06.03.1973
Sameinað þing: 54. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (1801)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þessu vantrausti hafa verið gerð svo ítarleg skil af hálfu talsmanna Sjálfstfl. og svo ljós rök leidd að orsökum þess, að þess gerist naumast þörf að fara að fjalla um það í löngu máli. Ég tel þó ekki annað auðið, m. a. að gefnu tilefni frá hæstv. fjmrh., en að eyða hér nokkrum tíma hv. þm. til að ræða vissa þætti þessara mála. Mun ég þá láta hjá líða að ræða landhelgismál og utanríkismál, varnarmál þar á meðal, en víkja eingöngu í stórum dráttum að því, sem ég álít, að sé hvað geigvænlegast nú í dag og fólk hugsar mest um, en það er hin ömurlega þróun efnahags- og fjármála, sem ég held, að hljóti að vekja öllum mönnum ugg og kvíða, hvort sem þeir sitja á stjórnarbekkjum eða í stjórnarandstöðusætum. Trúi ég í raun og veru ekki öðru en sú þróun veki mestan ugg hjá hæstv. ráðh. Ég vil telja, að þeir hugsi svo ábyrgt, að ekki geti annað verið.

Til þess að skilja, hvað hér er að gerast og hefur verið að gerast, og átta okkur á því, hversu ríkan þátt núv. hæstv. ríkisstj. á í þessari óheillavænlegu þróun, neyðist ég til þess að fara örlítið aftur í tímann, en skal þó reyna að stikla á stóru.

Um síðustu kosningar var það höfuðárásarmál þáv. stjórnarandstöðuflokka gegn þáv. ríkisstjórnarflokkum, að öllu hefði verið siglt í kaldakol í efnahagsmálum þjóðarinnar. Talað var um, að hrollvekja biði á næsta hausti, og þá vitnað í orð, sem einn af þm. þáv. stjórnarliðs hafði að vísu látið falla, en slitin úr samhengi við annað, sem hann sagði. En látum það vera. Kjósendur voru hræddir með þessari hrollvekju, sem átti að vera fram undan, og því öngþveiti, sem þáv. ríkisstj. hefði skilið eftir sig eftir 12 ára valdaferil.

Hver var svo reyndin um þessa hrollvekju, og hvernig litu núv. hæstv. ráðh. og stjórnarliðar á hrollvekjuna að kosningum loknum? Þeir gerðu það einfaldlega með því að birta þjóðinni það einstæðasta skrumplagg, sem ég hygg, að nokkur ríkisstj. í víðri veröld hafi sett saman. Það hlaut að vísu nafnið Ólafskver, og mönnum var sagt af hæstv. forsrh. að lesa það kvölds og morgna. En ég býst við því, að í dag mundu flestir hæstv. ráðh. vilja, að ekkert eintak væri til af því kveri. Satt að segja hraus mönnum hugur við að sjá, hvað þarna var sett á pappír, vegna þess að vitanlega var, jafnvel þó að allt væri í blóma, gersamlega útilokað að standa við nema lítinn hluta af því, sem þar var sagt. En það, sem var þó eftirtektarverðast í þessu plaggi, var, að hrollvekjan var horfin.

Ég hef áður bent á það í umr. hér á Alþ., að enginn hafi afsannað hrollvekjukenninguna betur en hæstv. núv. ríkisstj. Annaðhvort sé það svo, að það hafi í raun verið blómlegra ástand í atvinnumálum og fjármálum þjóðarinnar en jafnvel við stjórnarliðar þá töldum vera, eða þá að hæstv. núv. ríkisstj. hafi hagað sér við samningu loforðaplaggsins mikla af slíku ábyrgðarleysi, að ég vil ekki ætla neinni ríkisstj. að leyfa sér slíkt, því að hún hlaut fyrr eða síðar að verða að taka afleiðingunum af því sjálf. Hafi hrollvekja verið fram undan haustið 1971, var auðvitað fullkomið ábyrgðarleysi, að ríkisstj. skyldi beinlínis hvetja til þeirra launahækkana í ýmsu formi, m. a. stórfelldrar vinnutímastyttingar í einum áfanga, eins og hún þá gerði. Það voru í rauninni ekki verkalýðssamtökin, sem höfðu forustuna um að knýja fram sem mestar launahækkanir, heldur ríkisstj. sjálf. Þetta held ég, að sé nægilegt svar við kenningunni um, hvernig viðskilnaður fráfarandi ríkisstj. hafi verið í efnahagsmálum. Og þetta er jafnframt fullnægjandi staðfesting á því, að það er hæstv. núv. ríkisstj., sem hefur myndað og skapað þá hrollvekju, sem við stöndum andspænis í dag og er sannkölluð hrollvekja.

Nú er það að vísu svo, að skoðun mín er, að stjórnarliðar hafi hagað sér af ábyrgðarleysi, vegna þess að ástandið í efnahagsmálum, þegar fyrrv. ríkisstj. skildi við, hafi ekki réttlætt þær stórkostlegu verðbólguaðgerðir, sem núv. ríkisstj. hófst þegar handa um, þar hafi hún gengið feti framar en verjandi var, þó að viðskilnaðurinn væri vissulega góður. Þessa sögu skal ég ekki rekja, en aðeins leggja áherzlu á það, að hæstv. núv. ríkisstj. hefur sjálf afsannað allar fullyrðingar sínar frá síðustu kosningum um, hvað hún hafi tekið við slæmu búi. Hæstv. fjmrh., sem ég mun kannske víkja svolítið að síðar, byrjaði á því — ég veit að vísu ekki, með hvað glöðu geði — að eyða 650 millj. úr ríkissjóði umfram allar heimildir, til þess vissulega að gera gott. En ef menn ætla að gera gott, verða þeir þó að vera nokkuð öruggir um, að það þurfi ekki að taka gjafirnar aftur til baka innan lítils tíma. Það er ákaflega óskemmtilegt form á gjöfum. En það er því miður þetta, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að gera. Hún var gjafmild á fyrstu mánuðum tilveru sinnar. Það voru glaðir menn, sem sátu í ráðherrastólum eftir langa veru úti í kuldanum, og nú átti að sýna þjóðinni, að margt átti að gera, og hins vegar ekki alveg eins horft á það, hvað það kostaði að gera allt það, sem gera átti. Það var næstum því, að manni dytti í hug, að hæstv. ríkisstj. héldi, að hún færi frá innan 6–7 mánaða. En það hefur nú einhvern veginn slampazt svo, því miður, fyrir hæstv. ríkisstj., að enn situr hún í stólnum og situr í sínu eigin feni. Það er í rauninni hennar óhapp, að hún skuli ekki vera farin, en okkar happ. Nú má enginn skilja það svo, að ég vilji ekki gjarnan, að þessi vantrauststill. sé samþ., en það er með hálfum huga. Það kemur að því, að hún verður samþ. og það kannske við öllu óheppilegri aðstæður fyrir hæstv. ríkisstj., svo að ég held, að hún ætti að láta nokkuð af fylgismönnum sínum sitja hjá, — auk þess sem einn hefur þegar lýst því yfir, að hann muni af sannfæringu sitja hjá, — til þess að vantraustið nái fram að ganga —- hennar vegna sjálfrar.

Kjarasamningarnir og kostnaðaraukinn, sem leiddi af þeim haustið 1971, tóku að segja til sín eftir nokkra mánuði. Vissulega væri gleðilegt, ef hefði verið hægt að auka kaupmátt launa, eins og þá var ætlunin að gera, ofan á þau 30%, sem áður hafði tekizt að auka kaupmáttinn um á tveimur árum. En það er jafnljóst, að allt að 50% kaupmáttaraukning launa á þremur árum er óhugsandi. Það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því, það vita allir í dag. Þess vegna er hinum óskemmtilegu eftirkröfum ríkisstj. að rigna yfir landslýðinn í ýmsu formi þessar síðustu vikur og mánuði. Strax að ári liðnu var byrjað að taka gjafirnar aftur. Það var gert í því formi að setja á nýja verðstöðvun. Það var flett upp í frv., sem fyrrv. ríkisstj. hafði lögfest og þá var fundið allt til foráttu, til þess að finna úrræði til að stöðva þá verðbólguöldu, sem ríkisstj. sá, að var að skella yfir. Þegar þetta frv, var til meðferðar hér á Alþ. og hæstv. forsrh. talaði fyrir því á s. l. hausti og það með nokkrum þjósti, að það væri furðulegt, ef stjórnarandstöðuflokkarnir ætluðu að vera á móti þessu máli, þar sem þeir hefðu gert þetta sama, þá lét ég í ljós nokkra undrun yfir því, miðað við allar lýsingar hæstv. núv. ríkisstj. og ráðh. á aðgerðum fyrrv. ríkisstj. Það er næstum því eins og hún geti ekki ímyndað sér neina æðri hugsjón en þá að fylgja þeim aðgerðum, sem fyrrv. ríkisstj. hafi framkvæmt. Hún hefði að vísu gengið miklu lengra, í ýmsum efnum, en það er allt önnur saga. En einhvern tíma var okkur sagt, að þær aðgerðir hefðu ekki verið góðar, og ég held, að kjósendum hafi verið sagt fyrir kosningar, að það væru slæm ráð, sem fyrrv. ríkisstj. hefði haft á boðstólum. Nú allt í einu eru þetta orðin þjóðráð og eins og áðan sagði í því formi að ganga hvarvetna lengra. Nægir að benda á aðeins eitt lítið dæmi, sem snertir till., sem hér hafa legið fyrir þinginu um skerðingu vísitölunnar varðandi tóbak og áfengi, að þar átti að ganga meira en helmingi lengra í skerðingu en fyrrv. ríkisstj. hafði gert. Var það harðlega fordæmt og talið nauðsynlegt, að það yrði eitt af fyrstu verkum núv. ríkisstj. að lagfæra aftur, svo að launþegum yrði að fullu bætt.

Verðstöðvunin 1970, sem fyrrv. ríkisstj. beitti sér fyrir, hefði fullkomlega náð tilgangi sínum, ef skynsamlega hefði verið á málum haldið haustið 1971. Staða atvinnuveganna var þá slík að það hefði verið auðið fyrir þá að taka á sig þær kvaðir, sem leitt hefði af því, að þær verðstöðvunaraðgerðir, sem auðvitað hljóta alltaf að vera tímabundnar, hefðu verið látnar niður falla og verðlag og kaupgjald látið þróast með eðlilegum hætti. En hins vegar skipti þar algerlega sköpum, og það höfðum við sagt í kosningunum, hvernig kjarasamningarnir 1971 yrðu meðhöndlaðir. Í því lá gæfumunurinn. Í því lá ógæfa núv. hæstv. ríkisstj., hvernig þá var á málum haldið og eftir það.

Það hefur verið minnzt á hvað síðar gerðist, og ég skal ekki rekja þá sögu í einstökum atriðum. Allt hefur það gerzt með þeim eindæmum, að þar hefur ekki verið samstaða um neitt, þó að menn í stjórnarliðinu hafi að vísu, meira og minna fúlir, fallizt á að beygja sig fyrir þeim ráðstöfunum, sem ofan á hafa orðið. En niðurstaðan hefur eðlilega orðið sú, að engin heilsteypt stefna hefur verið mörkuð. Það hefur verið gutlað við að leysa vandamálin og raunverulega ekki verið um neina lausn að ræða, eins og sást bezt á meðferð efnahagsmálanna nú í des. Undirbúningur að þeim var með ágætum, enda voru þar úrvalsmenn settir til starfa, sem að vísu höfðu verið fordæmdir margir hverjir af núv. hæstv. ríkisstj. (Forseti: Ég hafði hugsað mér að hafa kaffihlé, líka vegna flokksfunda, og vildi gjarna geta tekið það núna, ef hv. þm. gæti fundið heppileg greinaskil í ræðunni.) Þau geta verið eftir atvikum, hæstv. forseti, það er alltaf hægt að byrja aftur, jafnvel í miðri setningu. Á ég þá að hætta? (Forseti: Nei, ég geri ekki svo strangar kröfur, að það sé hætt í miðri setningu.) Það er nú eftir því, hvað setningin er löng. (Forseti: Ef hv. þm. fellst á, vil ég gefa fundarhlé núna til kl. 17.00. Það er vegna flokksfunda.) Maður safnar kröftum á meðan. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég lauk þar ræðu minni, er ég hafði nokkuð vikið að verðstöðvunarráðstöfunum hæstv. ríkisstj. og framhaldi þeirra, sem var sú heildarathugun efnahagsvandans, sem ríkisstj. lét fram fara á s. l. hausti. Í framhaldi af því kom að sjálfsögðu að því að velja úrræði til að mæta þessum vanda. Skýrsla sú, sem samin var af sérfræðinganefndinni, er með eftirtektarverðari plöggum, sem gerð hafa verið um eðli og orsakir efnahagsvandamála yfir höfuð og þó fyrst og fremst þess vanda, sem hér var við að glíma. Það leynist engum, sem les þetta plagg, að það var niðurstaða sérfræðinganna, að hér væru mjög alvarlegar horfur, verðbólguskriða á næsta leyti og fjármálaöngþveiti, ef ekki yrði gripið til sérstakra og þá róttækra aðgerða. Það fór ekki heldur á milli mála, að sérfræðingarnir mæltu með því, að gengisfelling, sem þeir að vísu kölluðu hinu nýja nafni uppfærslu, yrði valin til þess að mæta þessum vanda, með þeim rökum, að hún ylli minnstri kjaraskerðingu. Það hlaut að vekja nokkra athygli, hvað ríkisstj. gerði í þessum efnum, þar sem hún hafði fordæmt mjög harðlega gengisfellingar og hæstv. forsrh. hafði alveg nýlega lýst því yfir, að núv. ríkisstj. mundi aldrei fella gengið. Þess var því beðið af nokkurri eftirvæntingu, hvað úr yrði. Vitanlega fór það svo í þessum efnum sem öðrum, að lítið varð úr fyrri yfirlýsingum og nákvæmlega sú leið var valin, sem ríkisstjórnarflokkarnir höfðu áður sagt, að helzt skyldi forðast. Að vísu urðu um þetta deilur, sem ég skal ekki rekja hér, og skiptir ekki máli, hver lagði annan að velli innan stjórnarinnar, en um þetta urðu átök eins og flest annað, sem ríkisstj. hefur fengizt við. Mér þykir þó rétt að vitna hér í Þjóðviljann, ekki vegna þess, að það sé sérstaklega sannleikanum samkv., heldur til þess að sína, hver hugur var að baki þessum efnahagsráðstöfunum, sem áttu að vera bjargráð fyrir atvinnuvegina. Þjóðviljinn sagði í ritstjórnargrein 19. des. 1972:

„Gengisfelling er engin lausnarráðstöfun. Eftir rétt ár eða fyrr“ — menn taki eftir „verður enn að gera ráðstafanir, enn verður að leita lausnar á vanda. Þá dugir ekkert hálfkák, þá duga engar frestunaraðgerðir, þá dugir ekkert minna en breyting, róttæk breyting, sem rýfur vítahringinn:

Þetta er aðalmálgagn ríkisstj., þ. e. a. s. málgagn þess hluta hennar, sem mestu ræður, og þess vegna hlýtur þessi yfirlýsing rétt um það leyti, sem aðgerðir eru gerðar í efnahagsmálum, að vekja sérstaka athygli. Ég held, að það sé einsdæmi, að slík yfirlýsing sé gefin af hálfu ríkisstj. um stórfelldar efnahagsaðgerðir, um leið eða nokkrum dögum eftir að þær eru gerðar. Alþb.- menn hafa að vísu reynt að komast undan og reyndar ríkisstj. öll — því ámæli, sem hún hlaut að fá frá sínum stuðningsmönnum, sem höfðu trúað orðum hennar um það, að gengi krónunnar skyldi ekki framar fellt, með því, að þessi gengisfelling hafi verið alveg sérstæð umfram aðrar gengisfellingar. Það er alveg rétt, gengisfellingin er sérstæð. Það hefur aldrei verið framkvæmd svona gengisfelling á Íslandi, vegna þess að hún var gerð án þess að gera nokkrar ráðstafanir til að hindra, að hún yrði innan skamms tíma að engu. Þetta er frábrugðið við þessa gengisfellingu og aðrar, sem hafa verið framkvæmdar. Valkostanefndin lagði á það höfuðáherzlu í sínum ábendingum, að ef ætti að velja svokallaða uppfærsluleið, þá yrði samstundis eða samhliða að gera ýmsar ráðstafanir, sem ætíð hafa verið gerðar, til þess að koma í veg fyrir, að gengisfellingin eða áhrif hennar rynnu út í sandinn og hleyptu af stað nýrri verðbólguskriðu. Þetta var forðazt, og þetta telur ríkisstj. sér til lofs, eins og flest það, sem miður hefur farið.

Það er svo enn einstakt við efnahagsaðgerðir hæstv. ríkisstj., að nokkrum dögum eftir að gengisfellingin er framkvæmd, kemur á daginn, að það þarf einnig að taka upp annað kerfi, nýtt uppbótakerfi. Að vísu var því svo meistaralega fyrir komið að leggja þann bagga á hæstv. fjmrh. og ríkissjóðinn, enda gerir það víst ekki til, hann segir, að hann sé vel stæður núna, að ekkert muni um þetta, þá er það náttúrlega allt í lagi. En í eðli sínu var þetta nýtt uppbótakerfi, að ég hygg tæpum hálfum mánuði eftir að gengisfelling var framkvæmd. Þetta hygg ég, að sé líka einstætt.

En þetta kom ekki heldur að notum, því að þegar dollarinn er felldur, þá er talið óumflýjanlegt, að krónan falli að fullu á móts við dollar, eini gjaldmiðill Vestur-Evrópu, að ég hygg, a. m. k. norðurhluta Vestur-Evrópu. Það hefur enginn annar gjaldmiðill Evrópuþjóða verið felldur á móts við dollarann nema krónan, heldur hafa flestir staðið stöðugir eða þá verið lítið eitt lækkaðir, sbr. gjaldmiðla Norðurlandaþjóðanna.

Í sambandi við þetta mái gerðust þau undur, sem ekki er hægt að komast hjá að vekja athygli á, að sama dag og Seðlabankinn, sem vitanlega starfar þar í umboði ríkisstj., lýsir því yfir, að það sé óumflýjanlegt vegna afkomu atvinnuveganna, fyrst og fremst sjávarútvegsins, að láta krónuna falla til jafns við dollar, heldur hæstv. sjútvrh. ræðu á fundi Kaupmannasamtakanna, sem til allrar ógæfu fyrir hann er til á segulbandi, sem ég veit ekki, hvort hann hefur vitað um. Þar lýsir hann því yfir, að hefði verið vitað um þær nýju verðhækkanir á útflutningsvörum sjávarútvegsins, sem urðu nú eftir áramótin, hefði gengisfellingin í des. aldrei komið til mála. Nú hefur ráðh. reynt af sinni alkunnu viðleitni til þess að hafa 2–3 skoðanir í einu, að komast út úr þessu og segja: Jú, þetta er alveg rétt, við hefðum ekki gert þetta í des., en engu að síður er bráðnauðsynlegt núna að fella gengið að fullu til jafns við dollar, vegna þess, eins og ha.m orðaði það efnislega séð, að gengisfellingin frá í des. væri öll runnin út í sandinn, hún væri öll komin inn í verðlagið. Auðvitað er þetta algerlega út í hött og á sér enga stoð í veruleikanum, að gengisfelling éti sig upp í verðlagi á örfáum vikum. Þetta er auðvitað viðleitni til þess að komast út úr stórkostlegri klípu eftir að hafa talað af sér, eins og hann gerði.

Ég læt algerlega liggja milli hluta, hvort þessi gengisfelling var fullkomlega þörf eða ekki. Ég býst við, að framleiðsluatvinnuvegunum hafi ekkert af því veitt. En það er ekki það, sem skiptir meginmáli í þessu, heldur sú óskaplega tækifærisstefna, sem hér er fylgt, þar sem á nokkurra daga fresti, svo að segja, eru gerðar nýjar og nýjar ráðstafanir, sem reynast vera ófullnægjandi með öllu innan jafnstutts tíma og ég hef hér gert grein fyrir. Það er sem sagt engin heilsteypt lina til í sambandi við efnahagsaðgerðir ríkisstj. fram að þessum tíma.

En hefur þá ekkert gerzt síðan? Jú, það hefur gerzt síðan, að ríkisstj. hafði tilburði til þess að leysa efnahagsvandann, að nokkru leyti a. m. k. og sennilega að nokkuð verulegu leyti, en það var í sambandi við það frv., sem hv. þm. vita um. Að vísu hefur farið á milli mála, hverjir hafi samið það, en nú liggur það nokkuð ljóst fyrir. Án þess að ég ætli að fara að ræða hina furðulegu ræðu hæstv. iðnrh. í gærkvöld, sem er rannsóknarefni út af fyrir sig, þá vitum við, að hún var ekki ádeila á stjórnarandstöðuna, enda hafði enga þýðingu að vera að deila á hana um, að ríkisstj. kæmi ekki fram málum, ef hún hafði þingmeirihl. til þess, heldur hlaut hún að vera að deila á aðra menn, sem sitja í þessum sal, og voru ekki nægilega þægir til að ljá sitt til að fara að blanda lausn efnahagsvandamálanna saman við þær hörmungar, sem skullu yfir Vestmanneyinga og allur þingheimur var sammála um, að yrði að bregðast við af einingu, eins og gert var að lokum, eftir að ríkisstj. var knúin til að taka út úr frv. ýmsa þætti varðandi Efnahagsvandamál þjóðarinnar, sem áttu ekkert skylt við vandamálin í Vestmannaeyjum. Það hefur verið reynt að halda því fram, að með þessu hafi stjórnarandstaðan — eða Sjálfstfl. — lýst andstöðu sinni og reynt að setja fótinn fyrir nauðsynlegar aðgerðir til aðstoðar atvinnuvegum þjóðarinnar. Þetta er auðvitað algerlega rangt. Við höfum ekki sagt eitt né neitt um það. Við höfum sagt það eitt, að þessum vanda ætti ekki að blanda saman. Það ætti ekki að fara að skella því á Vestmanneyinga, að það þyrfti að grípa til að banna verkföll, skerða vísitölu og jafnvel að safna í sjóði sjávarútvegsins, sem koma þessu máli ekkert við, og margt annað furðulegt, sem gera átti, — allt þetta ætti síðan að skrifast á reikning ófaranna í Vestmannaeyjum. Þetta var það, sem við mótmæltum, og ég hygg, að Vestmanneyingar mundu hafa mótmælt mjög harðlega líka.

Eins og hér hefur verið sagt áður í dag, var ræða hæstv. iðnrh. með endemum. En væri henni að vísu snúið við, þá átti hún ákaflega vel við vinnubrögð hæstv. ríkisstj. í málinu. Eftirtektarverðast í ræðunni var þó, að hæstv. iðnrh. staðfesti algerlega það, sem sagt hefur verið um tilorðningu þessara till., og upplýsti, að ekki hefði verið til staðar það vitneskjuleysi flokksbróður hans, hæstv. sjútvrh., sem hann hefur alltaf borið fyrir sig, heldur hafi þeir ósköp vel vitað um þessi mál, en þetta ekki verið neinar einkatill. hæstv. forsrh. eða till. embættismanna, eins og hefur verið reynt að halda fram af hálfu ráðh. Alþb, og málgagns þeirra með mjög ósmekklegum hætti.

Nei, það, sem allt strandaði á, var skortur á einingu í stjórnarherbúðunum. Og engar till. í efnahagsmálum hafa síðan séð dagsins ljós, þangað til till. kom frv. um þá hluti, sem maður hefði haldið, að ekki ætti eftir að henda þessa hæstv. ríkisstj. Það var að taka hækkun á áfengi og tóbaki aftur út úr vísitölunni, sem var svo mikil þjóðarnauðsyn að koma inn í vísitöluna í byrjun stjórnarferilsins, að gefin voru út sérstök brbl. til að láta þessa hækkun verka að fullu þá þegar á kaupgjaldsvísitöluna. Sjálfstfl, hefur ekki stöðvað þetta mál. Það hefur ekki verið tekið til meðferðar hér í tæka tíð. Það hefur ekkert reynt á það. Við höfum lýst því yfir ýmsir, og ég hef ekkert farið dult með þá skoðun mína, að áfengi og tóbak, eða a. m. k. sá hluti áfengis og tóbaks, sem er hrein tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð, eigi alls ekki að vera í vísitölunni. Ég vil segja meira ég er þeirrar skoðunar, að tekjuöflunarleiðir ríkissjóðs, t. d. óbeinir skattar, eigi ekki heldur að vera í vísitölunni, því að það er auðvitað alger svikamylla að vera að afla tekna til að standa undir útgjöldum ríkissjóðs og láta þá tekjuöflun jafnframt verka til hækkunar kaupgjalds og alls tilkostnaðar í landinu. Það getur ekki gengið, og það er yfirleitt ekki gert í þeim löndum, sem hafa einhvern hemil á því. Held ég í rauninni, að menn geri sér orðið grein fyrir þessu. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að þetta verði að takast upp sem samningamál, eins og hefur verið sagt í dag. Vísitalan var endurskoðuð í tíð fyrrv. ríkisstj. Ég fór þá með þau mál og átti um það viðræður við ýmsa verkalýðsleiðtoga, m. a. bæði forseta Alþýðusambandsins og formann verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar o. fl., þegar sá vísitölureikningur lá fyrir, en hann var gerður af kauplagsnefnd, sem er skipuð, eins og menn vita, fulltrúum launþega og vinnuveitenda og hagstofustjóra. Þeim var gefinn kostur á að velja um nýjan grundvöll eða hinn eldri grundvöll, og niðurstaðan varð sú, að þessi grundvöllur, sem nú gildir, var valinn. Það var því með fullum friði og samkomulagi, sem þessi vísitölugrundvöllur var settur. Það kann vel að vera tímabært — og ég er þeirrar skoðunar — að endurskoða þennan grundvöll, ekki vegna þess, að neyzluvenjur hafi breytzt svo mikið frá því, að hann var settur, heldur vegna þess, að það eru ýmis atriði í sambandi við hann, sem hafa sýnt sig, að eru svo óhagstæð fyrir eðlilega þróun efnahagskerfisins, að það þarf breytinga við. Ég trúi ekki öðru en að verkalýðshreyfingin sé eins og þá reiðubúin fyrir sitt leyti, ef það er gert með skynsamlegum hætti og samkomulagi, að taka þetta kerfi allt til endurskoðunar og ná þeim tilgangi, sem stefnt er að, ef þannig er að málum unnið.

Það hefur verið enn eitt ógæfuatriði hæstv. ríkisstj. að vinna að þeim málum með þeim hætti, að það er erfitt um alla samvinnu við hana, og hlýtur það að vera gáta út af fyrir sig, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að fresta öllum efnahagsvanda til næsta hausts og semja þá við verkalýðshreyfinguna um lausn vandans í heild, en byrja á því æ ofan í æ að ráðast að verkalýðshreyfingunni og eigin stuðningsmönnum innan hennar og nánast hálshöggva þá og ætlast svo til þess, að þeir setjist eins og góðu börnin að samningaborði við hana í haust. Það er eftirtektarvert við allar þessar svokölluðu ráðstafanir hæstv. ríkisstj., ef ráðstafanir eiga að kallast, að þær eiga allar saman að gilda til næsta hausts. Ég veit ekki af hverju, hvort hún býst við að finna gullkistu fyrir þann tíma eða verða búin að milda verkalýðshreyfinguna þá og hún eigi að axla þann vanda að leysa hæstv. ríkisstj. niður úr snörunni eða hvort hún ætlar sér að segja af sér þá. Það eru ekki margir kostir til, því að það að miða allt við haustið 1973 er manni óskiljanlegt. Þetta verður enn óskiljanlegra fyrir þá sök, að þetta skuli allt vera komið í þennan hnút, að hæstv. núv. ríkisstj. hefur fengið tveggja ára frið, hún hefur fengið kjarasamninga til tveggja ára, sem fyrrv. ríkisstj. fékk aldrei. En það endar með þeim ósköpum, sem við stöndum andspænis í dag, stærstu dýríðaöldu, sem hefur blasað við nokkru sinni hér á landi frá stríðslokum a. m. k., ég fer ekki lengra aftur og tjóar þá ekkert að vera að gera einhverja útreikninga um hækkun vísitölu nokkur ár aftur í tímann og þar fram eftir götunum.

Við skulum horfast í augu við vandann eins og hann er í dag. Það er hann, sem þarf að leysa. Sá vandi er vissulega þess eðlis, að það er ástæða til þess uggs hjá þjóðinni, sem menn verða hvarvetna varir við, þegar í ofanálag á þær hörmungar, sem hljóta að valda þjóðarbúinu stórfelldum erfiðleikum, þ. e. a. s. vandræðum í Vestmannaeyjum og ýmis önnur efnahagsvandamál bætist, að togaraflotinn skuli liggja bundinn og ríkisstj. ekkert hafast að í einar 6 vikur. Það er satt að segja að verða borgurum landsins gersamlega óskiljanlegt. Það er eins og hæstv. ríkisstj. sé slegin algerri blindu. Og þegar það var upplýst hér fyrir nokkrum dögum af hæstv. sjútvrh., að það hafi aðeins borið á milli smáatriði, þegar verkfallið skall á, þá verður það enn óskiljanlegra, að ekki skuli vera búið að leysa þessa deilu. En hvað um það, út í þá sálma skal ég ekki nánar fara. En við stöndum nú andspænis því, að 1. marz hækkuðu laun í landinu um 12–14%. Þá tók gildi umsamin launahækkun verkalýðsfélaga, úrskurður kjaradóms varðandi laun opinherra starfsmanna og auk þess hvorki meira né minna en 7.32 k-vísitölustiga hækkun eða 7.32 stiga hækkun á kaupgjaldsvísitölu. Auðvitað er það gott og blessað að fá hækkuð laun. En ég held, að það dyljist engum, að hér er tjaldað til einnar nætur og varla það. Hér er hleypt af stað skriðu, sem er uggvekjandi. Og strax næstu daga, eftir að þessi launahækkun kom, og hæstv. ríkisstj. hælir sér að vísu af, þ. e. a. s. þeir Alþb.-menn sérstaklega, að nú hafi verið gerðar stórar umbætur fyrir almannatryggingaþega, — en ég held, að ekki síður þeir en aðrir hafi tekið þessum hækkunum með miklum kviða, — þá kemur þar til stórkostleg hækkun landbúnaðarvara. Ég er ekki að segja, að hún hafi verið óeðlileg. Hún er afleiðing af því dýrtíðarflóði, sem hafði að þessu leyti verið frestað að nokkru leyti. En hér er ekki numið staðar. Eftir því sem bezt verður vitað, mun kaupgjaldsvísitalan 1. júní hækka enn um 9–10 k-stig. Hér er því á hálfu ári orðin kaupgjaldsvísitölustigahækkun, sem nemur 16–17 stigum. Ég man ekki til, að nokkurn tíma hafi slík þróun átt sér stað, og hefur þó margt gengið á tréfótum í okkar þjóðfélagi í sambandi við verðlagsþróunarmál. Og vitanlega er þetta ekki endirinn, því fer víðs fjarri. Það eru áreiðanlega engar öfgar að segja, að við búum við hrollvekju, hver sem á að kljást við þann vanda. Um það, hvort ríkisstj. tekst að fá verkalýðshreyfinguna, þ. e. a. s. þá menn, sem þar ráða, til að fallast á einhverja viðhlítandi kjaraskerðingu til að mæta þessum vanda, skal ég ekkert segja. En ég held, að ég þurfi ekki að nefna nema þessar tvær tölur til að sýna, hversu geigvænleg þessi þróun er, og ekkert bólar á úrræðum. Það er auglýst eftir úrræðum okkar stjórnarandstæðinga. Það er gott og blessað. Við skulum koma fram með þau, þegar ríkisstj. hefur vikið úr stólum sínum og við höfum þá aðstöðu að geta fylgt þeim fram, eftir að kosið hefur verið og þjóðin fengið að segja sína skoðun á því, sem hér er að gerast.

Það hlýtur að vera skylda sérhverrar ríkisstj., — það var einnig skylda fyrrv. ríkisstj. að sjálfsögðu og sjálfsagt að krefjast þess að hafa forustu um að leggja fram till. um úrlausn jafnstórfellds efnahagsvanda og hér er um að ræða. Það gerði fyrrv. ríkisstj. líka á árinu 1967 og 1968. Á árinu 1968 var að vísu reynt að hafa stjórnarandstöðuna með, hún hljóp burt. Þegar búið var að láta hana hafa nokkra tugi kg af pappírum til að lesa, eyða tímanum í að safna þeim handa henni, þá hlupu þeir og vildu ekki taka á sig neinn vanda. Meðan hið háa Alþ. stendur ekki andspænis neinum till. um úrlausn efnahagsvandans, meðan hæstv. ríkisstj. lætur allt fljóta sofandi að feigðarósi, þá er þetta allt á hennar ábyrgð, og það tjóar ekki að segja, að við höfum ekki viljað taka þátt í aðgerðum. Þær hafa annaðhvort ekki séð dagsins ljós eða ekki einu sinni verið reynt að láta þær koma til atkv. hér á hinu háa Alþ. En það hefur ekki verið okkar sök.

Herra forseti. Ég hef vikið að efnahagsvandamálunum almennt og langar þá til að lokum að víkja nokkuð að öðrum þætti, sem er að sjálfsögðu nátengdur þeim vanda, sem ég hef verið að lýsa, en það er ríkisbúskapurinn. Ég skal að vísu taka undir það, sem hæstv. núv. fjmrh. hefur sagt, eftir að hann tók við völdum, en ég sagði áður og held, að hann hafi þá líka fallizt á, að fjárlagaafgreiðsla væri spegilmynd af efnahagsþróuninni á hverjum tíma. Ég er enn sammála um þetta. En hver er þessi spegilmynd? Hún er ofboðslegri hækkun útgjalda ríkissjóðs, ofboðslegri skattheimta og álögur en við höfum áður þekkt dæmi til. Að vísu voru beinir skattar til hér áður hærri en þeir eru nú, en það er langt síðan horfið var frá þeim skattakvöðum, stríðsgróðaskattinum, sem áður fyrr var við lýði, og því skattkerfi, sem var í gildi fyrir árið 1960. Það þarf ekki að útskýra það fyrir nokkrum manni, hvaða mynd það sýnir, þegar fjárlög hækka um allt að 100%. Hæstv. fjmrh. sagði hér í gærkvöld, að hér væri óheiðarlegur samanburður, vegna þess að annars vegar væru tekin fjárlög fyrir árið 1973 og hins vegar fjárlög 1971, sem hafi farið langt fram úr áætlun. Heldur hæstv. ráðh. virkilega, að fjárl. 1973 fari ekki fram úr áætlun? Hann er þá víst eini maðurinn á Íslandi, sem álítur það. Það er þegar búið að samþykkja slíkar kvaðir á ríkissjóðinn. Þær tölur, sem ég hef nefnt um hækkun kaupgjaldsvísitölu, jafngeigvænlegar og þær hækkanir eru, segja sína sögu, hækkanir almannatrygginga, sem af því leiðir og eru auðvitað hliðstæðar hækkanir, ekki er séð fyrir neinu af þessu nema 7% hækkun til opinberra starfsmanna. Við eigum enn eftir að sjá, hvort hægt er að skera niður útgjöld fjárl. eins og hæstv. ráðh. stefndi að. Ég vona, að honum takist það, en við eigum eftir að sjá það. Það voru 500–600 millj., sem vantaði á fjárl, þegar þau voru afgreidd nú um áramótin, þannig að hér er vitanlega ekki um neinn óheiðarlegan samanburð að ræða. Því fer víðs fjarri.

Hæstv. fjmrh. byrjaði, eins og ég sagði áðan, á því eftir samþykkt ríkisstj., — ég vil ekki ætla, að hann hafi haft um þetta forustu, að greiða úr ríkissjóði 650 millj. kr. umfram heimild fjárl. Mér fannst næsta broslegt, þegar hann var að lýsa því í ræðu sinni í gærkvöld, hvað hefði þurft að borga mikið úr ríkissjóði umfram fjárlög af kvöðum, sem hafi verið fallnar á sjóðinn og orðið að borga. Hann orðaði þar m. a. launahækkun opinberra starfsmanna og sagði, að launaútgjöldin hefðu verið færð tekjumegin. Ég skildi ekki þá skýringu. Það voru skildar eftir 270 millj., það er rétt, til þess að mæta þeim hækkunum. Þær urðu meiri, vegna þess að launaskriðið var meira en gert hafði verið ráð fyrir. En ef hæstv. ráðh. hefur vitað um það, — eða honum bar a. m. k. að kynna sér það, áður en hann ákvað að dæla út 650 millj. kr., þó að það væri til þarfra hluta, það skal ég taka undir, — þá bar honum að kynna sér, hvaða kvaðir mundu falla á ríkissjóðinn af þegar gerðum hlutum, hvort sem það hafði verið til góðs eða ills. Ekkert af því, sem hæstv, ráðh. hefur sérstaklega nefnt, hefur hann hingað til talið, að hafi verið hægt að komast hjá að gera. Ég ætla svo ekki að fara út í neinar deilur um það að öðru leyti, hvaða þarfir þarna var um að ræða. Þetta var á fallið, og það var staðreynd, sem fjmrh., verður að horfast í augu við, þegar hann tekur við embætti, hvort sem honum líkar betur eða verr. Þetta leiddi að sjálfsögðu til þess, að hallabúskapur varð hjá ríkissjóði á árinu 1971, öfugt við það, sem var árið 1970, og þetta á einnig sinn þátt í því að efla verðbólguvandann. Það getur verið gott og blessað að auka framlög til verklegra framkvæmda og félagsmála. Ekki skal maður hafa á móti því. Nú er það aftur á móti orðið, eins og á öðrum sviðum, að hæstv. ríkisstj. er hér að reyna að berjast við það, sem hún hefur vakið upp, — ég vil ekki í þessu tilfelli nefna draug, vegna þess að þetta eru góð mál, — á þann veg, að hún hamast við að reyna að skera niður og draga úr öllum þessum liðum, bæði opinberum framkvæmdum og að vísu ekki beint félagsumbótum, en þó er auðvitað sumt af því þess eðlis. Nú er hamazt við að draga úr þessu öllu saman, og þó standa málin þannig í dag, að það er ómögulegt að ná saman endum.

Eitt af því, sem valkostanefndin varaði við og lagði ríkasta áherzlu á, var að þenslan í ríkisútgjöldum og almennum framkvæmdum í landinu á vegum opinberra aðila væri orðin með ádæmum. Í ofanálag á þetta hafa safnazt ofboðslegri skuldir við útlönd á skömmum tíma en nokkru sinni hafa áður þekkst, 7 milljarðar á tveimur árum eða um 60%, og er áætlað af valkostanefndinni, að þessi tala — og miðar hún þó við verulegan samdrátt erlendra lána — verði ekki undir 70% í árslok 1973, og stefnir líklega heldur í þá átt, að hún verði hærri. Og það er eitt af því, sem valkostanefndin og hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar leggja hvað ríkasta áherzlu á í sambandi við efnahagsmálin, að hér verði að koma til samdráttur og þessi skuldasöfnun geti ekki átt sér stað áfram né sá framkvæmdahraði á öllum sviðum, sem að var stefnt og er góðra gjalda verður, ef þjóðfélagið þolir hann, en það þolir hann ekki á þeim verðbólgutímum, sem nú eru.

Það hefði verið brýn nauðsyn, að áfram hefði verið haldið eins og var gert 1970 að reyna að stefna að verulegum afgangi hjá ríkissjóði. Það hafði ekki tekizt árinu áður, það er alveg rétt, og við stóðum þá andspænis stórkostlegum erfiðleikum, sem auðvitað eru ekkert sambærilegir við þann vanda, sem ríkisstj. stendur andspænis í dag. Í dag er ekki um neinn samdrátt að ræða að öðru leyti en því, að það er samdráttur frá áður gerðum áætlunum um aukningu, sem er auðvitað gersamlega allt annað mál en það, þegar verður beinn samdráttur í útflutningstekjum þjóðarinnar, sem nemur allt að 50% á tveimur árum. Er auðvitað fjarri öllu lagi að bera slíkt saman, og þarf ekki að ræða það frekar.

Hæstv. fjmrh. hefur verið að leita og leita að úrræðum til þess að sýna fram á, að ríkisbúskapurinn sé nú ekki svo slæmur, og ég segi út af fyrir sig, að það væri ekkert að þakka, þó að hann væri ekki slæmur. Á tveimur árum hafa tekjur ríkissjóðs hækkað með þeim ofsahraða, að slíkt hefur aldrei áður þekkzt, og raunverulega ætti að vera hundruð millj. afgangur og hefði getað verið, ef skynsamlega hefði verið á haldið 1971 og einnig 1972, þannig að auðvitað væri nú lágmarkið, að ríkisbúskapurinn væri hallalaus. Það var hann ekki 1971. En það eru góð ráð dýr. Þó að það liggi fyrir í ríkisreikningum fyrir árin 1970 og 1971, sem hæstv. fjmrh. hefur lagt fyrir Alþ., að greiðsluafgangur hafi verið hjá ríkissjóði 1970 um 460 millj., en greiðsluhalli 1971 um 340 millj., eða um 800 millj. kr. versnandi staða ríkissjóðs á þessu tímabili, — þetta er í reikningum, sem hæstv. ráðh. hefur lagt fyrir Alþ., og er í samræmi við þær aðferðir, að afkoma ríkissjóðs hefur alltaf verið reiknuð eftir á, — þá lætur hæstv. ráðh. setja upp nýtt dæmi, sem út af fyrir sig er eins og um allar tölur þannig, að það er hægt að hagræða þeim, og það hefur verið snoturlega gert, — ég skal hæla honum fyrir það, — þannig að hann fær út, að 1972 sé bezta afkomuár ríkissjóðs. Vel kann þetta að verða. Það hafa aðeins legið fyrir spár um útkomu þessa árs, og það er vitað, að tekjurnar í ár verða óhemjulegar. Í fyrsta lagi er þess að gæta, að það er einum söluskattsmánuði fleira, sem kemur hér til tekna, en árið áður, og þróunin, sem var síðari hluta ársins, leiddi af sér hreint og beint kaupaæði. Sala áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins hefur farið svo stórkostlega fram úr áætlun, að slíkt hefur aldrei áður þekkzt, og kaup á bæði bifreiðum og ótalmörgum öðrum vörum fyrir áramótin, þegar fólk var að reyna að koma peningum sínum í önnur verðmæti, sem því miður virðast verðmætari í dag en peningar, hafa leitt til þess, að tekjur ríkissjóðs frá í des. urðu stórkostlegar. Ofan á þetta bætist svo það, að vegna skattpíningarstefnu hæstv. ríkisstj. urðu álagðir skattar, — ég segi álagðir til að fara ekki rangt með, — 1000 millj. kr. meiri á árinu 1972 heldur en gert var ráð fyrir í fjárl. Það eru auðvitað afföll af þessu vegna innheimtuvanhalda, en þar koma líka á móti eftirstöðvar frá fyrri árum, þannig að ég held því ekki fram, að hæstv. ráðh. hafi fengið 1000 millj. í kassann, en álagður tekju- og eignarskattur var nærri 1000 millj. meiri en árið áður, þannig að ég lofa ekkert hæstv. ráðh., þó að honum hafi ekki tekizt að eyða meiru en þessu. Ég veit ekki, hver heildartalan er, ég hef hana ekki fyrir mér. En öll þessi ósköp af tekjum á árinu 1972 hafa ekki dugað. Engu að síður, þó að allt sé tínt til, sjóður hjá ríkisféhirði og allar krónur, sem til eru, þá er 5.9 millj. kr. greiðsluhalli áætlaður. Ekki skal ég vefengja töluna, en hún er sennilega höfð til þess að sýna, hvað þetta sé allt nákvæmt og trúverðugt. Ég er ekki búinn að sjá, að það verði nákvæmlega þessi tala. Ég skal ekki fara út í þessar aðferðir, það er flókið mál. En það er auðvitað hægt að setja upp svona dæmi. Það breytir engu. Það, sem ég áður gat um varðandi niðurstöður ríkisreiknings, er auðvitað það, sem skiptir máli, og það, sem hefur snúið að hv. alþm. alla tíð og hlýtur enn að snúa að þeim, vegna þess að þetta dæmi, sem hæstv. ráðh. er að reyna að setja upp, er svo flókið, að það er engin leið að átta sig á því nema hafa fyrir sér mörg önnur atriði, sem hæstv. ráðh. hefur hér sett á blað og las fyrir okkur í gærkvöld í belg og biðu. Það þarf t. d. að gera sér grein fyrir því, hvað hefur verið tekið mikið af lánum. Það þarf að gera sér grein fyrir því, hvað er með innheimtufé, sem ríkissjóður á að standa skil á til annarra aðila, ef við ætlum að setja dæmið svona upp. Og það þarf að gera sér grein fyrir því, hverju er frestað af greiðslum fram yfir áramót. Það verður líka að gera það upp. Ótalmargt af þessu tagi verður að gera upp, til þess að það sé stætt á að bera fram slíkar tölur sem hæstv. ráðh. bar fram og ætla að sanna mönnum, að hér hafi verið vel og dyggilega á málum haldið, að eyða þó ekki fram úr þeim óhemjutekjum, sem honum áskotnuðust þessi ár. Og ég verð að segja, að jafnvel þó að hann skili sléttu nú 1972, þá er ekkert sérstakt að þakka.

Herra forseti. Ég hef þegar orðið of laugorður um þessi mál, en þó væri margt hægt að segja enn, sem athyglisvert er. Ég held, að það dyljist engum, þó að við sleppum öðrum málum en efnahagsmálunum og fjármálunum, sem ég hef hér vikið að, að við stöndum andspænis geysilegri hættu í okkar efnahags- og fjármálalífi, og eins og ég sagði í upphafi míns máls, ég trúi því ekki, að hæstv. ríkisstj. geri sér ekki einnig grein fyrir þeirri verðbólguskriðu og ógnaröldu, sem fram undan er og setur í hættu alla atvinnuvegi þjóðarinnar innan skamms tíma, ef ekkert verður aðhafzt. Ég trúi því ekki, enda þótt það sé furðulegt, að ekki skuli vera komnar fram á Alþ. till. frá hæstv. ríkisstj. um það, hvernig eigi að mæta þessum vanda. Hefur hún ekki samstöðu um slíkar till. í sínu stuðningsliði, eða hvað er að? Ég trúi því ekki heldur, að hæstv. ráðh. séu, það skyni skroppnir að gera sér ekki grein fyrir því, að lengur er ekki hægt að bíða, og það er búið að bíða of lengið með aðgerðir til þess að stöðva skriðuna. Það hlýtur því eitthvað að vera að. Innviðirnir eru eitthvað farnir að bogna eða jafnvel að bresta í hv. stjórnarflokkum, þegar jafnmiklir atorkumenn og þar sitja láta þetta lönd og leið. Þeir gera að vísu smátilraunir öðru hverju, en sumar sjá ekki dagsins ljós eða þá að það er ekki einu sinni reynt að fá þær til atkvæða hér á Alþ. Þetta er auðvitað algerlega nægjanlegt til að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir. Ég sagði áðan, að hæstv. ríkisstj. hefði bezt af því sjálf, að hún yrði samþykkt. Og það getur verið freistandi, — en þannig hefur maður auðvitað ekki leyfi til að hugsa, — að hún fengi að fást við vandann nokkru lengur til að sýna vanmátt sinn, en það er of dýrt fyrir þjóðina. Henni ber því skylda til þess í rauninni, hvað sem líður þessu vantrausti, að leita á ný, við skulum segja: trausts þjóðarinnar, ef hún treystir því, að það sé enn fyrir hendi, þegar það liggur fyrir, að hún hefur hegðað sér á yfirleitt allan hátt andstætt því, sem hún lofaði kjósendum sínum í síðustu kosningum.

Svo aðeins að lokum: Ég veit ekki, hver ætlunin er í þessu efni, en það vakti nokkra undrun, að einn hv. þm. úr stjórnarliðinu skyldi rísa hér á fætur til að lýsa því yfir, að hann ætlaði að greiða atkvæði gegn vantraustinu. Ég veit ekki, hvort hann er sá eini eða hvort hann hefur óttazt, að honum væri eitthvað sérlega vantreyst, að hann mundi styðja stjórnina. Ég held nú, að eins og hefur verið búið að þessum hv. þm. með ýmsu móti af stjórnarliðinu og vegna þeirra fríðinda, sem hann hefur notið, og þess valds, sem honum hefur verið fengið til að mæla fyrir Íslands hönd víðs vegar úti um heim, — að vísu með misjöfnum árangri fyrir þjóðina, látum það liggja milli hluta, — þá verð ég að segja, að mig undraði, að þessi hv. þm. skyldi finna alveg sérstaka hvöt hjá sér til að lýsa því yfir, að hann styddi enn þá stjórnina. Við eigum eftir að sjá, hve margir feta í fótspor hans.