30.10.1972
Efri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

24. mál, tímabundnar efnahagsráðstafanir

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mér fannst áðan í orðum hæstv. forsrh. eins og hann gerði því skóna fyrirfram, að allir væru alveg afdráttarlaust sammála þessari lausn. Ég hef ekki fengið enn þá það fram, að ég skrifi undir það fyrirfram, m.a. eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á, varðandi þessar 400 millj. Ég vil byrja ræðu mína á því að óska eftir því aftur hér í þessari hv. d., að þær verði sundurliðaðar nákvæmlega. Ég bað um það í umr. um fjárlög og var ekki virtur svars þar, svo að ég ítreka þá spurningu mína að fá það nú rækilega tekið fram alveg lið fyrir lið, hvaðan þessar 400 millj. kr. koma og skiptast á framkvæmdir. Auðvitað er í því viss blekking að taka 400 millj. kr. núna, sem Alþ. hafði tekið frá á sínum tíma og reiknað með öflun á. Það er viss blekking að taka það til annarrar ráðstöfunar, því að fyrr eða síðar kemur að því, að við verðum að afla þessara 400 millj., og kannske að það þurfi þá meira en 400 millj. í sömu framkvæmdir vegna verðhækkana, bæði innanlands og erlendis, þannig lagað að það skiptir máli, hvernig þetta skiptist, og við sjáum nákvæmlega, í hvaða þarfir þessar 400 millj. áttu að fara, áður en þær voru teknar og settar í niðurgreiðslur.

Efnahagslegur vandi varðandi verðbólgu hér á Íslandi er ekkert nýtt fyrirbrigði og befur verið hér mjög oft áður, og menn hafa deilt um leiðir. Það eru gamalkunnar leiðir, það eru leiðir niðurfærslu, styrkjastefnu og gengisfellingar og kannske eitthvað þar á milli. Hvað verður nú gert, veit raunar enginn, vegna þess að á stofn var sett ný n., nefnd vitringa eða spekinga, sem eiga að gefa ríkisstj. holl ráð, og ríkisstj. bíður og þjóðin bíður eftir því, hvað þeir leggja til. Það hefur komið fram, — það skildist mér áðan af orðum hæstv. forsrh., — að það kynni að vera, að ríkisstj. hoppi ekki inn á einhverja eina leið. Að sjálfsögðu tekur hún eitthvað úr þessu, hún metur, hvað er gott og hvað er slæmt, einnig þarf að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins, sem er mikilvægt atriði. Þannig getur þetta allt tekið nokkurn tíma. En þjóðin veit þó eitt, að það þarf að afla mikilla tekna til þess að mæta því, sem fram undan er. Áhrifin, sem þessar vangaveltur hafa haft í för með sér, eru örugglega þau, það heyrir maður víða utan að sér, að fólk keppist nú mjög við að koma peningum í lóg með einu eða öðru móti. Þetta hefur þess vegna skapað aukna eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Þó hefur því oft verið lýst yfir hér á hv. Alþ. af sjálfum forsrh., að nóg væri að gert í þessu efni og spennan mikil og eitt höfuðviðfangsefni hæstv. ríkisstj. væri að draga úr þessari spennu og koma á jafnvægi milli eftirspurnar og framboðs og kaupgetu almennings.

Þó að það sé frjálst hverjum manni hér á hv. Alþ. að lýsa yfir sínum persónulegu skoðunum, þá skiptir auðvitað mjög miklu máli, hver gerir það, eins og hér hefur verið undirstrikað úr ræðustóli í dag. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli, hvort það er ég eða sjálfur forsrh., sem lýsir því yfir, að þetta þurfi að gera og þetta komi til greina að gera. Það segir sig sjálft.

Á sínum tíma, ef ég man rétt, samkv, hinu margumtalaða júnísamkomulagi 1964 var sett í lög að koma með nýja vísitölu framfærslukostnaðar. Þá voru fengnar til þess um 300 fjölskyldur að gera neyzlureikning, og niðurstaðan varð sú, að um 100 fjölskyldur skiluðu þessum neyzlureikningi með góðu móti, og nærri 400 manns áttu hér hlut að máli. Frá því í janúarbyrjun 1968 höfum við notað þessa vísitölu, vísitölu framfærslukostnaðar, sem verðmæti í þjóðfélaginu. Laun hafa verið greidd og tekin um það ákvæði í kjarasamninga að hafa þetta sem viðmiðun. Inn í þessari vísitölu eru vín og tóbak. Hin „vonda“ viðreisnarstjórn hækkaði vín og tóbak á sínum tíma fyrir rúmlega tveimur árum, sem olli miklum úlfaþyt í þjóðfélaginu. Þó varð sú hækkun aðeins með því móti, að það átti að fresta ákvörðun þeirrar hækkunar í vísitölukerfinu, en ekki afnema það með öllu. Þá hafði núv. forseti þessarar deildar hér mörg og stór orð um léleg og slæm vinnubrögð í því efni, og væri nú fróðlegt að heyra aths. hans varðandi slíkar vangaveltur í dag að taka nú áhrif frá víni og tóbaki fullkomlega burt úr vísitölunni. E.t.v. eru menn með vangaveltur um, að þetta skipti ekki svo mjög miklu máli, ef sama tala er aftur sett í niðurgreiðslur og henni jafnað til baka í hinn vasann. En um þetta þarf að nást víðtækt samkomulag, ella tel ég hiklaust, að forsenda kjarasamninganna sé brostin. Menn bíða því mjög spenntir eftir því, hvernig hans flokkur og ASÍ-þingið afgreiði eða hvaða afstöðu þau taki til slíkra hugmynda. Eigum við að byggja áfram á þeirri vísitölu, sem var fundin með þeim neyzlurannsóknum, sem ég nefndi áðan? Hún er rétt, sú staðhæfing, að neyzluvenjur breytast. Þær breytast með tímanum og þær breytast með betri efnahag almennings. Það er því eðlilegt, að vísitala eða neyzlusamsetning vísitölu sé athuguð reglulega, og það er sennilega orðið vel tímabært að fá aftur 100–200 fjölskyldur til þess að halda búreikning og sýna nú á komandi ári, hvernig sú samsetning á sér stað, og bera hana saman við það, sem átti sér stað á árinu 1965 eða 1966, þegar þessi rannsókn fór fram. En kjarasamningar eru í gildi og þeir samningar eru miðaðir við þessa samsetningu, og það skiptir því mjög miklu máli að breyta þessari samsetningu skyndilega. Um það eru menn ekki sammála, hvort hægt sé að gera slíkt öðruvísi en líta á forsendur þessara kjarasamninga brostna.

Einnig þarf að velta mjög vöngum yfir því, hvaða liði á þá að greiða niður, og ef það á að vera takmarkið, sem út af fyrir sig getur verið æskilegt, að halda vísitölunni í 117 stigum, þá skiptir það mjög miklu máli, hvaða liðir eru greiddir niður. Það er hagkvæmast fyrir ríkissjóð að fara í fjölskyldubæturnar. En nú eru ekki allir þegnar þjóðfélagsins fjölskyldumenn, og þá þarf að fara að velta vöngum yfir því, hvað á að greiða annað niður, nýmjólk, smjör, kjöt o.s.frv. eða fisk, og þegar við erum með upphæðir, sem örugglega eru mikið á 3. milljarð, ekki 800–1000 millj. til að leysa aðsteðjandi vanda, heldur vandann fyrir árið 1973, þá skiptir mjög miklu máli, hvernig við verjum þessu væntanlega fjármagni í niðurgreiðslum, þannig að byrðarnar komi ekki afar misjafnlega niður á einstaklingana. Um þetta hefur verið lítið fjallað hér og verður áreiðanlega ekki sagt fyrirfram við stjórnarandstöðuna. En vegna þess að hæstv, forseti þessarar d. á sæti í launþegasamtökunum og skipar þann sess, sem mjög er mikilvægur, þá vænti ég þess af honum, að hann fylgist líka með því, að sá þáttur verði athugaður mjög gaumgæfilega, hvernig þessi dreifing á sér stað á niðurgreiðslunni, því að margt gamalt fólk kann að fara illa út úr þessu, ef ekki er hugleidd mjög eðlileg dreifing á vissar matvörur í þessu sambandi.

Það er gefið mál miðað við skrif í Þjóðviljanum núna, að það á að hreyfa vísitöluna, af því að þessi undarlega setning kemur í leiðara blaðsins fyrir skömmu: „vísitalan er ekki heilög kýr“. Ja, öðruvísi mér áður brá. Það var annað hljóð í blaðinu áður. Þegar við stuðningsmenn fyrrv. ríkisstj. vildum gera vissa frestun hér, þá ætlaði allt um koll að keyra, þó að aðeins væri á litlu sviði. Það kom einnig fram í fyrri ræðu hæstv. forsrh., að hann telur, sem auðvitað er rétt staðhæfing út af fyrir sig, að þessi vísitala sé ekki þannig, að það megi ekki breyta henni. Það var ég að segja áðan að væri vegna breyttra aðstæðna og breyttrar venju í neyzlu. En allt þetta þýðir það, að menn reikna með því, að komið verði á sköttum í einu eða öðru formi til þess að afla þess fjármagns, sem um er talað og hlýtur að vera nokkuð á 3. milljarð til þess að leysa þann heildarvanda, sem fyrir er, vegna þess að um áramót koma um 5 vísitölustig inn í dæmið og síðar skv. kjarasamningi 1. marz, ef ég man rétt, um 6 vísitölustig. Það er óhjákvæmilegt, að þessi tala hlýtur að liggja mjög nálægt þremur milljörðum, ef takmarkið er að halda vísitölunni í 117 stigum. Auk þess vitum við fyrirfram, að við megum búast við nokkrum verðhækkunum erlendis frá á vissa liði í vísitölunni. Það er því alveg gefið, að heildardæmið er langtum, langtum meira í tölum talið heldur en hér hefur verið gefið í skyn. Auðvitað er hæstv. forsrh. frjálst að vera með vangaveltur og tala um, að það séu sínar persónulegu skoðanir. Um það verður sennilega atkvgr. í hæstv. ríkisstj., því að maður hefur heyrt, að sá háttur sé upp tekinn nú, að þar fari fram handauppréttingar. En undarlegt er það, ef hæstv. forsrh. lendir þar nú í minnihluta með sínar einkaskoðanir, og tel ég þá hæpið, að seta þar geti verið rökrétt á eftir.

Umr. um þetta hafa nú verið mjög langar og aðalerindi mitt hér var að fara þess eindregið á leit, að við fengjum hér nákvæma grg. um það, hvaðan þessar 400 millj. eru teknar og í hvaða framkvæmdir þær áttu að fara, því að það skiptir miklumáli varðandi afstöðu mína gagnvart frv.