07.03.1973
Efri deild: 66. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2395 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

190. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Jón Árnason:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. frsm. sjútvn., hefur frv. þetta verið nú um nokkurn tíma hjá n. til sérstakrar athugunar, og varð fljótlega, eftir að n. tók þetta mál til meðferðar, samkomulag um það, að vinna skyldi að málinu eins og fram kemur með flutningi þessa frv. Það eru ýmsir annmarkar á því að vera með svo náskyld mál og eru í þessu frv. í mörgum lögum og miklu fyrirhafnarmeira fyrir þá, sem þurfa að nota löggjöfina, að því sé þannig skipað, en að hafa það eins og felst í frv., sem n. flytur.

Efni frv. er, að því leyti sem því er breytt frá gildandi l., eins og frsm. greindi frá í samræmi við það, sem samið hefur verið um af hinu opinbera í þeim samningum, sem áttu sér stað varðandi sjávarútveginn um s. l. áramót. Hér er um verulega auknar tekjur af útflutningsgjaldi að ræða, eins og greint hefur verið frá. Er gert ráð fyrir, að það séu um 177 millj. kr. Ráðstöfun á upphæðinni að þessu sinni verður hins vegar þannig, að meginhlutinn af þessum nýju tekjum rennur beint í vátryggingarsjóð fiskiskipa. Vissulega var full þörf á því, eins og staða þess sjóðs er í dag, að þar yrði ráðin einhver bót á.

Það var aðeins eitt atriði, sem ég vildi mælast til, að yrði tekið til athugunar á milli umr. Það hefur verið komið að máli við einstaka menn úr n. um það, nú eftir að n. afgreiddi frv., eins og það liggur hér fyrir, að taka til endurskoðunar, hvort ekki væri hægt að fallast á að færa gjald af útfluttri saltsíld úr 6. lið, eins og það er nú, þar sem gert er ráð fyrir að greiða 6% gjald af saltsíldinni, í 4% liðinn undir tölul. 4. Það má segja, að þetta eigi nokkurn rétt á sér vegna þeirra erfiðleika, sem saltsíldarframleiðslan á við að búa, sérstaklega eins og hefur verið á síðasta ári og nú eru horfur á. Ef hægt verður að stunda síldveiði í Norðursjó á yfirstandandi ári, er svo kostnaðarsamt að eiga við þá framleiðslu og fyrirhafnarmikið, að það á fyllilega rétt á sér, að það sé heldur létt á þessari framleiðslugrein og gjaldið lækkað úr 6% í 4%, eins og er um þá vöruflokka, sem falla undir 4. lið. Ég vildi mælast til þess, að þetta yrði tekið sérstaklega til athugunar á milli umr., og mér finnst, að margt mæli með því, að þessu sé breytt.