13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2486 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

174. mál, fyrirgreiðsla vegna hitaveituframkvæmda

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að hæstv. ráðh. hefur látið í ljós jákvæðan skilning á nauðsyn þess, að nágrannasveitarfélög Reykjavíkur geti átt þess kost, væntanlega í náinni framtíð, að búa við svipaða aðstöðu varðandi upphitun húsa sinna og íbúar höfuðborgarinnar. Það er staðreynd, eins og hefur komið fram í þessum umr., að verulegur aðstöðumunur er varðandi upphitun húsa á höfuðborgarsvæðinu, þannig að hitakostnaður t. d, í Hafnarfirði, Garðahreppi og Kópavogi og víðar í nágrenni Reykjavíkur er nú um 100% hærri en í Reykjavík. Þess vegna er stórkostlegt hagsmunamál fyrir íbúa í nágrenni Reykjavíkur, að þetta mikla og sívaxandi misrétti verði leiðrétt og þeir geti átt kost á hitaveitu til húshitunar eins og Reykvíkingar og ekki með lakari skilmálum en þeir eiga og hafa átt við að búa.

Varðandi það atriði, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að Hafnfirðingar litu svo á, að þeir hefðu nú þegar einkaleyfi á hitaveitu í Hafnarfirði, það hefði staðið í uppkasti, sem fyrir liggur um samning varðandi þessi mál milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, þá vil ég upplýsa, að þetta eru drög að samningi og eru að sjálfsögðu háð samþykki viðkomandi rn. Í framhaldi af viðræðum, sem sveitarstjórnarmenn í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðahreppi áttu við hæstv. ráðh. um þetta mál fyrir skömmu, skrifaði bæjarstjórinn í Hafnarfirði bréf til hæstv. ráðh., þar sem var formlega óskað eftir þessu leyfi, sem ráðh. taldi, að þyrfti að liggja fyrir.