13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2514 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

193. mál, endurvarpsstöðin á Gagnheiði

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Svar við fsp. hv. 6. landsk. þm. er byggt á upplýsingum frá Sigurði Þorkelssyni yfirverkfræðingi Landssímans, en Landssíminn hefur sem kunnugt er með höndum dreifikerfi fyrir Ríkisútvarpið.

Stöðin á Gagnheiði er ein af svokölluðum aðalstöðvum sjónvarpsdreifikerfisins og er útbúin á sama hátt og aðrar slíkar stöðvar. Allur tækja- og loftnetabúnaður er einfaldur, án varatækja. Stöðin fær rafmagn með línu frá Egilsstöðum, en hefur vararafstöð, sem er sjálfvirk. Stöðin er ómönnuð, en stöðvarstjóri hljóðvarpsstöðvarinnar á Eiðum sér að mestu um viðhald og viðgerðir. Erfiðleikar í rekstri stafa í fyrsta lagi af því, að varatæki vantar. Bilun, sem verður á tækjabúnaði seinni hluta dags eða um kvöld, leiðir oft til þess, að meiri eða minni hluti dagskrár fellur niður, jafnvel þó að brugðið sé skjótt við til viðgerðar. Á veturna er færð oft erfið, og í slæmum veðrum hafa liðið 2–3 dagar, áður en hægt var að komast upp að stöðinni, þó að það sé undantekning, en ekki regla. Í öðru lagi hafa orðið bilanir á rafmagnslínunni, sem hefur ekki alltaf verið hægt að gera við samstundis vegna veðurs. Því miður hefur búnaður vararafstöðvarinnar stundum brugðizt í slíkum tilvikum, þannig að stöðin hefur orðið rafmagnslaus.

Um úrbætur í þessum málum er það að segja, að ekki hefur verið gert ráð fyrir tvöföldun á tækjabúnaði á næstunni vegna kostnaðar. Má því ekki búast við, að truflunum á dagskrá vegna tækjabilunar út af fyrir sig á stöðinni fækki. En hvað snertir rafmagnslínuna, hafa þegar verið gerðar endurbætur á upphaflegri línu og verður þeim haldið áfram, þar sem sýnir sig, að þeirra er þörf. Þá verður einnig reynt eftir megni að komast fyrir bilanir á vararafstöðinni, svo að hún geti sinnt sínu hlutverki. Standa vonir til, að með þessu tvennu verði hægt að bæta rekstraröryggi stöðvarinnar.

Um myndgæði á svæði stöðvarinnar er það að segja, að í slíku endurvarpskerfi eins og hér er notað, verða myndgæði óhjákvæmilega lélegri, eftir því sem lengra dregur frá upptökusal. Hinar löngu leiðir milli Skálafells og Skipalóns og Vaðlaheiðar og Gagnheiðar hafa sérlega slæm áhrif. Meðal annarra þjóða eru notaðar dagskrárrásir milli upptökusalar og sendistöðva, og gerðar hafa verið áætlanir fyrir Ríkisútvarpið um slíkar dagskrárrásir í örbylgjukerfi, sem mundi ná til allra aðalstöðva sjónvarps. Kostir slíks kerfis eru:

1. Kerfið getur flutt sjónvarpsmynd langar leiðir með mjög lítilli rýrnun á myndgæðum.

2. Vegna miklu minna sendiafls en í sjónvarpssendunum er rekstraröryggi tækjabúnaðarins miklu meira. Af sömu ástæðu er hægt að reka tækin á rafgeymum í marga daga, ef bilanir verða í rafmagnslínum.

3. Á tíðnisviði því, sem örbylgjukerfið notar, er ekki hætta á erlendum truflunum.

Hægur vandi er að byggja örbylgjukerfi frá Reykjavík til Gagnheiðar í þremur áföngum, og mundu gæði útsendrar myndar batna við hvern þessara áfanga út af fyrir sig. Þá mundi útsending falla sjaldnar niður, þar eð bilanir á öðrum aðalstöðvum sjónvarps á leiðinni austur hefðu ekki lengur áhrif á flutning dagskrár til Gagnheiðar. Miðað við núverandi verðlag er kostnaður örbylgjukerfis, sem tengdi saman allar aðalstöðvar sjónvarps og væri eingöngu byggt fyrir Ríkisútvarpið, áætlaður 150–190 millj. kr., og gildir lægri talan, þegar kerfið er byggt á einföldum tækjabúnaði, en sú hærri, ef varatæki eru keypt með. Væri slíkt kerfi hins vegar byggt með hliðstæðar þarfir Pósts og síma fyrir símrásir í huga, mundi kostnaðarhluti Ríkisútvarpsins verða minni en ofangreindar tölur segja til um.

Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um, hvenær hægt verður að hefjast handa um byggingu örbylgjukerfis fyrir sjónvarp.