14.03.1973
Efri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2520 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

195. mál, happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mig langaði aðeins til að lýsa stuðningi mínum við þetta frv. Við vitum það öll, að happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna hefur leyst af hendi mikið nauðsynjaverk, með því að stuðla að byggingu dvalarheimilisins að Hrafnistu. Það er nú svo, að aðbúð aldraðra er okkur mikið áhyggjuefni og ekki sízt nú sem stendur. Eftir því sem meðalaldur fólks í landinu hækkar, þeim mun erfiðara verður að leysa þetta vandamál, og ég held, að sjaldan hafi ríkt jafnmikið öngþveiti í málefnum langlegusjúklinga og nú er í dag. En gamla fólkið er einmitt verulegur hluti langlegusjúkra. Þetta happdrætti, sem hér stendur til að framlengja, hefur gert stærsta átakið, sem gert hefur verið til þess að sinna þessum málum. Elliheimilismál okkar eru allmikið á eftir, og ég vona, að þetta frv. hljóti góðan stuðning og Hrafnista geti haldið áfram að stækka og reisa sér útibú úti um landið, því að á fáum sviðum er okkur meiri þörf stórra og skjótvirkra aðgerða en einmitt á þessu sviði.