13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2500 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

296. mál, samkeppnishættir erlendra skipasmíðastöðva

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin, að svo miklu leyti sem þau voru svör við fsp. minni. Ég vil vekja athygli hans á því, að ég spurði ekki, hvort minn ágæti skólabróðir og vinur, Jón Sigurðsson, hygðist láta rannsaka samkeppnishæfni erlendra skipasmíðastöðva, heldur hvort hæstv. ríkisstj. hygðist gera það. Og hæstv. ráðh. smeygði sér algerlega fram hjá að svara því, hvort það væri mat ríkisstj., að þetta tilvik úti á Spáni gæfi tilefni til þess, að sérstakl. yrðu rannsakaðir samkeppnishættir erlendra skipasmíðastöðva við innlendan skipasmíðaiðnað. Ég vildi mælast eindregið til þess, að hæstv. ráðh. svaraði þessu afdráttarlaust hér í áheyrn hv. þm., hvort ríkisstj. hyggist gera þetta, en ekki að skjóta sér á bak við skólabróður minn, Jón Sigurðsson.

Ég vil vekja athygli hæstv. ráðh. á því, að það kom fram í svari hæstv. fjmrh., að síðari tveir togararnir á Spáni eru taldir munu kosta 250–260 millj. kr., en aftur hinir 4 ekki nema 204 millj. kr. Og mér er tjáð, að meginforsenda fyrir þessum mikla verðmun sé sú, að spánska ríkisstj. greiði ekki niður verð seinni skipanna af þeirri ástæðu, að vélar og tæki eru ekki keypt á Spáni. Þetta merkir það, að þarna er um að ræða niðurgreiðslur, eins og ég sagði í minni framsöguræðu, sem nema a. m. k. 45 millj. kr. á skip. Þetta get ég ekki fallizt á að séu samkeppnishættir, sem íslenzkur skipasmíðaiðnaður getur keppt við ef að honum er búið af hálfu stjórnvalda eins og gert er.

Ég vísa algerlega á bug því, að ég eigi að fara til minna flokksbræðra og spyrja þá um þetta atriði. Það má vel vera, að þeir hafi borið ábyrgð á því, að samið var við Spánverja um þetta mál. En ég vil í því sambandi aðeins spyrja hæstv. ráðh.: Er hann alveg á sömu skoðun og þeir í þessum málum, þannig að ég geti spurt þá um skoðun hans og hæstv. ríkisstj.?