06.03.1973
Sameinað þing: 54. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2369 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja með því að lýsa ánægju minni yfir aðgerðum varðskipanna okkar á s. l. sólarhring, og ég vænti þess, að fast verði haldið áfram með sama hætti. Mál var til komið að hefjast handa við að verja landhelgina og sýna öðrum þjóðum, að útfærslan á ekki að vera pappírsplagg. Við erum hér að verja lífshagsmuni okkar, og það má öllum vera ljóst, að til þess verðum við að takast á við þann vanda, sem þar er við að eiga, þótt við höfum rýran skipakost. Það var samþykkt hér á Alþ. fyrir löngu að hefjast handa um endurnýjun eða kaup á skipi. Ég hef ekkert frétt af, hvað hefur gerzt í því máli. En það væri fróðlegt að vita, hvernig þeim undirbúningi líður. Það er óþolandi, ef þær fregnir eru réttar, að Bretar hafi í skjóli hjálparskipa sinna og ytri aðstæðna hér á Íslandi tekið upp meiri fisk á okkar miðum nú eftir útfærsluna en verið hefur.

Við myndun núv. ríkisstj. var gerður langur og ítarlegur málefnasamningur, svo sem margfrægt er orðið og oft hefur verið vitnað til hér á Alþ. Í þessum umtalaða samningi var nánast allt milli himins og jarðar, er snerta kunni íslenzk málefni og tillögur um draumaríki hér. Margir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. voru vonglaðir yfir þessu og sáu fram á bjartari dag. Því hafði mjög verið lofað í kosningabaráttunni, að með nýjum mönnum mundu koma nýjar hugmyndir og ný úrræði, það ætti nú alls ekki að grípa til hinna vesælu viðreisnarúrræða og hugmynda íhaldsins og þar fram eftir götunum. Þetta hreif, og nýr meiri hl, náðist með myndun þessarar ríkisstj. af fyrrv. stjórnarandstöðu. Það var stofnaður nýr flokkur og hann hrósaði sigri og lofaði miklu á hv. Alþ. Ríkisstj. tók rösklega til höndunum, og það hefur verið talað um, að hún hafi haldið nokkurs konar reisugildi strax í upphafi án þess að huga að traustum tekjustofnum í sambandi við útgjöld af því tilefni. Nú upplýsti hæstv. fjmrh. í gærkvöld, að staða ríkissjóðs hafi verið einkar ömurleg, ef ég hef skilið orð hans rétt. Í ljósi þessara orða finnst mér því athyglisverðara, ef miklum útgjöldum hefur verið ráðstafað án þess að hafa hugmynd um, að staðan væri svona slæm, eins og hann upplýsti í gær. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir síðustu áramót kom í ljós, að útgjaldahækkun á tveimur árum hefur orðið um 100% á tveggja ára tímabili.

Í málefnasamningnum góða var talað um, að það ætti að hefta verðbólgu og gæta hófs. Þó var markið ekki sett hærra en það, að við áttum að fylgjast sem næst með nágrannalöndum. En er þetta ekki verðbólguaukandi? Hvað er þá verðbólguaukandi, ef það er ekki tvöföld hækkun ríkisútgjalda á svona skömmum tíma?

Og það hefur oft verið talað um, að fjárlögin væru spegilmynd af stefnu viðkomandi ríkisstj., og hefur núv. fjmrh. oft vitnað í og notað það orðalag. Nei, þrjár gengisfellingar hafa átt sér stað, ein ekta íslenzk, að því er hæstv. viðskrh. hefur sagt hér, aðrar vegna ytri aðstæðna. Þó hefur því verið lýst yfir, að verðlag á okkar útflutningsafurðum sé nú með þeim ágætum, að slíkt hafi ekki átt sér stað áður. Um 63% afurða okkar eru að vísu skráð á dollara og bundin dollara, þannig að það hlýtur í eðli sínu að vera nokkuð erfitt að fylgja óbreyttu gengi, þegar dollarinn fellur mikið. En skv. þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, virðist manni þrátt fyrir allt ekki hafa verið nein ástæða til þess að fylgja dollaranum að fullu nú í síðasta skipti, þegar hann féll. Og ekki var hugleitt neitt um það tjón, sem sparifjáreigendur verða fyrir, þegar dollarinn fellur um 10% og annar gjaldeyrir hækkar um 10% eða jafnvel meira. Sparifjáreigendur verða fyrir tjóni á annan milljarð, og það er ekki rætt hér í þingsölunum, það skiptir þjóðina engu máli. Afleiðingin af þessu er sú, eins og drepið hefur verið á fyrr í dag, að menn fjárfesta nú eins og þeir geta, eyða sparifénu eins og þeir hafa möguleika til, og þetta kyndir allt undir verðbólguna, hefur þveröfug áhrif. Fólkið sér fram á, að það er um að gera að koma peningunum í lóg: í bíl, fasteign eða einhvern veginn, svo að þeir rýrni ekki um of, þrátt fyrir marggefnar yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. í málefnasamningnum um, að hún mundi alls ekki beita gengisfellingu til úrræða í efnahagsvanda. Ríkisstjórn hinna vinnandi stétta, eins og þeir vilja kalla sig, er sem sagt einhver mesti hvati til aukinnar verðbólgu hér á landi vegna ráðleysis, vegna innbyrðis samstöðuleysis um lausn efnahagsmála.

Það var alveg rétt hjá síðasta ræðumanni, að sprengingin mun koma innan frá. Það er þegar búið að kveikja þann neista, sem á eftir að sprengja hæstv. ríkisstj. innan frá. Þetta er ömurleg staðreynd. Á þetta getur íhaldið bent og sætt hinn almenna borgara við hægri stjórn á Íslandi óákveðinn tíma. Þetta er hættulegt fyrir framtíðina. Vinstri öflin verða að ná saman og bera gæfu til þess að ráða við efnahagsmálin á Íslandi, annað er þeim ekki sæmandi. Ég tel og hef aldrei farið dult með það, að kommúnistar séu hér einn mesti skaðvaldurinn, og það mun alltaf verða svo, meðan sú deild er svo sterk á Íslandi sem raun ber vitni um. Stór hluti manna í Alþb. er ágætisfólk, en hinn sterki armur kommúnistanna ræður þar miklu og hefur enn undirtökin á mikilvægum sviðum. Hann gefur ekkert eftir, það er þeirra takmark, og þeir fara ekki dult með það. Það var auðheyrt líka, hvernig tónninn var í hæstv. iðnrh. í gær, er hann ræddi fyrst og fremst um eldgosið og ræddi í allri sinni ræðu fram og aftur um eldgosið. Maður gat skynjað það, að þeir væru ekki ánægðir með þá hjálp, sem kemur utanlands frá, enda sagði hann í sjónvarpinu, að það væri rislágt Norðurlandaþingið, og svo fréttist síðar, að hann hefði ekki tekið til máls. Manni kemur til hugar, að þeim sé illa við það, að kommúnistalöndin skuli ekki bjóða hjálp. Mér vitanlega hafa þau ekki boðið neina aðstoð. Þetta er ekki mál til að blanda hér saman við. Það hefur margoft verið undirstrikað, að þetta er sérmál, sem öll þjóðin vill standa saman um að leysa. Og við fáum góða hjálp erlendis frá líka.

Efnahagsmálin eru okkar eigin vandi, og við verðum að fást við hann, vegna þess að hann er heimatilbúinn. Og hvað um allar verðhækkanirnar undanfarna daga? Hvernig hefur Þjóðviljinn slegið þeim upp? Verðhækkun á mjólkinni, kjötinu og því um líku? Það fer ekki mikið fyrir því á síðum Þjóðviljans núna. En mér segir svo hugur um, ef slíkt hefði átt sér stað undir viðreisninni, að þá hefði farið dálítið af prentsvertu í stærri staði á síðum Þjóðviljans við slíkar verðhækkanir, sem eðlilegt er, þegar mjólk og kjöt hækkar frá 25% upp í 40%. Nei, nú telja þeir betra að fara varlega og tala varlega og segja sem allra minnst, af því að ráðherrar þeirra sitja í ráðherrastólunum, og það er bezt að tala mjög varlega, svo að þetta sjáist varla.

Hér var fyrir nokkru rætt mikið um togaraverkfallið og það að vonum, og það er nú ljóst, að enn er það í hnút og jafnvel í verri hnút en nokkru sinni áður. Það er líka orðið ljóst, að togaraverkfallið er deila á milli togaraeigenda, hvort sem menn vilja nefna þá eigendur einkaútgerðar eða bæjarútgerðar, þá er það orðin deila milli eignaraðila og ríkisvaldsins. Og þessa deilu verður að leysa. Það er hneisa, að þessi stórvirku nýju tæki liggi hér viku eftir viku bundin og ekki sé ráðizt á þann vanda, sem hér er um að ræða, og hann leystur. Það er staðreynd, að þó að þessi skip séu glæný, verður ríkissjóður strax að gefa með þeim, áður en þau hefja reksturinn. Menn réðust í það að kaupa togarana, vegna þess að þá var von um, að hægt væri að reka þá við þau skilyrði, sem viðreisn hafði búið þeim. En því miður er sú von brostin, og þess vegna er verkfallið komið. Og togarasjómenn eru ekki of sælir af þeim tekjum, sem þeir hafa, og mundi koma lítið hjá hæstv. fjmrh. í ríkiskassann, ef allir hefðu slíkar tekjur eins og þeir hafa, a, m. k. tryggar. Þó að einn og einn togarasjómaður á beztu togurum beri gott úr býtum, þá er það vel maklegt og vel til þess unnið að öllu leyti.

Það fór líka lítið fyrir hæstv. viðskrh. hér í þingsölunum, þegar atkvgr. um samninginn við EBE var hér til meðferðar. Hvers vegna fór lítið fyrir honum? Hann var ekki viðstaddur hér í borginni. En ætli einhverjar aðrar ástæður hafi ekki legið til? Ætli honum hafi verið vel við það, að samningurinn fékk gildi strax? En framsóknarráðh. eiga þakkir skilið fyrir að taka af skarið með það að fá samninginn staðfestan, vegna þess að við höfum allt að vinna þar, en engu að tapa. Okkur veitir sannarlega ekki af því að ná öllum þeim viðskiptakjörum, sem eru okkur til hagsbóta og möguleikar eru á, bæði varðandi sjávarútveg og iðnað. Og þótt við fáum ekki staðfestingu varðandi sjávarútveg, þá vænti ég þess, að hæstv. ríkisstj., beri gæfu til þess að leysa deilu okkar við nágrannaþjóðir varðandi landhelgina á þann veg, — eins og ég held, að hv. þm. Jónas Árnason hafi komizt að orði, — „sem við gætum vel við unað“. Það viljum við auðvitað allir saman.

Menn hafa víða tekið eftir því, þegar þeir hlustuðu á útvarpið í gærkvöld, að hæstv. forsrh. gaf í skyn ósk um breiðara samstarf. Ekki er mér ljóst, með hvaða hætti hann ætlast til, að það eigi sér stað. Augljóst er, að meðal kjósenda hefur hæstv. ríkisstj. ekki meiri hl. í dag og því vonlaust að biðla til okkar í Alþfl. nú um aðild með andrúmsloft innanborðs eins og ljóst er, að ríkir á stjórnarheimilinu.

Hæstv. menntmrh. hafði yfir þau orð hér í gærkvöld, sem ég vil nú mótmæla, að eigi nú við nokkurn þm., en þau voru þannig, ef ég man þau orðrétt: ómerk eru ómaga orð. — Þetta tel ég einum of langt gengið, og verð að segja: Aumt hlutskipti er það fyrir hæstv. ríkisstj. að eiga líf sitt undir ómaga orðum og allan tilverurétt. Getur sú ríkisstj. setið lengur við völd, sem svo er komið fyrir? Nei, alls ekki að mínu mati. Það er siðferðislega ekki hægt að hanga við ráðherrastólana við slíkar aðstæður.

Ég get ekki séð, þótt hæstv. félmrh. hafi talað um harða stjórnarandstöðu frá okkur í Alþfl. Við höfum ekki verið svo harðir í Alþfl., að þeir hafi þurft að kveina undan því undanfarna mánuði. En ég sé ekki annað en að samtökin séu að riðlast undir hans forstöðu og það fari lítið fyrir þeim eftir næstu kosningar, svo að hann ætti að fara að hætta að kvarta undan því, að við séum harðir við hann.

Það er nú orðið liðið mjög á þessar umr. og margt búið að ræða hér um efnahagsmál, sem maður hefði gjarnan viljað minnast á, og því get ég raunar stytt mál mitt. Það er löngu ljóst, að mennirnir hafa ekki ráð undir rifi hverju, þegar þeir sitja nú í ráðherrastólum, þótt þeir lofuðu því mjög í kosningabaráttunni og segðu, að þáv. ráðh. væru orðnir þreyttir og úrræðalausir. Frægt er orðið álit valkostanefndar, sem kom hér fram. Það var engin leið farin, það var ekki einu sinni farin „hin leiðin“, það var búið til eitthvert samsull, sem núv. hæstv. ríkisstj. er að fást við að reyna að framkvæma og stefnir í öngþveiti. Útlitið er þannig, að á komandi vori jafnvel eða haustmánuðum megi búast við fjórðu gengisfellingunni eða breytingu á skráningu stofngengis íslenzku krónunnar, eins og það er orðað núna mjög laglega, þegar ekki má kalla það hreina gengisfellingu.

Ég fæ ekki betur séð en það sé aðeins spurning um tíma, hvenær þessir hæstv. ráðh. gefast upp og þá fyrir heimatilbúnum vanda að mestu leyti. Þá má gera ráð fyrir, að krafa verði gerð um kosningar frá hendi íhaldsins, eins og ég sagði áður. Það verður mjög hamrað á því, að vinstri öflin í þjóðfélaginu geti með engu móti starfað saman og tryggt þjóðinni heilbrigða efnahagsstefnu. Vinstri menn verða að finna, hvað er til hindrunar hjá þeim sjálfum, til þess að geta mótað breiða samfylkingu til sigurs og mótunar þeirrar efnahagsstefnu, sem metur að verðleikum ráðdeildarsemi, vinnusemi og heiðarleik í samskiptum manna. Þetta á að viðurkenna sem hornstein undir efnahagsstefnu vinstri manna og móta ríkisstj. samkv. því og framkvæma hlutina samkvæmt því. Það er tilgangslaust að hafa langan loforðalista, sem ómögulegt er að framkvæma og engin samstaða er um að framkvæma. Það hefur nú gerzt varðandi hæstv. ríkisstj., og því hlýtur skammur tími að verða, þar til hún hrökklast frá.