30.10.1972
Efri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

24. mál, tímabundnar efnahagsráðstafanir

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs að nýju vegna þess að hæstv. forsrh. virtist ekki vera það ljóst, hvort ummæli mín hér fyrr á fundinum ættu að teljast andmæli gegn því frv., sem hér er rætt, eða ekki. Ég verð að segja, að það má honum vera nokkur vorkunn, þó að hann eigi erfitt með að átta sig á því, þar sem hann var ekki viðstaddur, þegar ég flutti mína ræðu. En ég mun hafa sagt í upphafi máls míns, að ég hefði ekki ætlað mér að ræða efnisþætti þessa frv., ég hefði ekki ætlað mér að beita mér gegn því, en vegna sérstakra ummæla hæstv. forsrh, í ræðu hans vildi ég gera nokkrar aths., m.a. vegna þeirrar staðhæfingar hans, að með því væri ekki hallað á neinn sérstaklega. Leiddi ég að því nokkur rök, að hvað bændur varðaði væri þessi lagasetning nokkuð erfið.

Ég held, að ég sé ekki einn um þessa skoðun. Og til þess að undirstrika það, vildi ég hér kynna þá samþykkt, sem aðalfundur Stéttarsambands bænda gerði um þetta málefni, þar sem þeim tilmælum var beint til fundarins, að hann tæki afstöðu til þessa hugsanlega frv. eða þessarar hugsanlegu ráðstafana, sem ríkisstj. hefði í hyggju að gera til verðstöðvunar. En sú till., sem aðalfundur Stéttarsambands bænda samþykkti, er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna tilmæla ríkisstj. um frestun á gerð verðlagsgrundvallar vill aðalfundur Stéttarsambands bænda 10. júlí 1972 taka fram eftirfarandi:

Í stjórnarsáttmálanum var því heitið, að kjör bænda yrðu sambærileg við launakjör annarra vinnandi stétta. Þótt nokkuð hafi miðað í rétta átt, skortir verulega á, að fullu jafnrétti sé náð. En með tilliti til þeirrar nauðsynjar, sem talin er vera á því að stöðva kapphlaupið á milli kaupgjalds og verðlags, lætur aðalfundurinn óátalið, þótt gerð nýs verðlagsgrundvallar sé frestað fram til næstu áramóta, enda verði bændum tryggt það verðlag, sem felst í framreiknuðum verðlagsgrundvelli samkv. gildandi reglum miðað við 1. sept. n.k. Fundurinn áskilur bændum allan rétt til að krefjast leiðréttingar á grundvellinum um næstu áramót.“

Það var þessi skoðun aðalfundarins, sem fellur saman við skoðun mína, að þessi ráðstöfun, sem að vísu er ekki ætlað að gilda nema um 4 mánuði, sé það alvarleg fyrir hag bændastéttarinnar í landinu, að það sé eðlilegt, að á hana sé bent, því að svona verka þessi lög á hag bændanna. Og ég vil með því að hafa yfir þessa ályktun benda sérstaklega á og undirstrika niðurlag ályktunarinnar um það, að bændur hafi ekki afsalað sér neinum rétti í þessu sambandi um næstu áramót.