08.03.1973
Neðri deild: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2438 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

170. mál, orkulög

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins grípa tækifærið til að láta í ljós ánægju mína með þetta fram komna frv., þar sem mér finnst það fara í höfuðatriðum nákvæmlega í þá átt, sem við Alþfl.-menn vorum að forma í þáltill. okkar varðandi eignarráð yfir landinu, gögnum þess og gæðum, þ. e. a. s. um einn þáttinn, jarðvarmann. Og ég hjó eftir því, að í ræðu hæstv. iðnrh. var einmitt lögð áherzla á þau rök, sem við höfðum fyrir því, að jarðvarminn og vatnsorkan ættu að teljast alþjóðareign. Hann sagði eitthvað á þessa leið: Þetta er orka, sem aldrei verður nýtt af einkaaðilum. — Það er einmitt það, sem að mínum dómi eru höfuðrök á bak við það, að ríkið eða alþjóð skuli eiga jarðvarmann og vatnsaflið, að þetta eru orkulindir, sem einstaklingurinn getur ekki nýtt sér, heldur þarf til þess samátak þjóðarinnar allrar. Mig langar að geta þess, þó að það tefji umr. aðeins, en ég skal vera stuttorður. Hefði ég vitað í vetur eða verið búinn að kynna mér þær umr., sem fóru fram hér á Alþ. á árunum 1919–1923 í sambandi við vatnalögin, þá hefði ég ekki getað staðizt mátið að segja þingfulltrúum dálítið frá því, hvernig hugir manna skiptust þá til eignarráða yfir vatnsaflinu. Svonefnd fossan. hafði fjallað um þessi mál alllengi, og meiri hl. hennar komst að þeirri niðurstöðu, að eðlilegt væri, að ríkið ætti fallvötnin, og sá, sem talaði harðast og bezt fyrir því máli hér á Alþ. 1919–1923 eða öllu heldur 1921–1923, var Jón Þorláksson, síðar formaður Sjálfstfl. Mig langar að skjóta þessu hér fram til hv. d. og a]veg sérstaklega hv. sjálfstæðismanna, að minnast nú í sambandi við þetta mál og þáltill. okkar Alþfl.-manna, að einmitt þeirra fyrrv. ágæti foringi, Jón heitinn Þorláksson, var einn harðasti og ákveðnasti talsmaður þess, að vatnsaflið, fallvötnin, ætti að vera eign alþjóðar. Og ég vil svo ljúka þessum fáu orðum mínum með því að beina því til hæstv. iðnrh., hvort hann vilji nú ekki gera enn betur og koma hér fram með frv. á Alþ., þar sem tekið sé skýrt fram, að alþjóð skuli eiga fallvötnin.