30.10.1972
Neðri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég get tekið undir þessi orð, sem hv. 6. þm. Vesturl. mælti hér, og þar sem hæstv. utanrrh. er nú ekki hér staddur, skal ég hlutast til um það, að utanrrn. geri ráðstafanir til að koma þeim ábendingum á framfæri, sem hv. þm. benti á, ef það hefur þá ekki þegar verið gert.

Það er auðvitað laukrétt hjá honum, að þeir, sem bera ábyrgð á því, ef hér verður slys, erum ekki við Íslendingar, heldur eru það fyrst og fremst þeir togaraeigendur í Bretlandi, sem senda skipin hingað, enda þótt við höfum margtekið fram við þá og fyrirsvarsmenn Bretlands, hvílík hætta fylgdi því að ætla að senda slík skip sem þessi brezku skip á Íslandsmið að vetrarlagi, án þess að þau hafi möguleika til þess að leita hafnar. Ef á að tala um morð eða morðtilraun í þessu sambandi, þá á að stimpla þetta sem morðtilraunir af hálfu brezkra togaraeigenda. Auðvitað geta þessi skip leitað hafnar hér, hvenær sem vera skal, og á móti þeim verður tekið og þeim veitt aðstoð. En þau skip, sem hafa brotið íslenzk lög, verða að sæta þeirri ábyrgð, sem því fylgir, eða réttara sagt skipstjórar þeirra skipa. Það liggur í hlutarins eðli, að öðruvísi getur það ekki verið og verður ekki í framkvæmdinni. En ef við höfum hingað til talað fyrir daufum eyrum, þá gæti skeð, að þessi vindhviða, sem kom í fyrradag, hafi gefið hlutaðeigendum forsmekkinn að því, sem við má búast, og e.t.v. gætu þeir eitthvað af því lært. Og e.t.v. fer það svo, að brezkir togarasjómenn almennt verða ekki fúsir til þess að láta etja sér til vetrarferða á Íslandsmið. A.m.k. væri það skynsamlegt af þeim að gera þá kröfu, að togaraeigendurnir, útgerðarmennirnir sjálfir, færu með í svo sem eina eða tvær ferðir á Íslandsmið.

Í þessu tilfelli leituðu nokkrir togarar landvars, en aðstæður voru þær, að það var ekki hægt í því veðri, sem þá var, að taka togarana. Að sjálfsögðu verður það gert, ef færi gefst.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, en skal, eins og ég sagði, koma þessari ábendingu hv. þm. áleiðis til utanrrn. og sjá til þess, að þessu ámæli, sem þarna hefur verið birt í garð okkar Íslendinga, verði mótmælt. Og ég vil undirstrika, að það var gefið leyfi beinlínis til þess að flytja slasaðan mann yfir í eftirlitsskip í landvari, og eins var togara leyft að koma inn, þegar falið var eftir þeim upplýsingum, sem gefnar voru, að mannslíf væri í háska.