13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2510 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

186. mál, bygging leiguhúsnæðis

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. ágæt svör. Ég sé, að það er unnið ötullega að framkvæmd þessarar þáltill., og met ég það. Ég þakka fyrir þá skýrslu, sem hann hefur nú afhent mér, og mun ég að sjálfsögðu kynna mér hana vandlega. Mér sýnist, að í ljós komi, svo að ekki verður um villzt, að þörfin fyrir leiguíbúðir er mjög mikil. Ég hygg raunar, að ætla megi, að hún sé jafnvel enn meiri, því að þótt ekki hafi borizt svör frá allmörgum aðilum, sýnist mér varhugavert að álykta, að þar sé engin þörf, þótt eflaust hafi þeir svarað fyrst og lagt áherzlu á að svara, þar sem þörfin er mest. Er ég að því leyti sammála hæstv. ráðh.

En hvað sem því líður, er þörfin mikil, ekki sízt utan Reykjavíkur, og allmjög í samræmi við það, sem ég taldi, þegar ég mælti fyrir þeirri þáltill., sem ég nefndi áðan og liggur til grundvallar þessari athugun.

Um þetta ætla ég ekki að ræða meira, enda ekki tími til að ræða almennt um þessa miklu þörf í þeim stutta tíma, sem nú er til umráða. Hitt vildi ég aðeins minnast á, hvernig úr þessum vanda verði leyst. Ég heyrði á hæstv. ráðh., að uppi eru ráðagerðir, og fagna ég því einnig. Ég vil hins vegar leyfa mér að efast um, að geta sveitarfélaganna sé meiri en jafnvel Öryrkjabandalagsins, a. m. k. sumra. Staðreyndin er sú, að geta mjög margra sveitarfélaga, ekki sízt þar sem þörfin er mikil, er afar lítil. Þau hafa mörg miklar byrðar af öðrum orsökum, hafnarkostnaður mikill, gatnagerð mikil og margt fleira, sem ekki er ástæða til að rekja hér. Er fjárhagur þeirra margra mjög bágborinn. Ég er því þeirrar skoðunar, að þarna þurfi að koma til sérstakt átak, t. d. átak, sem er sambærilegt við Breiðholtsframkvæmdirnar svonefndu, eins og hæstv. ráðh. minntist á og ég fagna. Ég vil leggja áherzlu á, að það er sannfæring mín, að sú verði raunar niðurstaðan af þeirri athugun, sem nú er í gangi og hefur verið falin sveitarfélagasamtökum, að þarna sé þörf á sérstöku átaki. Og ég vona, að þetta verði til þess, að mjög fljótlega verði í samræmi við þáltill. undirbúið frv. til l. um slíkar framkvæmdir, um byggingu leiguíbúða á vegum sveitarfélaga o. fl.