13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2506 í B-deild Alþingistíðinda. (1910)

298. mál, sjálfvirk radíódufl í íslenskum skipum

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég held, að rn. geti varla verið ámælisvert fyrir það, þó að það hafi leitað umsagnar þeirra aðila, sem þetta mál varðar. Það er að vísu rétt, að kostnaðarhliðin kemur mjög fram í svörum útvegsmanna, en þó eru það ekki einu rök þeirra. Þeir segjast eiga rétt á því, að raunhæft mat sé lagt á gildi nýrra öryggistækja, sem til álita geti komið að setja um borð í skip. Með þessu virðist mér þeir draga í efa aukið öryggi, sem leiði af þessum tækjum í viðbót við talstöðvar í skipum og neyðarsenda ígúmmíbátum og tilkynningarskylduna. En þetta eru þær ráðstafanir, sem við Íslendingar höfum gert, og mun óvíða í löndum hafa verið gengið lengra en þetta. Hins vegar skal ég lýsa því yfir sem minni skoðun, að ég tel ekkert peningamat koma til greina, ef öruggt er, að þarna sé um þýðingarmikil tæki að ræða, sem geti aukið öryggi íslenzkra sjómanna í viðbót við þau tæki sem við nú búum við. Þetta vil ég, að menn hugsi um líka, að útvegsmenn vefengja það viðbótaröryggi, sem fengist með þessum tækum.

Ég fór ekki út í svar Siglingamálastofnunarinnar um ýmis vandkvæði á framkvæmd þáltill., en nokkur atriði vil ég láta koma fram í umr. Þeir segja á þessa leið, með leyfi forseta:

„Áður en hægt er að láta hefjast handa við að láta setja sjálfvirk radíódufl í skipin, verður að gefa út reglugerð, og í henni verður að koma fram, hverjar radíótæknilegar kröfur skuli gerðar til slíkra dufla, og í þeim efnum er sjálfsagt, að höfð verði samvinna við póst- og símamálastjórnina. Þegar lokið væri útgáfu reglugerðar, þarf að tryggja, að seljendur þeirra dufla, sem kynnu að verða viðurkennd, væru ávallt afgreiðslufærir, þannig að skipaeigendur gætu ekki borið fyrir sig, að duflin væru ófáanleg, þegar þeirra væri krafizt. Sennilega væri mögulegt að koma málinu í framkvæmd á einu ári, eftir að ofangreindu væri fullnægt, nefnilega við næstu skoðun skips eftir þann tíma, en sem kunnugt er fer fram skoðun á skipum árlega. Yrði þá að neita þeim skipum um haffæriskírteini, sem ekki væru búin að útvega sér duflið, er til næstu skoðunar þeirra kæmi:

Ég læt þetta nægja. Þetta eru aðalatriðin, sem ekki komu þá fram hjá útvegsmönnum. En þeir segja, að þetta sé rétt, vitna til þess í sinni umsögn, að nokkurn aðdraganda þurfi til þess að koma þessu í fulla framkvæmd. Það mundi sem sé gerast við skipaskoðun, sem fer fram einu sinni á ári, og þá yrði að neita þeim um haffæriskírteini, ef búið væri að setja reglugerð um, að þessi dufl skyldu vera fyrir hendi.