12.03.1973
Efri deild: 68. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala hér langt mál, þó að af tilviljun séu nokkur blöð hér í skjalamöppu, sem ég er með. Menn þurfa ekki að óttast það. En mér þykir skylt að segja hér nokkur orð. Og þá vil ég byrja á því að þakka hæstv. forsrh. fyrir þær upplýsingar, sem fram hafa komið af hans hálfu, og fyrir að hafa látið gera yfirlit um það, hvernig háttað er um framlagningu stjfrv. í d., og gera samanburð þar á.

Ég þóttist vita, að hæstv. forsrh. mundi taka alvarlega þetta mál, sem ég hreyfði s. l. miðvikudag, vegna þess, eins og ég sagði þá, að ég minnist þess, að hæstv. forsrh. hefur sjálfur staðið í sömu sporum og ég stóð þá og gert aths. um sama efni. Ég sagði þá, að annaðhvort væri hér um að ræða athugunarleysi, hirðuleysi eða skipulagsleysi í vinnubrögðum eða einhverjar sérstakar ástæður væru fyrir misskiptingu, sem ég taldi vera á milli deilda.

Af því, sem hæstv. forsrh. sagði, mætti ætla, að það hefði kannske verið lítið tilefni fyrir mig að hreyfa þessu máli í síðustu viku. En þegar nánar er að gætt, kemur í ljós, að ég hygg, að það stenzt allt, sem ég sagði um það efni í fyrri viku. En gagnrýni mín beindist að því, hvernig málum hefði verið háttað í þinginu eftir jólaleyfið. Ég tók það fram, að það var tekið fram af hæstv. forsrh., að þetta, sem ég nefndi, hefði ekki verið yfirlit fyrir allt þinghaldið. Nú hefur hæstv. forsrh. gefið yfirlit fyrir allt þinghaldið, og þá kemur í ljós, að það er hvorki ýkjamikill munur á tölu stjfrv. né mikilvægi stjfrv., sem hafa verið lögð fyrir hvora d. fyrir sig. Þannig lítur þetta út, þegar litið er á þinghaldið í heild. En þetta gefur ekki réttar upplýsingar, ef við höldum okkur við þinghaldið eins og það hefur verið frá því eftir jólaleyfi, eins og ég gerði í upphafi. Vil ég aðeins víkja að því til þess að leggja áherzlu á þá gagnrýni, sem ég kom fram með í fyrri viku og hefur ekki verið hrakin með þeim upplýsingum, sem hæstv. forsrh. greindi frá.

Það hlýtur nefnilega að vera eitthvað bogið við það, þegar við horfum upp á það viku eftir viku í Alþ., að það eru 15, 16 og upp undir 20 mál dag hvern á dagskrá í Nd., en 1–2 og hæsta lagi 3 mál í Ed. Og það er ekki tala málanna, sem skiptir höfuðmáli, heldur hver málin eru. Þegar við athugum þetta nánar, eins og ég kom reyndar að í fyrri viku, þá kemur í ljós, að frá því eftir jólaleyfi hafa orðið gagnger umskipti í þessu efni, hvernig ríkisstj. hefur lagt fram stjfrv. og skipt þeim milli d., — gagnger umskipti frá því, sem áður hefur verið. Ríkisstj. hefur lagt fram hin stærstu og veigamestu mál í Nd., svo að segja öll, sem komið hafa fram eftir jólaleyfi, mál sem fjalla um hina þýðingarmestu lagabálka, grundvallarmál og stórpólitísk mál, en hún hefur forðazt að leggja slík mál fyrir Ed.

Þannig hefur hæstv. ríkisstj. haft þau vinnubrögð að leggja fyrir Nd. eftir jólaleyfi frv. til l. um skólakerfi, frv. til l. um grunnskóla, frv. til l. um skipulag ferðamála, stóran lagabálk, frv. til l. um breytingu á útreikningi kaupgreiðsluvísitölunnar, stór pólitískt mál, frv. til l. um Lyfjastofnun ríkisins, stórpólitískt mál, frv. til l. um lyfjaframleiðslu, veigamikið mál, frv. til l. um breyt. á l. nr. 53 frá 29. apríl 1967, orkulögum, sem er líka þýðingarmikil breyting, og frv. til l. um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar, sem er einnig veigamikið og pólitískt mál. Þetta hefur ríkisstj. allt lagt fram eftir jólaleyfi í Nd. En hvað er það, sem hún hefur lagt fram í Ed.? Það er nánast ekkert, nema hin veigaminni mál og mál, sem líklegt er, að stofni hvorki til deilna né mikilla umr. og í ýmsum tilfellum eru sjálfsögð mál. Það er t. d. frv. til l. um bráðabirgðabreytingu á dómsmálastjórn í Vestmannaeyjum, og það er annað frv. um breyt. á þessum lögum. Það er frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningnum, frv. um breyt. á l. um útflutningsgjald af sjávarafurðum, frv. um breyt. á l. um skipulagða löndun á loðnu til bræðslu og frv. um lögreglustjóra í Hafnarhreppi í Skaftafellssýslu. Það er upptalið. Berið þetta saman við hin þýðingarmiklu mál, sem hæstv. ríkisstj. hefur á sama tíma lagt fram í Nd.

Ég sagði, að þetta væri upptalið. Það er ekki alveg nákvæmt. Þegar ég hreyfði þessum málum fyrst, var þetta full talning, en síðar hafa komið til tvö mál. Annað er mál, sem var á dagskrá, þegar ég hreyfði þessu máli í síðustu viku, frv. til l. um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Það var lagt inn fyrirvaralaust þá á borð okkar þm. og farið þess á leit, að veitt yrðu afbrigði, til þess að við hefðum eitthvað að gera þann daginn. Og þannig hefur þetta verið. Til þess, að því er virðist, að bjarga andliti d., til þess að við hefðum þó eitthvað að segja í kannske 2–3–5 mínútur dag hvern, þá hefur þráfaldlega verið gripið til þess að leita afbrigða. Ég sagði, að hæstv. forsrh. hefði sjálfur staðið í mínum sporum og rætt þessi mál. Þá tók hann, sem mér er minnisstætt, svo til orða, að það væri óhæfa, ósiður að halda vinnu þessarar d. áfram með því að vera stöðugt að leita afbrigða, og hann sagði, hæstv. forsrh., að í því tilfelli hlyti hann að greiða atkv. gegn afbrigðum, því að hann væri á móti þessum vinnubrögðum. Þetta er einmitt það, sem hefur verið viðhaft í þessari hv. d. frá áramótum eða frá því að þing kom saman eftir jólaleyfið.

En þetta og upplýsingar hæstv. forsrh. gefa tilefni til þess að koma með örfáum orðum nánar inn á það, sem ég taldi helzt koma til greina, að væri ástæðan fyrir þessu ástandi, sem við höfum búið við síðustu vikurnar. Annaðhvort væri um hirðuleysi eða skipulagsleysi eða um sérstakar ástæður að ræða. Ég held, að það sé augljóst mál og m. a. af uppl. forsrh., að hér sé ekki um neina tilviljun eða hirðuleysi að ræða af hálfu ríkisstj. Getur það verið tilviljun, að eftir jólaleyfi skuli öll hin þýðingarmiklu mál vera lögð fyrir Nd.? Getur það verið tilviljun? Þetta vekur aftur þá spurningu, sem ég hreyfði í síðustu viku, hvort það væri samband á milli þessa og þeirrar staðreyndar, að einn af fyrrv. stuðningsmönnum ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hann muni ekki veita stjórninni óskiptan stuðning, eins og hann gerði áður, heldur muni hann dæma um í hverju einstöku tilfelli, hvort mál þau, sem ríkisstj. ber fram, njóti trausts hans og hann vilji styðja þau. Og kann það að vera svo, að hæstv. ríkisstj. sé svo uggandi og vilji fara með svo mikilli aðgát og varúð að þessum hv. þm., að hún telji ekki annað sæmandi en sýna honum málin fyrst eða Nd. til þess að fá þegar á frumstigi málanna úrslit um það, hvort stjórnin kemur hinum þýðingarmiklu málum fram eða ekki? Mér sýnist, að það sé tvennt, sem bendir til þess, að raunverulega sé málum svo háttað sem ég segi nú. Það kann að vera, að það séu nauðsynleg og heppileg vinnubrögð fyrir hæstv. ríkisstj. annars vegar meðan hún situr í valdastólunum og hins vegar til þess að framlengja valdatímabil sitt. En það eru greinilega ekki heppileg vinnubrögð fyrir Alþ. sjálft. Með því að ég tek hæstv. forsrh. algerlega trúanlegan og veit, að hann meinar það, að hann vill hafa sem skynsamlegust og bezt vinnubrögð í þessum efnum, þá vil ég spyrja hann, hvort það sé réttlætanlegt að fórna því viðhorfi fyrir það sjónarmið að leggja hin þýðingarmestu mál fyrst fyrir Nd. af annarlegum ástæðum.