12.03.1973
Efri deild: 68. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2463 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Jón Árnason:

Herra forseti. Hér er vissulega um stórt mál að ræða, og það var ánægjulegt að heyra þær upplýsingar, sem hæstv. iðnrh. gaf hér áðan um þá möguleika, sem ýmsir aðilar telja á því að auka verulega framleiðslu í iðnaði til útflutnings. Ég hygg, að allir séu sammála um, að það þurfi rækilega að gefa gaum að þeim þáttum í okkar framleiðslumöguleikum, sem bezt gætu bætt við sjávaraflann til þess að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Ég hygg einnig, að flestir muni sammála um, að þar sé um iðnaðinn að ræða.

Með tilliti til þess, sem fram kom hjá hæstv. iðnrh. í sambandi við væntanlega möguleika á þessu sviði, væri ekki óeðlilegt, að hið opinbera eða ríkissjóður kæmi verulega til móts við þessa atvinnugrein og legði af mörkum allverulegt fjármagn til eflingar, þar sem virðist blasa við, að þarna sé hægt að gera stórt átak. En því miður varð ég fyrir vonbrigðum, þegar þetta frv. var lagt fram. Mér sýnist, að það fjármagn, sem lagt er til grundvallar og má segja, að sé beint framlag í þessu skyni, sé aðeins um 15 millj. kr., því að 1, tölul. varðandi stofnfé sjóðsins, sem er áætlaður um 20–40 millj. kr., er fjármagn, sem kemur frá iðnaðinum sjálfum við síðustu gengisbreytingu, sem átti sér stað, og þessi mismunur verður að verulegu leyti til vegna þess, að nú er haldið öðruvísi á málum fyrir iðnaðinn hvað þetta snertir en hefur átt sér stað við undanfarandi gengisfellingar. Það er svo með ýmsan iðnað og ég vil sérstaklega minnast á niðursuðuiðnaðinn, að mikill meiri hluti kostnaðar við framleiðslu niðursuðuvara er erlendur og þar er um mikinn mismun að ræða miðað við þá framleiðslu, sem á sér stað t. d. á öðrum sjávarafurðum, þar sem framleiðslan fer fram á annan hátt, eins og við frystingu fisks, saltfisk og annað þess háttar. Og einmitt með tilliti til þess hefur það verið regla að undanförnu, að niðursuðuiðnaðurinn, sem vitanlega hefur ekki verið stór allt til þessa, hefur fengið til ráðstöfunar það fé, sem hefur komið um leið og gengisskráning hefur átt sér stað, og það hefur verið með tilliti til þess, hvað mikill hluti af framleiðslukostnaðinum, eins og umbúðir og efnivörur til iðnaðarins, er greitt í erlendum gjaldeyri. Vegna fjárhagserfiðleika þessara fyrirtækja, sem hafa átt við mjög þröngan kost að búa, hafa þau orðið að nota sér að geta fengið vörukaupalán til stutts tíma gegn víxlum, bæði efnivörur og umbúðir, sem hafa verið keyptir fyrir framleiðsluna erlendis frá. En með þeirri ráðstöfun, sem hér er ákveðin, kemur þetta af fullum þunga á framleiðendur. Ég tel, að það sé ekki stefnt í rétta átt með þessu frv. að þessu leyti.

Í 1. tölul. 5. gr. segir, að gengishagnaður samkv. 3. og 4. mgr. 2. gr. l. nr. 97 frá 1972, og einnig annars staðar í frv., þar sem er um upplýsingar að ræða varðandi þennan lið, að það verði að vísu ekki að fullu sagt enn þá, hvað hér muni verða um stóra upphæð að ræða, en sennilega muni upphæðin, sem verður til ráðstöfunar, verða eitthvað á bilinu 20–40 millj. kr. En í 3. mgr. 2. gr. laga um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenzkrar krónu, sem afgreitt var hér á s. l. hausti, segir svo, með leyfi forseta:

Ríkisstj. er heimilt að ákveða, að þá er skilað er til baka gjaldeyri fyrir útfluttar iðnaðarvörur framleiddar fyrir 1. jan. 1973, skuli hann greiddur útflytjanda á gamla genginu. Ríkisstj. kveður nánar á um, til hvaða vara þetta ákvæði skuli taka, og eru ákvarðanir hennar þar að lútandi fullnaðarúrskurðir. Mismunur andvirðis skilaðs gjaldeyris á gamla genginu og andvirðis hans á hinu nýja gengi samkv. þessari mgr. skal færður á sérstakan reikning á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum:

Það er þessi gr., sem kemur til framkvæmda og lendir að þessu leyti, eins og ég hef hér greint frá, á framleiðendum. Það getur verið gott út af fyrir sig að stofna sjóði, og það getur líka verið gott að geta lagt fé og fjármuni inn á sparisjóðsbók og annað þess háttar, en peningarnir verða bara að vera til hjá viðkomandi. Í þessu tilfelli álít ég, að þessar verksmiðjur, sem við þröngan kost eiga að búa og eru að reyna að framleiða til útflutnings, megi ekki við þessu, þó að þær eigi að njóta góðs af peningunum síðar á annan hátt. Ég verð að segja það, að mér finnst, að það hefði verið önnur mynd á þessu frv., sem hér liggur fyrir, ef það hefði þegar í upphafi legið fyrir, hvað ríkisstj. hugsar sér, að ríkissjóður leggi árlega fram fyrstu árin til þess að efla þennan sjóð. Ég er líka þeirrar skoðunar og ég tel, að n., sem fær þetta mál til meðferðar, eigi að athuga rækilega, hvort ekki er réttara að efla t. d. Iðnlánasjóðinn, stofna deild við hann, heldur en fara að koma upp nýjum sjóði fyrir iðnaðinn með nýrri stjórn. Ég tel, að það sé mjög hæpin hagræðing í því eða hagkvæmni fyrir hið opinbera að fjölga sjóðunum, nema því aðeins að það sé þá um mjög mikla aukna fjármuni að ræða og verkefni á breiðum grundvelli. En mér sýnist, að eins og hér er lagt til, að lagðar verði fram aðeins 15 millj. kr. umfram það, sem 1. tölul. segir til um og þar til viðbótar sé aðeins um lánsmöguleika að ræða og taka lán hjá Iðnþróunarsjóðnum, þá sé varla tilefni til þess að stofna sérstakan sjóð eða sérstaka stofnun til að láta þetta koma til framkvæmda. Ég hygg, að n. ætti að athuga nánar og reyna að gera sér grein fyrir því, hvort það sé ekki hagkvæmara að láta Iðnlánasjóðinn hafa þessi málefni með höndum.

Ég skal ekki fjölyrða miklu meira um þetta mál, en tek undir það, sem kemur fram í aths. við frv., að inngangan í EFTA og viðskiptasamningurinn við EBE-löndin gjörbreyta aðstæðunum fyrir íslenzkan iðnað og gefa okkur vonir um að geta tekið þátt í þeirri samkeppni, sem á sér stað í markaðslöndunum. Eftir það getum við staðið nokkurn veginn jafnfætis við aðrar þjóðir hvað því viðkemur, að tollar verði felldir niður, og við sitjum við sama borð og aðrir í þeim efnum. Það skiptir vitanlega höfuðmáli, því að það segir sig sjálft, að við yrðum að hafa miklu meiri og betri tækni, ódýrara vinnuafl og ódýrara hráefni til að vinna með, ef við ættum að geta staðið jafnfætis þeim þjóðum, sem við skiptum við og verðum að greiða 20–30–40% af okkar framleiðsluvörum, þegar þær koma til markaðslandanna. Þessi nýi samningur við EBE-löndin og EFTA-samningurinn við fríverzlunarlöndin geta vissulega markað þau spor í sambandi við íslenzkan iðnað, að hann eigi sér mikla framtíð fyrir höndum og möguleikar verði á því að efla hann eitthvað í líkingu við það, sem hæstv. iðnrh. vék hér að áðan.