13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2490 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

293. mál, Tækniháskóli Íslands

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Í l. nr. 66 frá 29. maí 1972 er svofellt ákvæði til bráðabirgða, með leyfi hæstv. forseta :

„Menntmrh. skal beita sér fyrir því, að undirbúin verði ný löggjöf um skipulag verk- og tæknimenntunar á framhaldsskóla- og háskólastigi. Skal m. a. taka til athugunar, hvort ráðlegt sé, að stofnaður verði tækniháskóli og taki hann við öllu tæknifræðinámi, sem nú fer fram í Tækniskóla Íslands, og verkfræðinámi Háskóla Íslands. Ráðh. skal jafnframt láta rannsaka ítarlega, hvort ekki sé tiltækilegt, að tækniháskóli verði starfræktur á Akureyri.“

Ég hef leyft mér í tilefni af þessu og vegna þess að nú stendur yfir gerð skipulagsáætlunar á Akureyri, sem gildi næstu 20 ár, að spyrja hæstv. menntmrh. eftirgreindra spurninga á þskj. 335 :

„1. Hvað líður framkvæmd bráðabirgðaákvæðis l. nr. 66 frá 29. maí 1972 um könnun á að koma á fót Tækniháskóla Íslands og velja honum stað á Akureyri?“ Ég vek athygli hv. þm. á því, að það hafa orðið mistök þarna í prentun, þarna á að standa Tækniháskóla Íslands.

2. Hversu miklu landrými og aðstöðu þyrfti að gera ráð fyrir í aðalskipulagi fyrir slíkan skóla á Akureyri, en nú er unnið þar að gerð slíks skipulags, sem gilda á næstu 20 ár?“

Ég vil gera örstutta grein fyrir þessari fsp.

Öllum hv. þm. er áreiðanlega ljóst, hversu rík tilhneiging er til útþenslu miðstjórnarkerfis ríkisins og ýmissa opinberra stofnana, svo sem sérskóla. Þar sem þessum stofnunum hefur fyrst og fremst verið valinn staður á höfuðborgarsvæðinu, veldur þetta því, að landsmenn allir, við sjó og í sveit, standa undir sívaxandi atvinnurekstri á höfuðborgarsvæðinu, og á það gildan þátt í þeirri misþróun byggðar, sem orðið hefur. Af þessum ástæðum hefur verið ofarlega á baugi, að hér þurfi að spyrna við fótum og kosta nokkru til að velja þeim stofnunum stað utan höfuðborgarsvæðisins, sem kostur er á. Af þessum sökum var tilgreint bráðabirgðaákvæði sett.

Nú er það svo, að rísi Tækniháskóli Íslands í náinni framtíð í svo öflugu þéttbýli sem Akureyri er orðin, hefði það víðtæk áhrif á alla þróun bæjarins. Nemendur og kennarar eyddu þar drjúgum hluta af tekjum sínum til kaupa á vörum og þjónustu sem framleidd yrði á staðnum. Við þetta efldust þessar atvinnugreinar, nýjar þjónustustofnanir atvinnuveganna kæmust á fót, félagsleg aðstaða batnaði o. s. frv. Þessi þróun hefði miklu örari efnalega og félagslega velferð í för með sér fyrir staðinn og nágrannabyggðir en ella væri. Af þessum sökum er alveg ljóst, að takast verður samvinna með stjórnvöldum og bæjarstjórn Akureyrar um gerð skipulagsáætlunar fyrir bæinn, og er svo raunar um miklu fleiri staði, þar sem stjórnvöld hafa í hendi sér að gera svo áhrifamiklar aðgerðir til eflingar einstakra staða sem hér hefur verið stutt rökum.

Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. svari þessu á greinargóðan hátt.