13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2507 í B-deild Alþingistíðinda. (1911)

186. mál, bygging leiguhúsnæðis

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi lagði ég fram ásamt nokkrum öðrum hv. þm. till. til þál. um byggingu leiguhúsnæðis á vegum sveitarfélaga. Till. þessi var samþ. með smávægilegum breytingum, en að undangengnum mjög ítarlegum umr., þar sem komu fram nokkuð skiptar skoðanir á mikilvægi þessa máls.

Nú hygg ég, að komið hafi í ljós, að þörfin fyrir leiguhúsnæði í flestum sveitum og byggðum þessa lands er mjög mikil. Ekki sízt hefur þetta komið í ljós í sambandi við fjölgun atvinnutækja í dreifbýlinu og eflingu þeirra, m. a. í sambandi við kaup á nýjum togurum, endurbætur á frystihúsunum, sem allt krefst að verulegu leyti aukins mannafla. Hefur þá oft verið komið að tómum kofunum að þessu leyti, leiguhúsnæði ekki verið fáanlegt fyrir ýmsa, sem hafa viljað reyna búsetu í dreifbýlinu.

Í þessari þáltill. gerðum við ráð fyrir í fyrsta lagi, að fram færi könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði um land allt, og í öðru lagi, að að undangenginni þessari könnun yrði lagt fyrir Alþ. frv. til l. um útvegun fjármagns og útlán þess í því skyni að byggja leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga og fleiri aðila, eins og bætt var við þessa þáltill.

Með tilvísun til þess, að margir hafa spurt mig að því, hvað líði þessari athugun, og þess, sem ég sagði áðan um augljósa þörf, hef ég leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv, félmrh. um framkvæmd fyrrnefndrar þáltill., og er þessi fsp. í tveimur liðum:

1. Hvað líður samþykktri athugun á þörf fyrir leiguhúsnæði?

2. Er hafinn undirbúningur að frv. um byggingu leiguhúsnæðis?