13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2485 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

174. mál, fyrirgreiðsla vegna hitaveituframkvæmda

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Örstutt aths. Ég vil byrja með því að fagna því, að þessu máli er hreyft. Það er áreiðanlega mjög mikilvægt í okkar þjóðfélagi að hraða hitaveituframkvæmdum, ekki sízt vegna þess, að fróðustu menn telja, að framundan sé gífurlega mikil hækkun á olíu og jafnvel skortur og þá nauðsynlegt fyrir okkur að nýta þessi verðmætu auðæfi okkar. Ég vil hins vegar láta það koma fram, að ég efast nokkuð um þá stefnu, sem tekin hefur verið hér í nágrannasveitarfélögunum, að fela Reykjavíkurborg að annast hitaveituframkvæmdir og rekstur hitaveitu fyrir þau svæði. Ég vil vekja athygli á því, að á Seltjarnarnesinu var borað með ágætum árangri og þar hefur fengizt heitt vatn, að því er mér skilst að góðra manna dómi, með kjörum, sem sízt eru lakari en þau, sem Reykjavíkurborg getur boðið.

Ég vil taka undir það, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda um Álftanesið, og leggja ríkari áherzlu á það en hann gerði, að það ber að athuga. Þar er hitasvæði, sem hefur verið kannað og er mjög gott að dómi jarðfræðinga og mjög miklar líkur til þess, að þar megi fá mikinn hita, sem mundi fullnægja þeim svæðum, sem hér um ræðir, þ. e. a. s. Hafnarfirði, Álftanesi, Garðahreppi og Kópavogi. Ég tel því, að áður en ákveðið er að ganga til samninga við Reykjavíkurborg, beri að athuga, hvort ekki sé rétt að mynda samtök þessara sveitarfélaga, sem ég hef nefnt, um hitaveitu frá Álftanesinu, og komi þar til rífleg fyrirgreiðsla frá opinberri hálfu.

Hitt er svo annað mál, að líklega er æskilegt, að slík hitaveita verði í framtíðinni tengd hinni stóru hitaveitu Reykjavíkurborgar öllum til hagræðis.