14.03.1973
Efri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2525 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

3. mál, bygging og rekstur dagvistunarheimila

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Norðurl. v. Hér er um að ræða merkilegt mál, framfaramál, sem sjálfsagt er, að komist í framkvæmd. Hann vitnaði í þessu sambandi til málefnasamnings ríkisstj. Það er gott og blessað. Ég leyfi mér í því tilefni að vitna til þess, að við nokkrir sjálfstæðismenn undir forustu hv. 2. þm. Vesturl. vorum flm. að frv. um sama efni á síðasta þingi. Þetta sýnir, að flokkur minn og flokksmenn hafa ekki síður haft áhuga á þessu máli en ríkisstj., og skal ég ekki vera að metast um það.

Félmn. mælir einróma með þessu frv. Það er enginn ágreiningur um það, að þetta mál nái fram að ganga. En það er ágreiningur um viss atriði og grundvallaratriði eins og það, hvort ríkið eigi að greiða rekstrarkostnað, eins og frv. gerir ráð fyrir, eða ekki, og hv. 4. þm. Norðurl. v. vék lítillega að þessu atriði. En hér er um grundvallarmál að ræða, Þetta mál varðar beinlínis verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, og það er mjög mikilvægt að bæta það ástand, sem hefur verið í þeim efnum, en ekki að gera það lakara.

Það, sem hefur verið ábótavant í verkaskiptingu milli ríkisins og sveitarfélaga, er það, að verkaskiptingin hefur verið óljós og hún hefur ekki heldur verið rökrétt. Þannig hefur þetta gengið lengi, en menn hafa séð ástæðu til þess að bæta hér um. Mig minnir, að meira að segja í sjálfum stjórnarsáttmálanum sé eitthvað vikið að þessu. Það kann að vera misminni, en það gerir ekki svo mikið til, vegna þess að við þekkjum það, að svo er um flest loforðin í stjórnarsáttmálanum, að þau hafa reynzt öfugmæli. En ég tel, að þetta frv. stefni í öfuga átt hvað varðar að bæta verkaskiptinguna á milli ríkis og sveitarfélaga.

Þegar við gerum okkur grein fyrir því, hvaða verkefni á að setja undir sveitarfélögin, koma að sjálfsögðu til greina ýmis sjónarmið. En ég hygg, að tvennt sé grundvallarsjónarmið, sem eigi að líta á. Annars vegar er það, hvort verkefnið varðar öll sveitarfélög jafnt eða hliðstætt, hvar sem er á landinu, og hins vegar, hvort það er nauðsynlegt og rétt við framkvæmd mála, að það gæti staðarþekkingar. Ef á að gera þessar tvær kröfur til mála sem eiga að heyra algerlega undir sveitarfélögin, eiga dagvistunarheimilismál að heyra algerlega undir sveitarfélögin, en ríkið ekki að koma þar nálægt. Hvað varðar fyrra skilyrðið, er það vegna þess, að það er svo mismunandi, hvað þetta varðar sveitarfélögin miklu. Hér er um allt annað mál að ræða í Reykjavík og stærri kaupstöðum en í minni sveitarfélögum og hreppum í sveitum landsins. Hvað varðar síðara skilyrðið, þá er greinilegt, að hér er um slíkan rekstur að ræða, þar sem er rekstur dagvistunarheimila og bygging, að það er miklu farsælla, að þar komi til staðarþekking, en slíkum málum sé ekki stjórnað á ábyrgð ríkisstj.

En hvers vegna mæli ég þá með því, að þetta frv. sé samþykkt, að vísu með breytingum? Það er vegna þess, að ég tel, að hér sé um að ræða svo mikið framfara- og hagsmunamál, að það megi ekki láta stranda á framkvæmdum, þó að ríkið þurfi að koma til. En ef hér á ekki að stranda á framkvæmdum, verður ríkið að koma til vegna þess, að það er svo illa séð fyrir tekjustofnum sveitarfélaga. Það hefur lengi verið svo, að sveitarfélögin hafa barizt í bökkum. En nú hygg ég, að flestir þeir, sem gleggst vita um þau efni, séu sammála um, að keyrt hafi um þverbak, frá því að núv. ríkisstj, tók við. Það verður að taka þessu eins og er og snúast við vandanum eins og hann liggur fyrir, og þess vegna er ég ekki andsnúinn því, að í þessu tilfelli taki ríkið að sér hlutverk við stofnun og byggingu dagvistunarheimila, þó að undir venjulegum kringumstæðum hefði verið eðlilegra, að sveitarfélögin sjálf sæju ein um þessi mál. Við hv. 2. þm. Vesturl., Jón Árnason flm. brtt. á þskj. 364, teljum, að ástandið hjá sveitarfélögunum sé alvarlegt. Um leið og við leggjum til, að ríkið greiði ekki rekstrarkostnað dagvistunarheimila, viljum við þess vegna að ríkið hækki stofnkostnaðarframlög sín frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, til þess að sveitarfélögin séu ekki verr sett en áður þrátt fyrir brtt. okkar.

Með tilliti til þess, sem ég hef nú sagt, höfum við borið fram brtt., sem fjalla um það að fella niður úr frv. öll ákvæði um rekstur, þannig að frv. fjalli einungis um hlutdeild ríkisins í byggingu dagvistunarheimila. Samkv. þessu leggjum við til, að felld verði niður úr 2. mgr. 2. gr. orðin „og rekstrar“. Við leggjum til, að við 6. gr. verði gerð sú breyting, að í stað 50% styrks úr ríkissjóði komi 60% styrkur, og einnig við 6. gr., að í stað 25% styrks úr ríkissjóði komi 50%. Í samræmi við það, sem ég hef áður sagt, leggjum við til, að bæði 8. og 9. gr. verði felldar niður. Enn fremur leggjum við til, að í 10. gr., sem verði 8. gr., falli niður úr 1. mgr. orðin „og/eða reka“, úr 2. mgr. falli niður orðin „og/eða reka“ og 4. mgr. 10. gr. falli algerlega niður.

Auk þessa gera brtt. á þskj. 364 ráð fyrir breytingu á 15. gr. frv., sem verði 13. gr. Þar gerum við till. um, að 4. mgr. verði svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú hefur Alþ. samþ. slíka fjárveitingu, og ákveður það þá einnig, hvernig framlögum skuli háttað framvegis. En skylt er ríkissjóði þó að hafa lokið greiðslu framlaga til hverrar framkvæmdar miðað við upphaflega kostnaðaráætlun innan fjögurra ára frá því, er fyrsta framlag var innt af hendi.“

Þannig hljóðar till. okkar. Við fyrstu sýn sýnist hún e. t. v. lík 4. gr., eins og hún er í frv., en svo er ekki við nánari aðgæzlu. Þar er gert ráð fyrir, að fjögurra ára fresturinn miðist við upphaf kostnaðaráætlunar. Það er bæði mjög óljóst orðalag og óhagkvæmt. Í brtt. okkar er gert ráð fyrir, að fjögurra ára fresturinn miðist við það, hvenær fyrsta framlag er innt af hendi.

Í frv. er gert ráð fyrir þeim möguleika, að það sé samið um lengri greiðslutíma. Við teljum, að það sé ekki ástæða til að gera ráð fyrir neinum slíkum möguleika og það sé óþarfi. Það geti hins vegar komið til framkvæmda, ef vilji er á báða bóga, og þurfi enga sérstaka heimild til þess, og því er lagt til, að þetta ákvæði sé fellt niður.

Þá gerum við þá brtt. við 15. gr., að ný mgr. bætist við og verði 7. mgr., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú fer á byggingartímanum heildarbyggingarkostnaður dagvistunarheimilis fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun, og skal þá sá ríkisstyrkur, sem umfram er, greiðast á næstu tveim árum eftir fjögurra ára tímabilið samkv. 4. mgr:

Við teljum rétt og nauðsynlegt að setja skýr ákvæði um það, hvernig fara skuli að, ef byggingarkostnaður fer fram úr áætlun. Í frv. eru ekki nein ákvæði um það, hvernig á að mæta slíku tilviki.

Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir brtt. okkar félaga á þskj. 364. Ég vil aðeins víkja að öðrum brtt., sem fram hafa komið og gerð hefur verið grein fyrir af hv. 4. þm. Norðurl. v. Það eru brtt. á þskj. 361 í tveim tölul. Mér virðist, að það sé ekkert við að athuga fyrri brtt., í 1. tölul. á þskj., og skal ekki fjölyrða um hana frekar. En í brtt. undir 2. tölul. a er gerð till. um breytingu, sem varðar sama efni að nokkru leyti og síðasta brtt., sem við hv. 2. þm. Vesturl. flytjum. Við töldum rétt, eins og ég sagði áðan, að setja ákvæði um það, hvernig fara skyldi, ef byggingarkostnaður fer fram úr áætlun. Flm. hinnar brtt., þeir hv. 4. þm. Norðurl. v. og hv. 1. þm. Vestf., vilja einnig setja ákvæði um þetta, en binda það einungis við það tilvik, að byggingarkostnaðurinn hækki vegna hækkaðrar byggingarvísitölu. Það er góðra gjalda vert út af fyrir sig, en það er ekki nægilegt. Það kann að vera, að af öðrum ástæðum geti byggingarkostnaðurinn hækkað. Þess vegna er rétt að hafa ákvæðið viðtækara en að miða það einungis við hækkun á byggingarvísitölu, hafa það víðtækt eins og við hv. 2. þm. Vesturl. gerum, láta þetta ákvæði ná til allra tilvika, sem til kunna að falla.

Ég sé ekki ástæðu að svo stöddu til að fjölyrða frekar um málið.