13.03.1973
Sameinað þing: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

301. mál, menningarsjóður félagsheimila

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Svar mitt við fsp. hv. 6. landsk. þm. um starfsemi menningarsjóðs félagsheimila er á þessa leið:

Menningarsjóður félagsheimila starfar samkv. ákvæðum í 2. gr. l. nr. 107/1970, um félagsheimili. Reglur um starfsemi sjóðsins voru settar af menntmrn. 1. marz 1972 og birtar í B-deild Stjórnartíðinda, þar sem þær eru nr. 42/1972. Reglurnar voru sendar öllum félagsheimilum á landinu með bréfi frá starfsmanni sjóðsins, þar sem jafnframt var gerð grein fyrir athugunum, sem fram höfðu farið varðandi fáanlegt dagskrárefni til listflutnings, og óskað eftir till. og ábendingum af hálfu félagsheimilanna. Þá hefur starfsmaður sjóðsins og unnið að frekari kynningu á sjóðnum með viðræðum við forráðamenn félagsheimila, og haft hefur verið samráð við menntamálaráð til þess að tryggja samstarf, eftir því sem hagkvæmt þykir, vegna starfsemi þeirrar, sem menntamálaráð hefur beitt sér fyrir og nefnist „List um landið.“ Hér fer á eftir grg. um helztu atriði þeirrar starfsemi, sem menningarsjóður félagsheimila styrkti eða var heitið styrk til á árinu 1972.

1. Nokkur félagsheimili á Vestfjörðum sóttu um styrk til að fá í heimsókn strengjasveit Tónlistarskólans í Reykjavík undir stjórn Ingvars Jónassonar. Tónleikar voru haldnir í Bolungarvík, á Flateyri, Þingeyri og Patreksfirði. Ferðakostnaður var greiddur af menningarsjóðnum, 38 580 kr. Tilmæli um nokkurn viðbótarstyrk vegna halla á tónleikunum hafa nýlega borizt frá einu félagsheimilanna, og verður sú umsókn væntanlega samþ. samkv. heimild í reglum sjóðsins. Tónleikaför þessi var farin í júní 1972.

2. Í sama mánuði barst beiðni frá nokkrum félagsheimilum á Austurlandi varðandi heimsókn Karlakórs Reykjavíkur. Menningarsjóður greiddi vegna ferðakostnaðar 30 þús. kr. Kórinn kom fram í félagsheimilinu á Egilsstöðum, í Neskaupstað og á Höfn í Hornafirði.

3. Í sept. kom fram ósk af hálfu félagsheimila í Neskaupstað og á Egilsstöðum um, að sjóðurinn veitti fyrirgreiðslu til, að Sinfóníuhljómsveit Íslands héldi tónleika á þessum stöðum, en sams konar beiðni hafði einnig borizt frá Vestmannaeyjum. Sjóðurinn tók að sér að greiða ferðakostnað hljómsveitarinnar, og voru tónleikar haldnir í Neskaupstað, á Egilsstöðum og í Höfn í Hornafirði, en af ferðinni til Vestmannaeyja gat ekki orðið vegna veðurs. Ferðakostnaðurinn, sem menningarsjóðurinn greiddi, nam 216 þús. kr.

4. Með styrk frá menningarsjóði félagsheimila var efnt til tónleika og listdanssýninga í nokkrum félagsheimilum á Norðausturlandi og Austfjörðum s. l. haust. Frumkvæðið kom frá félagsheimilinu á Þórshöfn í samráði við félagsheimili á Raufarhöfn og Vopnafirði. Rétt þótti að gefa fleiri félagsheimilum kost á efnisskránni, og var hún flutt í félagsheimilum á eftirtöldum stöðum: Mývatnssveit, Húsavík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafirði, Egilsstöðum, Neskaupstað, Seyðisfirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Höfn í Hornafirði. Á efnisskránni var einsöngur Guðmundar Jónssonar óperusöngvara við undirleik Guðrúnar Kristinsdóttur og ballettsýning á vegum Félags ísl. listdansara, þar sem kynntur var listdans og þróun hans. Greiðslur úr menningarsjóði félagsheimila vegna þessa listflutnings námu samtals 179 812 kr.

5. Félagsheimili Seltjarnarness var veittur styrkur vegna heimsóknar Samkórs Vestmannaeyja, sem sýndi óperettuna Meyjaskemmuna í félagsheimilinu. Styrkurinn nam 50 þús. kr.

6. og 7. Veittur var 40 þús. kr. styrkur vegna söngskemmtana Kvennakórs Suðurnesja í félagsheimilum á Austurlandi, og samþykkt hefur verið styrkveiting, 50 þús. kr., vegna tónleika karlakórsins Þryms á Húsavík í nokkrum félagsheimilum norðanlands á árinu 1972.

Samtals nema samþykktar styrkveitingar úr menningarsjóði félagsheimila vegna starfsemi á árinu 1972 samkv. framansögðu 546 392 kr.

Í síðara lið fsp. er spurt, hvaða félagsheimili hafi fengið styrk til sjálfstæðs dagskrárflutnings samkv. reglum sjóðsins og hversu miklu fé hafi verið varið á þann hátt.

Í 5. gr. reglna um menningarsjóð félagsheimila segir m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Óskum og till. forráðamanna félagsheimila um dagskrá til flutning með stuðningi menningarsjóðs félagsheimila skal beint til starfsmanns sjóðsins, sem ráðinn er af menntmrn. Hann getur og af sinni hálfu leitað samráðs við félagsheimilin um flutning á dagskrárefni, er hann telur falla undir verksvið sjóðsins.“

Eins og fram kom í grg. hér á undan, var mikill hluti þeirra styrkja, sem veittir voru úr menningarsjóði félagsheimila á árinu 1972, veittur samkv. beinni ósk félagsheimila, en í nokkrum tilvikum var um það að ræða, að félagsheimilum í nágrenni við staði, þar sem listflutningur var ráðgerður með styrk úr sjóðnum, var gefinn kostur á að hagnýta sér þau tækifæri, sem þannig buðust. Eigi fyrirspyrjandi með orðunum „sjálfstæður dagskrárflutningur“ við dagskrárefni, sem skipulagt hafi verið af heimamönnum til flutnings í félagsheimilum, er því til að svara, að beinar umsóknir um styrki til slíks flutnings bárust ekki til sjóðsins á árinu 1972.

Í kynningarbréfi því, er sent var félagsheimilunum og getið var um hér að framan, var m. a. bent á, að til greina kæmi, að menningarsjóður félagsheimila veitti atbeina til að fá gesti til aðstoðar við uppsetningu leikrita eða söngleikja á vegum heimafélaga og gerði þannig kleift að ráðast í veigameiri verkefni en ella væru tök á. Hefur nýlega verið veitt vilyrði um slíka fyrirgreiðslu við eitt félagsheimili samkv. umsókn þess.

Minnt skal á, að samkv, reglunum um menningarsjóð félagsheimila skal hugsanlegur hreinn ágóði af aðgangseyri að dagskrárefni, sem styrks nýtur úr sjóðnum, renna í menningarsjóð viðkomandi félagsheimilis. Skal stjórn félagsheimilisins varðveita þann sjóð, og verður honum eingöngu varið til menningarstarfsemi í því félagsheimili. Er þannig stefnt að því, að styrkveitingar menningarsjóðs félagsheimila geri ekki einungis kleift að koma á tilteknum listflutningi í hvert skipti, heldur geti og, ef svo ber undir, stuðlað að frekari menningarstarfsemi á vegum viðkomandi félagsheimila.

Tekjustofn menningarsjóðs félagsheimila er 10% af tekjum félagsheimilasjóðs. Ekki liggur endanlega fyrir, hverjar reynast muni tekjur félagsheimilasjóðs af skemmtanaskatti á árinu 1972, en þær voru í fjárl. áætlaðar tæplega 18.3 millj. En horfur eru á, að það muni ekki reynast ofáætlað, þannig að tekjuhluti menningarsjóðsins verði a. m. k. 1.8 millj. kr.