06.03.1973
Sameinað þing: 54. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fara út í almennar umr., en það var ein setning í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e., sem ég þarf að leiðrétta. Hún virðist vera byggð á misskilningi, hvorum okkar sem er um að kenna. Ég ætla aðeins í leiðinni að segja honum það, að eins og hann á sitt Ólafskver, á ég Viðreisn og líka framkvæmd á gengislækkun með viðbótarathugun á mánuðunum þar á eftir, en um þetta getum við talað síðar. Það, sem ég þurfti að leiðrétta, var það, að hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði, að ég hefði í sambandi við yfirlit það, sem ég gaf um afkomu ríkissjóðs og Seðlabankans og sjóðreiknings ríkissjóðs, talið þetta beztu afkomu ríkissjóðs. Hér liggur misskilningurinn, því að það, sem ég taldi hér upp, var, eins og ég sagði hér, með leyfi hæstv. forseta, þetta, að ég vildi gefa hv. þm. og öðrum áheyrendum yfirlit yfir viðskipti ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands miðað við áramót um nokkurt árabil, og væri jafnframt tekin inn í það dæmi sjóðseign ríkissjóðs í árslok og skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann, hvort sem þær hafi verið á hlaupareikningi eða skuldabréfi. — Eftir að ég hafði lesið þetta upp, endurtek ég þetta einnig, með leyfi hæstv. forseta: Þessi er niðurstaðan af áramótauppgjöri ríkissjóðs og Seðlabankans, þegar sjóðseign ríkissjóðs er tekin með, skuldabréfalán Seðlabankans og innistæður á hlaupareikningi. — Ég vildi leiðrétta það, að þetta er yfirlit um viðskipti Seðlabankans og ríkissjóðs og niðurstaða á sjóðreikningi, en ekki heildarniðurstaða um afkomu ríkissjóðs, eins og síðar kom fram í ræðu minni. Hv. 2. þm. Norðurl. e. skildist, að ég hefði sagt, að þetta væri bezta afkoma ríkissjóðs á einu ári. Þetta sagði ég ekki, heldur var hér um að ræða beztu stöðu við Seðlabankann, þótt sjóðseign væri þar með talin miðað við þann árafjölda, er ég tilgreindi. Ef hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur ekki fengið þetta yfirlit, eins og ríkisbókari gerði það fyrir mig, — og það var ekki gert upp með neinum sérstökum hætti, — þá mun ég sjá um, að hann fái það, til þess að það fari ekkert milli mála, hvernig þessi viðskipti eru gerð upp.