13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2493 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

293. mál, Tækniháskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Til svars við fsp. hv. 1. þm. Norðurl. e. get ég skýrt frá því, að enginn þeirra manna, sem skipaðir hafa verið í n. til að athuga um mögulega á sameiningu Tækniskóla Íslands og verkfræðideildar Háskóla Íslands í Tækniháskóla Ís lands, er búsettur á Akureyri eða þar í grennd. Hins vegar veit ég, að a. m. k. sumir nm. rekja þangað ættir sínar og eiga ekki allir langt að rekja til Norðurlands eystra.

Því atriði, hvort ekki sé rétt að bæta í u. mönnum eða manni tilnefndum af bæjarstjórn Akureyrar, vil ég svara því, að verkefni n. er ekki í fyrsta áfanga að athuga um staðarval fyrir þær menntastofnanir, sem um er fjallað, þ. e. a. s. Tækniskóla Íslands og verkfræðideild Háskóla Íslands, heldur verður að sjálfsögðu fyrsta verkefnið að athuga, hvort sameina ber þessar stofnanir. Þá fyrst, þegar n. er komin að niðurstöðu um það atriði, getur hún farið að huga að staðsetningu. Það er auðvitað allt annað, hvar á að reisa einn sameinaðan Tækniháskóla eða hvar bera skal niður, verði stofnanirnar áfram tvær, Tækniskóli Íslands og verkfræðideild Háskóla Íslands, hvort út af fyrir sig. Ég er þess fullviss, að þegar að þeim lið kemur í verkefni n., mun hún fús til fyllstu samvinnu við hverja þá fulltrúa sem bæjarstjórn Akureyrar kynni að tilnefna.