12.03.1973
Efri deild: 68. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2460 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Þar sem ég á sæti í iðnn., skal ég reyna að vera fremur stuttorður, þótt ég finni hvöt hjá mér til þess að drepa á einstök atriði þessa frv. og enn fremur eftir ræðu hæstv. iðnrh. að fjalla e. t. v. um nokkur atriði, sem hann gerði að umtalsefni.

Hæstv. iðnrh. nefndi ýmis þau verkefni, sem iðnrn. ynni nú að, og tiltók þar í 5 liðum iðnþróunaráætlunina, eflingu útflutningsiðnaðarins, sérstakar aðgerðir innan sérstakra iðngreina á vegum Iðnþróunarsjóðsins, einstök verkefni í sambandi við möguleika á vinnslu perlusteins, sjóefnavinnslu og því um líku og loks viðræður þær, sem færu fram um sölu á orku og möguleikum á því að koma á orkufrekum iðnaði umfram það, sem nú á sér stað í landinu. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að hæstv. iðnrh. og iðnrn. í heild sinni hefur haldið áfram að vinna að þessum verkefnum, en vinnan við öll þessi verkefni var hafin í tíð fyrrv. ríkisstj. Að minni hyggju á hæstv. iðnrh. þakkir skilið fyrir að halda þeirri stefnumörkun fyrrv. ríkisstj. óbreyttri.

Þegar rætt er um iðnaðarmál, kemur fjármagnsþörf iðnaðarins þar hvað greinilegast í ljós, ef við viljum efla iðnaðinn í landinu, að við tölum nú ekki um útflutningsiðnaðinn sérstaklega. Því er eðlilegt, að athyglin beinist að því að kanna, með hvaða hætti unnt er að efla fjármögnun iðnaðarins. Með sjóðmyndun þeirri, sem þetta frv. fjallar um, finnst mér hins vegar ekki á þessu stigi vera um að ræða nýtt fjármagn iðnaðinum til handa, eins og hæstv. iðnrh. gat um. Það er gert ráð fyrir því, að þessi sjóður fái fyrst og fremst gengishagnað samkvæmt lögum frá 1968 og 1972, en hvort tveggja var í löggjöf ætlað iðnaðinum. Þetta frv. fjallar eingöngu um það, með hvaða hætti nýta skuli það iðnaðinum til hagsbóta í einstaka atriðum. Þannig er þarna ekki um að ræða nýtt fjármagn iðnaðinum til handa. Hæstv. iðnrh. gat um, að ætlazt hefði verið til, að framlag kæmi úr ríkissjóði, en frá því hefði verið horfið vegna erfiðra aðstæðna ríkissjóðs. Í staðinn kæmi væntanleg lánveiting frá Iðnlánasjóði. Með þeirri lánveitingu er ekki heldur um neitt nýtt fjármagn að ræða iðnaðinum til handa. Þess vegna er gildi þessa frv. ákaflega takmarkað að þessu leyti.

Þá vildi ég enn fremur láta þá skoðun í ljós á þessu stigi málsins, að eðlilegra hefði verið að kanna, hvort uunt hefði verið að útvíkka nokkuð hlutverk þeirra lánastofnana og sjóða iðnaðarins, sem fyrir eru í landinu, að svo miklu leyti sem ekki var talið, að lög þeirra og reglur heimiluðu framlög og lán til þess verkefnis, sem þessi sjóður á að sinna, áður en efnt er til stofnunar nýs sjóðs. Í þessu sambandi vil ég taka undir það, sem hæstv. iðnrh. sagði og í grg. frv. segir, að vissulega hefði verið æskilegt að sameina þá sjóði, sem fyrir eru, í stað þess að bæta einum sjóðnum við. Ég tel sem sagt, að þessi sjóðmyndun stefni í þveröfuga átt við það, sem hæstv. iðnrh. og grg. frv. segja æskilega þróun að því er snertir sjóðamál iðnaðarins. Það er sem sagt verið að fjölga sjóðum til þess svo aftur síðar að geta fækkað þeim frá því, sem var, áður en þessi sjóður var stofnaður. Hér finnst mér vera um handarbakavinnu að ræða.

Getið er um það í grg., að Iðnlánasjóður geti veitt lán til hagræðingar í iðnrekstri, þótt það hafi eingöngu verið við það bundið, að sótt sé um stofnlán til fjárfestingar í vélum og tækjum. Þarna hefði vissulega verið möguleiki á því að víkka út starfsemi Iðnlánasjóðs og veita honum víðtækari og rýmri heimildir til þess að vinna sérstaklega að verkefnum, sem þessum nýja sjóði eru ætluð.

Jafnframt gat hæstv. ráðh. þess og í grg. er á það minnzt, að Iðnþróunarsjóður hafi og á stefnuskrá sinni og hafi heimild til að veita lán með sérlega hagstæðum kjörum, m. a. til tækniaðstoðar, rannsókna og markaðsathugana og í þeim efnum geti verið um nokkra skörun viðfangsefna að ræða milli Iðnþróunarsjóðs og hins nýja Iðnrekstrarsjóðs. Ég hefði í fljótu bragði haldið, að þarna hefði fremur átt að fara þá leið að veita Iðnþróunarsjóði rýmri heimildir eða gera verkefnaskil hans og Iðnlánasjóðs að þessu leyti skýrari heldur en að bæta nýjum sjóði við, sérstaklega þar sem ekki er ætlazt til, a. m. k. ekki á þessu stigi málsins, að veita nýju fjármagni til þessa nýja sjóðs.

Í tíð fyrrv. ríkisstj. var samþ. ýmiss konar löggjöf til þess að efla möguleika iðnaðarins í landinu til þess að eiga aðgang að lánsfjármagni. Á ég þar við endurbætta löggjöf um Iðnlánasjóð og þ. á m. stofnun sérstakrar hagræðingardeildar innan hans. Þar á ég við stofnun Iðnþróunarsjóðs, sem m. a., eins og ég gat um áðan og hæstv. ráðh, raunar einnig, hefur heimild til ýmiss konar fyrirgreiðslu, sem horfir til hagræðingar í rekstri iðnfyrirtækja. Það var enn fremur samþ. löggjöf um útflutningslánasjóð iðnaðarins, þ. á m. var veitt heimild til sérstakra samkeppnislána íslenzkum iðnaði til handa til þess að auðvelda samkeppnisaðstöðu hans gagnvart erlendum iðnaði á innlendum markaði. Loks voru svo a. m. k. tvívegis samþykkt lög um að breyta lausafjárskuldum iðnaðarins í lengri lán. Allt þetta var út af fyrir sig góðra gjalda vert og hefur gert iðnaðinum mikið gagn, m. a. í sambandi við þá samkeppni, sem hann hefur staðið í, eftir að aðild okkar að EFTA varð að veruleika.

Það fer þó ekki á milli mála, að iðnaðurinn er ekki enn þá nægilega fjármagnaður til þess að takast á við verkefni, sem við ætlum þessari atvinnugrein í framtíðinni og þá ekki sízt í sambandi við þann viðskiptasamning, sem nú hefur verið fullgiltur við Efnahagsbandalagslöndin í kjölfar aðildar okkar að EFTA. Ég get því mjög vel tekið undir með hæstv. iðnrh., að hér verði að taka til hendinni, ef við viljum láta vonir okkar um framtíðarvöxt iðnaðar á Íslandi rætast.

Ég er með þessum orðum mínum og ábendingum ekki að lýsa endanlegri afstöðu minni til þessa frv. eða til þess að stofna þennan sjóð. Ég hef fremur komið með þessar ábendingar á þessu stigi málsins til þess að segja, hvað mér býr í brjósti og hvað ég mun í iðnn. sérstaklega óska eftir, að verði kannað og athugað. Enn fremur geri ég þetta á þessu stigi málsins til þess, að hæstv. iðnrh. geti komið að aths. sínum við þessar hugleiðingar mínar og ábendingar, svo að iðnn. fái það einnig í vegarnesti.

Ég skal svo, áður en ég lýk máli mínu, taka það fram, að ég er sammála hæstv. iðnrh., þegar hann telur, að sölu- og markaðsmál hafi löngum verið með okkur Íslendingum í lágu gengi. Hann nefndi þá ástæðu sérstaklega, að það væri verðbólgan, sem hér væri orsökin. Ég skal ekki út af fyrir sig draga það í efa, að verðbólguþróun hér innanlands hefur átt sinn þátt í því, að sölu- og markaðsmálum hefur ekki verið sinnt sem skyldi. En ég held, að í þessu eigi nokkurn þátt áróður ákveðinna pólitískra flokka, sem telja sölu- og markaðsstarfsemi til ónauðsynlegrar, ef ekki skaðlegrar milliliðastarfsemi. Ég hygg, að sá áróður hafi átt töluverðan þátt í því að draga úr gildi sölumennsku og útbreiðslu á ágæti okkar framleiðslu. Þetta er út af fyrir sig mjög óheilbrigður hugsunarháttur, því að í góðri sölu- og markaðsstarfsemi er fólgin verðmætaaukning fyrir þjóðarbúið, og hún er grundvöllur þess, að útflutningsiðnaðurinn í landinu fái að þróast.

Ég held líka, að það sé ákaflega athyglisvert, sem stendur í grg. þessa frv., að eigið fjármagn íslenzkra iðnfyrirtækja sé aðeins 26%, og sammála er ég því, er segir í grg., að það hljóti að teljast mjög lágt. Hér er um það að ræða, að til þess að auka þetta eigið fjármagn þarf að bæta rekstrarafkomu iðnaðarins í landinu. Það er skilyrði fyrir því, að eigið fjármagn myndist. Og það er ekki unnt nema með því að breyta svo skattal. í landinu, að unnt sé að safna eigin fjármagni, ef iðnfyrirtækin skila einhverjum hagnaði. Þetta er fyrst og fremst áminning um það, að kostnaðarþróunin innanlands verður að vera slík, að fyrirtækin hafi möguleika til þess að sýna hagnað. Við höfum heyrt, að launakostnaður innlendra fyrirtækja hafi aukizt á 1½ ári um 56–60% og muni aukast á tveim árum e. t. v. um 70%, ef ekki meir. Hér er um alvarlega þróun að ræða, sem leiðir skýrlega í ljós, að atvinnurekstur okkar getur ekki verið samkeppnisfær við atvinnurekstur í öðrum löndum, þar sem tilkostnaðarþróunin er ekki viðlíka eins og þessar tölur gefa til kynna. Afleiðingin af þeirri þróun, sem við búum við, er auðvitað síendurteknar gengisfellingar til þess að skapa útflutningsiðnaðinum jafnmiklar tekjur í krónutölu og þar af leiðandi vantrú og vantraust á gjaldmiðlinum, auk þess þáttar, sem slík verðbólguþróun á í því að skapa öllum atvinnurekstri óvissu og erfiðleika að meta framtíðarþróun og skapa sér langtímamarkmið, sem unnt er að keppa að. Í þessu er fólgin mikil hætta, að okkur takist ekki að ná þeirri framleiðni, sem nágrannaþjóðir okkar hafa náð á sviði iðnaðar og um er getið í grg. með þessu frv. Í þessu tvennu, afkomumöguleikum atvinnuveganna í landinu annars vegar og skattlagningu á fyrirtækin hins vegar, ef þau skila einhverjum hagnaði á annað borð, er að mínu viti fólgin skýringin á lágri framleiðni íslenzkra iðnfyrirtækja og á því, hve íslenzk iðnfyrirtæki eru lítil og smá, en frá því er líka greinilega skýrt í grg.

Til þess að byggja upp stærri fyrirtæki þarf að koma upp almennum hlutabréfamarkaði, verðbréfamarkaði í landinu, þar sem almenningur getur lagt fram áhættufé í íslenzk iðnfyrirtæki og stuðlað þannig að vexti og viðgangi iðnaðarins. Ég skal svo aðeins gera þá aths. við þá heimild þessarar sjóðsstjórnar, sem ætlað er að koma á fót með þessu frv., að mér sýnist ekki nauðsyn, úr því að hún hefur heimild til að kaupa hlutabréf, að sérstakt samþykki Alþ. þurfi til að koma, til þess að hún geti afsalað sér hlutabréfinu. Í fljótu bragði finnst mér það ekki sambærilegt að selja jarðir og hlutabréf, þar sem annars vegar er um fasteignir að ræða og hins vegar um lausafé.

Ég skal, herra forseti, ekki hafa mál mitt lengra á þessu stigi. Ég tel hér hreyft þörfu máli, að svo miklu leyti sem það er ekki þegar í lögum og reglum annarra lánastofnana iðnaðarins, og tek undir það, að æskilegra væri að samræma lánsstofnanir iðnaðarins og hina ýmsu sjóði, sem vinna eigi iðnaðinum gagn, heldur en að stofna fleiri sjóði á þessu sviði. Ég áskil mér þó rétt til að skoða mál þetta allt betur í n. og afla þar þeirra upplýsinga, sem að lokum hljóta að ráða skoðanamyndun minni og annarra hv. þm.