13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

193. mál, endurvarpsstöðin á Gagnheiði

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Aðeins örfá orð af minni hálfu til að leggja áherzlu á það atriði, hversu unnt er að bæta myndgæði á viðtökusvæði stöðvarinnar á Gagnheiði og reyndar öðrum stöðvum, sem langt liggja frá upptökusalnum hér í Reykjavík. Eina ráðið, sem ræður verulega bót á myndinni, sem fram kemur, er örbylgjukerfið, sem var lýst lítillega í fyrra svari mínu. Tæknivandkvæði eru ekki á að hefja gerð slíks örbylgjukerfis. Þótt það kæmi í áföngum, mundi hver áfangi um sig skila sér með auknum myndgæðum, þó að fullnaðarbót væri ekki náð, fyrr en örbylgjukerfið næði alla leið frá upptökustað til útsendingarstaðar. Það er því fyrst og fremst spurning um fjármagn, hvenær unnt verður að koma myndgæðum í viðunandi horf á þessu sjónvarpssvæði og öðrum, sem lengst liggja frá Reykjavík.