12.03.1973
Neðri deild: 63. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2474 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

176. mál, Fræðslustofnun alþýðu

Flm. (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Við hv. 2. landsk. þm. höfum lagt fram á þskj. 320 frv. til l. um Fræðslustofnun alþýðu. Þetta frv. var fyrst lagt fram í þessari þd. haustið 1971. Fyrsti flm. frv. var Sigurður E. Guðmundsson, sem þá átti sæti á Alþ. um tíma sem varaþingmaður Alþfl. Málið var þá ekki afgr. frá menntmn., sem fékk það til athugunar og umsagnar.

Markmið þessa frv., ef að lögum verður, er að jafna námsaðstöðu fullorðinna og yngra fólks. Samþykkt þess ætti að tryggja, að fullorðið fólk geti átt þess kost að leita þeirrar menntunar eða þjálfunar, sem hugur hvers og eins stendur til, honum að kostnaðarlitlu eða kostnaðarlausu. Eins og málum er nú háttað, skortir mikið á, að námsaðstaða sé fyrir hendi til handa því fólki, sem hér um ræðir. Í þessum efnum munum við Íslendingar standa að baki frændþjóðum okkar á Norðurlöndum, a. m. k. Svíum og Norðmönnum. Þar hefur fullorðinsfræðslan þróazt um langan aldur. Í Noregi mun t. d. 1% af heildarkostnaði við fræðslu- og skólamál vera varið til fullorðinsmenntunar, en 10% í Svíþjóð.

Það er okkur Íslendingum að jafnaði keppikefli, ef svo mætti segja, að reyna að standa jafnfætis nágrannaþjóðunum á sem flestum sviðum, og svo hlýtur einnig að vera í því tilfelli, sem hér um ræðir. Hitt hlýtur þó að vera þyngra á metunum, hvað það mál áhrærir, sem hér er gert að umtalsefni, að fullorðið fólk, sem orðið hefur af þeirri skólagöngu og fræðslu á yngri árum, sem hugur þess hefur e. t. v. staðið til, en ekki getað notið af ýmsum ástæðum, á þann rétt á hendur samfélaginu nú á tímum, að því sé kleift að ráða þar bót á með viðráðanlegum hætti. Það fólk, sem þannig stendur á um, hefur vafalaust flest unnið fjölskyldu sinni og þjóðfélaginu í heild hörðum höndum, greitt skatta sína ríki og bæ, staðið undir hinu mikla skólakerfi í landinu með vinnu sinni ásamt öðrum þjóðfélagsþegnum, — skólakerfi, sem miðast við uppeldi og menntun æskunnar í landinu fyrst og fremst. Á starfi þessa fólks og annarra skattborgara byggist einnig hið víðtæka og viðamikla styrktar- og lánakerfi námsmanna, sem stunda langskólanám.

Stórstígar framfarir hafa átt sér stað á liðnum árum í allri menntunaraðstöðu ungs fólks hér á landi, og á döfinni eru veigamiklar breytingar í þeim efnum, flestar í framfaraátt. En á þessum tímum vaxandi skilnings á gildi menntunar og góðrar námsaðstöðu fyrir æsku landsins hafa skilyrði til menntunaraðstöðu fullorðins fólks ekki verið bætt, svo að neinu verulegu nemi. Margir, sem nú eru á fullorðinsaldri, fóru á mis við langskólanám vegna þess, að þeir áttu ekki til efnafólks að telja, m. ö. o. það skorti fé til að stunda skólagöngu eða þurfti að hjálpa fjölskyldu sinni á barns- og unglingsaldri til að afla fæðis og klæðis. Af þeim sökum hefur margur efnismaðurinn aldrei notið hæfileika sinna til fulls, sjálfum sér og þjóðinni allri til tjóns. Þetta fólk á þá réttlætiskröfu á hendur þjóðfélaginu, að leiðrétt verði það misrétti, sem það varð fyrir á yngri árum, þegar þjóðfélagsaðstæður, sem aldarandi og fátækt þeirra tíma lét viðgangast, útilokuðu það frá því að geta þroskað hæfileika sína svipað og ungt fólk getur gert í nútímanum. Fyrir ranglætið, sem það varð fyrir að þessu leyti, verður að sjálfsögðu aldrei að fullu bætt, en samtíminn getur komið til móts við óskir þess fólks, sem vill njóta frekari menntunar og fræðslu en það átti kost á í uppvexti sínum, séu því sköpuð skilyrði til þess. Til þess á það ekki aðeins siðferðislegan rétt, heldur er hér einnig um að ræða hagsmunamál út frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar, að þeim, sem áhuga og hæfileikum eru gæddir, sé gert unnt að þroska þá þannig, að þeir nýtist viðkomandi einstaklingi og þjóðinni í heild sem allra bezt.

Ýmsir aðilar hafa starfrækt kennslu og fræðslu fyrir fólk á öllum aldri utan við hið almenna opinbera skólakerfi, sem ríkið stendur fyrir. Þeir sem slíkt hafa haft með höndum, hafa yfirleitt ekki notið stuðnings frá hinu opinbera og námið því verið afar kostnaðarsamt og dýrt. Hér er aðallega um að ræða ýmsa málaskóla, námsflokka á vegum nokkurra sveitarfélaga og bréfaskóla. Rétt og skylt er að geta þess, að Menntaskólinn við Hamrahlíð hefur hafið kvöldkennslu til stúdentsprófs fyrir fólk, sem jafnframt stundar aðra vinnu. Mun aðsókn fullorðins fólks hafa verið miklu meiri að þessari starfsemi en hægt hefur verið að sinna. Er þetta framtak skólans til fyrirmyndar. En aðsóknin sýnir, að áhugi er mikill fyrir að fá notið kennslu með þessum hætti til þess að ná þeim menntunaráfanga, sem stúdentsprófið er. Menntaskólinn við Hamrahlíð hefur að sínu leyti stigið skref í rétta átt á þessu sviði skólamála.

Af því, sem hér hefur verið drepið á um möguleika fullorðins fólks til menntunar og skólagöngu, er augljóst, að þeir kostir, sem þar er um að velja, eru fáir, óhentugir og dýrir eða svo takmarkaðir, eins og við Menntaskólann við Hamrahlíð, að fjöldinn allur kemst ekki að.

Annað atriði vildi ég nefna, sem liggur til grundvallar þeirri tillögugerð, sem felst í frv., en það er nauðsyn þess að gera einstaklingum, sem komnir eru á miðjan aldur og vilja bæta við þekkingu sína eða rifja upp áður fengna þekkingu, kleift að gera það. Í þessum hópi eru t. d. giftar konur, sem eftir áratuga vinnu á heimili sínu vilja taka til við vinnu utan þess. Kostir þeirra til að afla sér vinnu utan heimilis eru oft mjög takmarkaðir, af því að ekki er um að ræða, að unnt sé að fá tækifæri til endurhæfingar. Þær verða oft að sætta sig við að taka lökustu og verst greiddu vinnuna eða hefja ella margra ára nám. Þá er að engu metinn mikil og dýrmæt lífsreynsla og þroski, sem ekki fæst á skólabekk, en er mörgum mikilvægara til velfarnaðar en skólalærdómur, þótt góður sé og nauðsynlegur hverjum manni.

Meðal frændþjóðanna á Norðurlöndum hafa alþýðuhreyfingin, þ. e. verkalýðs- og launþegasamtökin, og jafnaðarmannaflokkarnir haft með höndum mikla og öfluga fræðslustarfsemi um áratuga skeið. Hafa þessir aðilar staðið fyrir almennri fullorðinsmenntun, svo og ýmis önnur almenn fræðslusamtök í þessum löndum. Slík fræðslusamtök almennings hafa notið svo ríkulegra fjárframlaga úr hendi hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, að fræðslustarfið hefur verið þeim afar ódýrt, er þess hafa notið. Það er sammerkt öllum fræðslusamtökum alþýðuhreyfingarinnar á Norðurlöndum, að allir geta tekið þátt í náminu kostnaðarins vegna. Þeir, sem helzt notfæra sér það nám, sem þar stendur til boða, mun vera fólk, sem ýmist vill afla sér frekari þekkingar en það hefur þegar öðlazt, endurhæfa sig til nýrri og flóknari starfa eða læra eitthvað nýtt. Þegar ákveðnum þekkingarstigum er náð, geta menn átt þess kost að ganga með einum eða öðrum hætti inn í hið almenna menntunarkerfi og halda þar áfram námi sínu.

Það fyrirkomulag, sem á sér stað í þessum málum á Norðurlöndum, á sér langa sögu og þróun að baki. Mér sýnist, að sú fullorðinsfræðsla, sem nauðsynlegt er að skipuleggja og koma á fót hér á landi að undirlagi ríkisins og með fjárhagslegum tilstyrk þess, verði að verulegu leyti að byggjast upp með ólíkum hætti. Vissulega væri æskilegt, að fullorðinsmenntunin færi fram að einhverju leyti á vegum frjálsra fræðslusamtaka með svipuðum hætti og gerist í nágrannalöndum okkar með miklum og góðum árangri. Frv. gerir líka ráð fyrir miklum stuðningi við slíka starfsemi. En ég hygg, að hið opinbera verði að hafa hér virka og ákveðna forustu til þess að hrinda í framkvæmd því máli, sem hér um ræðir. Ýmis fleiri rök liggja að baki nauðsyn þess, að hið opinbera efli fullorðinsmenntun í landinu. Almenningur á nú á tímum meiri tómstundir til að sinna ýmsu, sem hugur manna stendur til, en áður var. Mikilsvert er, að hið opinbera stuðli að því, eftir því sem tök eru á, að sem flestir geti notið slíkra tómstunda þannig, að að sem mestu og beztu gagni verði fyrir viðkomandi einstakling og þjóðfélagið í heild.

Herra forseti. Sú meginhugsun liggur til grundvallar þeirri tillögugerð, sem felst í þessu frv., er, að fullorðnu fólki sé gert fjárhagslega kleift að afla sér fræðslu og menntunar, jafnframt því sem stuðlað er að því, að hið opinbera geti boðið því námsaðstöðu. Við flm. þessa frv., erum þeirrar skoðunar, að allir þegnar þjóðfélagsins eigi að sitja við sama borð hvað snertir möguleika til að afla sér menntunar ókeypis. Viss ókeypis grundvallarmenntun a. m. k. á að standa öllum til boða, hvað sem aldri þeirra, efnahag, fjölskyldustærð og öðrum aðstæðum líður. Sanngjarnast er, að venjulegu launafólki gefist einnig kostur á fjárhagslegum stuðningi vegna launataps, er það kann að verða fyrir vegna námsins. Í því sambandi skal minnt á, að ríkið veitir unglingum í dreifbýli fjárhagslegan stuðning til náms. Einnig veitir hið opinbera námsmönnum, sem stunda langskólanám heima eða erlendis, ákaflega hagstæð lán og góða styrki, svo sem kunnugt er. Það er í alla staði eðlilegt og réttmætt, að þannig sé búið um hnútana, að fjölskyldufólki verði gert fjárhagslega fært að afla sér þeirrar menntunar eða þjálfunar, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni.

Ég mun nú víkja örfáum orðum að einstökum gr. frv.

1. gr. þess kveður á um, að sett skuli á stofn Fræðslustofnun alþýðu og skuli starf hennar vera grundvöllur fyrir skipulegri eflingu almenningsmenntunar í landinu (fullorðinsmenntunar).

2. gr. kveður á um hið fjórþætta markmið stofnunarinnar:

1) Að hún skuli veita fjölskyldumönnum, körlum og konum, sem til hennar leita um slíkt, fjárhagslegan stuðning í því skyni að afla sér menntunar eða auka þegar fengna þekkingu, menntun eða réttindi, en þó ekki þeim, er stunda nám í hinu almenna skólakerfi, né þeim, er eiga aðgang að Lánasjóði ísl. námsmanna. Þessi stuðningur skal vera í mynd fræðslubóta, og beiðnir um þær skulu metnar eftir þörfum umsækjenda, efnahag, fjölskyldustærð og þess háttar samkv. reglugerð, sem gert er ráð fyrir, að sett verði þar um af ráðh.

2) Þá fjallar 2. gr. um það, að stofnunin skuli setja vissar reglur varðandi það að veita fjárhagslegan stuðning þeim aðilum, er gefa almenningi kost á sjálfsmenntun, enda á hún að leiða til þess, að hún verði mönnum mun ódýrari og auðfengnari en nú er. Þá er gert ráð fyrir, að stofnuninni sjálfri sé heimilt að efna til slíkrar fræðslustarfsemi og að settar verði reglur, sem tryggi þeim, sem lokið hafa prófum eða náð tilskildum áföngum á vegum slíkrar starfsemi, aðgang að öðrum námsbrautum í eða til hliðar við hið almenna skólakerfi.

3) Þá skal Fræðslustofnun alþýðu standa fyrir og kosta námskeið, sem haldin séu fyrir vinnandi fólk því til endurhæfingar og þjálfunar vegna starfa þess í atvinnulífinu, og einnig er gert ráð fyrir, að stofnuninni sé heimilt að kosta slík námskeið á vegum annarra aðila.

4) Fræðslustofnun alþýðu skal leggja fram fé til að kosta þjálfunar- og fræðslunámskeið fyrir fólk, er gegnir trúnaðarstörfum í launþegasamtökunum, og enn fremur er stofnuninni sjálfri heimilt að efna til slíkra námskeiða samkv. ákvæðum þessa frv.

3. gr. frv. segir fyrir um, hvernig skuli ráðstafa fé stofnunarinnar í meginatriðum.

4. gr. kveður á um það, hvernig stjórn stofnunarinnar skuli vera. Þar er gert ráð fyrir, að 5 af 7 stjórnarmönnum skuli vera kjörnir hlutbundinni kosningu á Alþ., einn skuli tilnefndur af miðstjórn Alþýðusambands Íslands og annar af stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.

5. gr. gerir ráð fyrir, að allur kostnaður við rekstur stofnunarinnar skuli greiðast úr ríkissjóði, og 6. gr. kveður á um, að menntmrh. setji reglugerð með nánari ákvæðum um framkvæmd l. að fengnum till. stjórnar og fræðslunefndar stofnunarinnar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál að svo stöddu, en vil að lokum leggja áherzlu á eftirfarandi: Það hlýtur að vera hið mesta réttlætismál, að allir þeir, sem þess óska, geti átt kost á að nema það, sem hugurinn þráir, án tillits til efnahags, aldurs og annarra ástæðna. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, miðar að því, að svo geti orðið. Það stefnir að því að mynda grundvöll til skipulegrar almenningsmenntunar á Íslandi utan hins almenna skyldunámskerfis. Nái það fram að ganga, er stigið stórt og mikilvægt spor í átt til aukins jafnréttis og bætts lýðræðis. Það er vissulega markmið, sem stefna ber að á sem flestum sviðum.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.