08.03.1973
Neðri deild: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2431 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

170. mál, orkulög

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á orkulögum er samið að minni ósk af Ragnari Aðalsteinssyni hrl. ásamt sérfræðingum Orkustofnunar. Í frv. þessu eru jarðhitasvæði skilgreind betur en gert hefur verið til þessa, og þeim er auk þess skipt í háhitasvæði og lághitasvæði.

Jarðhitasvæði er í frv. skilgreint sem uppstreymissvæði frá rennsliskerfi heits grunnvatns. Rannsóknir hafa sýnt, að slíkum svæðum má skipta í tvo flokka. Annars vegar eru lághitasvæði, sem oft einkennast af vatnsmiklum laugum og sjóðandi hverum og eru yfirleitt á láglendi: Hins vegar eru háhitasvæði, sem einkennast af gufuaugum, leirhverum og ummynduðu bergi. Við boranir í 5 háhitasvæði hefur fundizt yfir 200 stiga hiti á Celsíus á minna en 1000 m dýpi, og efnarannsóknir á öðrum háhitasvæðum benda til, að þar megi vænta svipaðs ástands. Því er skilgreining háhitasvæðanna miðuð við þetta samkv. frv. Það telst háhitasvæði í lögum þessum, ef innan þess finnst 200 stiga hiti á Celsíus ofan 1000 m dýpis. Nýtanlegt varmaafl háhitasvæðanna er talið vera um 90% alls varmaafls jarðhitasvæða landsins.

Telja má líklegt, að háhitasvæðin verði á næstu áratugum nýtt fyrst og fremst til stóriðju, raforkuvinnslu og hitaveitu í þéttbýli. Slík nýting yrði ekki á færi neinna einstaklinga, heldur í höndum ríkis, sveitarfélaga eða stórra fyrirtækja.

Dreifing háhita- og lághitasvæða er nátengd jarðfræði landsins. Háhitasvæðin finnast eingöngu í gosbeltum, sem liggja yfir landið frá suðvestri til norðausturs og eru hluti af gos- og jarðsprungubelti Mið-Atlantshafshryggjarins, sem liggur eftir Atlantshafinu endilöngu. Lághitasvæðin eru aftur á móti í eldri bergmyndunum utan gosbeltanna. Þau gosbelti, sem hér er átt við, eru sýnd á korti, sem fylgir þessu frv. Þar eru einnig merkt inn þau háhitasvæði, sem kunnugt er um, og önnur jarðhitamerki, þar sem líklegt er talið, að háhiti leynist undir. Þekkt háhitasvæði eru Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll, Hengill, Geysir, Kerlingarfjöll, Hveravellir, Torfajökull, Vonarskarð, Grímsvötn, Kverkfjöll, Askja, Fremrinámur, Námafjall, Krafla og Þeistareykir, og eru þessi háhitasvæði öll talin upp í frv. til frekari skilgreiningar á því, hvað átt er við með háhitasvæðum. Líkleg svæði eru að mati sérfræðinga Orkustofnunar Prestahnúkur, Mýrdalsjökull, Tindfjallajökull, Blautakvísl, Nauthagi, Kaldakvísl og Hrúthálsar. Auk þess er líklegt, að finnast muni fleiri háhitasvæði innan gosbeltanna, sem mörkuð eru á kortinu, þótt ekki hafi enn fundizt merki um þau á yfirborði. Jarðfræðilegar aðstæður mæla hins vegar sterklega gegn því, að háhitasvæði finnist utan þessara gosbelta. Háhitasvæðin eru flest allhátt yfir sjó og heitt djúpvatn þeirra nær yfirleitt ekki til yfirborðs. Af heitu djúpvatninu stígur gufa og gas og myndar á yfirborði gufuaugu og leirhveri. Yfirborðsvatn getur hitnað af snertingu við gufuna og bergið og myndað minni háttar hveri og laugar á háhitasvæðunum og jöðrum þeirra. Á tveimur þekktum háhitasvæðum, Reykjanesi og Svartsengi, er djúpvatnið sjór, en annars staðar ósalt grunnvatn, sem hitnað hefur við djúpa hringrás í jörðu. Hvert háhitasvæði er sjálfstætt rennsliskerfi, og getur vinnsla á einum stað raskað rennslinu á öðrum stöðum í kerfinu. Af þessum sökum er mikilvægt, að vinnsla jarðhita á hverju svæði sé í höndum eins aðila.

Varmavinnsla á háhitasvæði er mun erfiðari en vinnsla lághita. Vegna gufuþrýstings og mikils magns uppleystra efna í háhitavatni krefst virkjun þess vandaðri og viðameiri borholubúnaðar, flóknari tækjabúnaðar og meiri tækniþekkingar. Af þessum sökum m. a. er nýting varma úr háhitasvæðum svo vandasöm, að einstaklingar hafa ekki sótzt eftir henni. Helzt hefur verið um að ræða nýtingu vatns við jaðra svæðanna með svipuðum hætti og nýting lághitavatns.

Fróðlegt er að gera sér grein fyrir því, hversu mikill tæknilega nýtanlegur jarðhiti á Íslandi muni vera. Um það atriði komu fram mjög fróðlegar upplýsingar í erindi, sem Jakob Björnsson orkumálastjóri flutti í gær á vetrarfundi Sambands ísl. rafveitna. Hann greindi þar frá því, að talið væri, að tæknilega nýtanlegur jarðhiti á Íslandi næmi alls 80 þús. gígawattstundum á ári, en til samanburðar má geta þess, að það er talið tæknilega gerlegt að vinna úr vatnsafli landsins 35 þús. gwst. Þarna er því um að ræða tvöfalt meiri orku en þá, sem felst í jarðhitanum. Og af þessum nýtanlega jarðhita á Íslandi er talið, að um 90% séu bundin við svonefnd háhitasvæði, sem ég hef verið að gera grein fyrir hér á undan. En af þessum 80 þús. gwst., sem er talið tæknilega gerlegt að fá upp úr jörðinni, er tæknilega aðeins unnt að breyta hluta í nothæfa orku. Gagnstætt því, sem er um orku fallvatna, þar sem breyta má 80–90% í raforku, sem er eitt bezt nothæfa orkuform, sem til er, þá er þetta hlutfall fyrir jarðhitann mjög breytilegt eftir því, á hvern hátt hann er notaður. Þannig er talið, að ef unnt væri að nýta allan jarðhitann til hitunar húsa, mætti úr þessum áðurnefndu 80 þús. gwst. fá 70 þús. sem nothæfa hitaorku. Væri jarðhitanum hins vegar öllum breytt í raforku í þéttistöðvum eins og þeim, sem nú tíðkast, þ. e. a. s. rafstöðvum með eimsvala, þá fengjust aðeins úr honum um 6 þús. gwst. Þessar 6 þús. gwst. raforku eru að þessu leyti sambærilegar við þær 35 þús. gwst., sem talið er tæknilega gerlegt að vinna úr vatnsafli landsins, og vafalaust er aðeins hluti þessara 6 þús. gwst. efnahagsleg orkulind til raforkuvinnslu.

Af þessum tölum má sjá, að til vinnslu raforku er jarðhitinn miklum mun þýðingarminni orkugjafi en vatnsorkan. Gildi hans liggur fyrst og fremst á öðrum nýtingarsviðum, þ. e. a. s. í sambandi við ýmiss konar stóriðju og raunar við ýmsar nýjungar, sem fram kunna að koma í sambandi við raforkuvinnslu. Það er víða um lönd vaxandi áhugi á því að nota jarðgufu til orkuframleiðslu, og þar er verið að gera, t. d. í Bandaríkjunum, mjög umfangsmiklar tilraunir, sem kunna að gera þessi hlutföll mun betri en þau, sem ég hef nú verið að gera grein fyrir, ef aðferðir finnast til að nýta þessa orku á hagkvæmari hátt. En í þessu felst sem sé, að til þess að við getum nýtt þessar miklu orkulindir, er enn eftir að framkvæma ákaflega umfangsmiklar og dýrar rannsóknir og tilraunir, og þetta eru tilraunir og rannsóknir, sem munu að sjálfsögðu einvörðungu lenda á opinberum aðilum hér á landi. Það eru engir aðrir aðilar, sem hafa aðstöðu til slíks.

Á undanförnum árum hefur verið unnið allmikið að áætlunum um nýtingu háhitasvæða. Einn þröskuldur í vegi slíkra áætlana hefur verið óvissa um umráðarétt á jarðhita, sem unnin er með borunum djúpt í jörðu. Tilgangur þessa frv. og þeirrar skiptingar í háhitasvæði og lághitasvæði, sem ég hef gert grein fyrir, er að ákveða skýrar en verið hefur eignarrétt á slíkum jarðhita. Samkv. þessu frv. er svo ákveðið, að allur jarðhiti á lághitasvæðum, svo og hverir og annar náttúrulegur jarðhiti á yfirborði jarðhitasvæða, sé háður einstaklingsrétti landeigenda, og er þar um að ræða óbreytta skipan frá því, sem verið hefur. Hins vegar er svo ákveðið, að annar jarðhiti á háhitasvæðum skuli vera í almannaeign og í umráðum ríkisins. Þó skulu þeir, sem borað hafa eftir jarðhita á háhitasvæðum og byrjað vinnslu hans við gildistöku laganna, hafa þann rétt óskertan áfram óheimilt er, að aðrir aðilar en ríkið og þeir, sem leyfi ríkisvaldsins fá, bori eftir jarðhita á háhitasvæðum. Ráðh. hefur heimild til að leyfa vinnslu jarðhita á háhitasvæðum til minni háttar nota, en að öðru leyti skal haga hagnýtingu háhita framvegis með löggjöf hverju sinni, og er með því tryggt, að nýting þessara orkulinda verði sem hagkvæmust fyrir þjóðina. Þarna er sem sé um að ræða, að sami háttur verði á hafður um vinnslu jarðhita og nú tíðkast um vinnslu vatnsorku, og það þurfi sérstaka löggjöf, til þess að hægt sé að ráðast í virkjanir á þessu sviði. Vafalaust verður að telja, að Alþ. muni heimila þeim sveitarfélögum, sem keypt hafa lönd og lagt í verulegan kostnað við að búa sig undir vinnslu jarðhita á háhitasvæðum, að nýta þau jarðhitasvæði framvegis, ef þess verður óskað.

Í samræmi við 2. gr. orkulaga er Orkustofnun ætlað það hlutverk að ákveða nánar um mörk háhitasvæða og segja álit sitt á því, hvernig nýtingu háhitasvæðanna verður bezt hagað á hverjum tíma. Til að auðvelda Orkustofnun eftirlit með hagnýtingu jarðhitans er ákveðið, að skylt sé að tilkynna henni allar boranir eftir jarðhita dýpra en 100 m. Þá eru og sett skýr ákvæði um heimild til eignarnáms, og um aðstöðu vegna borunar eða vinnslu jarðhita- og háhitasvæða. Með þessum lögum eru eignarrétti einstaklinga þannig sett tiltekin almenn takmörk, án þess að bætur komi fyrir, en heimild löggjafarvaldsins til að setja eignarréttinum almennar takmarkanir er fyrir löngu viðurkennd af dómstólunum. Í grg. með þessu frv. er vísað til ýmissa þeirra manna, sem bezt hafa verið að sér um þessi mál, um skoðanir þeirra. Þarna er vitnað í Ólaf Lárusson prófessor, þarna er vitnað í Ólaf Jóhannesson, núv. hæstv. forsrh., og þarna er vitnað í dr. Bjarna heitinn Benediktsson, en þeir hafa allir staðið að till. um almennar takmarkanir á eignarrétti af þessu tagi, sem gengið hafa mun lengra en gengið er í þessu frv.

Það er ljóst, að það er þjóðarheill fyrir beztu, að hin mikla orka, sem bundin er í háhitasvæðum, verði nýtt á skipulegan hátt, en ekki látin ónotuð, eins og verið hefur að mestu fram til þessa. Nýting háhitaorkunnar telst ekki til þeirra nota af landi, sem heyra til venjulegrar hagnýtingar á einkarétti yfir fasteignum. Verðmæti hennar í jörðu hafa ekki orðið til fyrir mannlega starfsemi. Landeigendur almennt hafa hvorki yfir að ráða þeirri tæknilegu þekkingu né tækjabúnaði, sem þarf til víðtækra rannsókna á háhitasvæðum, til borunar og til vinnslu jarðhitans. Til rannsókna á hagnýtingargildi hinna einstöku háhitasvæða þarf að kosta miklu fé. En þar sem niðurstöður slíkra rannsókna hljóta ávallt að vera óvissar, er þess ekki að vænta, að einstakir landeigendur hætti fé sínu til slíkra rannsókna. Fjárfesting í tækjum til rannsókna og vinnslu jarðhitans á háhitasvæðum hlýtur og að verða einstökum landeigendum ofviða. Nýting jarðhita á hverju einstöku háhitasvæði þarf að lúta stjórn eins aðila, þar sem skipulagslausar boranir í sama svæði af hálfu fleiri aðila mundu leiða til óþarfrar sóunar verðmæta og árekstra, þar sem síðari boranir gætu raskað vinnslu jarðhita úr borholum, sem áður hafa verið boraðar, vegna þess að þarna er um að ræða samfelld kerfi. Af þessum ástæðum er þetta frv. flutt, vegna þess að rétt þykir að tryggja með lögum, að jarðhiti á háhitasvæðum verði nýttur á þjóðhagslega hagkvæman hátt, án þess þó að koma í veg fyrir eðlileg not landeigenda af fasteignum sínum. Að svo miklu leyti sem landeigandi verður fyrir takmörkunum á eignarrétti sínum á landi vegna borana og vinnslu jarðhita á háhitasvæði, ber honum að sjálfsögðu fullar bætur fyrir.

Í þessu þingi hafa orðið miklar umr. um eignarrétt á landi og öðrum verðmætum, og hefur komið fram meðal þm. mjög verulegur ágreiningur. Ég geri mér þó vonir um, að ákvæði þessa frv. verði talin annars eðlis en þær deilur. Eins og ég hef rakið, er sú orka, sem í háhitasvæðunum felst, ekki tiltæk nema að loknum mjög umfangsmiklum rannsóknum, sem allar hafa verið framkvæmdar af opinberum aðilum. Þessi orka verður aldrei nýtt af einkaaðilum. Til nýtingar hennar þarf mikið fjármagn og svo umfangsmiklar athafnir, að við það mun enginn ráða á Íslandi nema opinberir aðilar. Nýting þessara orkulinda verður vafalaust einnig skipulögð í þágu alþjóðar, hvort sem um verður að ræða orkuvinnslu eða aðrar stóriðjuframkvæmdir. Og því er það rökrétt, að sú orka, sem þannig verður sótt í iður jarðar, verði lýst eign alþjóðar. Ég hygg einnig, að það mundi stríða gegn heilbrigðri réttlætiskennd einnig þeirra manna, sem láta sér annt um vernd eignarréttar, ef einhver héldi því fram, að þessi orka háhitasvæðanna væri eign einhverra tiltekinna einstaklinga hér á landi.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.