12.03.1973
Efri deild: 68. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Út af aths. þeirri, sem hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson gerði á síðasta fundi þessarar hv. d. í sambandi við verkefnaskiptingu á milli d., hef ég látið gera skýrslu um framlögð stjfrv. í hvorri d. fyrir sig, og ég hef þegar beðið um að leggja þessa skýrslu á borð hv. þm. og sé, að svo hefur verið gert.

Þessi skýrsla skýrir sig sjálf, og ég þarf ekki að hafa um hana mörg orð. Eins og hún ber með sér, hafa verið lögð fram á þessu þingi 28 stjfrv. í þessari hv. d., en 34 í Nd. Þetta er að vísu nokkur munur á tölu, en þó hygg ég naumast eins mikill og ætla mátti af orðum hv. þm. Mér er að sjálfsögðu ljóst og viðurkenni það fúslega, að talan ein segir hér ekki allt, og ég fellst á, að segja megi, að í Nd. hafi verið lögð fram fremur nokkur þau mál, sem búast hefur mátt við einhverjum deilum og umr. um, — ég vil ekki segja almennt veigameiri mál, því að ég tel, að þessi skrá beri fyllilega með sér, að það hafa verið lögð fram ekki síður veigamikil mál í hv. Ed. Ég nefni það t. d., að ég hef lagt hér fram frv. til l. um breytingu á hæstarétti, um skipulag og breytta starfsháttu hæstaréttar, sem ég tel mjög mikið mál. Það liggur hér enn í n. Ég hef líka lagt hér fram t. d. frv. um dómara í fíkniefnamálum og rannsóknardeild, og ég lagði hér fram í þessari hv. d. á sínum tíma frv. um staðfestingu á lögum um tímabundnar efnahagsráðstafanir. Samt sem áður hygg ég rétt vera hjá hv. þm., að vel megi segja, að það hafi viljað svo til, að til hv. Nd. hafi fremur farið þau málin, sem eru umfangsmeiri og búast hefur mátt við meiri umr. um. Ég bendi á, að þrír ráðh. hafa lagt fram fleiri mál í Ed. en í Nd., þannig að ég held, að það sé óhætt að segja, að það kveði minna að misskiptingu á milli deildanna nú en oft áður.

Þetta vildi ég taka fram og taldi mér skylt að gefnu tilefni frá hv. þdm. að gera hreint fyrir mínum dyrum í þessu efni, því að mér er kappsmál, að það sé ekki gert upp á milli d. að þessu leyti. Og ég er þakklátur, eins og ég sagði síðast, fyrir ábendingu hv. þm. og veit, að hún muni verða til þess, að það muni verða hafðar á þessu nánari gætur í framtíðinni. Ég bendi aðeins á, að ekki er hægt að saka hv. Ed.-þm. um, að þeir hafi legið á liði sínu, því að eins og útbýtt dagskrá ber með sér, hafa þeir haldið í Ed., að ég hygg, 68 fundi, en ekki þó nema 63 í Nd. En ég vil ítreka það, að við munum reyna að taka þessa ábendingu þm. til greina og leggja kapp á, að það verði ekki gert upp á milli d. að þessu leyti. Ég minni líka á í þessu sambandi, að sá listi, sem ég hef lagt hér fram, er miðaður við síðasta miðvikudag. Þá er t. d. ekki komið til það mál, sem er á dagskránni hér og ég hygg, að menn séu sammála um, að teljist til veiga mikilla mála.