13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2481 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

174. mál, fyrirgreiðsla vegna hitaveituframkvæmda

Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 174 að beina fsp. til hæstv. iðnrh. varðandi hitaveituframkvæmdir í byggðarlögunum hér í nágrenni Reykjavíkur.

Eins og kunnugt er, hafa Reykvíkingar notið þess nú um þrjá áratugi, að híbýli þeirra eru hituð með heitu vatni. Þær framkvæmdir, sem hér hafa átt sér stað, hafa verið mjög til fyrirmyndar og eftir þeim tekið hér á landi, og ýmis sveitarfélög, sem tækifæri hafa haft til þess, hafa fetað í fótspor Reykjavíkurborgar og komið upp hitaveitu til hagkvæmni fyrir íbúa þeirra byggðarlaga. Þessar framkvæmdir hafa ekki aðeins vakið athygli landsmanna, heldur hafa erlendir aðilar, sem hingað hafa komið, mjög veitt því eftirtekt, hvernig Reykjavíkurborg hefur hagnýtt sér jarðvarmann til þess að hita upp híbýli Reykvíkinga. Í byggðarlögunum í nágrenni Reykjavíkur hefur verið mikill áhugi allan þennan tíma á þessum málum, og þeir aðilar, sem hafa setið í sveitarstjórnum þessara byggðarlaga, hafa reynt að vinna að þessum málum þannig, að íbúar hér í næsta nágrenni gætu orðið þess sama aðnjótandi og Reykvíkingar hafa orðið. Því miður hefur ekki tekizt að koma þessum málum þannig fyrir. T. d. hafa niðurstöður athugana og rannsókna í Hafnarfirði orðið með þeim hætti, að of langt hefur verið talið og óhagkvæmt að ráðast í framkvæmdir á þeim grundvelli, sem þar hafði verið hugsað.

Það er nú á síðustu mánuðum, sem hins vegar hefur rofað til í þessum efnum, og íbúar í nágrenni Reykjavíkurborgar hafa litið svo á, að þeir mættu e. t. v. á næstu mánuðum njóta þess, sem þá hefur dreymt um í langan tíma. Það, sem veldur þessu, er annars vegar, að Hitaveita Reykjavíkur með sínum áframhaldandi rannsóknum og borunum hefur fengið meira vatnsmagn en gert hafði verið ráð fyrir og því möguleiki á því, að Hitaveita Reykjavíkurborgar geti tekið að sér og annazt um gerð hitaveitu og upphitun húsa á því svæði, sem hér hefur verið rætt um. Þá hefur einnig komið í ljós, að mun nær Hafnarfirði og þéttbýlinu í Garðahreppi en áður var talið eru möguleikar á heitu vatni, þ. e. a. s. á Álftanesi. Nú hagar málum þannig, að Kópavogur hefur gert samninga við Hitaveitu Reykjavíkur og fyrir liggur möguleiki, að Hafnarfjarðarbær geri samninga við Hitaveitu Reykjavíkur og fyrir liggur möguleiki, Garðahreppur bíður og sér til, hvað fara gerir í þessum málum. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur snúið sér til hæstv. iðnrh. og farið fram á aðstoð í þessum efnum, farið fram á, að hann sem iðnrh. beitti áhrifum sínum til þess, að Hafnfirðingar með einum eða öðrum hætti gætu orðið aðnjótandi þess að hita híbýli sín upp með heitu vatni. Þeir hafa óskað eftir því að fá heimild til einkarekstrar á hitaveitu, og er því spurt, hvort ríkisstj. hyggist veita Hafnarfjarðarbæ umbeðna heimild. Auk þess er spurt, hvort ríkisstj. hyggist beita áhrifum sínum til þess, að þeir samningar, sem annars vegar Kópavogur og hins vegar Hafnarfjarðarbær hafa gert eða geta gert við Hitaveitu Reykjavíkur, geti náð fram að ganga. Ef ekki, þá er spurt, hvort ríkisstj. hyggist að öðrum kosti veita þessum sveitarfélögum fyrirgreiðslu til sérstakra hitaveituframkvæmda hverju fyrir sig.