07.03.1973
Neðri deild: 61. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2412 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

167. mál, Lyfjastofnun ríkisins

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur nú gert allítarlega grein fyrir því frv., sem hér er á dagskrá, frv. til l. um Lyfjastofnun ríkisins, og einnig vikið nokkuð að efni síðara frv., sem er á dagskránni, en fyrst og fremst hinu fyrra. Ég ætla mér ekki að fella neina dóma um þetta frv. á þessu stigi málsins. Það er að vísu svo, að sumir láta mikið af því, að það sé nauðsynlegt að fjölga stofnunum ríkisins, og það á að vera af einhverjum félagslegum ástæðum. Forsendurnar eru oftast nær þær, að þeir, sem að þessu standa, séu miklu betur hugsandi en aðrir menn í þjóðfélaginu og beri hag almennings og samfélagsins meir fyrir brjósti og þess vegna þurfi að auka ríkisafskiptin. Við höfum mýmörg dæmi þess, að reynsla, sem við höfum í þeim efnum, stefni í neikvæða átt, sé oft neikvæð, og því er það eðlilegt, að menn hafi margir hverjir fyrir fram nokkurn ímugust á því, þegar slík mál eru flutt.

Það á að vera eitt stefnuskráratriði Ólafskvers að setja slíka stofnun á laggirnar. Það mælir út af fyrir sig ekki með frv., þó að það sé í samræmi við stefnuskrá núv. ríkisstj., en þar er mjög mikið gumað af því, eins og kunnugt er, að ríkisstj. vilji starfa á félagslegum grundvelli til hagshóta fyrir allan almenning í þjóðfélaginu.

Um mál eins og þessi, sem hafa nokkuð sérstæðan aðdraganda og undirbúning, er það í raun og veru svo, að það eru fyrst og fremst þær n., sem málin fá til meðferðar, sem hafa aðstöðu til að vinna að þeim og kynna sér bæði af efni frv. sjálfra og einnig af umsögnum annarra, sem málunum eru kunnugir, hvað kunni að vera til bóta og hvað ekki.

Ég vil ekki við þessa 1. umr. láta undir höfuð leggjast að gera grein fyrir því, að mér hefur borizt sem formanni þingflokks Sjálfstfl. bréf frá Félagi ísl. stórkaupmanna, sem snertir aðallega Lyfjastofnun ríkisins, og er að finna í því og fskj. með því ýmsar aths. við þau frv., sem hér er um að ræða. Félag ísl. stórkaupmanna segir um frv. til l. um Lyfjastofnun ríkisins í ályktun, sem þar var gerð 24. febr., eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Félags ísl. stórkaupmanna 1973 mótmælir eindregið frv. til l. um Lyfjastofnun ríkisins, sem lagt hefur verið fram á Alþ., og bendir á, að auk þess að vera beint kostnaðaraukandi fyrir hina almennu skattborgara, leysir frv. engin vandamál, sem ekki má ráða bót á með einfaldari og ódýrari hætti. Jafnframt átelur fundurinn mjög þau vinnubrögð, sem viðhöfð voru við undirbúning þessa frv., þar sem ríkisvaldið hafnaði þátttöku þeirra aðila í undirbúningsnefnd, sem mesta reynslu og þekkingu hafa á lyfjainnflutningi og lyfjaheildverzlun.“

Ef hér er rétt með farið, er í sjálfu sér ekki á að lítast að öllu leyti og ber að gjalda varhug við ýmsu, sem hér er fram sett. En eins og ég sagði áðan, er það fyrst og fremst verkefni þeirra n., sem fær málið til meðferðar, að kryfja til mergjar þau atriði, sem sett eru fram í frv. og deilt er á í þessari ályktun, sem ég nú hef lesið.

Með þessu bréfi Félags ísl. stórkaupmanna fylgdi einnig álit svokallaðs lyfjavöruhóps félagsins á frv., en í hópnum eru starfandi 10 lyfjaheildsalar. Ég hef ekki nema að litlu leyti kynnt mér þetta álit, en skýrsla lyfjavöruhóps Félags ísl., stórkaupmanna (FÍS) byrjar á aths. við álit lyfjamálanefndar, og þær eru 4 tölul. Þeir hefjast með þessum orðum. 1. liðurinn: „Það er rangt.“ 2, liðurinn: „Það er rangt í flestum tilfellum.“ 3. liðurinn: „Það er rangt.“ 4. liðurinn: „Það eru bein ósannindi.“

Nú vil ég aðeins tilfæra þessa liði til áréttingar, en í 1. lið segir, að það sé rangt, að 15 lyfjaheildsölur stundi innflutning. Lyfjaheildsala mætti kalla 10, af þeim hafa 5 nær 80% alls lyfjainnflutnings, en 11 lyfjabúðir stunda innflutning, þar af 7 í verulegum mæli.

Í 2. tölul. segir: „Það er rangt, að í flestum tilfellum séu fleiri en einn innflytjandi frá hverjum framleiðanda, en hins vegar er rétt, að tilfellin eru of mörg, enda þótt það væri ekki nema eitt.“

Í 3. tölulið segir: „Það er rangt, að lyfjaheildverzlanir innan lyfjavöruhóps FÍS hafi ekkert samstarf, og hefur það reyndar verið vaxandi s. l. ár, þ. e. um þau atriði, sem ekki varða heina samkeppni:`

Og í 4. tölulið segir: „Það eru bein ósannindi, að ekki sé um samkeppni að ræða innan lyfjaheildverzlunarinnar, enda einum nm. í lyfjamálanefnd fullkunnugt um það, sem og full viðurkenning þess, hvað verðsamkeppni varðar, er í 28. gr. núv. reglugerðar um lyfjaheildverzlun.“

Í lok þessarar skýrslu lyfjavöruhópsins er hins vegar viðurkennt, að það sé margt, sem þurfi endurbóta á sviði þessara mála. Þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Lyfjavöruhópur FÍS telur, að auk þessa,“ sem þeir hafa talið upp og tíundað og ég fer ekki meira út í að þessu sinni en nú þegar hefur verið gert, — „séu margir liðir Lyfjaverzlunarinnar, sem enn mætti og þyrfti að athuga, og bendir á, að miklu meira máli skipti, að heildarendurskoðun lyfsölu- og lyfjamála sé framkvæmd og raunverulegar úrbótatill. lagðar fram, því að mál er, að núverandi skipulagsleysi linni, en ekki skiptir máli, hvort slíkar heildartill, koma fram nokkrum mánuðum fyrr eða seinna, innan hóflegs tíma þó.“

Hér er viðurkennt, að þörf sé á endurskoðun þessara mála, og í því felst jafnframt viðurkenning á, að málið sé tímabært, en hins vegar, eins og ég sagði, eru ýmsar efasemdir settar fram. Ég efast ekki um, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, fái tækifæri til þess að kynna sér bæði afstöðu Félags ísl. stórkaupmanna, sem ég vitnaði til í upphafi, og einnig skýrslu lyfjavöruhóps FÍS.

Eins og ég sagði áðan, skortir mig þekkingu til að kveða upp úr um ágæti eða vankanta á þessu frv., en ég vildi við 1. umr, þess hafa þá fyrirvara, sem ég nú hef gert, til þess að vekja athygli þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, á því, að það mun vissulega vera full ástæða til vandlegrar íhugunar á málinu og samráðs við þá aðila, sem telja sig hafa verið sniðgengna við undirbúning frv., eins og ég vék að áðan.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um málið, en tel eðlilegt, að það gangi sína leið og fái ítarlega meðferð í þeirri n., sem lagt er til, að málið fái til meðferðar.