13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2487 í B-deild Alþingistíðinda. (1885)

174. mál, fyrirgreiðsla vegna hitaveituframkvæmda

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Þessi málflutningur hv. þm. Geirs Hallgrímssonar er, eins og þm. almennt vita, ekki í samræmi við staðreyndir. Ég gat þess í svari mínu áðan, að sjálf Hitaveita Reykjavíkur frestaði þessu máli af sinni hálfu með bréfi, sem hún sendi rn. 22. sept. 1972, og taldi ekki tímabært að fjalla um það við nágrannasveitarfélögin, fyrr en hún fengi vitneskju um, hver gjaldskrá yrði á næsta ári á eftir. Um það bárust síðan þrjár umsóknir, sú þriðja í lok febr., og það er ekki liðinn nema hálfur mánuður síðan rn. fékk þá umsókn. Hún hefur verið afgreidd núna, þannig að þær tafir, sem hafa verið á þessu máli, eru síður en svo af hálfu iðnrn. eða ríkisstj. Hafi verið um óeðlilegar tafir að ræða, þá eru þær frá Hitaveitu Reykjavíkur.