13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

174. mál, fyrirgreiðsla vegna hitaveituframkvæmda

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hv. þm. Matthías A. Mathiesen spyr í fyrsta lagi: „Hyggst ríkisstj. veita bæjarstjórn Hafnarfjarðar umbeðna heimild til rekstrar hitaveitu?“ Bæjarstjórn Hafnarfjarðar virðist líta svo á, að hún hafi heimild til rekstrar hitaveitu í Hafnarfirði, sbr. 1. gr. samningsuppkasts milli borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 14.12. 1972, en þar segir svo:

„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar afsalar Hitaveitu Reykjavíkur í umboði borgarstjórnar einkaleyfi sínu til þess að starfrækja hitaveitu í Hafnarfirði með þeim skilmálum, sem nánar greinir í samningi þessum:

Ekki liggur fyrir í iðnrn. bréf, er staðfesti slíka heimild til Hafnarfjarðar, en það má vera, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar byggi slíka heimild á ákvæðum l. nr. 11 1936, svo og ákvæðum í afsali ríkissjóðs til handa Hafnarfjarðarkaupstað um hitaréttindi og landsréttindi í Krýsuvík, dags. 20. febr. 1941. Rn. sér ekki af sinni hálfu ástæðu til að vefengja þessa heimild Hafnarfjarðar eða mótmæla skilningi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar á þessum málum. Fyrir því verður ekki talið nauðsynlegt að gefa nú út sérstaka heimild til handa bæjarstjórn Hafnarfjarðar til rekstrar hitaveitu þar.

Önnur spurning hv. þm. er: „Hyggst ríkisstj. beita áhrifum sínum til þess, að samningar geti tekizt og komið til framkvæmda milli sveitarfélaganna í nágrenni Reykjavíkur og Hitaveitu Reykjavíkur um hitaveituþjónustu, eða hyggst ríkisstj. að öðrum kosti veita þessum sveitarfélögum fyrirgreiðslu til sérstakra hitaveituframkvæmda hverju fyrir sig?“

Forsvarsmenn sveitarfélaganna sunnan Reykjavíkur hafa skýrt iðnrn. frá áhuga sínum á samningsgerð við borgarstjórn Reykjavíkur um sameiginlegan rekstur hitaveitu fyrir höfuðborgarsvæðið í heild. Hefur rn. skýrt fulltrúum fyrrnefndra bæjarfélaga frá því á fundum í rn., að ekkert væri því til fyrirstöðu að stuðla að því, að slíkum samrekstri yrði á fót komið, ef væntanlegir samningsaðilar yrðu ásáttir um það. Ef svo væri, yrði slík fyrirgreiðsla að gerast með þeim hætti, að núgildandi heimildir til rekstrar hitaveitu fyrir hin einstöku bæjarfélög yrðu afturkallaðar og nýtt heildarleyfi gefið út fyrir allt svæðið í einu lagi. Að því er varðar afstöðu Hitaveitu Reykjavíkur skal þetta tekið fram:

Rn. fól Orkustofnun að athuga þessi mál allnáið, og 27. júlí s. l. skrifaði Orkustofnun Hitaveitu Reykjavíkur og bað um vitneskju um afstöðu Hitaveitu Reykjavíkur til þessara sameiningar. Hitaveita Reykjavíkur svaraði með bréfi 22. sept. 1972 og skýrði frá því, með hverjum hætti viðræður hefðu farið fram milli þessara bæjarfélaga og hvar málin stæðu þá. Telur Hitaveita, að nokkurt hlé hafi verið gert á þessum samningsviðræðum, meðan forráðamenn Hitaveitu Reykjavíkur væru að athuga, hverja lausn væri hægt að fá á gjaldskrá Hitaveitunnar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 1973. Og að lokum segir svo í bréfinu, með leyfi hæstv. forseta: „Þar sem lausn verðtaxtamálsins er forsenda fyrir undirskrift samnings eða ákvörðun heildsöluverðs á vatni til Hafnarfjarðar, hefur borgarráð Reykjavíkur ákveðið að fresta frekari ákvörðun um samninga, þar til taxtamálið er til lykta leitt:

Að því er þetta taxtamál Hitaveitu Reykjavíkur varðar, hafa iðnrn. borizt þrjár umsóknir um gjaldskrárhækkun. Upphaflega umsóknin var 13% hækkun miðað við 1. jan. Eftir gengislækkunina í des. var farið fram á 17.9% hækkun, og nú í lok febr. barst umsókn, þar sem farið var fram á 29.6% hækkun 1. marz, en það er talið jafngilda 25% hækkun á ársgrundvelli. Rn. sendi hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar þessa umsókn, en hún taldi, að 20% hækkun á ársgrundvelli næði til þess að tryggja þá 7% arðgjöf, sem Hitaveita Reykjavíkur skuldbatt sig til þess að tryggja, þegar hún fékk lán á sínum tíma hjá Alþjóðabankanum. Í morgun samþykkti svo sérstök gjaldskrárnefnd, sem fjallar um þessi mál á vegum ríkisstj., að fallast á þessa 20% hækkun á ársgrundvelli. Því virðist ekki vera ástæða til þess, að Hitaveita Reykjavíkur fresti lengur viðræðum við sveitarfélögin af þessum ástæðum, og hefjast þær umr. vafalaust aftur nú á næstunni. Strax og sveitarfélögin hafa fundið viðunandi samningsgrundvöll um samrekstur hitaveitu á höfuðborgarsvæðinu, mun ekki standa á rn. að veita nauðsynleg leyfi og fyrirgreiðslu, ef um það er samkomulag hjá þeim aðilum, sem þar hafa hagsmuna að gæta.