30.10.1972
Neðri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

Umræður utan dagskrár

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði í þessu máli, sem mig langar til að leggja áherzlu á. Ég held, að sumt af því, sem hefur komið fram, ekki hérna í þessum umr., heldur annars staðar um helgina, hafi orðið til þess, að ýmsir misskilji dálítið, hvernig í þessu máli liggur, og ef sá misskilningur nær að festa rætur utan Íslands, getur hann orðið okkur nokkuð hættulegur. Það liggur við, að sumt af því, sem hefur komið fram í fréttum, beri með sér, að það þurfi leyfi til þess að leita vars í ofviðri, Bretar þurfi leyfi til þess. En auðvitað er mjög þýðingarmikið, og það er undirstaða alls þessa máls, að allur heimurinn viti, að þeim er frjálst að leita hér vars. Það er algerlega skipstjórans að ákveða það, hvort hann leitar vars, utan hafnar eða innan. En hitt er annað mál, að það leysir engan undan brotum á íslenzkum lögum, þótt hann leiti vars. Þetta sýnist mér vera meginkjarni þessara mála, að hér er um að ræða atriði, sem skipstjórinn ákveður algerlega sjálfur. Honum er frjálst að leita vars, og hann verður svo að meta það sjálfur, hvort hann metur líf manna sinna og sjálfs sín svo lítils, að hann vilji ekki leita vars og eiga það á hættu að fá skynsamlegan og réttlátan dóm fyrir það, sem hann kann að hafa brotið af sér. Ég hygg, að meginatriðið í þessu máli sé, að það komi strax fram nógu skýrt, að það er öllum frjálst, Bretum jafnt sem öðrum, að leita vars, og kemur ekki til mála, að nokkurt leyfi þurfi til þess. En það leysir menn ekki undan lögbrotum, þó að þeir verði að leita vars. Líf skipshafnanna er þess vegna undir slíkum kringumstæðum algerlega á valdi skipstjóranna, að svo miklu leyti sem það er undir ákvörðun af þessu tagi komið, en ekki að neinu leyti á valdi íslenzkra yfirvalda. Ég tel, að það væri mjög nauðsynlegt, að þetta yrði undirstrikað sérstaklega í fréttum, sem kæmu sem víðast, ekki sízt til þess að mæta þeim áróðri, sem hv. 5. þm. Vesturl. benti á, að nú væri í uppsiglingu. Það á að mínu viti fyrst og fremst að mæta honum með þessu, með því að leggja ábyrgðina á þá, sem ábyrgðina bera, og það eru þá þeir, sem ekki leita vars, ef nauðsyn krefur, þó að þeir eigi þess kost.