30.10.1972
Neðri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er auðvitað rétt, sem hv. 1. þm. Austfj. sagði um þetta. En það, sem þeir hafa verið að fara fram á af Bretlands hálfu, er, að það verði gefin einhver yfirlýsing um það, að þeir verði alveg látnir í friði, þegar þeir leita landvars. Slíka yfirlýsingu er auðvitað ekki hægt að gefa gagnvart sökudólgum.

Út af því, sem hv. þm. Stefán Jónsson minntist á, vil ég segja það, að það var tekin ákvörðun um það, að blaðamenn og fréttamenn yrðu ekki um borð í varðskipunum, og það er skoðun mín, að það sé ekki heppilegt, að varðskipsmenn vinni störf sín undir eins konar smásjá af hálfu fréttamanna. Í öðru lagi er erfitt að koma því við að taka marga fréttamenn um borð í þessi skip. En ef það hefði átt að taka fréttamenn um borð, hefði að mínum dómi ekki verið hægt að binda það aðeins við fréttamenn t.d. sjónvarps eða útvarps, heldur hefði þá orðið að gefa blaðamönnum kost á því að vera með einnig, og þá hefði það getað orðið talsverður hópur, sem þannig hefði átt að vera með varðskipunum. Aðstaða til slíks er nú ekki fyrir hendi í varðskipunum. Auk þess er það svo, að varðskipin verða að fara með leynd og það er beinlínis bannað að gefa upplýsingar um ferðir þeirra. Það gefur auga leið, að það væri ekki hægt fyrir varðskipin, t.d. þessi tvö, sem við höfðum til að byrja með, að fara að haga sínum ferðum með tilliti til einhverra fréttamanna, sem þau hafa um borð, fara t.d. að skjóta þeim á land þarna og þarna, þar sem þeir teldu, að þörf væri á. Slíkt er ekki hægt.

Hins vegar var sá háttur tekinn upp, að Landhelgisgæzlan hefði sérstakan blaðafulltrúa, sem fréttamiðlar og fréttamenn gætu haft samband við. Ég veit ekki annað en þeim hafi staðið til boða hvenær sem er að hafa samband við þennan aðila. En það getur vel verið, að þeir hafi ekki notfært sér þá þjónustu, sem þeim hefur staðið þar til boða, eins og skyldi. A.m.k. virðist mér, að í fréttum útvarps t.d. hafi borið eins mikið á þeim fréttum, sem komið hafa erlendis frá, eins og á þeim fréttum, sem þeir hefðu getað aflað sér hjá þessum talsmanni Landhelgisgæzlunnar. Hins vegar hefur blaðamönnum verið boðið og þeir hafa haft tækifæri til þess að fara í flug með eftirlitsflugvél Landhelgisgæzlunnar. Þar gegnir auðvitað allt öðru máli. Það er tiltölulega auðvelt að koma því við, að þeir geti fengið að fara í slíkar ferðir með flugvélinni, þegar hún fer í eftirlitsferðir, og ég held, að þeir hafi notað sér það eitthvað.

Það er vafalaust rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Benedikt Gröndal. að við stöndum æðihöllum fæti í þeirri áróðursherferð, sem höfð er uppi erlendis um þessar mundir gegn okkur. Og það er sjálfsagt að taka það til athugunar, með hverjum hætti þar er hægt um að bæta. En því miður er þar við sterka aðila að eiga og e.t.v. erfitt að hamla þar alveg til jafns á móti. En hitt ætti að vera eðlileg krafa til íslenzkra fjölmiðla, að þeir styddust ekki meira en góðu hófi gegnir við erlendar fréttir heldur öfluðu sér þeirra beztu heimilda, sem völ er á hér innanlands, og létu þær fréttir, sem á þeim væru byggðar, jafnvel fljóta með þeim erlendum fréttum, sem þeir flyttu um þetta efni.