13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2494 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

294. mál, smíði skuttogara á Spáni

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. ráðh. þriggja spurninga í nokkrum liðum um smíði skuttogara á Spáni. Tilefni þessara spurninga eru fréttir í fjölmiðlum um þessi mál. Í Morgunblaðinu hinn 8. febr. s. l. segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt upplýsingum, sem Morgunblaðið hefur aflað sér, mun spænska skipasmíðastöðin telja, að hún hafi tapað 90 milljónum peseta á smíði fyrstu fjögurra skuttogaranna fyrir Íslendinga eða um 135 millj. kr. Hafa fulltrúar skipasmíðastöðvarinnar farið fram á, að kaupandinn, þ. e. a. s. ríkissjóður, taki á sig helming þess taps eða um 67 millj. kr. Auk þess telja fulltrúar skipasmíðastöðvarinnar allt í óvissu um, hvort stöðin getur staðið við samninga um smíði á tveimur togurum fyrir Útgerðarfélag Akureyringa“.

Af þessum sökum hef ég leyft mér að spyrja hæstv. fjmrh. á þskj. 335 eftirgreindra spurninga:

„1, Hve hárri upphæð nema kröfur skipasmíðastöðva á Spáni umfram upphaflega umsamið — verð hvers togara, sem þar er í smíðum fyrir ríkissjóð?

2. Hvert verður endanlegt smíðaverð hvers skips, ef gengið verður að þessum kröfum?

3. Hve hátt var tilboð Slippstöðvarinnar á — Akureyri við smíði hliðstæðra skipa, reiknað á núgildandi verðlagi?“

Út af 3. liðnum er rétt að rifja upp, að á sínum tíma samdi viðreisnarstjórnin — það mun hafa verið í maí 1971 — við Slippstöðina á Akureyri um smíði tveggja togara fyrir Útgerðarfélag Akureyringa. Núv. ríkisstj. beitti sér fyrir því, að þessir samningar færðust yfir til Spánverja, — þetta mun hafa gerzt í júní 1972, — og þar yrðu smíðuð 6 skip í stað 4, svo sem upphaflega var gert ráð fyrir. Í ljós kom, er samið var um, að spánska skipasmíðastöðin tæki við vélum og tækjum, sem Slippstöðin hafði pantað víða um lönd, að spánska ríkisstj. taldi sig ekki mundu styrkja smíði tveggja síðustu togaranna eins og hinna fyrri, en í þeim voru spánskar vélar og tæki. Ýmsir hafa talið, miðað við það, sem við þetta kom í ljós, að styrkir frá ríkissjóði Spánverja nemi allt að 45 millj. kr. á skip, og þarf að hafa þetta í huga, þegar endanlegt verð á skipum frá spánsku skipasmíðastöðinni er borið saman við samningsverð Slippstöðvarinnar.