13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2486 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

174. mál, fyrirgreiðsla vegna hitaveituframkvæmda

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Það var í tilefni af ummælum hv. þm. Geirs Hallgrímssonar, þar sem hann gaf í skyn, að ákvörðun ríkisstj. um gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur kynni að verða til þess, að framkvæmdir frestuðust í eitt ár. Þá vil ég geta þess, að umsókn Hitaveitunnar var, eins og ég gat um áðan, send hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins og í grg. þeirrar stofnunar var komizt svo að orði m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki er unnt að svo stöddu að endurmeta eignir fyrirtækisins sérstaklega með tilliti til gengisbreytingarinnar. En sé notuð aðferð Hitaveitunnar og miðað við áætlaða hækkun byggingarvísitölu til ársmeðaltals 1973, sem að verulegu leyti verður vegna beinna og óbeinna áhrifa gengisbreytinga, verður hækkunarþörfin rúmlega 20% á ársgrundvelli. Er þá ekki gert ráð fyrir sérstakri fyrningu vegna gengistaps, en miðað við rekstraráætlun fyrirtækisins sjálfs að öðru leyti, enda ekki ástæða til sérstakra aths. við aðra liði hennar.“

Enn fremur segir svo í þessari álitsgerð: „Það er álit hagrannsóknadeildar, að til þess að Hitaveita Reykjavíkur geti staðið við arðgjafarskuldbindingar gagnvart Alþjóðabankanum, sé nauðsynlegt að hækka gjaldskrá fyrirtækisins um nálægt 20% á ársgrundvelli miðað við þær forsendur, sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan:

Jafnframt skal á það bent, að samningsbundinn framkvæmdahraði við lagningu hitaveitu til Kópavogs og Hafnarfjarðar er háður skilyrði um 7% arðsemi Hitaveitu Reykjavíkur á framkvæmdatíma, en hagkvæmast er að flýta þessum framkvæmdum eftir megni, þannig að þessar ákvarðanir eru í fullu samræmi við niðurstöður hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunarinnar um það, að einmitt þessum forsendum sé fullnægt.