12.03.1973
Efri deild: 68. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2469 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja þessar umr. ekki að miklum mun, en vil þó aðeins geta nokkurra atriða, sem komu fram í síðari ræðu hæstv. iðnrh.

Við höfum áður deilt um það, ráðh. og ég, að hve miklu leyti stefnubreyting hefur orðið í tíð núv. ríkisstj., að því er snertir stofnun fyrirtækja, er byggja starfsemi sína á orkufrekum iðnaði. Hann telur þá stefnubreytingu hafa orðið, að nú sé rætt um stofnun slíkra fyrirtækja eingöngu með því skilyrði, að Íslendingar eigi meiri hl. í þeim, svo að ágóðinn af starfsemi fyrirtækjanna fari ekki út úr landinu. Ég vil benda á það, að stefna fyrrv. ríkisstj. var sú, að í þessum efnum ætti að meta hverju sinni, hvort væri hagkvæmara fyrir okkur Íslendinga að eiga hlut í fyrirtækjunum sjálfum, meiri hl. eignaraðildar, eða ekki neitt, um leið og við í báðum tilfellum seldum íslenzka orku til fyrirtækjanna. Það er ekki skoðanaágreiningur okkar á milli um það, að í báðum tilfellum munum við selja íslenzka orku til fyrirtækjanna. Og í tíð fyrrv. ríkisstj. eru dæmi um hvort tveggja, að Íslendingar eignuðust meira en helming af fyrirtækjunum, eins og t. d. í Kísilverksmiðjunni við Mývatn, erlent fyrirtæki hafði að öllu leyti eignaraðildina að iðnfyrirtækinu sjálfu, eins og á sér stað um álverksmiðjuna í Straumsvík. Þar byggðist matið á því, að í fyrstu umferð væri eðlilegt, að áhættan og fjármögnunin væri algerlega á hendi útlendinga, með því að við þyrftum sjálfir að leggja í mikla fjármögnun að því er orkufyrirtækið sjálft snertir. Eftir því sem okkur vex fiskur um hrygg, verður auðvitað eðlilegt og sjálfsagt, að við tökum meiri þátt sem eignaraðilar í fyrirtækjunum, iðnaðarfyrirtækjunum sjálfum. Um þetta er þess vegna ekki neinn skoðanaágreiningur í grundvallaratriðum, heldur er hér um eðlilega þróun að ræða.

Þá vil ég ítreka það, að mér finnst óþarfi að gera mjög mikið úr því aukna fjármagni á þessu ári, sem fáist með stofnsetningu Iðnrekstrarsjóðs, því að þeir milljónatugir, sem til staðar verða af gengishagnaði 1968 og 1972, nema frá 35–55 millj, kr., og það er skilyrði löggjafans, hygg ég, í báðum tilvikum, að þessu fjármagni verði varið til hagsbóta iðnaðinum. Þá er til viðbótar þessari upphæð eingöngu gert ráð fyrir láni úr Iðnþróunarsjóði, sem auðvitað er skuldbundinn til þess að veita fjármagni sínu iðnaðinum til hagsbóta. Spurningin er þá, hvort þetta fjármagn sé veitt til sérstakra þarfa, sem fjármögnunarstofnanir iðnaðarins hafa ekki heimild til að styðja og efla. Ég dró ekki úr því, að svo kynni að vera. En það þyrfti tiltölulega litla breytingu á 1. um Iðnlánasjóð eða l. um Iðnþróunarsjóð til þess að veita þessum stofnunum slíka heimild. Og ég hygg, að það sé eðlilegri málsmeðferð. Það mætti e. t. v. segja, að við séum bundin að því er snertir löggjöf um Iðnþróunarsjóð, þar sem löggjöfin byggist á samningum við Norðurlandaþjóðirnar. En í því efni mætti gjarnan hugsa sér að fara þá leið, að sérstakri deild, sem falin væri forstjórn framkvæmdastjórnar Iðnþróunarsjóðs og skipuð er íslenzkum mönnum eingöngu, væri fengið þetta verkefni til meðferðar.

Hæstv. iðnrh. gat um það um leið og hann var að sannfæra okkur um nauðsyn á fjármagni til þess verkefnis, sem þessum sjóði væri ætlað að sinna, að fjármagnsþörf þeirra 7 fyrirtækja, sem hann hefði upplýsingar frá um útflutningsaukningu á þessu ári, næmi 120 millj, kr. Ég hygg, að þessi fjármagnsþörf sé ekki nema að mjög litlu leyti byggð á ætlunarverki Iðnrekstrarsjóðs. Mér segir svo hugur um, að þarna sé að vísu minni hluti fjárþarfarinnar fólginn í fjárfestingu, en meiri hl. fjárþarfarinnar í auknu rekstrarfé, og það auka rekstrarfé sé bundið fyrst og fremst í auknum hráefniskaupum, í nauðsyn þess að hafa aukið rekstrarfé til að standa undir gjaldfrestum og stutttímalánum til kaupenda o. s. frv., en þessi fjárþörf stafi ekki af hagræðingaratriðum, sem eru meginhlutverk þessa sjóðs samkv. 6. gr.

Með þessu er ég ekki að draga úr skjótri þörf íslenzks iðnaðar til þess að hafa aðgang að slíkum hagræðingarlánum umfram það, sem heimildir Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs segja til um nú. En ég bendi aðeins á það, að fjárþörf þessara 7 fyrirtækja verður ekki leyst samkv. orðalagi þessa frv. með lánveitingum úr þessum sjóði, og að því leyti til mun frv. tæpast verða til þess að tvöfalda útflutning iðnaðarvara á þessu ári, eins og stefnt er að. Slík hagræðingarlán eða framlög eru miklu fremur til þess að afla hagnaðar eða stuðla að auknum útflutningi til lengri tíma. Áhrif slíkra hagræðingarráðstafana koma fram almennt séð á lengri tíma en þarna er um að ræða.

Þótt ég geri ekki lítið úr aðgerðum hæstv. iðnrh. til þess að vega upp á móti þeirri minnkun á útflutningi, sem við megum búast við af völdum Vestmannaeyjagossins, verð ég að segja það, að mér finnst hann sérstaklega og kannske ýmsir fleiri nota þá ástæðu á ýmsum þeim stöðum, sem óþarfi er, vegna þess að þörf fyrir aukinn útflutning er til staðar burt séð frá þeim náttúruhamförum. Það hljómar dálítið óeðlilega í munni þeirra manna, sem áður fyrr töldu það engu máli skipta, þegar sú þróun varð, að útflutningsverðmæti okkar minnkaði um helming á 2 árum, að segja í öðru hverju orði nú, að 5% minnkun verði á útflutningi okkar, ef við gerum ráð fyrir rúmlega helmingsminnkun þess, sem Vestmanneyingar hafa áður flutt út.

Ég vil leggja áherzlu á, að þróun íslenzks iðnaðar hlýtur fyrst og fremst að byggjast á því, að skilyrði skapist fyrir útflutningi iðnaðarvara. Þótt þróunin hafi stundum hingað til byggzt á innlendri kaupgetu og þess vegna sé það ekki einhliða baggi á iðnaðinum að greiða hátt kaupgjald, heldur sé það til þess fallið að skapa betri markað fyrir iðnaðarvörur, þá er þess að geta í því sambandi, að með viðskiptasamningum okkar, bæði við EFTA og Efnahagshandalagið, opnum við íslenzkan markað fyrir erlendum vörum og innlendi iðnaðurinn verður líka að keppa á heimavígstöðvunum við erlendar vörur. Þess vegna verður tilkostnaðarþróunin á Íslandi að fylgja tilkostnaðarþróuninni erlendis.

Við viljum auðvitað geta greitt hér hæsta kaupgjald, sem nágrannalönd okkar greiða, og ég held, að reynsla okkar af því að hafa gert samninga um orkufrekan iðnað hér og orkusölu til iðnaðarfyrirtækja, sem eru í eigu útlendinga algerlega, sé sú, að það hafi síður en svo orðið til þess, að vinnuafl hér sé ekki greitt með samsvarandi hætti og í nágrannalöndum okkar. Miklu frekar er um það að ræða, að þessi orkufreki iðnaður greiði jafnhátt eða hærra kaupgjald en bæði er um að ræða hér innanlands og í ýmsum okkar nágrannalöndum.

Við erum sammála um það, hæstv. iðnrh. og ég, að fyrirtækin hér á Íslandi séu of mörg, og það er eðlilegt og sjálfsagt að vinna að samruna þeirra, m. a. á þann hátt, að þau séu betur til þess fallin að standa undir og standa að vaxandi útflutningi iðnaðarvara. En hæstv. iðnrh. dró í efa, að breyting á skattal. hefði þar gildi. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar, að sé rekstrargrundvöllur á annað borð fyrir iðnfyrirtæki í landinu eða atvinnurekstur í landinu, þá sé breyting á skattal. grundvallarskilyrði þess, að fyrirtækin stækki, að rekstrareiningarnar verði stærri en nú er. Oft á tíðum eru iðufyrirtækin á Íslandi byggð upp sem atvinnuspursmál fyrir eigandann. Það er heilbrigð byrjun í iðnaðarstarfsemi. En í því geta ekki fólgizt áframhaldandi vaxtarskilyrði fyrir iðnaðinn í landinu, sem verður að byggjast á stærri rekstrareiningum. Það verður því að vera svo, að fleiri en eigandinn og þeir, sem vinna við sjálft fyrirtækið, hafi hagsmuna að gæta af rekstri þess. Það verða fleiri að leggja fram áhættufjármagn, til þess að slíkt fyrirtæki geti fjárfest í nauðsynlegum vélum og tækjum, og þessir eigendur verða að sjá eitthvað unnið við það að spara við sig eyðslu til þess að leggja í slík fyrirtæki. Þessir eigendur verða að fá vexti af sínu sparifé, sínu áhættufé, sem þeir leggja fram sem hlutafé. Og til þess að þeir fái slíka vexti og umbun síns sparnaðar, verða að eiga sér stað breytingar á skattal. Það hlýtur einnig að vera ljóst, að breytingar á skattal. eru nauðsynlegar til þess að auka á eigið fjármagn iðnfyrirtækjanna sjálfra með rýmri fyrningarreglum og rýmri möguleikum að leggja í endurnýjunar- og varasjóði til þess að mæta sveiflum, sem ávallt kunna að verða á rekstri iðnfyrirtækja.

Ég held, að ekki sé rétt að orðlengja frekar um þetta mál á þessu stigi, tækifæri gefst til þess við 2. umr. málsins. Við höfum hér talað að ýmsu leyti vítt og breitt um íslenzkan iðnað og skilyrði þau, sem uppfylla verður til þess að auka útflutninginn. Svið þessa frv. er miklum mun takmarkaðra en umr. hér, og ég vil að vissu leyti segja, að það ber fremur að harma, að svið þessa frv. er svo þröngt, að umr. hér byggjast ekki á því, heldur á almennum hagsmunamálum iðnaðarins í landinu. Hitt er svo annað mál, að hér er um verkefni að ræða, sem nauðsynlegt er að sinna ásamt ýmsum og mörgum fleiri til hagshóta íslenzkum iðnaði. Í ljósi þess tel ég sjálfsagt, að iðnn. kanni málið frá öllum hliðum og sérstaklega kanni það á þeim grundvelli, hvort ekki er unnt, þar sem hér er ekki um að ræða neitt nýtt fjármagn iðnaðinum til handa, að fela verkefni þetta þeim stofnunum og sjóðum, sem fyrir eru í landinu.