13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2489 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

182. mál, öflun skeljasands til áburðar

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Á þskj. 335 er fsp. frá hv. 5. þm. Austf., svo hljóðandi: „Hvað líður framkvæmd ályktunar Alþ. frá 8. febr. 1972 um öflun skeljasands til áburðar?“ Svar landbrn, er á þessa leið:

Rn. hefur leitað álits Sementsverksmiðju ríkisins um efni þáltill., en Sementsverksmiðjan hefur frá upphafi haft til sölu áburðarkalk. S. l. þrjú ár nam sala áburðarkalks frá verksmiðjunni sem hér segir: 1969 573 tonn, 1970 496 tonn og 1971 522 tonn. Verð á hverjum 50 kg poka var á s. l. ári 60 kr. án söluskatts. Ekki er vitað til þess, að það hafi nokkru sinni verið neinum vandkvæðum bundið fyrir bændur að fá það áburðarkalk, sem þeir vildu kaupa, en eftirspurn hefur verið fremur lítil, svo sem ofangreindar tölur bera vott um. Talið er, að unnt sé að dæla góðum skeljasandi á land víðar en á Akranesi, en það yrði án efa mjög kostnaðarsamt, meðan eftirspurn eftir áburðarkalki er ekki meiri en nú er. En aukist eftirspurn eftir áburðarkalki, verður málið tekið til frekari athugunar. Í þessu sambandi er rétt að minna á, að í jarðræktarlög, sem samþykkt voru á fyrra ári, var tekið upp ákvæði um framlag til kölkunar túna, en þar segir svo í 10. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Til kölkunar á túnum, þar sem rannsóknir hafa að dómi ráðunauta Búnaðarfélags Íslands sýnt, að hennar sé þörf, er heimilt að greiða 50% af kostnaðarverði viðurkennds áburðarkalks, eins og það er á hafnarstað, að viðbættum eðlilegum flutningskostnaði umfram 50 km til viðkomandi bónda. Skilyrði er, að kölkunin sé framkvæmd eftir ráðleggingum héraðsráðunautar og undir eftirliti hans, og skal hún við það miðuð að nægja til a. m. k. 5 ára.“

Mun reynslan af þessu ákvæði væntanlega leiða í ljós, hve mikil þörf er fyrir notkun áburðarkalks.