07.03.1973
Neðri deild: 61. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2414 í B-deild Alþingistíðinda. (1829)

167. mál, Lyfjastofnun ríkisins

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Hér er á dagskrá frv. til l. um Lyfjastofnun ríkisins og er það nú til umr., en enn fremur er á dagskrá frv. til l. um lyfjaframleiðslu, og mun ég taka þann kostinn að ræða þessi frv. bæði samtímis, eins og hæstv. ráðh. gerði reyndar að nokkru leyti.

Þessi frv. snerta lyfjaverzlun og lyfjaframleiðslu og gera bæði ráð fyrir afskiptum ríkisvaldsins. Annars vegar er um að ræða stofnun á vegum ríkisins, en hins vegar fyrirtæki með eignaraðild ríkisins. Ég hef gert mér nokkurt far um að kynna mér þessi frv. og vil lýsa því yfir strax, að ég legg þann dóm á þessi frv., að ég er þeim andsnúinn.

Það þarf fæstum að koma í sjálfu sér á óvart, þó að ég lýsi andstöðu minni við frv., þar sem gerðar eru till. um svo mikilvæg eða veruleg ríkisafskipti sem einkasölu, vegna þess að í „prinsipinu“ a. m. k. stríða slíkar till. gegn skoðunum mínum á hlutverki ríkisvaldsins. Ég tel enn fremur, að ástand þeirra mála, sem þessi ákveðnu frv. fjalla um, sé ekki með þeim hætti, að það kalli á þá tilhögun, sem hér er lagt til.

Nú skal ég taka fram, að það er að sjálfsögðu ekki trúaratriði af minni hálfu, að ríkisvaldið megi hvergi nálægt slíkum hlutum koma, enda geta þjóðfélagsaðstæður, kringumstæður eða aðrar ástæður gert það óhjákvæmilegt, að ríkið grípi í taumana og mæti þeim kröfum, sem gerðar eru. En það er pólitísk skoðun mín, að slík afskipti eigi aðeins rétt á sér, þegar í hreint óefni er komið eða þegar einstaklingum eða samtökum reynist ekki kleift að valda viðkomandi verkefnum. Ég held því fram, að ríkisrekstur sem þessi kalli á aukna skatta og hærri fjárlög. Það leiðir til burókratískra vinnubragða og óarðbærs rekstrar og skapar allajafna ekki þá þjónustu eða hagræðingu, sem tiltölulega frjálst eða eftirlitsbundið ástand getur gert.

Nú er mér ljóst, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh., sem hefur forgöngu um flutning þessara mála, er á öndverðri pólitískri skoðun við mig í þessum atriðum og telur sjálfsagt æskilegast, að verzlun og þjónusta á þessum vettvangi sem öðrum sé nánast þjóðnýtt og ríkisrekin. Ég geri ráð fyrir því, að þessi grundvallarágreiningur breytist ekki við langar umr. um þessi mál. Vitaskuld virði ég sjónarmið hans og annarra sem slík og geri ekki kröfu til þess, að menn lúti mínum skoðunum sem endanlegum og algildum. Ef það er skoðun meiri hl. þess þings, sem nú situr, að teygja skuli sig enn lengra í átt til slíkra ríkisafskipta og stofna til slíkra ríkisstofnana, mun ég að sjálfsögðu sætta mig við það ástand, meðan það varir.

En ég vildi spyrja í fullri hreinskilni: Finnst nú ekki ýmsum þm. stjórnarliðsins nóg komið að þeirri einstefnu í ríkiskassann, sem ríkt hefur undanfarin 2 ár og jafnvel lengur? Vilja þm. ekki flýta sér hægt í samþykkt enn einnar ríkisstofnunar, sem krefst að sjálfsögðu fjárveitinga í stofnkostnað og rekstur, ráðningar starfsmanna, kaupa á tækjum og aðstöðu fleiri starfsmanna og aukinna útgjalda? Og ég spyr, er reynsla af ríkisreknum þjónustufyrirtækjum svo glæsileg eða svo eftirsóknarverð, að nú sé ástæða til að hlaupa til og hefja starfrækslu eins fyrirtækisins enn? Ég tala nú ekki um það, sem er að sjálfsögðu aðalatriðið í þessu máli, þegar og ef unnt er að koma þeim málum, sem til meðferðar eru, í skaplegra og viðunandi horf án stofnunar og rekstrar nýrrar opinberrar stofnunar.

Ég vek athygli á því, að samkv. frv. til l. um lyfjaframleiðslu á ríkið að leggja fram helming hlutafjár og taka að helmingshluta þátt í rekstrarkostnaði. Jafnvel þótt væntanlega sé gert ráð fyrir, að fyrirtækið sé rekið á þeim grundvelti, að það standi undir rekstrinum sjálft, verður stofnkostnaður að sjálfsögðu verulegur, sennilega nokkrir tugir millj. kr. Í frv. til l. um Lyfjastofnun ríkisins er beinlínis gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram 25 millj. kr. framlag ásamt lánsábyrgð ríkissjóðs allt að 100 millj. kr., og er með þessu ekki öll sagan sögð.

Andstaða mín gegn þessum frv. stafar ekki eingöngu af pólitískum ástæðum, ekki einfaldlega því, að ég tilheyri stjórnarandstöðu, sem er treg til að gangast inn á aukinn ríkisrekstur af pólitískum og fjárhagslegum ástæðum. Hún byggist og á þeim ástæðum, að ríkjandi aðstæður í lyfjaverzluninni eru á engan hátt á þann veg, að þær geri óumflýjanlegt, að þessi frv. verði samþykkt. Ég tel eðlilegt, að þau sjónarmið komi hér fram, þar sem bent er á röksemdir, sem mæla gegn samþykkt þessara frv., strax við l. umr. þessara mála, svo að þm, sé ljóst, hvaða aths. eru gerðar við þessi frv., og verður að sjálfsögðu ekki um að ræða tæmandi upptalningu á því. En menn verða síðan að vega og meta þær röksemdir, sem fram koma með og móti, og gera upp við sig, hvort tilefni sé til svo róttækra breytinga sem hér er gert ráð fyrir.

Það hefur lengi verið á stefnuskrá Alþb., að þjóðnýta beri lyfsöluna í landinu, og í blaðinu Alþýðubandalaginu, sem gefið var út eftir síðustu alþingiskosningar, 1971, áður en ríkisstjórnin hafði gengið frá sínum málefnasamningi, var talið upp, hvaða vinstri stjórn ætti að gera til að gerbreyta stjórn landsins og hvað væri fólgið í kröfunni um róttæka vinstri stefnu. Í 11. lið þessarar upptalningar í blaðinu Alþýðubandalaginu segir, með leyfi forseta:

„Lyfsala verði þjóðnýtt og tengd heilbrigðiskerfinu. Framkvæmd verði endurskipulagning á ýmsum þáttum innflutningsins:

Þetta ákvæði eins og flest, ef ekki allt annað, sem Alþb. setti fram sem kröfur af sinni hálfu, var tekið inn í málefnasamning ríkisstj. og hljóðar svo, með leyfi forseta og í höfundanafni í málefnasamningnum :

„Að endurskipuleggja lyfjaverzlunina með því að tengja hana við heilbrigðisþjónustuna og setja hana undir félagslega stjórn.“

Svo var hafizt handa. Í ágripi að sköpunarsögunni, sem svo er kölluð í þessari grg., segir, að skipuð hafi verið n. af hæstv. heilbr.- og trmrh., nefnd, sem nefnist Lyfjamálanefnd, og gerðist það 3. febr. 1972, og átti hún að gera till. á grundvelli stefnumarks ríkisstj. Í þessari sköpunarsögu er síðan rakin stutt forsaga núv. ástands lyfjaframleiðslu og gerðar ýmsar aths. Og nú liggja þessi tvö frv. hér fyrir.

Ef við lítum á lyfjaframleiðsluna fyrst, þá hefur það orðið niðurstaða n. og ýmissa annarra aðila, — ég vek athygli á því, — að nýskipan í lyfjaframleiðslu gæti haft ýmsa kosti með tilliti til núverandi ástands. Upplýst er í nál., að a. m. k. 10 aðilar stundi nú lyfjaframleiðslu, og er talið, að ýmsu sé ábótavant varðandi lyfjaeftirlit og gæðamat, framleiðsluhættir séu mismunandi og rannsóknastarfsemi sé af skornum skammti. Nú er þess að geta og því til að svara, að fullkomin rannsóknastarfsemi mun nú þegar vera fyrir hendi í einu stærsta fyrirtækinu á þessum vettvangi, Pharmaco h/f. Þess má líka geta, að með auknum styrk þessa fyrirtækis og Lyfjaverzlunar ríkisins, sem er að sjálfsögðu mjög stór aðili á þessum vettvangi, hafa mál smám saman þróazt í átt til þessarar nýskipunar, sem þarna er um að ræða. Nú má vel viðurkenna, að það hafi vissa kosti í för með sér, ef framleiðendur geta keypt hráefni inn í stærri skömmtum, og sjálfsagt er auðveldara að fylgjast með gæðum og framleiðsluháttum, ef sú framleiðsla er á einum stað. En þessu er líka til að svara á þann hátt, að það hefur ekki haft nein áhrif á verð eða framboð lyfja, hvort hráefni eru keypt inn í stórum eða smáum skömmtum, og getur væntanlega haft óveruleg áhrif á verð vegna verðlagsákvæða og annarra reglugerðarákvæða, eins og nú er háttað. Ég vek líka athygli á því, að varðandi eftirlitið er nú þegar starfandi eftirlit með sérlyfjum og enn fremur er starfandi sérstakur eftirlitsmaður með lyfjabúðum, og að mínu áliti væri það fyrirhafnarminnst að gera það eftirlit bæði raunhæfara og sterkara en nú er. Lyfjaframleiðslan fer fram á tiltölulega fáum stöðum, og lyf eru seld til tiltölulega fárra aðila. Oftast er það jafnvel svo, að það eru apótekin sjálf, sem framleiða til sölu, og það er ekki gert ráð fyrir því í þessu frv., að sú framleiðsla verði bönnuð eða leggist niður. Lyfjaeftirlit, gæðamat og hagkvæmni í rekstri knýja því jafnt á, enda þótt nýtt fyrirtæki verði stofnað. Hitt er rétt, að þegar á fót er sett öflugt og fjársterkt framleiðslufyrirtæki í skjóli ríkisvaldsins og með eignaraðild þess, þá má gera ráð fyrir því, að önnur fyrirtæki eigi erfitt uppdráttar í slíkri samkeppni, eins og reynslan sýnir okkur á öðrum sviðum. Og það er raunar markmið þessa frv., enda segir í grg. á bls. 7: „Á hinn bóginn fullnægja flestar lyfjagerðir, sem nú eru starfræktar, ekki þeim kröfum, er gera verður, og mundu hætta starfrækslu í samkeppni við öflugri fyrirtæki: Þetta segir í grg. Hér á sem sé ekki að ganga hreint til verks, láta líta svo út sem verið sé að stofna nýtt fyrirtæki við hlið hinna, allt eigi að vera frjálst áfram, en sverfa síðan að öðrum fyrirtækjum, svo að þau verði ekki samkeppnisfær og þurfi að leggja upp laupana í samkeppni við annað stærra og öflugra fyrirtæki. Hér er ekki verið að stuðla að heilbrigðu ástandi á jafnréttisgrundvelli með því að skapa fyrirtækjum, sem stunda sama rekstur, jafna möguleika. Nei, hér á ríkisfyrirtæki að njóta þess að geta gengið í ríkiskassann setja slíka afarkosti, að önnur fyrirtæki hætti starfrækslu. Svo eru þessir menn að tala um jafnrétti. Það fæ ég aldrei skilið.

Apótekarafélag Íslands hefur ekki hafnað þeirri hugmynd að eiga samstarf við ríkið um rekstur lyfjaframleiðslu. Það mun félagið hafa gert í fyrsta lagi vegna þess, að það er hafið yfir gagnrýni, að rétt sé að koma fastari skipun á framleiðsluna og hún sé háð strangara eftirliti. En slíkt væri hægt að gera eins og fyrr segir, án þess að stofna nýtt fyrirtæki, en með öflugra og sterkara eftirliti. Í öðru lagi er Apótekarafélagið hlynnt starfseminni vegna stöðugs fjármagnsskorts og gerir sér þá væntanlega von um ríflegra framlag frá ríkissjóði. Hugmynd Apótekarafélagsins hefur hins vegar alls ekki verið sú, eftir því sem segir í ályktunum þess, að ríkið eignaðist meiri hl. eða helming hlutafjár í slíku fyrirtæki, enda er að sjálfsögðu auðvelt að koma á samstarfi og aukinni samræmingu, þó að ríkið hafi þar ekki forustu og framkvæmd. Staðreyndin er og sú, að hlutverk ríkisins í þessu sem öðru á ekki óhjákvæmilega að vera í formi framkvæmda, enda þótt það hafi forgöngu fyrir bættu ástandi á viðkomandi sviði. Þau ríkisafskipti geta vitaskuld átt sér stað í formi fyrirgreiðslu, samræmingar, eftirlits eða setningar reglugerða, sem tryggja eðlilega og nauðsynlega þjónustu. Það er auðvelt að gera það á þessu sviði og er reyndar ósk þeirra aðila, sem á þessum vettvangi hafa haslað sér völl.

Ekki er sjáanlegt, að lyf verði ódýrari í sölu við slíkar breytingar. Í frv. um Lyfjastofnun ríkisins og Lyfjaframleiðslu er gert ráð fyrir, að verð á framleiðslunni verði á kostnaðarverði með hæfilegu tilliti til rannsókna- og þróunarkostnaðar. Ekki er þess nánar getið í sköpunarsögu þessa máls, hvað þróunarkostnaður feli í sér, en allt eins má gera ráð fyrir því, að hann leiði þvert á móti til hækkaðs verðs á lyfjum frekar en hitt.

Þá mun ég víkja að hinu frv., frv. til l. um Lyfjastofnun ríkisins. Þar er sem sé enn ein till. um stofnun á vegum ríkisins, og hún lýtur að innflutningi og heildsölu á lyfjum. Hér er ekki gengið hreint til verks og því lýst yfir, að innflutningur annarra en ríkisstofnunarinnar sé óheimill. Í frv. er tekið fram í 5. gr., að ráðh. geti heimilað umboðsmönnum erlendra sérlyfjaframleiðenda að flytja inn skráð sérlyf umbjóðenda sinna, en Lyfjastofnunin skal kaupa birgðirnar og halda innlendri heildsöluálagningu óskertri. Allir sjá, að það er ekki mikill hvati fyrir menn að halda áfram innflutningi, ef þeim er óheimilt að gera kröfu til heildsöluálagningar. Álagning er auðvitað ekkert annað en greiðsla upp í þann kostnað, sem rekstri og þjónustu heildsölu og smásölu fylgir. Virðist reyndar vera nauðsynlegt, að sumir aðilar a. m. k. séu teknir í aukatíma til að sannfærast um, hvað álagning er og þær augljósu og viðurkenndu staðreyndir, sem lúta að henni. Það er ákaflega einkennilegt, sem kemur fram í þessu máli, að það er eins og sumir aðilar og hópar í þjóðfélaginu, sem verða að teljast til ábyrgra hópa, skilji yfirleitt alltaf orðið álagningu sem óskiptar tekjur og einhverja gróðalind þeirra aðila, sem við verzlun fást. En af þessu ákvæði í 5. gr. frv., þessu skýlausa ákvæði, má ráða, að allur innflutningur annarra aðila en þessarar ákveðnu stofnunar mun leggjast niður. Nú er ekki gert ráð fyrir í frv., að menn láti umboð sín af hendi eða falli frá kröfunni um umboðslaun. Má kannske segja, að það sé þægilegast fyrir viðkomandi umboðsaðila að þurfa ekki fyrir sölu eða þjónustu að hafa, en hirða sín umboðslaun á þurru, eins og við þekkjum m. a. úr Áfengis- og tóbakseinkasölunni. Það verður svo að vera mat hvers og eins, hvort menn telja slíkt fyrirkomulag æskilegt, í stað þess að hafa með höndum ásamt umboðinu sölu vörunnar og veita þá þjónustu, sem nauðsynleg er.

Þá er því haldið fram í grg. frv., að heildsala innanlands sé ónauðsynleg, þar sem samkeppnissjónarmið komi þar ekki til greina, vegna þess að verð sé ákveðið með skráningu. Þessum staðhæfingum hefur verið vísað á bug, m. a. í áliti Lyfjafræðingafélags Íslands, og ljóst er, að þegar um t. d. hjúkrunarvörur er að ræða, koma til álita kostir og gæði vörunnar engu síður en á öðrum sviðum. Þá hefur líka verið bent á, að verðsamkeppni hefur verið viðurkennd, m. a. í 28. gr. núv. reglugerðar um lyfjaheildverzlanir.

Enda þótt það sé ekki sagt berum orðum, þá er ljóst, eins og ég hef rakið hér, að hér er verið að koma upp einkasölu, einkasölufyrirtæki ríkisins. Vitaskuld má ýmislegt að núverandi ástandi þessara mála finna, og ég lít ekki svo á og vil ekki, að ræða mín sé skilin svo, að ég sé á móti úrbótum á þessum vettvangi. Ég held, að allir séu sammála um, að það megi gera ýmislegt til þess að koma málum í betra horf en nú er. Það er sjálfsagt að auka öryggi lyfjaneytenda og einfalda eftirlit hins opinbera með innflutningi og dreifingu lyfja og stuðla að hagkvæmari rekstri. En ég hef ekki fallizt á, að til þess að koma þessu á þurfi að stofna einkasölu ríkisins. Ég held þvert á móti, að til séu aðrar færar leiðir, sem geta orðið til lagfæringar, án þess að stofna til þessarar ríkiseinkasölu og án þess að það þurfi að umbylta núverandi ástandi og stofna til kostnaðar og jafnvel sérsköttunar lyfjaneytenda. Eins og ég hef bent á áður, skal ríkið leggja fram 25 millj. kr. í reiðufé við stofnun þessarar lyfjastofnunar og ábyrgjast lán að upphæð 100 millj. kr. til þess eins, að stofnunin sé sett á laggirnar. Nú má telja nokkuð öruggt, að verð muni ekki lækka á lyfjum, og er þá dregin reynsla af öðrum ríkiseinkasölum svo og af þeirri staðreynd, að með þessu fyrirkomulagi er áfram haldið í umboðsmenn og umboðslaun, en eingöngu settur á fót nýr milliliður, sem leiðir til aukins kostnaðar.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á, að nú þegar er starfandi í landinu stofnun á vegum ríkisins, Lyfjaverzlun ríkisins, sem er mjög öflugur innflytjandi og einn stærsti framleiðandinn. Þessi lyfjaverzlun starfar samkv. sérstakri reglugerð. Nú spyr ég: Hví má ekki gera hennar hlut stærri, eða hver er reynslan af rekstri þessarar lyfjaverzlunar? Ef menn eru svona áhugasamir um að efla ríkisafskipti og koma hér á einkasölu, hvernig væri þá að kanna þessa stofnun og rekstur hennar betur? Hvernig hefur hann gengið, og hvernig hefur hann þróazt? Ég get ekki skilið það satt að segja, þegar við höfum fyrir hendi hér Lyfjaverzlun ríkisins, sem er mjög umsvifamikill aðili á þessum vettvangi, að það eigi að leggja þá stofnun niður og búa til nýja stofnun. Ég hef ekki fengið skýringu á þessu.

En það eru til fleiri aðilar, sem hafa með höndum þessi verkefni, sem hér er fjallað um. Það er rétt að benda á, þegar talað er um hin margbættu hlutverk Lyfjastofnunar varðandi eftirlit, skráningu o. fl., að það er gert ráð fyrir því í núgildandi l., að embætti landlæknis og læknadeild hafi með þetta að gera. Það eru til n., eiturefnanefnd og lyfjaverðskrárnefnd, sem fjalla um álagningu lyfja, og það eru til eftirlitsmenn lyfjabúða. Það er ekkert um það fjallað í þessum frv., að leggja eigi niður þessar n. eða störf þessara starfsmanna, og ég spyr: Er þá gert ráð fyrir því, að kerfið verði tvöfalt?

Nei, ég held, að það sé miklu æskilegra og komi vel til greina að efla hlut þessara aðila og virkni þeirra í þeirra störfum, án þess að byrjað sé á því að stofna sérstaka og mikla stofnun og annan millilið. Hér hefur verið minnzt á fyrirkomulagið á öðrum Norðurlöndum af hæstv. ráðh. Það er útdráttur eða skýrsla um það í þeirri skýrslu, sem hér hefur verið lögð fram tekin saman af dr. Kjartani Jóhannssyni. Ég hef því miður ekki haft tíma til að kynna mér það til hlítar, en ég held þó, að það megi vel draga einhverjar ályktanir af ýmissi skipan og nýskipan, sem á hefur verið komið á Norðurlöndum. Enda þótt það fyrirkomulag sé að einhverju leyti, geri ég ráð fyrir, ólíkt því, sem hér er stefnt að, hafa þær breytingar, sem gerðar hafa verið á Norðurlöndum, í Noregi og Svíþjóð, miðað að aukinni ríkiseinkasölu. Sögur hafa og borizt um það, að einmitt þessi breyting í Svíþjóð hafi leitt til stórhækkaðs verðs á lyfjum. Það hafa verið nefndar tölur um allt að 40% hækkun á lyfjaverði á 1½ ári í Svíþjóð. Nú set ég þessar tölur fram með fyrirvara, en ég nefni þetta vegna þess, að ég held, að það sé full ástæða fyrir okkur Íslendinga að kynna okkur, hvaða afleiðingar slíkar breytingar hafa í för með sér varðandi lyfjaverð. Ég leyfi mér að fullyrða, að ef það vakir fyrir flm. að lækka verð á lyfjum, sé sú leið, sem hér er farin, til lítils árangurs. Þvert á móti held ég því fram, að lyfjaverð muni hækka verulega samkv. því, sem að framan er rakið. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á, að í þessari skýrslu, sem ég gat um og tekin hefur verið saman af dr. Kjartani Jóhannssyni, segir á bls. 61, þar sem talað er um miðskipan lyfjaheildsölu, orðrétt, með leyfi forseta:

„Miðskipan lyfjaheildsölu í einkasölufyrirtæki mundi að líkindum auka hagkvæmni í rekstri við óbreytt þjónustustig. Hins ber þó að gæta, að núverandi þjónusta er ekki talin nægilega góð, en miðskipuninni í einkasölu mundu fylgja auknar kröfur um þjónustu, sem auðveldlega gæti kostað þennan mismun eða meira.“

Þetta er álit þeirra manna, sem hafa útbúið þetta frv., að þessi miðskipan, sem hér er gert ráð fyrir, mundi auðveldlega geta kostað þennan mismun eða meira, sem hagræðið leiddi af sér. M. ö. o., það er ótvírætt gefið í skyn, að lyfjaverð mundi hækka verulega og ég held, eftir því, sem ég hef annars sagt um þetta, að full ástæða sé til að halda, að svo verði.

Þá skulum við líta lítillega á hlutverk og markmið þessarar stofnunar. Í 2. gr. frv. til l. um Lyfjastofnun ríkisins er getið um hlutverk og markmið hennar. Í 1. lið segir, að stofnunin eigi að flytja inn hráefni og umbúðir til lyfjagerðar, sérlyf, eiturefni o. s. frv. Það hefur verið bent á í þessu sambandi, að þessum sjónarmiðum mætti mæta, miðað við núverandi ástand, með því að takmarka innflutning t. d. við eina eða tvær hafnir og koma á einföldu, en áhrifaríku samstarfi tollyfirvalda og heilbrrn. Samkv. 2. lið markmiðsgr. segir: Stofnunin skal „selja í heildsölu vörur, sem taldar eru í lið 1, og auk þess innlenda framleiðslu sömu vöru.“ Um þetta vil ég segja það, að sjá má í umsögn lyfjamálanefndarinnar, sem samdi frv., að það er skoðun hennar, að birgðahald einkaumboðsmanna veiti mun meira öryggi en hjá öðrum innflytjendum. Það liggur því í augum uppi, að einfaldasta lausnin á þessu vandamáli sé að koma upp einkauppboðsmannakerfi með góðu aðhaldi frá því opinbera, og mun ég aðeins drepa á það síðar. Í 4. lið segir, að stofnunin skuli vinna með stöðugum athugunum gegn hvers konar óhóflegri notkun lyfja og stuðla að hagsýni í lyfjanotkun meðal almennings og á sjúkrahúsum. Bent hefur verið á í þessu sambandi, að þennan þátt heilbrigðismálanna eigi og megi rn. leysa í samráði við háskólann, læknafélagið og e. t. v. sérstaka n., sem setja má á laggirnar til að annast útgáfu leiðbeininga og fleira um lyfjanotkun. Samkv. 5. lið skal stofnunin safna og vinna úr upplýsingum varðandi lyfjanotkun í samráði við rn. Nú þegar eru starfandi eiturefnanefnd og lyfjaskrárnefnd, og er ekki gert ráð fyrir, að þessar nefndir leggi niður störf, eins og ég hef vakið athygli á áður, enda ættu þær að geta fullnægt þessu hlutverki, sem er fjallað um í 5. lið markmiðsgr. Svona mætti áfram halda. Í reynd sýnist mér svo, að flestum markmiðum stofnunarinnar megi fullnægja annaðhvort innan núverandi fyrirkomulags eða með minni háttar tilfæringum.

Ég hef rakið þessi sjónarmið og viljað koma þeim hér á framfæri til að benda á, að margar leiðir aðrar eru færar til að laga núverandi ástand en að setja ný lög um nýja stofnun. Ég held nefnilega, að það sé ekki alltaf allt unnið við það að hlaupa til og setja ný lög eða telja mönnum trú um, að ekkert megi lagfæra öðruvísi en með margbrotinni löggjöf, sem líta kann vel út á pappírnum, en segir ekkert annað en það, sem vel er framkvæmanlegt án nýrrar lagasetningar.

Ég minntist hér lítillega áðan á einkaumboðsmannakerfið, og gerði ég það vegna þess, að Lyfjafræðingafélag Íslands hefur einkum lagt áherzlu á að taka upp það kerfi. Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að vitna til álits, sem Lyfjafræðingafélag Íslands hefur gert um þetta mál, með leyfi forseta, en sá kafli hljóðar svo:

„Lyfjafræðingafélag Íslands vill þess vegna árétta það, að það er skoðun félagsins, að innflutningur sérlyfja sé bezt tryggður í höndum einkaumboðsmanna, sem gerðir yrðu ábyrgir fyrir því, að skráð umboðslyf þeirra væru alltaf fyrir hendi. Félagið telur ekki nokkurn vafa á því, að ástandið í innflutningi og birgðahaldi sérlyfja mundi stórbatna með því einu að skylda öll erlend fyrirtæki, sem ætla að selja sérlyf á Íslandi, til þess að tilnefna einkaumboðsmann, sem tæki á sig fyrrgreindar skyldur:

Þetta segir í áliti Lyfjafræðingafélags Íslands. Lyfjafræðingafélagið hefur bent á, að það hafi ekki fengið frv. til formlegrar athugunar, og tel ég það vera miður. Það mun hafa verið samkv. sérstakri beiðni þess félags sjálfs, að það fékk eintak af skýrslu n., sem fjallaði um þetta mál, og sú skýrsla var kynnt fyrir félagsmönnum. Félagið gerði sínar aths. við bæði þessi frv., og hafa sumar þeirra verið teknar til greina. Ég tek þetta fram til þess að leiðrétta það, sem segir í grg., að engar aths. hafi borizt við skýrslu lyfjamálanefndar. Lyfjafræðingafélag Íslands eða þeir menn, sem starfa á þess vettvangi, félagið eða þessir menn, hafa ekki mælt með samþykkt þessara frv. Félagið hefur sent frá sér aths., sem ég skora á þm. að kynna sér, og ég tel sjálfur mjög vafasamt að samþykkja umbyltingu á núverandi kerfi í fullri andstöðu við þá aðila, sem með þessi mál fara daglega. Enn frekar er það varhugavert, þegar Lyfjafræðingafélagið bendir á aðrar leiðir til úrbóta, sem engan kostnað hafa í för með sér fyrir ríkissjóð. Ég spyr: Er ekki hyggilegra að skoða þær hugmyndir og jafnvel framkvæma þær, áður en ráðizt er í meiri háttar breytingar og verulegan kostnað? Það ætti ekki að skaða svo mikið að doka ögn við, reyna þessa leið, sem lyfjafræðingarnir benda á, og ef það gefst ekki vel, þá er hægt að taka þessi frv. aftur til athugunar.

Herra forseti. Ég mun ekki fjölyrða frekar um þetta á þessu stigi málsins, en það á að vera ljóst, hver viðbrögð mín eru gagnvart þeim röksemdum, sem settar hafa verið fram með þessum frv. Ég þykist hafa bent á, að ef það vakir fyrir flm., að lækka verð á lyfjum, þá muni samþykkt frv. ekki stuðla að verðlækkun. Ég tel reyndar afar ólíklegt, að verðlækkun hafi vakað fyrst og fremst fyrir flm., því að með þessum frv, er ekki ráðizt á garðinn, þar sem hann er hæstur, þ. e. a. s. smásöluna, apótekin. Meðan álagningin í heildsölunum mun vera 16.8%, hefur smásöluálagningin verið allt upp í eða rúmlega 50%, og sést á þessum tölum, að innflutningur eða heildsala hefur ekki verið ráðandi í verðmyndun eða í söluverði. Ég er ekki með þessum orðum að mæla með breytingum á lyfjasmásölunni, það er mál út af fyrir sig. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu og á þeirri nokkuð augljósu staðreynd, að verðlækkun til lyfjaneytenda getur ekki verið forsenda þessara frv.

Hæstv. ráðh. minntist hér á hagkvæmnisþjónustu og öryggissjónarmið og taldi það vera ákveðnar forsendur fyrir flutningi þessa máls. Varðandi hagkvæmnissjónarmiðið er það auðvitað alltaf spurning, sem við verðum að gera upp við okkur, hvort hagkvæmara er og eftirsóknarverðara að hafa verzlun á þessum vettvangi sem öðrum í einni hendi eða viljum við sem sagt, að það séu fleiri aðilar, og stuðla þannig að samkeppni og annarri þjónustu. Ágreiningur er sjálfsagt um þetta meginatriði. Ég er þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að setja slíka verzlun, hvorki á þessum vettvangi né annars staðar, í hendur eins aðila og allra sízt í ríkiseinkasölu. Ég held því fram, að það muni ekki verða til þess að lækka kostnað, muni ekki verða til þess að bæta þjónustu og jafnvel fara í öfuga átt. Þjónustusjónarmiðið fléttast inn í þetta með hagkvæmnisforsendurnar, en reynsla okkar af ríkiseinkasölu og ríkisfyrirtækjum er því miður ekki sú, að það sé ástæða til þess að halda, að þjónustan batni með því, að þessi mál fari í hendur opinberrar einkasölu. Slík fyrirtæki eru í eðli sínu kyrrstæð, þau hafa ekki frumkvæði, og ég hefði haldið, ef við erum að hugsa um þjónustuna sem slíka, að heppilegra sé, að verzlunin sé áfram í höndum einkaumboðsmanna. Hvað snertir öryggissjónarmiðið, þá hefur því hér verið haldið fram, að það hafi stundum ekki verið til birgðir af ákveðnum lyfjum í landinu. Út af fyrir sig er það náttúrlega slæmt, ef slíkt kemur upp: En ég held, að þær sögur séu mjög ýktar, og bendi á, að það er auðvitað hægt að koma á ströngu og sterku eftirliti, sem gæti fyrirbyggt slíkt. Það mætti vera í höndum Lyfjaverzlunar ríkisins. Og ef verið er að tala um öryggissjónarmið, þá held ég líka, að kerfið með einkaumboðsmönnum, sem lyfjafræðingar sjálfir hafa bent á, ætti að fyrirbyggja slíkt öryggisleysi. Ef það vakir hins vegar fyrir flm. almennt að koma hér á einhverjum faglegum lagfæringum, sem ég hef ekki mælt gegn og tel að ýmislegt þurfi að gera í, þá vísa ég aftur, hvað meginatriðið í því snertir, til álits lyfjafræðinga sjálfra, sem mæla gegn stofnun lyfjastofnunarinnar. Þeir telja ótvírætt, að það megi koma úrbótum á með öðrum skjótvirkari, einfaldari og ódýrari hætti.

Þá er það hins vegar eftir, hvort það vakir fyrir flm. að breyta hér um af pólitískum ástæðum til þess eins að hrinda í framkvæmd ákvæði í málefnasamningi ríkisstj., sem hefur átt sér rætur í kröfum Alþb. Ég tel eðlilegt, að það komi hér skýrt fram, að þetta sé forsendan, og reyndar gaf hæstv. ráðh. það mjög í skyn, því að hann vitnaði í þennan málefnasamning sem forsendu þessa máls. En það varpar þá ljósi á þau vinnubrögð, sem við stjórnarandstæðingar höfum haldið fram, að mjög hafi tíðkazt hjá þessari ríkisstj., þ. e. a. s. að ákveða fyrst og athuga svo. Vandamálið á þessum vettvangi er nefnilega það, að komið hefur í ljós við athugun, að upphaflega ákvörðunin er ekki skynsamleg. Ég held, að viðkomandi aðilar ættu að vera menn til að horfast í augu við þessar niðurstöður og staðreyndir og falla því frá þessari ákvörðun sinni.

Ég leyfi mér að halda fram, að þessi frv. séu fóstur Alþb., hugmyndir, sem settar voru fram í hita kosningabaráttunnar og upphaflega í anda þeirrar róttæku vinstri stefnu, að þjóðnýta atvinnureksturinn, í þessu tilfelli að þjóðnýta lyfsöluna. Ég bendi þá á, að það hafi komið í ljós, að þjóðnýting lyfsölunnar verður ekki rökstudd með skynsamlegum hætti, og held því líka fram, eins og nú er komið í þjóðarbúinu og ríkisútgjöldunum, að það fyrirkomulag, sem hér er stefnt að, sé ekki verjandi. Ég mælist því eindregið til þess, að hófsamari menn í liði stjórnarsinna geri þetta fóstur Alþb. að hugarfóstri einu.