13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

301. mál, menningarsjóður félagsheimila

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina tveim fsp. til hæstv. menntmrh. um menningarsjóð félagsheimila. Það kann að þykja hér nokkurt bráðræði vera á, þar sem sjóðurinn tók fyrst að sér verkefni á s. l. ári, að því er ég hygg. Ég tel hins vegar rétt að fá upplýst hér, hvernig að hefur verið staðið, þó að ég viti, að hæfur maður sé í fyrirsvari sjóðsins og til alls góðs líklegur. Það hlýtur nefnilega að vera aðalatriðið varðandi sjóð þennan, ef ég hef skilið reglur hans rétt, að örva og styrkja menningarstarfsemi á vegum félagsheimilanna sjálfra og þeirra aðila, sem að þeim standa. Ég á hér ekki við flutning á aðfengnu dagskrárefni, t. d. frá einhverjum menningaraðilum hér á höfuðborgarsvæðinu, þó að ágætt sé með, heldur einnig og raunar öllu fremur sjálfstæðan dagskrárflutning heima fyrir og samvinnu félagsheimila í einstökum landshlutum um menningardagskrá á eigin vegum í þessu efni. Mjór er mikils vísir og því vildi ég gjarnan fá upplýst, í hvaða átt hefur verið stefnt í upphafi: Mér er að vísu kunnugt um sumt, sem með ágætum hefur þegar tekizt, en vildi fá um það nokkru gleggri upplýsingar, einkum um hlut einstakra félagsheimila í þessari þörfu og merku starfsemi.

Spurningarnar eru svo hljóðandi:

„1. Í hverju var aðalstarfsemi menningarsjóðs félagsheimila fólgin á s. l. ári? Hverjar voru aðalstyrkveitingar, og hversu miklu fé var varið til þeirra?

2. Hvaða félagsheimili fengu styrk til sjálfstæðs dagskrárflutnings samkv. reglum sjóðsins, og hversu miklu fé var varið á þann hátt?“