13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2492 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

293. mál, Tækniháskóli Íslands

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónason) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, sem ég met sæmilega greinargóð miðað við aðstæður. Á hinn bóginn vil ég vekja athygli á því, að þetta svar gefur tilefni til ýmissa hugleiðinga um samstarf ríkisvaldsins og einstakra sveitarstjórna, þegar um slík mál er að ræða sem vikið er að í þessari fsp.

Á s. l. hausti reyndum við að fá ákveðnar línur um það frá nýstofnaðri Framkvæmdastofnun ríkisins, hvaða hugmyndir hún hefði um vaxtarhraða bæjarfélagsins á Akureyri. Eins og hv. þm. muna, átti þessi stofnun að gera áætlanir um allt milli himins og jarðar og vera mótandi afl um stefnu hins opinbera í byggðamálum og atvinnumálum, en engin svör fengust frá þessari hv. stofnun um þetta atriði. Nú kemur það einnig í ljós hér á hv. Alþ., að það er lítið hægt að segja um, hvað gert verður í þessum efnum, sem í raun og veru geta skipt sköpum um það, hversu mikill hraði verður á vexti ákveðins bæjarfélags. Því er í rauninni ákaflega erfitt um forsendur fyrir gerð skipulagsáætlunarinnar fyrir slíkt bæjarfélag um næstu 20 ára skeið. Ég vil vekja athygli hv. þm, og hæstv. ríkisstj. á því, að það er nauðsynlegt að móta fasta stefnu á þessu sviði, þannig að það sé ekki beinlínis rennt blint í sjóinn með slíka skipulagsáætlun. Ég ætla ekki að ræða mál tækniskólans hér og hugsanlegt staðarval hans á Akureyri. Um það hafa orðið svo langar umr. hér áður, að óþarfi er að endurtaka þær.