06.03.1973
Sameinað þing: 54. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2381 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka aftur til máls í þessum vantraustsumr. og ekki heldur þó að ærið tilefni hafi verið gefið til þess af hæstv. iðnrh. í umr. í útvarpinu í gærkvöld. Sannast að segja er ég orðinn svo vanur að heyra þann ósóma, sem hann ber á borð fyrir þm. og þjóðina, að mér bregður ekki eins mikið og eðlilegt væri.

Nú kemur hæstv. iðnrh. og segir hér: Það voru allt staðreyndir, sem ég sagði í gærkvöld um Vestmannaeyjamálið. — Það er varla ein einasta setning sönn í ræðu ráðh., — varla ein einasta setning. Og nú vitna ég til hæstv. forsrh. og hæstv. forseta Sþ. Stjórnarandstaðan gekk strax í öndverðu með heilum hug til samstarfs við hæstv. forsrh. og til samstarfs við hæstv, forseta Sþ. sem formann 7 manna n., og mér þætti vænt um, ef það er svo, að annar hvor þessara manna geti borið stjórnarandstöðunni á brýn, að hún hafi sýnt lágkúruskap í samvinnu sinni við þá um lausn þessara mála. Ef þeir taka ekki undir þessi orð hæstv. iðnrh., þá skil ég það þannig, að þeir staðfesti með mér, að það sé rangt og ósatt, sem hann hefur sagt í þessu efni.

Auðvitað er vandi Vestmannaeyja vandamál allrar þjóðarinnar. En það var eitt af því, sem fyrst varð samkomulag um innan 7 manna n. að blanda ekki þeim sérstæða vanda við annan efnahagsvanda, sem m. a. hæstv. iðnrh. hefur verið fremstur manna í að skapa hér í þjóðfélaginu með óstjórn sinni. Um þetta varð samkomulag innan 7 manna n. Við skulum öll taka höndum saman um að leysa þennan sérstæða vanda Vestmanneyinga, sem að sjálfsögðu hefur áhrif á þjóðfélagið í heild. En það liggur utan við þjóðfélagsvandann í efnahagsmálum almennt, eins og t. d. vísitöluskerðingu, heimild til grunnkaupshækkana o. s. frv. Ég skýrði frá því, á laugardegi, 27. jan., held ég, að það hafi verið, eftir að þingflokkur sjálfstæðismanna hafði haldið fund, að það væri ýmislegt í þeim till., sem hæstv. ráðh. og ríkisstj, höfðu fengið okkur formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, sem lægi utan við lausn Vestmannaeyjavandans. Hæstv. forsrh., — það voru tveir menn aðrir, sem hlustuðu á þessi viðtöl okkar, — tók þá fram sjálfur: Er það t. d. þetta, sem liggur utan við vandann, við skulum segja t. d. að afla fé í fiskveiðasjóð? Er það t. d. vísitöluskerðing, sem liggur utan við vandann? — Já. Er það kannske fleira? — Já, það er fleira, sem við þurfum að gefa okkur tóm til þess að ræða um alvarlega, og þess vegna á ekki að hrapa að afgreiðslu málsins, en láta nægja að semja yfirlýsingu fyrst í stað, eins og raun varð á á mánudeginum eftir, 29. jan., og síðan gefa okkur tóm til þess að leysa vandann.

Ég held, að það megi með sanni segja um alla þá, sem í 7 manna n. áttu sæti, og það voru menn frá öllum flokkum, þ. á m. flokksbróðir hæstv. iðnrh., hæstv. viðskrh., að þeir hafi allir lagt sig fram, og ég skil ekki, að í þeim hóp sé nokkur ein rödd, sem ber aðra brigzlyrðum, enda tókst á skömmum tíma að leysa vandann. Ég held, að þeir eigi allir skilið lof þjóðarinnar fyrir það, þingmanna og þingsins, fremur en annan eins óhróður og þann, sem hæstv. iðnrh. leyfði sér hér að bera á borð.