vegna þess, að útflutningsverðmætið hafði minnkað. En ég held, að slíkt hafi aldrei átt sér stað, að farið hafi verið í gengisfellingu vegna þess, að útflutningsverðmætið jókst ekki eins mikið og valdhafarnir höfðu óskað.

Þegar hér var komið, lá ljóst fyrir, að stór hluti þeirra kjósenda, sem greitt höfðu ríkisstjórnarflokkunum atkv. í kosningunum 1971, hafði snúið baki við ríkisstj., og háværar raddir heyrðust: Hvenær fer þessi ríkisstj. frá? Það var hví eðlilegt, að vantrauststill. væri borin fram hér á Alþ. Síðan í des. hafa þessar raddir orðið enn háværari og alltaf stækkað sá hópur kjósenda, sem veitti þessari ríkisstj. brautargengi, sem spyr: Hvenær getum við losað okkur við ríkisstj.?

Það var af skiljanlegum ástæðum hjá hinum varfærna ráðh., Magnúsi Torfa Ólafssyni, þegar hann í gærkvöld taldi eðlilegt að ræða till. miðað við þær aðstæður, sem hún var flutt við, þ. e. a. s. í des., og taka ekki með í myndina það stjórnleysi og þá ringulreið í efnahagsmálum, sem einkennt hefur það, sem af er þessu ári, síðustu tvo mánuðina, og nú síðast hinar geigvænlegu hækkanir á landbúnaðarvöruverðinu. Hafi nokkur efast um réttmæti vantrauststill. í des. s. l., þá efast enginn um það í dag. Og hvað hefur ekki komið í ljós? Ríkisstj. hefur misst einn af sínum stuðningsmönnum. Þannig mun aðeins 31 hv. þm., ef þeir verða þá 31, greiða atkv. gegn þessari till., þ. e. a. s. verja ríkisstj. vantrausti. Í upphafi naut ríkisstj, stuðnings 32 þm. Það er þegar farið að kvarnazt úr þingliði ríkisstj. Hvað þá um kjörfylgi ríkisstj.? Við heyrðum einnig í gærkvöldi heimiliserjur innan Samtaka frjálslyndra og vinstri manna. Þær voru gerðar þjóðinni kunnar í útvarpsumr., og ég held, að þær heimiliserjur séu talandi tákn fyrir það samkomulag, sem er í stjórnarflokkunum um þessar mundir. Ég held, að slíkt hafi ekki átt sér stað í um það bil þrjá áratugi, ef ekki lengur, að ríkisstj. hafi misst á valdatíma sínum einn þm. úr hópi síns þingfylgis. Er hægt fyrir hæstv. forsrh. að koma hér í ræðustól og lýsa undrun sinni yfir flutningi till., þegar umr. og tillöguflutningurinn leiðir í ljós, að ríkisstj. hefur misst þingfylgi? Strúturinn stingur höfðinu í sandinn og heldur, að enginn sjái hann.

Ég veit, að hæstv. menntmrh., þegar hann í gærkvöld taldi, að eðlilegast væri að ræða þessa till. miðað við þær aðstæður, sem voru, þegar hún var flutt, gerði sér einnig grein fyrir þeirri furðulegu ræðu, sem hæstv. iðnrh. hélt, þegar hann á mjög óviðurkvæmilegan hátt dró atburðina á Heimaey inn í pólitískar umr. hér á Alþ. Málflutningur hæstv. iðnrh. hefur verið fordæmdur af öllum sönnum Íslendingum. Það var vissulega til þess að taka eftir, hvað hæstv. iðnrh. þótti slæmt, að formaður Sjálfstfl. skyldi ekki í ræðu sinni hér gera að árásarefni á ríkisstj. þau vinnubrögð, sem við voru höfð í þessu máli. Iðnrh. hafði augsýnilega vonazt til þess. En hann lét sér ekki að kenningu verða afstöðu stjórnarandstöðunnar í þessu mikilvæga máli. Hann lét sér ekki það að kenningu verða, að um þetta mál hafði náðst samstaða hér á Alþ., og hann notaði ræðutíma sinn svo ósmekklega, að lengi mun í minnum haft. Ég skal ekki taka hér upp deilur um Vestmannaeyjamálin við hæstv. ráðh., en ég vildi ekki láta hjá líða að benda á málflutning þessa ráðh., eins af æðstu klerkum kommúnista hér á Íslandi.

Það var auðheyrilega mikil gremja inni fyrir hjá þessum ráðh., gremja yfir því, að það, sem hann vildi í þessum málum, skyldi ekki ná fram að ganga. Við heyrðum það hér í sölum Alþ. skömmu eftir myndun ríkisstj., þegar Alþ. var komið saman og einn af yngstu þm. leyfði sér að koma í ræðustól og hafa aðrar skoðanir á máli en hæstv. iðnrh., að þá kom hann í ræðustólinn og sagði, að sú stefna, sem hann hefði barizt fyrir í 8 ár, skyldi framkvæmd. Nú væri hann kominn í ráðherrastól, og nú varðaði sig ekkert um það, hvað löggjafarsamkoma Íslendinga, Alþingi, segði um málin. Við sáum til þessa sama hæstv. ráðh. hér í þingsölunum rétt fyrir jólin, þegar honum var ljóst, að áform hans í viðkvæmum málum varðandi tryggingar sjómanna mundu ekki ná fram að ganga. Hann gekk hér um sali og hellti úr skálum reiði sinnar yfir þá stjórnarþm., sem vildu ekki styðja verk þessa forustumanns kommúnista á Íslandi. Sem betur fer tókst honum ekki að skamma þá sér til hlýðni.

Það var auðheyrt á þessari furðulegu ræðu iðnrh., að Alþ. var ekki í hans augum til þess að marka stefnuna. Alþ. var, eins og hann sagði, hópur fárra manna, sem væru ekki í snertingu við lífið, það væri djúp staðfest á milli Alþ. og þjóðarinnar og því væri miður farið, að Alþ. skyldi fá að ráða ferðinni, m. a. í því máli, sem hann gerði svo smekklega að umræðuefni sínu. Við skulum aðeins rifja upp, hverjar þær till. voru, sem fyrst sáu dagsins ljós varðandi þetta mál og þessi hæstv. ráðh, vildi í gærkvöld gera að sínum. Það hefur hins vegar nokkuð verið á huldu, hvort hér hafi verið um að ræða till. ríkisstj. eða embættismanna ríkisstj. Hæstv. forsrh. tók þó af allan vafa hér fyrir skömmu, og í gærkvöld gerði hæstv. iðnrh. þær að sínum, hvað svo sem hæstv. sjútvrh. segir um málið. Í þessum till. fólst skerðing á persónufrelsi einstaklingsins, persónufrelsi, sem engir nema kommúnistar, þar sem þeir hafa komizt til valda, hafa lagt til, að tekið væri af þjóðinni. Þarna kom nefnilega úlfurinn undan sauðagærunni. Maðurinn, sem um marga áratugi hefur rekið erindi alheimskommúnismans, að vísu dulbúinn sem fulltrúi lýðræðislegs sósíalisma, var nú kominn til valda, og nú skyldi stefna hans framkvæmd. En hvaða vandræði voru þetta? Alþ. hafði ekki verið afnumið. Þjóðin átti sína fulltrúa, sem voru málsvarar hennar á Alþ., sem voru ekki reiðubúnir til að láta forustumanni lýðræðissósíalisma á Íslandi eftir einræðisvald.

Við þekkjum vel söguna frá Austur-Evrópu, og við skulum vona, að Alþingi Íslendinga beri gæfu til að fyrirbyggja, að sams konar atburðir og þar geti gerzt hér. En það voru einmitt forustumenn lýðræðissósíalismans í þessum löndum, sem leiddu kommúnismann þar til valda.

Svo ræðir hæstv. iðnrh. um, að stjórn og stjórnarandstaða geti unnið saman af heilindum. Ég spyr: Gefur slíkur málflutningur, sem hæstv. iðnrh. viðhafði í gær, tilefni til að vonast eftir heilindum af hans hálfu um lausn vandamála? Þegar slíku er slegið fram, er ekki úr vegi, að gerður sé samanburður á stjórnarandstöðunni 1959–1971 og þeirri, sem nú er á Alþ. Ég man ekki þess dæmi allan þann tíma, að þáv. stjórnarandstaða tæki nokkurn tíma með ábyrgum hætti þátt í lausn þeirra stærstu vandamála, sem þá voru til afgreiðslu hér á Alþ. Tóku þeir með ábyrgum hætti þátt í lausn efnahagsvandamálanna eftir vinstri stjórnina? Tóku þeir þátt í undirbúningi stóriðju á Íslandi, lausn vandamálanna vegna verðfalls og aflabrests 1967 og 1968, inngöngu Íslands í EFTA, samþykkt Alþ. í landhelgismálinu 1971, þar sem landgrunnsstefnan var ítrekuð? Stuðningsmenn núv. ríkisstj. hafa að sjálfsögðu tækifæri hér til að koma að leiðréttingum, ef ég fer rangt með, og þá gera þeir það. Vinnubrögð núv. stjórnarandstöðu eru með allt öðrum hætti. Á því aðeins 1½ ári eða rúmlega það, sem liðið er frá því, að núv. ríkisstj. tók við völdum, hefur stjórnarandstaðan tekið þátt í lausn mikilsvarðandi mála og Alþ. orðið sammála. Ef möguleiki hefur verið á því að ná samstöðu um lausn mála hér á Alþ., hefur það verið gert. Við skulum minnast samþykktarinnar frá 15. febr. 1972 í landhelgismálinu, samþykktar Alþ. um vandamál Vestmanneyinga, samþykktar Alþ. um lögfestingu á samningi við Efnahagshandalag Evrópu. Bæði hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hafa séð ástæðu til þess hér á Alþ. að flytja stjórnarandstöðunni þakkir fyrir störf hennar í sambandi við lausn þessara mála. Þegar sjálfstæðismenn, sem oft hefur verið, hafa verið í andstöðu við afgreiðslu mála hér á Alþ., hafa þeir í ítarlegum nál. gert grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem þeir vilja láta ráða við afgreiðslu mála, og flutt í framhaldi af því fjölmargar till., sem allar hafa hins vegar verið felldar og ekki hafa séð náð fyrir augum meiri hl. Á þessu er líka mikill munur frá því í tíð fyrrv. stjórnarandstöðu.

Það voru sjálfumglaðir ráðh., sem fluttu mál sitt hér í gærkvöld. Vitaskuld reyndu þeir að fegra störf og stefnu ríkisstj. með mismunandi háfleygum og fallegum lýsingarorðum og með samanburði eins langt aftur í tímann og þeim var mögulegt, til þess að út úr því kæmu einhverjar hagstæðar niðurstöður. Hefði samanburðurinn verið gerður miðað við daginn í dag, hefði niðurstaðan hjá þeim orðið þeim óhagkvæm, og þess vegna var það látið vera. Ég er sannfærður um, að slíkur málflutningur nær ekki að blekkja kjósendur. Þeir gera sér grein fyrir aukinni skattbyrði, fyrir skefjalausri verðbólgu, fyrir algeru stjórnleysi í efnahags- og fjármálum ríkisins, og þeir munu ekki gleyma því. Enda þótt okkur sjálfstæðismönnum takist ekki nú að losa þjóðina við þá ríkisstj., sem situr, og koma fram kosningum, þá mun þjóðin, þegar hún fær tækifæri til þess, losa sig við núv. ríkisstj.