13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2504 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

298. mál, sjálfvirk radíódufl í íslenskum skipum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Undarleg þykja mér niðurlagsorð hæstv. ráðh. Skal ég þó biðjast afsökunar á því strax, að ég man ekki nákvæmlega orðalag umræddrar þál. En furðulegt er, þegar Alþ. hefur ákveðið slíkt mál sem þetta, ef hæstv. viðkomandi ráðh., sem með málið hefur að gera, ber það undir aðra ráðh. — ríkisstj. — og þeir samþykkja, að þessu beri að fresta vegna kostnaðar.

Ég skal fúslega taka undir það, sem hefur komið fram hjá útgerðarmönnum, að þeim eru að sjálfsögðu bundnir æðimargir pinklar, og ég m. a. verið einn af þeim, sem hafa átt þátt í því. Hins vegar hef ég verið með því á öðrum vígstöðvum og líka hér, á hv. Alþ., að benda á leiðir í vissum málum til þess, að tekinn væri af fé almennings eða af sameiginlegu aflafé sjómanna og útg.manna sá kostnaður, sem þarf m. a. til að standa undir nauðsynlegustu tryggingum og búnaði skipa á öryggissviði. Þar fyrir utan vil ég þakka fyrirspyrjanda undirtektir við þál., sem ekki er hér til umr. En vegna fsp. er rétt að taka það fram nú þegar, að það kemur ekki fram í minni till., að það eigi að rýra á neinn hátt þá till., sem var samþ. 16. maí 1972, enda hefur það sýnt sig þrátt fyrir umsagnir aðila þar um, að svo er ekki. Þessar stöðvar hafa gert mikið gagn, t .d. þegar hinar venjulegu, lögbundnu sendistöðvar skipanna bila eða menn, sem um borð eru, kunna ekki að fara með þær. Það er því miður svo í fiskiskipaflotanum, að það er kannske nú orðið meiri hluti mannanna, sem er réttindalaus og kann ekki á þau tæki, sem eru um borð í skipunum og skylt er að hafa þar. Vera má, að það mætti bæta úr þessu með því að taka mennina á stutt námskeið til að kenna þeim á tækin, en um það skal ég ekki hafa fleiri orð nú.

Hugmynd mín í sambandi við gúmmíbjörgunarbátana er, að þar verði litlar stöðvar, sem ekki þurfa að vera mjög langdrægar, en fara af stað, þegar bátarnir blásast út, á nákvæmlega sama hátt og dælur þær, sem dæla þeim sjó úr bátunum, sem í þá kemst. Það gæti sparað íslenzku þjóðinni, einstökum útgerðarfélögum og opinberum aðilum milljónir, ef ekki milljónatugi í kostnaði við leit að björgunarbátum skipa, sem farizt hafa, vegna þess að þeir hafa ekki fundizt vegna veðurs eða annarra aðstæðna. Ég tel, að skilyrðislaust eigi að stíga öll spor fram á við til aukins öryggis þessara manna, því að við höfum það sem staðreynd fyrir okkur, að það er engin önnur stétt í þjóðfélaginu og það er engin sjómannastétt í heiminum, sem býr við aðrar eins aðstæður og þeir, sem sækja sjó frá Íslandi. Þess vegna er þetta ekki beint atriði útgerðarmannanna, eins og kemur fram hjá þeim, heldur þjóðarinnar allrar og kannske sjómannanna sjálfra um leið. Undir það skal ég taka, hvenær sem er.